miðvikudagur, 18. janúar 2012

Það verður ekkert af engu

Í síðasta Fjarðarpósti (12.jan 2012)  ritar Margrét Össurardóttir grein um málefni Heilsdagskóla eða frístundaheimila í bæjarfélaginu . Ekki ætla ég að bregðast efnislega við skrifum Margrétar enda eru mér málavextir með öllu ókunnir. Hitt er annað mál að sem sérfræðingur í æskulýðsmálum og sem fyrrverandi æskulýðsfulltrúi í okkar ágæta bæjarfélagi þá þykir mér rétt að benda á nokkur atriði. Í greininni er haldið fram að frístundaheimili í Reykjavík hafi verið færð undir skólanna vegna þess að starfsemin hafi verið svo illa rekin af hálfu Íþrótta – og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR). Þetta er með öllu rangt þar sem að ÍTR mælist ár eftir ár með hæstu einkunn í þjónustukönnunum á vegnum borgarinnar. ÍTR innleiddi, á þeim tíu árum er starfsemin var á þeirra vegum, fagmennsku sem ekki var fyrir hendi áður, samræmdi starfsemina í heild, gerðu faglegar kröfu til starfsmanna, stuðlaði að aukinni menntun, unnu starfsskrá (sambærilegt plagg og námskrá er í skólastarfi) m.ö.o breyttu safnheitinu frístundaheimili í hugtak. Formgerðu starfsemina og unnu að miklum endurbótum oft í miklum mótvindi. Þær nýlegu skipulagsbreytingar sem átt hafa sér stað í Reykjavík er gerðar í algerri andstöðu við fagumhverfið, öll fagfélög á sviðinu, helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði, auk þess sem formleg umsögn HÍ Menntavísindasviðs mælti mót þessum breytingum..

En víkjum nú sögunni til Hafnarfjarðar. Í ágúst s.l. ritaði ég grein í Fjarðapóstinn, bæjarblað okkar Hafnfirðinga, undir nafninu „Hvar er fagmennskan“ (Sjá http://addigum.blogspot.com/2011/08/hvar-er-fagmennskan.html ) þar sem ég geri margþættar athugasemdir varðandi framkvæmd bæjaryfirvalda við þær annars skynsömu breytingar að færa starfsemi heilsdagsskólans undir starfsemi ÍTH. Í stórum dráttum má segja að sparnaður (tæpleg 30% ofan á allan annan niðurskurð) sem þar var viðhafður í nafni sameiningarinnar hafi verið langt út yfir öll skynsemismörk. Með öðrum orðum þá nýttu bæjaryfirvöld sameininguna sem skálkaskjól fyrir óeðlilega mikinn niðurskurð. Þetta kemur augljóslega fram í því að bæjaryfirvöld bjóða þjónustu sem þau geta ekki staðið við eða sinnt. Í þeim efnum er ekki við gott starfsfólk ÍTH að sakast sem reynir það eitt að vinna störf sín eins vel og kostur er en við afar erfiðar aðstæður. Raunverulegar fjárhagsáætlanir eru til og ekkert annað en að kom þeim í framkvæmd þ.e.a.s ef það er vilji bæjaryfirvalda að viðhafa starfsemi af þessu toga. Að færa starfsemina innan stjórnsýlsunnar hefur ekkert að segja – og leysir ekkert. Fúskvæðing er fúskvæðing sama hvar hún á sér stað – kjarni málins er einfaldlega sá að þjónusta og fagmennska kostar og verður ekki haldið úti nema þær forsendur séu fyrir hendi. Það verður ekkert af engu.

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 18. janúar 2012

þriðjudagur, 3. janúar 2012

Er orðin anti sportisti


Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi – hugrenningar félaga míns Guðmundar Sæmundssonar um málfar í íþróttum hafa gerbreytt afstöðu minni til íþrótta í grundvallaratriðum. Ég er eiginlega orðin anti sportisti en er þó virkur þátttakandi í þessum fáfengileika eins skrýtið og það kann að hljóma – held að þetta sé fíkn fremur en einhver skynsemi eins og margur heldur fram. Líkami minn má muna sinn fífil fegurri enda stundum haltur og skakkur og jafnvel hvorutveggja í senn eftir íþróttaiðkun síðustu áratugina – þetta getur ekki verið hollt.

Ég stunda þessa undarlegu iðju að lemja kúlu fram og aftur um græna haga yfir hábjargræðistímann, um okkar bestu lendur, sem að öllu jöfnu væri mun skynsamlegra að nýta undir hefðbundin landbúnað. Svo ekki sé nú minnst á þá áráttu mína að dvelja langdvölum í s.k. íþróttahúsum. Þau eru yfirfull af fullfrísku fólki sem eyðir dýrmætri orku sinni og tíma í hreina vitleysu sem felst í því að lemja fiðraðar kúlur eða bolta af ýmsu tagi yfir, undir eða í net og það ýmist með höndum, fótum og eða öðrum útlimum með eða án tiltekinna áhalda oftast dýrum, verandi í einhverjum ómerkilegum nylonfatnaði sem seldur er eins og hvert annað silki?

 Látum það vera að mannlegir breyskleikar eins og almennt ístöðuleysi og áhættufíkn valdi því að einhverjir stundi svokallaðar íþróttir, iðjan sem slík er með öllu óþörf. Við getum reyndar gefið okkur það íþróttunum til varnar að samfélagið þurfi hverju sinni að hafa á að skipa vaskri sveit manna og kvenna og þjálfi það markvisst í þeim eina og göfuga tilgangi að verjast utanaðkomandi vá.

Það eru engin ný sannindi þetta vissu Grikkir til forna og um þessa samfélagsleg ábyrgð var köppum eins og Gunnar á Hlíðarenda, Agli Skallagrímssyni og fleirum fullkunnugt um. Gunnar, sem á enn þann dag í dag óstaðfest heimsmet í hástökki með og án atrennu, gerði aldrei kröfur til þess að fá afrek sín íþróttafræðilega staðfest og nýtti þessa hæfileika sína aldrei í öðrum tilgangi en hernaðarlegum. Egill Skallgrímsson sem var okkar harðasti ísknattleiksmaður fyrr og síðar sýndi með "góðu" fordæmi að það er öldungis rétt að áfengi og neysla þess er verulegur hluti leiksins eins núna nokkur hundruð árum seinna er auglýst í gríð og erg ungu íþróttafólki til eftirbreytni.



Að hoppa yfir á eða torfæru á stöng er praktískt. Að kasta spjóti eða kúlu og reyndar bara öllu lauslegu í styrjöldum er praktískt svo ekki sé minnst á almennar barsmíðar eins og box og glímur af öllum hugsanlegum og óhugsanlegum tegundum og svo ég nefni nú gríðarlegt gildi skylminga og skotfimi í þessum tilgangi. En að leggja stund á slíkt á friðartímum er algerlega tilgangslaust og ætti af þeim sökum að fá til þessara fánýtilegu verka tiltekið hlutfall æskufólks hverju sinni með þeim íþyngjandi kvöðum að það leggi stund íþróttir í samfélagslegu varnarskyni. Í þokkalega siðuðum samfélögum er þetta kallað herskylda, er reyndar víða afnumin þar sem fólk fæst orðið í þessa vitleysu af fúsum og frjálsum vilja, eins undarlega og það kann að hljóma.

Segjum sem svo að hægt sé að forsvara allt það fé sem fer til íþrótta sem einhverskonar hernaðarútgjöld. Ef svo er þá er einni grundvallarspurningu algerlega ósvarað. Hún snýst ekki um hvort vinur minn Óli Jó átti að halda áfram að láta einhvern tiltekin hóp ungmenna hlaupa á eftir bolta og sparka eða hvort væri betra að fá einhvern annan til verksins. Eða hvort einhver miðaldra karlmaður leiki með í einhverri handboltakastkeppni eða ekki? Þetta hefur akkúrat ekkert að segja og enga þýðingu hvað varðar varnir landsins og styrk okkar gagnvart utanaðkomandi vá.

Grundvallarspurningin er því auðvitað sú hvar var íþróttahreyfingin þegar að Icesave málið dundi á þjóðinni með miklu offorsi ? Svarið er einfalt hún var, eins og hún lagði sig, í fullkomnu tilgangsleysi, inni í íþróttahúsunum við að reyna að hoppa hærra,hraðar, lengra, hlaupa eins og fætur toga, kasta ýmsum hlutum í allar áttir, sparka og allt hvað menn nú annars aðhafast í þessum fínu húsum. Einungis nokkrir tugir íslendinga mættu til leiks ... eða réttara sagt á stríðsvettvang, aðallega miðaldra karlmenn sem mæddust mjög eftir langa göngu um borg óvinarins, London þjakaðir af bráðu brjóstkassasigi með kynningarbæklinga og undirskriftalista að vopni. Eins að það virki eitthvað. Þeir áttu við ofurjarla sína að etja eins og kunnugt er af annálum þar um .Varð hin mesta sneypuför enda íþróttahreyfingin fjarri eins og svo oft áður þegar að virkilega á reynir.

Þarna átti íþróttahreyfingin eðli málsins samkvæmt að vera á vettvangi. Þetta er/var eina alvöru „stórmótið“ sem hreyfingin hefur átt erindi á um langa hríð eða allt frá síðasta þorskastríði þar sem n.b. hreyfingin nýttist heldur ekki neitt. Þarna átti íþróttahreyfingin í heild að vera til staðar og nýta alla sína hæfileika í þeim göfuga tilgangi að frelsa þjóðina frá yfirvofandi ánauð svo sem sjálfstæðismissi hinnar íslensku þjóðar, sem ku hafa verið óþægilega nærri.



Þarna fór gott (tæki)færi forgörðum, það er næsta víst, þarna skall hurð nærri hælum, hefði hreyfingin þurft að bíta í skjaldarrendurnar, hún hefði verið betri en engin, hún fer sér að engu óðslega en verður að taka á honum stóra sínum eins og Bjarni Fel hefði orðað þetta. Tilefni þessara hugleiðinga minna er eins og áður sagði hugleiðingar vinar míns Guðmundar Sæmundsonar í formi doktorsritgerðar sem nefnist „Það er næsta víst“ og fjallar um málfar í íþróttum. Það er mikil efniviður og ritgerð sem verður fróðlegt að lesa.  Hugleiðingar mínar um „gildi“ íþrótta almennt ekki beint úr þeim ranni en þó skyldar . Mun þó, aðspurður, stefna að því að gera mitt besta, leggja mig allan fram, freista þess að lækka forgjöfina og leika til sigurs á móti erfiðum andstæðingum, þó á móti blási.