Leik blak með félögum mínum í HÍ. Í þeim ágæta hópi er margt skrafað að leik loknum og mörg heimsins vandamál krufin til mergjar og jafnvel leyst ef svo ber undir. Ekkert mál er svo ómerkilegt að það verðskuldi ekki umræðu þessa ágæta hóps sem gegnir heitinu Blakmenn Björgvins.
Nú bar svo við, þar sem nokkrir Hafnfirðingar eru í þessum hóp, að málefni álversins í Straumsvík komst á dagskrá. Töldu Hafnfirðingar undarlegt í meira lagi að endalaust væri kosið um sama mál, eða átti bara að kjósa þanngað til að Rio Tinto ynni sigur í íbúakosningum? Sem leiðir hugann að þessu sem kallast íbúalýðræði sem á hafnfirska vísu gengur út á það að bláfátækir einstaklingar standa í baráttu við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem ekki unir úrslitum kosninga. Ekki veit ég hve mörg hundruð milljónir fóru í síðustu kosningabaráttu Rio Tinto "hreyfingarinnar" eða "samtakanna". Og glansauglýsingar þar sem hin fegurstu tákn íslenskrar náttúru eru nýtt sem bakgrunnur í grímulausum áróðri Rio tinto eru þegar byrjaðar að birtast og sem fyrr verður ekki spurt um peninga þegar "kosningabaráttan" er hafin.
En svona er það nú - einhverjir telja starfsemi álvera lausn morgundagsins og því fleiri og stærri sem þau eru saman komin því betra. Í því ljósi kom fram mikilvægt innlegg eða tillaga ónefnds blakfélaga inn í alla þessa álversumræðu, tillaga sem myndi að mati einhverra efla til mikilla muna atvinnuástandið í höfuðborginni og reyndar á öllu stór-Hafnarfjarðarsvæðinu ef því er að skipta.
Sem sagt hugmyndin um að reisa 600 - 700 þúsund tonna álver í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn mun hvort sem er víkja fyrr eða síðar og ekki fyrirséð að verktakabransinn hafa stórfelld áformum um íbúðabyggingar á svæðinu í bráð. Þar er plássið og þar eru þessar fínu samgöngur, mætti jafnvel hugsa sér að halda einni flugbraut opinni meðfram fabrikkunum eða jafnvel á milli þeirra? þannig að menn gætu flogið inn með súrálið og burtu með óunnið álið til frekari úrvinnslu erlendis. Rafmagnið yrði áfram á tombóluprís og fengið beinlínutengt frá OR.
Lagt var til að Reykvíkingar nýttu sér s.k. íbúalýðræði í ákvörðunarferlinu sem felst fyrst og fremst í rándýrri "charming offensiv" misvirts alþjóðlegs fyrirtækis gegn fjölda venjulegs fólks sem þykir vænt um umhverfi sitt en á ekki fjármagn til þess að standa í skaki við alþjóðlegt stórfyrirtæki.
Góð lausn !- úff - mengandi stóriðja inni í miðjum bæjum og borgum! - Springfield Homers Simpsonar orðin íslenskur raunveruleiki? Er það eitthvað til að stefna að?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli