sunnudagur, 27. febrúar 2005

Félagsmiðstöðvar og London

Erum búin að vera síðustu daganna í London hópur frá ITH. Fórum víða og sáum bæði afar vel búnar félagmiðstöðvar og einnig aðrar sem voru nánast rekar af viljanum einum saman og af fólki sem hafði sterkar hugsjónir um velferð unglinga að leiðarljósi.

Sú merkasta er auðvitað Toynbee Hall sem er í raun elst allra félagsmiðstöðva heiminum og var stofnuð árið 1884 þegar að félagslegt óréttlæti í kjölfar iðnbyltingarinnar og ástand fátækrahverfanna með þeim hætti að mörgum sómakærum háskólamönnum og aðilum í efri stéttum hins breska samfélags ofbauð aðbúnaður lægri stétta samfélagsins. Samfélag þar sem kolanámuhesturinn var meira virði en börn í þrælaánauð kolunámanna. Úr þessu sprettur hugmyndafræði Hverfamiðstöðva sem voru í raun forverar félagsmiðstöðva fyrir ungt fólk

Starfsemin Toynbee Hall er enn í fullum gangi og nú eru málefni minnihluta hópa og innflytjenda í forgrunni og ljóst að þrátt fyrir 120 ára sögu þá er hlutverk miðstöðvarinnar ennþá í fullu gildi.

Frú Thatcher sem ríkti fyrir margt löngu setur því miður enn þann dag í mark sitt á velferðarkerfið breska sem engan vegin hefur jafnað sig á fantatökum hennar sem var gríðarlegur niðurskurður fjárframlaga til félagasamtaka og þeirra aðila sem vinna að velferðarmálum æskunnar.

Félagsmiðstöðvar og málefni hinnar ófélagsbundnu æsku lentu einfaldlega undir og öll statistk sýnir einfaldlega hve arfa vitlaust það var þar sem fjöldi vandamála síðustu ár og áratugi hefur aukist verulega, bæði eiturlyfjaneysla unglinga sem og glæpir. Unglingar margir hverjir eiga í fá hús að venda. Sérstakleg hefur þetta komið illa niður á þeim sem minna mega sín í samfélaginu og búa við hvað verstar aðstæður.

Félagsmiðstöðvar eru forvarnarstarf - og ekki alltaf hægt að reikna ágóðann með aðferðafræði háskólamenntaðara bókara - Einn unglingur sem fetar slæmu brautina í stað hinnar góðu og dyggðugu getur verið "gjaldfærður" í "nútíma" bókhaldskerfi hér og þar og hjá hinum ýmsu stofnunum samfélagsins, "kostnaður" getur hæglega orðið 10.000.000 kr.eða meira, allt eftir tilvikum?

Hvenær verður hinum raunverulega sparnaði hins fyrirbyggjandi starfs gaumur gefin - sem er ekki bara að fækka þeim einstaklingum sem ekki ná að fóta sig og þeim harmi sem það hefur í för með sér - er einnig spurning um að koma í veg fyrir gríðarleg útgjöld samfélagsins sem hljótast af þeirri ógæfu þegar að unglingur lendir á refilstigu - verður vonandi einhvern tímann metið út frá réttum forsendum og þá mun þeir sem þessu ráða sjá hve vel fé til velferðamála æskunnar nýtist í raun og veru.

föstudagur, 18. febrúar 2005

Héraðsdómur Reykjaness

Þannig hagar til að vinnustaður minn er gengt nýlegri byggingu Héraðsdóms Reykjaness við Linnetstíginn í Hafnarfirði. Tilkoma dómsins hefur breytt ýmsu, því að í stað frábærs útsýnis þá hefur annað sjónarspil tekið við.

Sem eru mannanna sorgir og gleði, allt eftir því hvernig lyktir mála hafa orðið í dómsmálum viðkomandi. Jakkafataklæddir menn staldra við fyrir utan dóminn og ræða málin í góðu tómi , aðrir er ögn háværari og einhvern tímann heyrði ég menn senda hvorum öðrum tóninn af nokkrum ákafa og hávaða.

Lögreglubílar, menn með hulin andlit og sjónvarpsmyndavélar verða hluti hverdagsins. Undirmálsmenn hírandi undir gafli á köldum vetrarmorgnum, staupandi sig áður en farið er í dómsal. Góðkunningjar lögreglunar niðurbrotnir í smók eftir dómsuppkvaðningu og á slíkum stundum oft í samtölum við ungan blaðamann DV sem virðist vaka yfir réttinum og því sem þar fer fram.

Þrátt fyrir skertan sjóndeildarhring vegna þessar byggingar Héraðsdóms þá er ég ekki nokkrum vafa um að hinn eiginlegi sjóndeildarhringur hafi víkkað til muna og sé nú að einhverju leyti mun víðari en áður var.

Um dóma les maður í blöðum og þeir snerta mann misjafnlega. Hitt er öllu áhrifaríkar og sorglegra sem er að sjá hluta þess harmleiks sem átt hefur sér stað og leitt til dómsmálsins. Þolendur og gerendur, allt er þetta fólk af holdi og blóði

Með þúsund kall í annarri hendinni og Biblíuna í hinni hendinni að aflokinni afplánun á Litla Hraun eins og Lalli Jons birtist okkur í samnefndri heimildarmynd er auðvitað bara ávísun að annan hring í dómskerfinu.

Velti fyrir mér málefnum síbrotamanna sem flestir hverjir eiga við veruleg vandamál af andlegum toga að etja og nánast undantekningarlaust eru viðkomandi einnig langt gengir vímuefnaneytendur. Velti fyrir mér hvort dómskerfið sé hinn eiginlegi vettvangur eða hvort einhverjir aðrir kostir sé bæði samfélaginu og viðkomandi einstaklingum betri - Veit það ekki - efast samt sem áður oft um hvort „Betrunarvist" sé oft á tíðum í raun betrunarvist?

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

SUS bíó „Farenhype 9/11"

Fór í SUS ( Samband ungra Sjálfstæðismanna) bíó og hafði gaman af. Þakka SUS-urum boðið en þar á bæ eru menn óþreytandi við að breiða út boðskapinn. Og hvað svo sem manni kann að finnast um innihaldið þá verður ekki fram hjá því horft að formaður sambandsins Hafsteinn Þór Hauksson er dugmikil forystumaður sem lagt hefur á sig mikla vinnu í gegnum árin í þágu ungliðahreyfingarinnar og sem slíkur stuðlað að virkri þjóðfélagsumræðu á síðustu árum.

Myndin „Farenhype 9/11" var hins vegar nokkuð spes og er gerð sem andsvar við mynd Michaels Moore „Farenheit 9/11". Verð að segja eins og er að ef mynd Morre var áróðurskennd þá var þessi í æðri víddum hvað það varðar enda gerð skömmu fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Hvort Bush sneri bókinni á hvolfi í skólaheimsókninni eða ekki, eða hvort hann sat aðgerðarlaus í sjö eða fimm mínútur eftir að hann fékk fregnir um árásirnar á Tvíburaturnana, finnst mér ekkert grundvallaratriði. Að allir séu í olíusukkinu, líka demókratar og fl í þeim dúr, og að ættingjar Bin Laden hafi ekki verið fluttir frá USA fyrr en tveimur dögum eftir árasina en ekki strax á eftir og að Michael Morre sé sérstaklega vafasamur pappír, hefur enga þýðingu hvað varðar grundvallaratriði málsins.

Og þrátt fyrir trix eins undirliggjandi hjartsláttarhljóð og ýmsa dramatíska hljóðeffekta , king size skammti af þjóðernishyggju, ofur ánægju með Bush og hans algerlega óbrigðulu störf þá nær myndin aldrei neinu flugi. Myndin er klauflega unnin og afar ósannfærandi og langt yfir strikinu tímunum saman. „Rebúblikanar á bömmer" væri sennilega réttnefni.

Umræður voru nokkrar eftir myndina en sem því miður tókust ekki sem skyldi enda einokaðar af einhverjum „besserwisser" sem sagði að ekki væri hægt að ræða við vinstri sinnað fólk um stjórnmál sökum gáfna? og það skyldi ekki frelsið?? Vakti nokkur andmæli og umræður sem höfðu fyrst og fremst skemmtanagildi. Varð af hin mesta skemmtun en lítið um konkret umræður um myndina.

„Poppið var gott" sagið í frægri kvikmyndagangrýni eitt sinn. Tek heilshugar undir þau orð.

mánudagur, 7. febrúar 2005

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti?

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti? Myndi einhver segja en öðru nær segi ég. Fer víða starfa minna vegna, en þó ekki alla leið til Ástralíu eins og ágæta lesendur gæti verið farið að gruna þegar að hér er komið sögu.

Var hins vegar í Kaupmannahöfn sem stjórnarmaður í verkefnastjórn UiN í þeim ánægjulegu erindagjörðum að gera upp og fara yfir framkvæmd hins afar velheppnaða unglingamenningamóts Ung i Norden sem haldið var í Hurrup á Jótlandi s.l. sumar.

Brá mér eitt kvöldið á ástralskan veitingastað í miðborginni. Bragðaði þar hina áströlsku flóru, krókódíl, kengúru, emu sem er fugl af ætt strúta og flís af nautakjöti. Allt saman mikið góðgæti og ekki spurning um að ef þetta er hinn "ástralski þorramatur" þá er það verulegt ánægjuefni að blóta þann þorrann.

miðvikudagur, 2. febrúar 2005

Er mjög ánægður með Víðistaðaskóla

Flott skólasamfélag og þrátt fyrir mikið rask vegna byggingaframkvæmda í vetur þá gengur skólastarfið með ágætum, sem er auðvita með ólíkindum, en gengur samt sem áður vegna þess að skólasamfélagið leggst á eitt til að svo megi verða, með ómældri fyrirhöfn. Félagsmiðstöðin Hraunið býr við góðan kost og blómlegt félagslíf auðgar andann og bætir mannlífið hjá unglingunum.

Er alveg sérstaklega ánægður með kennara dóttur minnar hana Eddu Jónasardóttur. Edda er einstakur mannvinur og KENNARI með stórum staf sem nýtur mikillar virðingar sinna nemenda, er þeim fyrirmynd og læriföður og sýnir okkur með störfum sínum hve gríðarlega mikilvægt kennarastarfið er.

Góður kennari verður aldrei metin til fjár og þetta smáræði sem bæjarfélögin eru reiðubúin til að greiða kennurum í laun er ekki í nokkru samræmi við mikilvægi þeirra starfa sem þar fara fram..Sorgleg skammsýni og skussamennska því gott og farsælt skólastarf er undirstöðuatrið allrar framþróunar samfélagsins, þar á auðvitað ekki að spara? “Sparnaður” í þeim ranni er í raun sóun.