laugardagur, 1. janúar 2005

Solidarnoz

Óska lesendum gleðilegs árs og þakka lesendum síðunnar viðbrögð af öllum „sortum” á árinu. Hafa að öllu jöfnu verið jákvæð en auðvitað hefur maður stundum fengið orð í eyra. Merkilegast er sennilega það að ein og sama greinin getur valdið ríkum geðbrigðum í báðar áttir og verið því í senn, að mati viðkomandi, sú besta eða versta grein sem viðkomandi hefur lesið.

Hvað með það síðan þjónar vel sínum tilgangi sem er einfaldlega sá að láta hugann reika um ýmis þau mál sem eru mér efst í huga hverju sinni. Verð læriföður mínum í KHÍ á sviði upplýsingartækni Dr. Salvöru Gissurardóttur ávallt þakklátur fyrir að kynna mér þessa frábæru tækni Netsins.

Solidarnoz – samstaða er yfirskrift á þessum fyrsta pistli ársins og ekki vanþörf á, því árið sem var að líða í verkalýðsmálum er búið að vera bæði leiðinlegt og ákaflega erfitt. Seinkun starfsmatsins hefur reynt verulega á þanþol fólks og skyldi engan undra.

Og þegar að á móti blæs þá er ekkert annað í stöðunni en að standa þétt saman í stað þess að hopa af hólmi og setja rassinn í vindinn á einhverju undanhaldi. Markmið viðsemjanda okkar eru augljós, viðhalda láglaunapólitík og í því felst m.a. að mylja verklýðshreyfinguna niður í helst sem flestar og dreifðustu einingar.

Fyrir launanefndina er það alger óskastaða ef bæjarstarfsmenn eru í sem flestum félögum sem mynda litlar og veikar einingar sem skapa lítinn þrýsting og geta lítið sem ekkert aðhafst einar og sér. Kostnaður LN afar lítil, sennilega bara tímabundin mismunun meðan þetta er að ganga yfir, sem gerir lítið þegar að til lengri tíma er litið.

Ráðagerð launanefndar sveitarfélaga um að afnema einhliða bókun 7 þann 1. desember 2002, um samræmingu launa háskólahópa innan bæjarstarfsmannafélaga m.m.t. samsetningu heildarlauna, segir auðvitað allt sem segja þarf í þessum efnum.

Launanefnd sveitarfélaga samtals fimm manns og fimm til vara sem fara algerlega með umboð sveitarfélaganna í landinu , sveitarfélögin þurfa ekki einu sinni að bera upp samninga til samþykktar í viðkomandi bæjarstjórnum – valdið er algert.

Árangurinn sennilega talin„fínn” enda það grundvallarmarkmið launanefndarinnar að viðhalda grjótharðri láglaunapólitík tekist með miklum ágætum. Sveitarfélögin í landinu geta nú um stundir með sanni „státað” af því að gera hvað allra síst við sitt fólk í launum. Dæmi um slíkt er að STH félagar sem vinna hjá ríkinu í sambærilegum störfum og STH félagar hjá bæjarfélaginu hafa mun og jafnvel verulega hærri laun en bæjarstarfsmenn innan STH.

Það er enginn annar kostur í stöðunni fyrir launafólk að standa saman og berjast á móti vindinum. Það er alger nauðsyn því að í mars n.k. renna samningar út og þá þarf að sækja það sem okkur ber. Til þess að það megi takast verður fólk að standa saman. Það skeður ekkert af sjálfu sér í þessum efnum, það gerir þetta engin fyrir mann og það kemur ekkert upp í hendur okkar. Verklýðs„hreyfing” er ekkert afl nema fyrir tilstilli samhentra félagsmanna. Málið er ekkert flóknara en þetta. Verum virk og fylkjum liði og þá mun okkur farnast vel í þeirri hörðu baráttu sem framundan er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli