mánudagur, 13. febrúar 2006

Glöggt er gests augað

Hitti um daginn Svía sem hér hefur búið s.l. tvö ár. Erindi hans var að ræða við mig um íslensk æskulýðsmál en viðkomandi er að vinna verkefni um þau í framhaldsnámi er hann stundar í Svíþjóð um þessar mundir.

Ekki var hjá því komist að ræða þjóðfélagsþróun almennt hér á landi og viti menn Svíanum fannst ástandið þrungið spennu í meira lagi og í mun meira lagi en góðu hófi gegndi. Ísland væri ákaflega vel stöndugt land efnahagslega en samt væri hagur almennings óviðunandi. Það væri greinilegur ójöfnuður í landinu, verkalýðshreyfingin væri slöpp, matvöruverðið afar hátt , vaxtaokur í bönkunum? Margt fleira í þessum dúr nefndi Svíinn sérstaklega máli sínu til stuðnings.

Hann spurði síðan “ Hvernig getur ungt fólk í þessu landi eiginlega komið undir sig fótunum, stofnað fjölskyldu, skaffað sér þak yfir höfuðið og átt börn? Hvers vegna býr almenningur á Íslandi ekki við sömu kjör og t.d. mitt fólk í Svíþjóð? Endaði hann síðan pistillinn með þeirri fullyrðingu að þessi spenna og ólga í samfélaginu hlyti fyrr en seinna að finna sér útrás og þá yrði sprenging og mikil læti.

Ég var ekki viss, Íslendingar væru sárþjáðir af “Pollýönnu heilkenninu”, yrðu bara spældir í þrjá daga og síðan yrði allt gott og blessað. “Verra gat það verið” hugsa menn og láta þetta yfir sig ganga, allt það sem Svíinn nefndi og fjölmargt annað.

Minnist þess að á námsárum mínum í Svíþjóð, á níunda áratug síðustu aldar, þá hækkaði mjólkurverð um 1% sem var umfram verðlagsforsendur kjarasamninga þess tíma og viti menn allt varð vitlaust, samningar voru samningar. Ekki tóku menn ró sína fyrr en búið var að koma málum til fyrra horfs.

Fór að segja Svíanum að Ísland væri sérstakt og erfitt að bera það saman við önnur lönd, landið væri lítið og allir þekktu alla. Flestir Íslendingar ættu því einhvern ættingja sem væri kvótaeigandi eða framámaður í bankakerfinu eða framkvæmdastjóri í stórmarkað eða yfirmaður hjá olíufélagi. Vegna nálægðar væri því erfitt að taka á þessu, manni væri ekki illa við fjarskyldan frænda sinn sem af dugnaði og eljusemi hefði komið sér upp 900 m2 einbýlishúsi!

Sá sem var að Svíinn gaf ekkert fyrir þessa málsbætur mínar. Varð það þá skyndilega ljóst að ég er sjálfur með “Pollýönnu heilkennið” á háu stigi og það sem verra er, ég er praktíserandi “kóari” ( meðvirkur ) eins meðferðarbransinn kallar oft aðstandendur alkahólista - læt eins og ekkert sé. Lærdómurinn af þessari heimsókn Svíans var því ekki síður minn en hans – glöggt er gests augað

Engin ummæli:

Skrifa ummæli