Sló út vin minn Mr. Bean í hrakförum. Tókst það ótrúlega sem var að slasa mig við móttöku gjafar? Var við þá skemmtilegu iðju að taka á móti gestum í útskriftarteiti er ég hélt af tilefni meistaraprófi mínu frá KHÍ. Ekki vildi betur til en að ofan á mjúkum pakka leyndist einn harður – grjótharður. Ekki vildi betur til en að sá harði féll við móttöku beint ofan á tánna á mér. Varð af því mikil sársauki en sem gestgjafi var ekki um annað að ræða en að halda áfram gleðinni og harka af sér. Daginn eftir var hins vegar ljóst að hin verulega bláa tá var verkefni fyrir læknavísindin og hin nýfengna forfrömun mín á svið uppeldisvísinda mátti sín lítils gagnvart þessu vandamáli.
Fór því á þar til gerða stofnun Slysó. Hjúkrunarfræðingurinn í móttökunni átti erfitt með að skrifa slysaskýrsluna vegna hláturs en fyrir utan það fékk ég afbragðs þjónustu. Sem var gott mál enda á leið til Færeyja daginn eftir. Dvel þar þessa stundina í góðu yfirlæti og vonast til þess að leggja hækjunni fljótlega.
Af gjöfinni "góðu" er það að segja að koníakið og flaskan harðgerða sluppu algerlega ósködduð úr fallinu – veit ekki hvort ég kýs frekari samskipti við hana að sinni – þó aldrei að vita – verður þó af stakri aðgæslu sem auðvitað gildir alltaf þegar að áfengi er annars vegar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli