„Held áfram á meðan að dómarinn flautar ekki“ sagði ungur verðbréfasali eitt sinn aðspurður um hvort tiltekin afar vafasamur viðskiptamáti stæðist lög. Ekki man ég hvort dómarinn „flautaði“ að lokum en veit það eitt að dómarinn flautar lítið ef nokkuð í sumum málum
Eitt af þeim málum er einlæg og sífelld brot á banni við áfengisauglýsingum. Með grímulausum áfengisauglýsingum og eða heimskulegum útúrsnúningum á lögum, sem með skýrum hætti banna auglýsingar af þessum toga, eru lögin brotin margsinnis dag hvern. Áfengisauglýsingar eru boðflenna í tilveru unglinga sem þau eiga fullan rétt á að vera laus við.
Hin siðferðilegi boðskapur laganna sem og innhald er afar skýrt. Lögin eru sett á grundvelli velferðarsjónarmiða og í tengslum við réttindi barna og unglinga til þess að verða laus við áróður af þeim toga sem kemur fram í áfengisauglýsingum. Auglýsingarnar stríða og vinna markvisst gegn samfélagslegum markmiðum eins og vímulausum grunnskóla. Markmiðum sem foreldrar, forráðamenn og allir sem að uppeldismálum vinna í þessu landi eru einhuga um.
Það er eins og engin sé ábyrgur? Áfengisinnflytjendur eða framleiðendur auglýsa hvað af tekur og eyða til þess gríðarlegum fjárhæðum; flestir fjölmiðlar birta þessar auglýsingar átölulaust; auglýsingastofur framleiða þær? Þrátt fyrir einlægan síbrotavilja þessara aðila þá „flautar dómarinn ekki“ Ríkissaksóknari ákærir ekki þrátt fyrir sífellt og augljós brot. Ungt fólk virðist ekki búa við sama rétt og aðrir þegnar þessa lands. Þrengstu viðskiptahagsmunir eru teknir fram fyrir velferð barna og ungmenna..
Núna í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar munu áfengisauglýsingar í flestum fjölmiðlum dynja á börnum og ungmennum og ekki síst í þeim miðlum sem sérstaklega höfða til æskunnar. Réttindi barna og unglinga eru fótum troðin og þau njóta ekki lögvarinna réttinda. Við foreldrar og forráðmenn barna og unglinga og aðrir sem bera hag þeirra fyrir brjósti erum ráðþrota gagnvart þessu. Það er auðvitað illa komið þegar að hagsmunaaðilar í krafti gífurlegs fjármagns fara sínu fram.
Við foreldrar, afar og ömmur og allir þeir sem bera hag æskunnar fyrir brjósti við þurfum að sýna hug okkar í verki gagnvart þessum ólöglegu áfengisauglýsingum og sniðgagna með öllu auglýstar áfengistegundir – Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem otar áfengi að börnum manns með ólöglegum áfengisauglýsingum? Það þykir mér alls ekki við hæfi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli