fimmtudagur, 27. desember 2007

Stefnuljós og greindarvísitala

Sel það ekki dýrara en ég keypti en svo ku vera samkvæmt vísindalegum niðurstöðum að notkun stefnuljósa í umferðinni hefur verulega fylgni við greind viðkomandi ökumanns. Með öðrum orðum því minni notkun stefnuljósa því vitlausari er viðkomandi – stemmir sennilega algerlega – Mr Bean notar aldrei stefnuljós. Segið þið svo að vísindin séu ekki praktísk - einföld umferðarregla skilur á milli greindra og ... ekki greindra einstaklinga!

mánudagur, 24. desember 2007

þriðjudagur, 18. desember 2007

Engin mörk - fullkomin lágkúra

Hef stundum tekið hraustlega til orða varðandi ólöglegar áfengisauglýsingar. Sagði á fræðslufundi um forvarnir þar sem ég var meðal fyrilesara að siðleysið væri slíkt að menn myndu byrja “markaðsátakið” á fæðingardeildum kæmust menn upp með það.

Það er ekkert heilagt og í ríki Dana þykir mönnum tilhlýðilegt að herma eftir þekktum fígúrum úr dönsku “Stundinni okkar”. Og svo verslar sómkært fólk við þessi fyrirtæki sem ota áfengi að börnum þeirra? Hér sýnir tiltekið fyrirtæki hug sinn í verki gagnvart börnum. Eigum við ekki að sýna hug okkar á móti?

mánudagur, 17. desember 2007

Jón Gunnar Grjetarsson

Var borinn til grafar í dag að lokinni mjög fjölmennri athöfn í Víðistaðakirkju. Athöfnin var látlaus, virðuleg og vörðuð ákaflega fallegum tónlistarflutningi okkar bestu listamanna. Fallinn er frá í blóma lífsins drengur góður - verkin margþættu og fjölmörgu lifa sem og minning um góðan dreng, blessuð sé minning hans. Votta Önnu Borg, börnum og ættingjunum hans mína dýpstu samúð.

miðvikudagur, 12. desember 2007

Hafnfirskt tímatal ...


Sunnudagurinn 16. nóvember - þriðji sunndagur í aðventu ? (FP 12.des).
Vinum mínum sr. Gunnþór og Þórhalli orðið á í messunni ?

mánudagur, 10. desember 2007

Ásthildur kveður...

...fótboltann og verður sárt saknað af þeim vettvangi. Við sem störfum í kringum kvennaboltann vitum hve mikilvægt er að hafa góðar fyrirmyndir fyrir þær fjölmörgu stelpur sem æfa fótboltann á fullu, sem og fyrir aðrar stelpur og bara allt ungt fólk sem áhuga hefur á íþróttum. Ásthildur hefur reynst verðugur fulltrúi kvennaknattspyrnunnar bæði innan vallar sem utan.

Þrátt fyrir þessi tímamót þá er vonandi svo að Ásthildur Helgadóttir haldi áfram að veita hreyfingunni lið. Ég er viss um að hún muni reynast afbragðs þjálfari kjósi hún að leggja slíkt fyrir sig. Ég myndi einnig vilja sjá hana starfandi innan KSÍ en ég er viss um að reynsla hennar muni nýtast hreyfingunni vel auk þess sem full þörf er á að auka vægi kvennaboltans innan sambandsins. En umfram allt þá hefur Ásthildur reynst góð fyrirmynd og sem slík aukið veg kvennaknappspyrnunnar og fyrir það á hún miklar þakkir skildar.

mánudagur, 3. desember 2007

Hinar mörgu ásjónur launanefndar sveitarfélaga

Dagar LN eru taldir, segir formaður STFS
"Ragnar Örn Pétursson formaður Starfsmannafélags Suðurnesja telur að dagar Launanefndar sveitafélaga séu taldir þar sem komið hafi í ljós að láglaunastefna nefndarinnar sé ekki að virka. Hvetur hann sveitarfélög á Suðurnesjum að feta í fótspor sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu sem hafa hækkað mánaðarlegar eingreiðslur til þeirra starfsmanna sem hafa lægst laun."
Af http://www.bsrb.is/

Fundargerð samstarfsnefndar launanefndar og Samflots bæjarstarfsmanna 22. nóv 2007.
"Samflotið lagði einnig fram gögn varðandi sértækar aðgerðir einstakra sveitarfélaga til launahækkunar fyrir starfsmenn sína og beinir því til LN fyrir hönd sveitarfélaga að gætt verði samræmis um laun óháð búsetu. Fulltrúar LN benda á að þessar sértæku aðgerðir sveitarfélaga eru án íhlutunar launanefndar og hafa þessi sveitarfélög nýtt sér fyrirliggjandi heimildir LN frá 28. janúar 2006."

SVEITARFÉLÖG - Kennarasamband Íslands
"...Karl Björnsson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskrasveitarfélaga, segir að báðir aðilar hafi lært af slæmri reynslu sinni og samskiptaerfiðleikum síðustu ára og nú sé fullur vilji beggja til að bæta úr. Karl flutti erindi um samningaviðræður við kennara síðustu ár á Skólaþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku. Þar kom fram að samskipti hefðu verið erfið og of miklu púðri hafi verið eytt í að deila um staðreyndir en skort á sameiginlegan undirbúning. Hvergi hafi verið sameiginlegan flöt að finna. Þessu sé sátt um að breyta. Búið er að gera aðgerðaáætlun sem á að auka fagmennsku, bæta vinnubrögð, skapa traust og efla virðingu milli aðila. „Þegar kjaraviðræður hefjast í febrúar er markmiðið að fyrir liggi nákvæmar upplýsingar og að sátt ríki um allar tölur þannig að á kjaraviðræðutímabilinu sé ekki eytt púðri í að deila um tölur og grunngögn,“ segir Karl. (Fréttablaðið í dag 2. des 2007)"

Ragnar Örn mælir oft af skynsemi - launanefnd sveitarfélaga er nefnd hinna lægstu viðmiða og hinna erfiðu samskipta. Láglaunastefnan grjótharða tekur á sig margar myndir og ólíkar ásjónur - ekki satt.

miðvikudagur, 28. nóvember 2007

... og enn má undrast

Þegar ég tjái mig um æskulýðsmál sem og málefni er varða börn og unglinga þá geri ég slíkt sem fagmaður og sérfræðingur í þessum málaflokki , af ábyrgð og á málefnalegan hátt.

Ekki var ég staddur á bæjarstjórnafundi í Kópavogi í gærkveldi þar sem ráðningarmál yfirmanns æskulýðsmála í bænum voru rædd. Missti af umræðum og undrast jafnframt að ekki sé hægt að nálgast upptökur af fundinum með einföldum hætti, því eins og fólk veita þá eru skriflegar bæjarstjórnar fundargerðir afar rýrar í roðinu, aðeins greint hver tekur til máls og að því lokum hvort mál sé samþykkt. Það ætti auðvitað að vera sjálfsögð þjónusta við íbúa bæjarins og eða þá aðila sem mál varða að viðkomandi geti nálgast upptökur af slíkum fundum t.d. á ágætri heimasíðu bæjarins.

Mér er tjáð að umræður hafi verið líflegar og með þeim hætti að talað hafi verið niður til kjörinna fulltrúa sem hafa aðra skoðun á málinu en ríkjandi meirihluti , þeim sýndur hroki og jafnvel dónaskapur. Sá sem þetta ritar ku hafa verið í pólitískri sendiför á vegum Samfylkingarinnar í Hafnarfirði? Málefnaleg umræða ? Veit það ekki - í besta falli misheppnuð „smjörklípa“ sem þegar að upp er staðið lendir öll í feldi þeirra sem á smjörinu halda.

Málið er frá A– Ö spurning um virðingu fyrir faginu og um fagleg vinnubrögð. Og þegar að starfandi formaður ÍTK er meðmælandi á umsókn hjá umsækjanda, sem er undirmaður viðkomandi , og um starf sem hann tekur sjálfur þátt í að ráða í, þá er hann auðvitað vanhæfur, algerlega óháð eigindum viðkomandi umsækjanda.

Það er eitt, annað er að við faglega ráðningu af þessum toga þarf að hafa sömu viðmið eins og t.d gert er við ráðningu yfirmanna í skólakerfinu. Á því er stórfeldur brestur í þessu tilfelli enda hægt að nefna fjölda umsækjenda sem hafa mun meiri menntun, meiri faglega reynslu og lengri starfsaldur, hið þriðja er auðvita spurning um framgang og frama í starfi hjá þeim ágætu starfsmönnum sem unnið hafa af heilindum og alúð hjá ÍTK um langa hríð.

Hvað sem bæjaryfirvöldum í Kópavogi finnst þá verður ekki dregin fjöður yfir þá staðreynd að allur æskulýðsfagheimurinn íslenski furðar sig á hvernig hefur verið að verki staðið. Málið er í þeim skilning ekki eitthvert einkamál Kópvogs. Og skal hér áréttað að þetta hefur ekki nokkurn skapað hlut með þá persónu að gera sem hlaut starfið.

Að æskulýðsmálum vinnur fjöldi fólk sem gerir miklar kröfur til sjálfs síns, hefur lagt mikið á sig til þessa að afla sér sérmenntunar á þessu sviði og unnið hörðum höndum árum saman að uppbyggingu málaflokksins. Þessi þekking og reynsla er virt að vettugi.

Æskulýðsbransinn gerir einfaldlega kröfu um það að sömu viðmið skuli vera viðhöfð varðandi ráðningar og gert er í önnur og jafn mikilvæg uppeldisstörf sbr. ráðningu yfirmanna í faglegri stjórnsýslu, sem og stjórnenda við leikskóla , skóla og aðrar sambærilegar uppeldisstofnanir. Tilveran er ekkert flóknari en þetta.

fimmtudagur, 22. nóvember 2007

Vekur furðu

Ráðning í starf æskulýðs- og tómstundafulltrúa í Kópavogi dregur örugglega dilk á eftir sér. All flestir i æskulýðsbransanum eru afar hissa og furða sig á þessari ráðningu. Umsækjendur voru 14 talsins þar af voru margir mjög reyndir, vel menntaðir og starfandi forstöðumenn æskulýðsstarfs, sem og nokkrir starfandi forstöðumenn í félagsmiðstöðvum Kópavogsbæjar. Starfsmenn sem notið hafa notið verðskuldaðrar virðingar innan fagsamfélagsins sem og gengt trúnaðarstörfum á þeim vettvangi. Hrafnhildur Ástþórsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur tilvonandi fyrrverandi forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Ekkó og Kjarna hafði t.d. að baki 17 ára mjög farsælt starf hjá ÍTK. Sama átti við varðandi aðra umsækjendur utan bæjarins, þar voru margir mjög frambærilegir umsækjendur sem hafa góða menntun, farsælan starfsferil og hafa gengt ýmsum trúnaðarstörfum innan fagstéttarinnar.

Formaður ÍTK sem jafnframt er starfandi skólastjóri í bænum réð hins vegar undirmann sinn í skólanum í starfið. Ekki þekki ég almenn deili á viðkomandi enda skiptir slíkt ekki máli í þessu samhengi. Valið í starfið var augljóslega erfitt enda um marga verulega hæfa umsækjendur að ræða. Af virðingu við hina vönduð starfsemi ÍTK í félagmiðstöðvum í Kópavogi var því að mínu mati engin spurning um annað en að velja milli hæfstu einstaklingana. Er í raun tiltölulega einfalt ef tekið er mið af menntun, reynslu og starfsferli viðkomandi einstaklinga. Slíkri niðurstöðu hefði fólk unað.

Slíkt var ekki gert og því svo komið að reyndustu forstöðumenn ÍTK hætta störfum og leita á önnur mið auk þess sem margir umsækendur munu æskja frekari rökstuðnings vegna ráðningarinnar .

“Félagsmiðstöðvar eru þekktasta hugtakið sem flestir vita lítið um” segir vinur minn, norski uppeldisfræðingurinn Henning Jakobsen. Þetta eru sennilega orð að sönnu en hins vegar leitt þegar að pólitískir leiðtogar á þessu fagsviði sýna í verki vankunnáttu á þessum mikilvæga vettvangi uppeldisstarfs með ráðningum sem valda því að margra ára fagleg uppbygging í málflokknum er kastað fyrir róða – gengið er fram hjá valinkunnu fagfólki sem af krafti, áræði og ósérhlífni hefur til margra ára unnið að uppbyggingu málaflokksins – Getur virkilega verið að pólitískir framámenn séu ekki betur að sér í faglegri vinnu þeirra stofnanna sem þeim er treyst pólitískt forræði yfir en raun ber vitni?

Veit það ekki en finnst ágætum starfsmönnum sem og starfsemi ÍTK lítill sómi sýndur.

miðvikudagur, 21. nóvember 2007

Keppt verður í karla og kvenna "fokki"

... var fyrirsögn á auglýsingu frá félagsmiðstöðinni Vitanum hér um árið . Um var að ræða hina vinsælu kraftakeppni Vitans. Fékk af þessu tilefni símtal, sem æskulýðsfulltrúi, frá verulega æstri móður ungmennis og tók það langan tíma að fá botn í málið sökum geðshræringar móðurinnar.

Gat ekki annað en hlegið yfir þessari prentvillu og að sjálfsögðu beðist afsökunnar , mamman öllu rólegri og kvaddi með vinsemd og í trausti þess að starfsemi félagsmiðstöðva væru yfir “starfsemi “ af þessum toga hafin – gat sannfært hana um slíkt og starfsemin ölllu kristilegri en fyrirsögnin hér að ofan gefur til kynna.

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Af malti og misheppnuðu verkalýðsbindindi

Fór inn á heimasíðu míns gamla starfsmannafélags http://www.sthafn.is/ , gegndi sem kunnugt er um langt skeið þeirri virðingarstöðu að vera ritstjóri síðunnar samhliða formennsku í félaginu.

Fór reyndar í nokkurskonar verkalýðsbindindi eftir að ég hætti. Fell þó af og til og skrifa gjarnan greinar á dagskinnuna um launnefnd sveitarfélaga (sem ég skrifa ávallt með litlu l-i), kalla þá gjarnan skussabandalagið, sér í lagi eftir að ég hætti sem virðulegur formaður verkalýðsfélags. Það er helst þegar að maður les um einstæðar tveggja barna mæður sem starfa á leikskóla á lúsarlaunum, sem þess skriflöngun hellist yfir mann. Og þegar einhverja T einingar og hvað þetta dót allt heitir sem virðuleg launanefnd útbýttir af geðþótta til okkar minnstu bræðra þegar að leikskólarnir og skólarnir eru að tæmast af starfsfólki, sem er á mörkum örbirgar sökum hinnar grjóthörðu láglaunastefnu nefndarinnar, þá verður ekki við neitt ráðið. Þá halda engin bönd.

Einfaldlega vegna þess hve ótrúlega illa málum er komið og hve lengi og langt þessi vitleysa hefur gengið. Þessi þráhyggja nefndarinnar að hreyfa ekki hin afar lágu grunnlaun með nokkrum hætti en skammta af snefilmennsku úr hnefa þegar að mál eru komin í óefni, kalla þetta einhverju virðulegum og stórkarlalegum nöfnum, og alltaf með fyrirvörum um að þessar “hækkanir“ séu einungis tímabundnar. Hin grjóthara láglaunastefna er hins vegar viðvarandi og keyrð fram af “myndarskap” eins og um sjálfskipaða láglaunalögreglu sé að ræða – hina lægstu taxta má aldrei hreyfa?.

Hér er svo sannanlega rými til framfara og ekki seinna vænna en að sveitarfélögin taki til sinna ráða og breyti kúrs, hreinlega kúvendi eða gangist hreinlega við þeirri stefnu sem launanefndin keyrir áfram af hörku í þeirra umboði. Laun er hvergi lægri í hinum vestræna heimi en á Íslandi og kjör bæjarstarfsmanna er með því lakasta sem hér gerist? Verður lengra komist í vitleysunni?

Datt þetta svona í hug þegar að ég renndi yfir heimasíðu STH. Finnst vanta “allt malt í þann pakka”. Auðvitað góðra gjalda vert og mjög mikilvægt að viðhafa góða þjónustu fyrir félagsmenn (sem svo sannarlega er séð um af hálfu skrifstofustjórans Sjafnar Sigfúsdóttur) og fína orlofsmöguleika en það má ekki gleyma sér í því – Hlutskipti þeirra sem kosnir eru til forystu í stéttarfélögum er auðvitað að veita aðhald og berjast fyrir bættum hag félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra – Í þeirri barráttu er heimasíðan gríðarlega sterkt vopn, málgagn sem ber að nýta í þeim tilgangi – Helgarferð til Köben eða jólahlaðborð í Munaðarnesi er ekki það sem er efst í huga þeirra félagsmanna sem lægst hafa launin. Þeir eru allflestir á harðahalupum undan jólakettinum og komast því hvorki til Köben eða í Munaðarnes.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Bankinn er ekki vinur þinn II ...

...þannig fór um sjóferð þá!

"Kaupþing banki hefur tilkynnt að frá og með næstu mánaðamótum geti fasteignakaupendur ekki yfirtekið eldri íbúðalán frá bankanum nema að vextir breytist í sömu vexti og gilda á hverjum tíma. Elstu lán íbúðakaupalán bankans eru með 4,15% vöxtum en vextirnir í dag eru 6,4%."

Nú og svo kemur örugglega til sögunnar sérstakt yfirtökulánsgjald ca 1 - 2%. Ekki nema sanngjarnt því það fylgir því gríðarlegur kostnaður fyrir bankann að hækka vexti svona óforvarindis - ekki satt.

... og suðurströndin

fimmtudagur, 1. nóvember 2007

63 % hærra vöruverð og umhyggjan fyrir almenningi

“Hvernig getur Bónus bannað verðkannanir” spurði mig félagi minn sem býr erlendis. Hann hafði lesið um þetta í Mogganum og hringdi í kjölfarið í mig að utan. “Má maður sem sagt ekki spyrja um verið, er hægt að banna þetta?” hélt hann áfram og hló yfir þessu undarlega “banni”.

Margt er skrýtið hér á landi og ekki síst hin ömurlega uppákoma varðandi verðkönnunarsvindl í matvörubransanum. En sérkennilegri eru viðbrögð margra sem hringja inn í fjölmiðlanna og hafa enga sól séð skærari en þessar búðir, sem ku hafa bætt hag almennings að sögn aðdáenda, verslanir sem í raun hafa haft almenning að fíflum.

Væri sennilega skiljanlegt ef vöruverð hérlendis væri á hinum ás verðskalans þ.e. með því lægsta sem þekkist. Því er ekki að skipta enda verð hérlendis rúmum 60% hærra en meðalverð í Evrópu og gerist ekki hærra. Athyglisvert í þessu samhengi er t.d. mismunandi verðlag Bónuss á Íslandi og í Færeyjum?

Óþarfi að kyssa vöndinn. Verslunin er fjarri því stikkfrí í óðeðlilega hárri verðlanginu hérlendis. Væri verð 150% yfir Evrópuverðum ef ekki væri Krónan og Bónus? Í hverju liggja “kjarabætur” þessara verslanna og hver er “umtöluð umhyggja” eigendanna gangvart almenningi. Er hún fólgin í 63% yfirverði? Er íslenskt okur einhver góðmennska gagnvart almenningi?

Kjarni málsins er einfaldlega sá að það ríkir trúnaðarbrestur milli meginþorra almennings og þessara aðila. Mun sennilega líða langur tími þar til um grær ef það þá gerir það þá yfir höfðuð. Hver veit? Vonandi verður þessi ömurlega uppákoma til þess neytendavitund landsmanna aukist. Verslunarstarfsemi er ekki góðgerðastarfsemi.

þriðjudagur, 30. október 2007

Bankinn er ekki vinur þinn...

...eins og margir Íslendingar virðast halda. Vinur minn einn er óður út í síhækkandi útsvar bæjarfélaganna en hefur sig lítt í frammi þegar að afgjöld bankakerfisins eru annars vegar. Lætur sem sagt átölulaust að bankinn hirði 2-3 % umsýslugjöld af öllum hans peningum, skiptir í engum hvort hann leggur inn aura eða tekur þá út. Alltaf fær bankinn sitt og meira til. Meira að segja þegar hann greiðir niður lán fyrr en áætlað var þá greiðir hann sérstakt uppgreiðslugjald? Íslenska bankakerfið er eins og barn sem er með a.m.k. þrenn axlabönd og fimm belti til þess að halda uppi um sig stuttbuxum?

Fagna því að Björgvi G Sigurðsson viðskiptaráðherra láti sig þessi mál varða og gangi fram fyrir skjöldu í því skyni ná böndum utan um þessa vitleysu sem íslensk bankakerfið er vissulega orðið. Fagna einnig baráttu talsmanns neytanda Gísla Tryggvasonar í sömu veru. Vissulega tímabært að vinda ofan af sérkennileika hins íslenska bankakerfis sem felst í vaxtaokri, þjónustugjaldafíkn og fákeppni. Bankinn er ekki vinur þinn

laugardagur, 20. október 2007

Börn, unglingar og brennivín í búðum

Hvar eru talsmenn barna og ungmenna á Alþingi. Veit reyndar um nokkra sem hafa dug til þess að standa með börnum og unglingum í þessu samfélagi og taka yfirvegaða, ábyrga og upplýsta afstöðu á móti frumvarpi um sölu áfengis í matvörubúðum.

Sú staðreynd liggur fyrir að sala áfengis í verslunum muni leiða til verulega aukinnar áfengisneyslu barna og unglinga með tilheyrandi vandamálum. Þessa reynslu þarf ekki að sækja langt enda dæmin um slíkt allt í kringum okkur, frá Danmörku , Svíþjóð og Finnlandi svo nokkru dæmi séu nefnd, dæmi sem ekki er deilt um.

Þegar að málflutningur byggir á rangindum eins og að þetta hafi ekkert að segja gangvart íslenskum börnum og unglingum þá veltir maður fyrir sér í hvaða erindagjörðum flutningsmenn frumvarpsins eru? Ekki er ferðalagið í þágu velferarsjónarmiða gagnvart æsku þessa lands því ljóst má vera að aukin vandamál barna og unglinga eru léttvæg fundin og mun veigaminni en þau “meintu” þægindi miðaldra karlmanna að geta kippt með sér einni rauðvínsflösku í matvörubúðinni til að sötra með kjötbollunum og öðrum hversdags mat á virkum dögum. Fjarlægðin frá eigin nafla má ekki ráð för, málið er miklu stærra en það og auðvitað á velferð barna og unglinga að vera í öndvegi.

fimmtudagur, 18. október 2007

Af sænsku öli

„Mellanöl eller klass II var en form av öl med en maximal alkoholhalt på 3,6 % som började säljas den 1 oktober 1965 i vanliga livsmedelsbutiker. Redan den första dagen fanns det över 35 mellanölssorter att välja på.

Mellanölets lättillgänglighet angavs som starkt bidragande orsak till ungdomars alkoholskador och den togs därför bort ur livsmedelshandeln 1 juli 1977. (Auðvelt aðgengi að bjór var talin helsta ástæða áfegnisvandamála /skaða unglinga og var því hætt að selja bjór í matvöruverslunum 1. júlí 1977.)

Den 1 juli 1992 infördes två typer av skatteklass III, varav en omfattar öl med 3,5-4,5 volymprocent (2,8-3,6 viktprocent) alkohol. Dessa ölsorter kallas för "öl av mellanölstyp" och säljs endast på systembolag och restauranger."

Heimild: Wikimedia Sverige

Mjöður sá sem seldur er í verslunum í Svíþjóð er því max 2.8% að styrkleika allt annað áfengi er selt í sænska ríkinu "Systembolaget" – Undarlegur og ónákvæmur málflutningur í íslenska þinginu um áfengssölu í búðum í Svíþjóð? Tilgangurinn helgar meðalið – veit það ekki.

þriðjudagur, 16. október 2007

Danskar forvarnir...

...miða aðalega að því að fermingarbarnið drekki sig ekki undir borðið í sinni eigin fermingarveislu. Datt þetta i hug þegar að ég horfði á drottningarviðtal á Stöð 2 í gærkvöldi við Birgi Ármannsson einn flytjanda frumvarps um að fara að selja brennivín í stórmörkuðum. Vísaði þingmaðurinn til þess að gott væri nú að grípa með sér rauðvínsflösku í matarinnkaupunum, eins og það sé hin almenna regla Íslendinga að kyngja kvöldmatnum með rauðvíni. Flestir hafa auðvitað áttað sig á að þetta er fyrst og fremst óskhyggja brennivínssala. Það er margt annað í þessu máli sem orkar tvímælis, eins og til dæmis það að formaður heilbrigðinefndar þingsins sé meðflutningsmaður.

Heyrði ekki betur enn að þingmaðurinn hefði í hávegum danska áfengispólitík, þar sem frjálsræðið væri gott og blessað. En hvað með það birti hér að neða sýnishorn í dönskum forvörnum, fyrirheitna landið sem státar af mestu unglingadrykkju í heimi. Vona að hinir frjálshyggju þenkjandi öldnu ungliðar fari að hafa sig upp í víðara sjónarhorn í þessu máli og verði ekki eins og sendisveinar áfengisbransans, setji máli í víðara samhengi en að málið snúist um “rétt” þeirra að kippa með sér rauðvínsflösku í matarinnkaupunum (sem þeir reynda geta gert nú þegar með því að labba í nærliggjandi áfengisverslun). En hvað með það sjón eru sögu ríkari, dæmi um danskar forvarnir:

"Lær dit barn at omgås alkohol
Det kræver en del viden at opnå et fornuftigt og holdningsbetonet forhold til vin, øl og spiritus. Her er nogle fakta om alkohol. Skriv siden ud og prøv at diskutere de enkelte punkter med de unge.

1. Drik ikke på tom mave eller for hurtigt. Ellers bliver man hurtigere fuld, end man regner med.

2. Man får mest ud af små doser alkohol, da de gør en opstemt og frimodig. Drikker man for meget, bliver man sløv og syg og kommer til at gøre og sige ting, man bagefter fortryder.

3. Piger bliver hurtigere fulde end drenge, selvom de drikker den samme mængde alkohol. Det skyldes, at piger vejer mindre og ikke kan forbrænde så meget alkohol som drenge.

4. Det er ikke kun mængden af alkohol, der afgør, hvor fuld man bliver. Manglende søvn, tom mave, stress eller medicin forstærker alkoholens virkning.

5. Er man først blevet fuld, kan man ikke øge forbrændingsprocessen, så man bliver hurtigere ædru. Gamle husråd, der fortæller, at man skal drikke kaffe, løbe en tur, danse hele natten eller tage et koldt bad, er sejlivede myter.

6. Det er forbudt at køre bil, hvis man har en alkoholkoncentration på over 0,5 promille i blodet. Alkoholpromillen fortæller, hvor mange gram alkohol, der er i en liter blod.Promillens størrelse afhænger af
mange ting: Om man er dreng eller pige, hvor meget man vejer, hvor meget man har spist, eller om man har taget medicin.Alkohol forbrændes i leveren. Som grundregel forbrænder man konstant 0,1 g ren alkohol pr. kg pr. time. Det betyder, at det tager ca. 1 time for en dreng på 80 kg at forbrænde en øl, mens det tager en pige på 60 kg næsten to timer.

7. Selvom man synes, man har sovet sin brandert ud, kan promillen stadig godt være over de tilladte 0,5 næste morgen.

8. Øl, vin og spiritus omregnet til genstande:1 Brezer/ Ice svarer til 1 ½ genstand1 flaske vin svarer til 5 ½ – 6 ½ genstandeEn stærk øl svarer til ca. 2 genstande2 cl spiritus svarer til ½ genstand70 cl vodka svarer til 18-20 genstande"

Heimild: ForældreNetværk.dk / http://www.sikkertrafik.dk/52e000c

mánudagur, 15. október 2007

Ef verslunin getur ekki selt tóbak með sómasamlegum hætti...


... hvernig ætla sömu aðilar að selja viðkvæma vöru eins og áfengi. Birti hér niðurstöður kannana á tóbaksölu til unglinga í Hafnarfirði. Eiga barnungir starfsmenn stórmarkaða að afgreiða áfengi og það jafnvel til annarra barna?

föstudagur, 12. október 2007

Og síðan fer...

...fyrrverandi borgarstjóri á „pólitísk eftirlaun” sem munu felast í þægilegu starfi í Brussel eða á sambærilegum vettvangi. Munu sennilega ekki líða nema 8 - 12 mánuður þar til „eftirlaunin” verða frágengin og okkar maður mun auðvitað þykja happafengur í hverju því samhengi sem um verður að ræða – Er ekki tilveran einföld eftir allt saman.

fimmtudagur, 11. október 2007

Þegar að jarðsambandið rofnar...

... hefjast einhver undarlegheit. Margt sem áður hefur verið gert og fordæmi eru fyrir verður allt í einu til þess að allt fer á annan endann í samfélaginu. Almenningur sem hefur látið ýmislegt yfir sig ganga fær allt í einu nóg.

Viðbrögð stjórnmálamanna sem í ýmsu hafa staðið verða undarleg og í fullu ósamræmi við þjóðarsálina sem er einfaldlega nóg boðið. Stjórnmálamenn takandi dæmi út og suður um sambærilegar aðgerðir, átölulausar og sama marki brenndar og þessi dæmalausa vitleysa sem átt hefur sér stað í kringum OR og dótturfyritæki þess.

Margir stjórnamálmenn skilja greinlega ekki hlutverk sitt sem felst í því að vera fulltrúar almennings fremur en hagsmungæsluverðir fárra og einkahagsmuna þeirra eins og virðist lenska hjá almörgum pólitíkusum.
OR málið er í raun bara eitt af mörgum sambærilegum málum, eins og áður sagði. Það eina sem er merkilegt við það er að allt í einum ofbauð almenningi þessi grímulausa eigantilfærsla almenningseigna og einkavinavæðing sem viðgengist hefur í hinu íslenska samfélagi árum saman.

Tæknilegar útskýringar, fundartæknileg atriði, hver má kaupa hvað sem og annað í þessu OR máli verður í þessu samhengi eins og hvert annað aukaatriði. Þetta skilja margir stjórnmálamenn ekki og eru því úti á þekju dögum saman rúnir trausti, berskjaldaðir, teknir í bólinu, undrandi og bendandi á tilstand sem viðgengist hefur lengi, fatta ekki að þetta snýst að nánast öllu leyti um dropann sem fyllt mælinn. Sennilega bara „óheppni” viðkomandi stjórnmálamanna að vera á röngum stað á röngum tíma?

föstudagur, 5. október 2007

"Vandi" leikskólanna

Það er átakanlegt að fylgjast með umræðu síðustu vikna um “vanda“ leikskólanna. Í stað þess að ráðast að kjarna vandans þá fabúlera sveitarstjórnarmenn út og suður um rekstrarfyrikomulag og einkavæðingu leikskólans sem einhverja lausn. Rætt er um að greiða fólki fyrir að vera með börnin heima, fyrirtækin eiga leysa vandann og ég veit ekki hvað og hvað. Er mönnum illa við börn spyr maður, eru börn afgangsstærð í þessu þjóðfélagi.

Lausn vandans liggur algerlega í augum uppi. Hin grjótharða láglaunstefna sveitarfélagana sem launanefnd sveitarfélag framkvæmir í umboði sveitarfélaganna og viðheldur af einstökum myndarskap er kjarni þessa vanda. Sveitarstjórnarmenn mega ekki láta afar lágar tölur í hógværu launabókhaldi sveitarfélagan blinda sér sýn.

Laun gerast ekki lægri en dæmi eru um á leikskólum nema þá hjá afar óvönduðum starfsmannaleigum. Vandann má því leysa mjög einfaldlega samfélaginu til heilla með því að hækka laun fyrir þessi mikilvægu störf. Það er hlutverk sveitarstjórnarmanna að sjá til þess að svo verði, annað eru útúr dúrar og orðhengilsháttur – Það þarf bara að bretta upp ermarnar og henda þessari grjóthörðu láglaunastefnu sveitarfélaganna út á hafsauga.

þriðjudagur, 2. október 2007

BBC...

... er ekki á auglýsingamarkaðinum -finnst það íhugunarvert að RÚV geri hið sama. Velti fyrir mér þessu gríðarlega auglýsingaflóði sem dynur á fólki . Hlutfall auglýsinga í fjölmiðlum og kvikmyndahúsum er langt yfir þanmörkum og virðist aukast ef eitthvað er. Sýningar í kvikmyndahúsum hefjast ekki fyrr en 15 - 20 mínútum eftir auglýstan tíma vegna auglýsinga. Allt að 70 - 80 % efnis í fríblöðum eru auglýsingar og þá er ekki tekið mið að auglýsingatengdri umfjöllun. Sama á við um áskriftarblöðin, mörk umfjöllunar og aulýsinga verða stöðugt óljósari Sjónvarpsþættir eru partaðir niður vegna auglýingahléa og svona mætti lengi telja.

Síðan er innhald auglýsinga allt önnur Ella. Auglýsingar sem margar hverjar eru því marki brendar að verða ein alherjar sjálfsupphafning á ágæti viðkomandi fyrirtækja sem fer langt upp yfir þau mörk sem í daglegu máli er kallað mont. Síminn sem býður upp á hæstu símagjöld um víðan völl er yfir veraldarsöguna hafin. Landsbankinn sem tekur af heilum hug þátt í vaxta- og þjónustugjaldaokri auglýsir fólk sem fær ekki frið fyrir peningum sem eltir það út um allt? Og svona mætti lengi telja upp auglýsingar sem byggja á ofurmonti og hroka gangnvart raunveruleikanum.

Í þessu ljósi væri ekki slæmt að hafa einhver staðar skjól og er þá ekki útvarp allra landsmanna RÚV akkurat sá staður - Af stofnunnin yrði tekin sá beyski kaleikur að vera í tómu vesen með áfengisauglýsingar sem og með öðrum auglýsingum sem sérstaklega er beint að börnum í kring um barnaefni stöðvarinnar.

fimmtudagur, 27. september 2007

Auglýsingar og börn

Sjónvarp allra landsmanna RÚV auglýsir ekki bara áfengi. Margar auglýsingar í kringum barnaefni eru langt handan við siðferðileg mörk og ekki í samræmi við lög. Ég hef um langa hríð undrast hve lengi og með hve gófum hætti RÚV þverbrýtur löggjöf af þessum toga að virðist algerlega átölulaust.

Ef RÚV getur ekki viðhaft virðugleika sem slíkri stofnun ber, þá þarf stofnunin utan að komandi aðstoð. Handhafi hlutabréfsins þarf að taka í taumana ef ekki vill betur til - Hvað ætla menn að gera ef RÚV /útvarpsstjóri verður dæmur fyrir brot á áfengnislöggjöfinni eða vegna ólöglegra auglýsinga í kringum barnaefni. Ekki ætlar RÚV að láta dæma sig til þessað fara eftir landslögum.

Það er auðvitað bara einn möguleiki þegar og ef þessi staða kemur upp, útvarpsstjóri stendur upp og fer. RÚV - útvarp allra landsmanna hefur ríkar skyldur og þarf að standa undir nafni - einhver smákrimma viðhorf eins þessu áráttubrot bera vott um eru langt fyrir neðan virðingu RÚV og hvorki RÚV né neinum öðrum miðlum sæmandi.

sunnudagur, 23. september 2007

Er Mogganum illa við æsku þessa lands

Hef átt samleið með Morgunblaðinu um langt skeið, hefur fundist margt þar á bæ vel gert og Mogginn í raun haft ákveðin standard. Hef reyndar allt aðra pólitíska ideologiu en praktiseruð er á blaðinu. Eitt af því sem Mogginn hefur haft í þokkalegu standi og sennilega best íslenskra fjölmiðla hingað til er t.d sú hófsemi sem blaðið hefur sýnt í meðhöndlun áfengisauglýsinga sem eins og kunnugt er eru algerlega ólöglegar. Með þeirri stefnu sinn fannst mér Mogginn sýna mun meir ábyrgð en t.d RÚV sem þverbrýtur þessi lög átölulaust kvöld eftir kvöld og vanvirðir kerfisbundið lögvarin rétt barna og unglinga til þess að vera laus við áróður af þessu tagi.

Nú er greinilega heldur betur af sem áður var hjá Mogganum því í blaðinu í morgun eru a.m.k. fimm heilsíðu áfengisauglýsingar. Sami gamli útúrsnúningurinn um "léttöl" í eins umbúðum og áfengi og fæst hvergi eða í besta falli nokkrar flöskur í horni einhverrar ótilgreindrar verslunar. Í Svíþjóð hefur dómskerfið meðhöndlað þessar auglýsingar sem útúrsnúning og vanvirðu við siðferðilegan boðskap sambærilegra laga og hér eru. Fyrir áhugfólki um dómsmál má benda á hinn s.k. Åbrodóm.

En hvað með það Mogginn kominn í félagsskap þeirra sem misvirða rétt barna- og unglinga og virða lög um bann við áfengisauglýsingum að vettugi. Ekki dettur mér í hug að eiga frekari samneyti við slíka aðila. Áfengisauglýsingar með morgunkorninu er ekki sá pakki sem ég býð mínum börnum upp á - sagði því upp áskrift minni dags dato og fór með bloggið á fornar slóðir. Synd að Mogginn geti ekki hafið sig upp yfir þessa lágkúru.

fimmtudagur, 1. febrúar 2007

Ríkustu fátæklingarnir eru á Íslandi

Segir „brauðmolahagfræðingurinn” Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Vegna þess hve ( ekki hvers vegna ) hinn íslenski aðall hefur auðgast á síðust árum þá hafi leifarnar flætt út um allt og gert íslenska fátæklinga að þeim ríkustu í Evrópu. Ef við erum eitthvað óhress með þetta þá flytur bara íslenski aðalinn í heilu lagi til Lúxemborgar þar sem skattar ku vera ákaflega lágir. Réttast væri því að halda aðlinum ánægðum og búföstum herlendis og auðvitað lækka skattana a.m.k. hjá aðlinum. Með þessu munum við íslendingar sennilega eignast moldríka fátæklinga, þá lang ríkustu í heimi.

Löng skólaganga hefur ekkert samhengi við ýmsar mannsins eigindir. Skil ekki hvernig maður sem hefur verið í skóla allt sitt líf horfir fram hjá þeim grundvallar spurningum þessa máls sem auðvitað eru; skipting þjóðartekna, fákeppnin, ofurvöruverð, vaxtaokrið, einkavinavæðingin, kvótabraskið o.fl. o.fl. Allt atriði sem valdið hafa því að til er orðinn moldríkur íslenskur aðall sem veit ekki aura sinna tal. Brauðmolahagfræði a la Thatcher og Regan leysir ekki óréttláta tekjuskiptinu hérlendis, sem heldur okkar ríku fátæklingum, okkar minnstu bræðrum, í eða við ómegðarmörk. Það er einfaldlega vitlaust gefið og það þarf ekki að flagga neinum gráðum til þess að sjá það.

þriðjudagur, 23. janúar 2007

Rafrænar útivistarreglur

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég og jafnaldrar mínir, foreldrar unglinga dagsins í dag, héngum út í sjoppu og ræddum, fjarri foreldrum okkar, hin mikilvægu málefni hver var skotinn í hverri eða öll önnur þau mál sem unglingar spjalla um og tilheyra þeirri vegferð að verða fullorðin manneskja, að koma sér upp sjálfstæðum skoðunum og vonandi sem jákvæðustu sjálfsmynd.

Fyrir okkur foreldra unglinga dagsins í dag getur reynst erfitt að setja okkur inn í aðstæður unglinganna. Vegna mjög örra þjóðfélagsbreytinga þá er sérhvert æskuskeið einstakt og við sem eldri erum getum ekki notað nema að hluta til reynslu okkar eigin unglingsára við uppeldi barna okkar.

Þetta ástand skapar óöryggi meðal fullorðinna og oft fordóma gagnvart ungu fólki, æskan er ávallt að fara í hundana? En er þó ekki farin eftir öll þessi ár. Unglingum er kennt um margt sem aflaga fer eins og það sé unglinga að mynda ramma um sitt líf en ekki okkar foreldranna. Útihátíðir í gegnum árin eru dæmi um slíkt. Hinir eldri gagnrýna unglinga hvers tíma fyrir sukk og svínarí á útihátíðum í stað þess að setja „hátíðum” af þessum toga einhvern sæmandi ramma. Foreldrar fjargviðrast yfir aukinni unglingadrykkju en eiga samt sem áður viðskipti við fyrirtæki sem stuðla beint að aukinni unglingadrykkju með því að auglýsa átölulaust ólöglega áfengi þar sem börn og ungt fólk er markhópurinn? Ábyrgðin er ekki annars staðar hún er hjá okkur. Það eru við hin eldri sem látum hluti viðgangst.

Margt hefur verið skrafað um netið, tölvutæknina og unglinga. Oft í neikvæðum tón en oft sem betur fer undir jákvæðum formerkjum. Vissulega er margt í netheimum sem ekki veit á gott en það er ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Allt sem á netinu finnst á sér forsögu, þeim sem gengur illt eitt til, þeir finna sjúkleika sínum farveg í gegnum nýja tækni fremur en að sjúkleikinn sé nýr. „Farðu ekki upp í bíl með ókunnugum”, á sér því miður hliðstæður í netheimum.

Þrátt fyrir þessa annmarka sem hin nýja og heillandi tækni hefur í för með sér þá er ljóst og klukkunni verður ekki aftur snúið. Fólk sem ekki þekkir þessa heima þarf auðvitað að gera sér ferð á þessar slóðir og kynna sér þessar víðfemu lendur af eigin raun. Vandi málsins er að í þessari nýju veröld hefur verið nokkur brestur á að fólk viðhafi samskipti, sem ekki eru af sömu kurteisi og útfrá sama siðferði og ríkja í öðrum daglegum samskiptum milli fólks almennt. Í þessu ljósi ber að fagna frumkvæði Heimilis og skóla með SAFT verkefninu, sem fjallar um bætt siðferði og samskipti á netinu. Löngu tímabær umræða, gagnleg fyrir alla aldurshópa og nauðsynleg ef við ætlum að byggja upp siðað samfélag.

MSN-ið og sú tækni er í eðli sínu meinlaus. Þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi í samtímanum að vera einhverskonar „rafrænt sjoppuhangs” þess vegna þurfa foreldrar eins og áður að setja ungmennum ákveðnar rafrænar „útivistarreglur”. Margir unglingar hafa tölvur í herbergjum sínum og geta verið „úti“ eins lengi og þeim sýnist. Foreldrarölt á ekki bara að felast í göngutúr um nánasta hverfi unglinganna, röltið þarf auðvitað einnig að vera rafrænt. Hvet lesendur til þess „rölta um” og kíkja á heimasíður unglinga og fylgast með því sem þar fer fram. Dást að því sem vel er gert en benda óhikað á það sem miður fer og bæta má úr. Eyðum ekki orku í að úthúða tækninni, tökum henni fagnandi, skiptum okkur af, höfum áhrif og styrkjum góðu hliðarnar. En umfram allt, það er okkar foreldranna að setja rammana. Ef við foreldrar gerum það ekki þá gera það einhverjir aðrir, sem ekki endilega hafa velferð barna og unglinga að leiðarljósi.

föstudagur, 12. janúar 2007

Veraldlegar skuldir almættisins

Er að öllu jöfnu engar – skyldi maður ætla - nema í Hafnarfirði. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti, en sagan segir að almættinu hefði áskotnast hús við Austurgötu í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Ónefndur Guðsmaður, einn af fjölmörgum umboðsmönnum almættisins hér á jörðinni, fékk þá köllun að ánafna Guði hús sitt að sér gengnum. Þar sem þessi mikla þörf kom skyndilega upp þá var úr vöndu að ráða varðandi löggildingu erfðaskrárinnar.

Okkar maður dó ekki ráðalaus og skundaði að Bessastöðum árla sunnudagsmorguns, sennilega ögn fyrr en fyrir hefðbundin fótaferðartíma fólks, og bankaði á dyrnar. Forsetinn þáverandi sem einhverjir hafa haldið fram að hafi verið „nokkur gleðimaður” fór í eigin persónu til dyra og hitti Guðsmanninn. Það sem síðan á sér stað var andans verk í öllum skilningi, eða andanna verk því andi þeirra, sem báða höfgaði var af ólíkum meiði. Hvað með það úr varð að þjóðhöfðinginn setti nafn sitt á erfðaskránna, stipmlaði og gaf henni í krafti embættisins löggildingu og þar með nokkurskonar þinglýsingu.

Eins og fyrir okkur öllum liggur þá yfirgaf Guðsmaðurinn þetta jarðríki og þar með var almættið orðið lögformlegur eigandi húss við Austurgötuna í Hafnarfirði. Allt gekk þetta ljómandi vel fyrir sig þangað til að bæjaryfirvöld byrja að gera kröfu á að börn Guðsmannsins greiði af eiginni fasteignargjöld? Þar sem þau voru ekki lögformlegir eigendur þá neituðu börnin skiljanlega að greiða af eiginni. Gekk svo um margra ára skeið og það sem verra var, viðhaldi húsnæðisins var verulega ábótavant. Reyndar var ástandið þannig að húsið mátti muna sinn fífill fegurri.

Hafnfirsk stjórnsýsla dó ekki ráðalaus og gagnvart henni eru allir jafnir. Vandmálið var augljóst stórfeldar fasteignaskuldir, viðhaldi hússins verulega ábótavant og það sem verst var að fjölmörgum erindum og tilmælum bæjarins var ávallt sýnt fálæti. Eigandinn hafði með öllu sniðgegnið réttmætar kröfur og ábendingar virðulegra hafnfirskra embættismanna.

Það var þá ekkert annað í stöðunni en að senda greiðsluáskorun, hvert sem hún var nú send (einhverjir halda því fram að bæjarlögmaðurinn hafi af þessu tilefni verið sendur í messu) og í kjölfarið, ef ekki yrði við brugðist, efna til uppboðs og leysa til sín eignina upp í vanskil.

Menn segja að sá löggerningur, uppboðið og hafi farið fram á eigninni í fjarveru eigandans, sem hafi vakið undrun embættismanna bæjarins. Bærinn eignaðist bæði húsið og lóðina og lauk þar með veraldarvafstri almættisins í bili a.m.k. Húsið var rifið og stendur lóðin enn þann dag í dag auð. Hvers vegna veit ég ekki – kannski vilja embættismenn bæjarins leita álits og hugmynda fyrri eiganda um framtíðarnot lóðarinnar – hver veit og hver segir að þetta eigi allt saman að vera einfalt. Reglugerðarriddarar sigra alltaf að lokum – held ég, a.m.k. hérna megin.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Kalt eða skítkalt

Meintar alþýðuhetjur, sem að eigin sögn hafa kýlt niður vöruverð í landinu okkur smælingjunum til hagsbóta, segja fátt þessa daganna. Ástæður augljósar hæsta vöruverð hérlendis í Evrópu og þó víðar væri leitað, 62% yfir meðalverði í EB/ES löndum segir Mogginn. Er góðmennskan og bjargræðið fólgið í því að vera bara 62% yfir velsæmismörkum en ekki 110% eins og „vondu karlarnir” sem öllu réðu áður myndu örugglega hafa gert?

Málið er einfalt verslunin leggur eins mikið á vörur eins og hún kemst upp með hverju sinni. Verslun í landinu er nánast öll komin á eina hendi og fákeppni leiðir til þess að íslenskar „lágvöruverðsverslanir" bera síður en svo nafn með rentu. Fullkomin öfugmæli eins fram kemur í þeirri verðlagskönnun sem vitnað er til þessa daganna. Hvers vegna er verðlag í Bónus í Þórhöfn í Færeyjum mun lægra en í Bónus í Hafnarfirði? Eru markaðsaðstæður á þessari litlu, torsóttu og fámennu eyju Færeyjum þess eðlis að slíkt sé mögulegt?

Það þýðir ekkert að bjóða manni upp á endalausar langlokur um hið hryllilega landbúnaðarkerfi sem allt skemmir? Alþýðuhetjur sem og aðrir í sétt kaupmanna og heildsala í þessu landi( sem reyndar oft er sami mannskapurinn) þurfa að kunna sér hóf í verðlagningu í stað þess að efna til endalausra málfundaæfinga um að hátt vöruverð sé með öllu öðrum að kenna en þeim sjálfum. Ísland hefur ekki einkaleyfi á tollum og reglugerðum, þær eru alstaðar eins og blessaður búfénaðurinn og allt það regluverk sem honum fylgir.

Er tími pöntunarfélaganna að renna upp – aftur? Veit það ekki – velti því hins vegar fyrir mér hve langt og lengi þessi okurstefna hefur gengið. Kalt eða skítkalt – sennilega allir orðnir dofnir af langvarandi kulda og trekk, þekkja ekki lengur yl og hvað þá hita.

þriðjudagur, 2. janúar 2007

Skattleysismörk

Það er magnað að skattleysismörk hér á landi séu ekki verðtryggð eins og flest annað, nema launin. 136.000 krónur ættu skattleysismörkin að vera í dag ef þau hefðu fylgt verðlagi eins og ætlast var til að þau gerðu í upphafi. Mörkin voru fyrir áramót 78.000 krónur en fara nú í 90.000 krónur. Vantar ennþá 46.000 krónur upp á að þau haldi m.v.upphafleg markmið.

Ekki nóg með það að laun séu lág hérlendis þegar miðað er við helstu nágrannalönd okkar, heldur virðist það vera svo að láglaunahóparnir í samfélaginu, sem og öryrkjar og eldri borgarar séu skattlagðir sérstaklega umfram sambærilega hópa í öðrum löndum með þessum óeðlilega lágu og óverðtryggðu skattleysismörkum. Ekki sæmandi ástand og í raun furðulegt að stjórnvöld virðast ekki líta á þetta óréttlæti sem sérstakt úrlausnarefni sem setja þarf í forgang og leysa. Undarlegt þjóðfélag sem heldur fjölda sinna þegna á mörkum ómegðar með háskattastefnu og lágum launum mitt í góðærinu.

Óska lesendum síðunnar gleðlegs árs og farsældar á árinu.