fimmtudagur, 20. apríl 2006

Af erlendum viðskiptum og ritfrelsinu

Segi farir mínar ekki sléttar. Við mig hafa haft samband nokkrir lesendur síðunnar og tjáð mér að þeir komist ekki inn á hana? Upp komi á skjá þeirra tilkynning að vefaðgangi hafi verið lokað þar sem að síðan innihaldi óæskilegt efni. Vel kann að vera að ég hafi tekið hraustlega og jafnvel stórkarlalega til orða en hins vegar tel ég mig ekki eiga efnislega samleið með klámsíðum og öðrum óhróðri.
Hvað um það við nánari eftirgrennslan kom í ljós hér voru í öllum tilfellum um starfsmenn Hafnarfjaðrabæjar að ræða og við það fóru mál að skýrast. Ekki þó í samræmi við villtustu hugmyndir mínar , sem voru þær að sökum orðkyngis og kröftugs málflutnings hefðu yfirvöld ekki séð sér annað fært en að loka síðunni með öllum tiltækum ráðum.

Skýringin var hins vegar sáraeinföld. Tölvukerfi skólanna í Hafnarfirði er hluti af stóru tölvukerfi bæjarins. Tölvukennarar höfðu orðið varir við það að einhverjir nemendur voru að blogga í tímum eða í gegnum tölvur skólanna og í einhverjum tilfellum var hægt að rekja eineldismál til þessar iðju. Því varð að ráði að loka fyrir aðgang á bloggsíður ( hvort sem það leysir yfir höfðu einhvern vanda?) . Dagskinna (blogg) formanns STH fórnalamb.

Ekki dugir að sitja með hendur í skauti og sýta orðin hlut Varð það ljóst að ég yrði að koma mér upp eigin léni. Gerði heiðarlega tilraun til þess að eiga viðskipti við ISNIC.IS, hugði gott til glóðarinnar enda lénið arnigudmunds.is laust. Rak hins vegar í rogastans er verðið kom til tals 12.000 kr + ca 2.500 í mánaðargjald? Ekki á færi opinberra starfsmanna að standa í viðskiptum af þessum toga. Tók því til við að vafra um netheima með samskonar viðskipti í huga og viti menn, áður en yfir lauk hafði ég eytt 21 $ og var orðin formlegur rétthafi og eigandi þriggja léna þ.a. arnigudmunds.net /org /info.

Það birti því aldeilis til enda við hæfi í upphafi sumars. Mun á næstu dögum tengja dagskinnuna einhverju þessara léna , veit ekki alveg hverju en mun halda áfram tryggð minni við blogspot.com fyrirtækið þó svo að lénið fá nýtt nafn. Vona því að lesendur siðunar komist óhindraðir inn a síðuna og þá ekki síst félagsmenn Starfsmannafélags Hafnarfjarðar. Verð því vonandi á næstu dögum komin úr óverðskulduðum félagsskap alþjóðlegra pornó hunda og baldinna ungmenna sem ekki kunna að meta ritfrelsið að verðleikum.

Gleðilegt sumar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli