miðvikudagur, 28. nóvember 2007

... og enn má undrast

Þegar ég tjái mig um æskulýðsmál sem og málefni er varða börn og unglinga þá geri ég slíkt sem fagmaður og sérfræðingur í þessum málaflokki , af ábyrgð og á málefnalegan hátt.

Ekki var ég staddur á bæjarstjórnafundi í Kópavogi í gærkveldi þar sem ráðningarmál yfirmanns æskulýðsmála í bænum voru rædd. Missti af umræðum og undrast jafnframt að ekki sé hægt að nálgast upptökur af fundinum með einföldum hætti, því eins og fólk veita þá eru skriflegar bæjarstjórnar fundargerðir afar rýrar í roðinu, aðeins greint hver tekur til máls og að því lokum hvort mál sé samþykkt. Það ætti auðvitað að vera sjálfsögð þjónusta við íbúa bæjarins og eða þá aðila sem mál varða að viðkomandi geti nálgast upptökur af slíkum fundum t.d. á ágætri heimasíðu bæjarins.

Mér er tjáð að umræður hafi verið líflegar og með þeim hætti að talað hafi verið niður til kjörinna fulltrúa sem hafa aðra skoðun á málinu en ríkjandi meirihluti , þeim sýndur hroki og jafnvel dónaskapur. Sá sem þetta ritar ku hafa verið í pólitískri sendiför á vegum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði? Málefnaleg umræða ? Veit það ekki - í besta falli misheppnuð „smjörklípa“ sem þegar að upp er staðið lendir öll í feldi þeirra sem á smjörinu halda.

Málið er frá A– Ö spurning um virðingu fyrir faginu og um fagleg vinnubrögð. Og þegar að starfandi formaður ÍTK er meðmælandi á umsókn hjá umsækjanda, sem er undirmaður viðkomandi , og um starf sem hann tekur sjálfur þátt í að ráða í, þá er hann auðvitað vanhæfur, algerlega óháð eigindum viðkomandi umsækjanda.

Það er eitt, annað er að við faglega ráðningu af þessum toga þarf að hafa sömu viðmið eins og t.d gert er við ráðningu yfirmanna í skólakerfinu. Á því er stórfeldur brestur í þessu tilfelli enda hægt að nefna fjölda umsækjenda sem hafa mun meiri menntun, meiri faglega reynslu og lengri starfsaldur, hið þriðja er auðvita spurning um framgang og frama í starfi hjá þeim ágætu starfsmönnum sem unnið hafa af heilindum og alúð hjá ÍTK um langa hríð.

Hvað sem bæjaryfirvöldum í Kópavogi finnst þá verður ekki dregin fjöður yfir þá staðreynd að allur æskulýðsfagheimurinn íslenski furðar sig á hvernig hefur verið að verki staðið. Málið er í þeim skilning ekki eitthvert einkamál Kópvogs. Og skal hér áréttað að þetta hefur ekki nokkurn skapað hlut með þá persónu að gera sem hlaut starfið.

Að æskulýðsmálum vinnur fjöldi fólk sem gerir miklar kröfur til sjálfs síns, hefur lagt mikið á sig til þessa að afla sér sérmenntunar á þessu sviði og unnið hörðum höndum árum saman að uppbyggingu málaflokksins. Þessi þekking og reynsla er virt að vettugi.

Æskulýðsbransinn gerir einfaldlega kröfu um það að sömu viðmið skuli vera viðhöfð varðandi ráðningar og gert er í önnur og jafn mikilvæg uppeldisstörf sbr. ráðningu yfirmanna í faglegri stjórnsýslu, sem og stjórnenda við leikskóla , skóla og aðrar sambærilegar uppeldisstofnanir. Tilveran er ekkert flóknari en þetta.

2 ummæli:

  1. ég var nú þarna stödd í gær og einn maðurinn fór alveg á flug í samsæriskenningum... talaði um samfylkingarsamsæri, það fékk okkur starfsmennina ( vinstri græna, samfylkingar, frjálshyggju og sjálfstæðisfólk) sem þarna voru staddir til að skella upp úr, hann virtist ekki ná því að æskulýðsbransinn er logandi (óháð flokksaðild) og að málið snýst um það að fjöldi eininga í tómstundafræði virðist engu máli skipta (og reynsla ef út í það er farið) þar sem reynsla og menntun umsækjenda var í flestum tilfellum virt að vettugi, þetta gefur þau skilaboð að tómstundafræði námið sé bara svona dúllerí og reynsla irrelevant eða eins og áðurnefndur maður rökstuddi viðhorf sitt til reynslu: reynsla getur verið allskonar, ein reynsla er ekkert betri en önnur.
    kv.
    Ösp

    SvaraEyða
  2. Ég er sammála, var að hlusta á útvarpið og átti ekki til orð, er virkilega ekki hægt að vera kurteis og málefnalegur þó að menn séu ekki allir á sama máli. Ég vona sem uppalandi og kennari að svona framkoma sé ekki það sem koma skal þegar fólk þarf að vinna saman, hvað þá að stjórna bæ eins og Kópavogi.

    Bestu kveðjur Árni og takk fyrir síðast. HG.

    SvaraEyða