þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Öll gagnrýni afþökkuð


Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði sendir mér tóninn í grein í Fréttablaðinu 5. ágúst s.l. undir titlinum „Fagleg umfjöllun óskast!“ og vísar til skrifa minna um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Mér þykir leitt að bæjarfulltrúinn hafi ekki getað gert skrifin mín sér að góðu og velti fyrir mér hvort það geti ekki talist hluti þess vanda sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur komið sér í á vettvangi æskulýðsmála. Ekki endilega skrif í mín um æskulýðsmál, ekki síður algert samráðsleysi við fag- og fræðaumhverfið og þá aðila sem málið varðar. Vandi sem felst í grundvallarbreytingum sem var þvingað í gegnum bæjarstjórn umræðulaust á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi og komið til framkvæmda nánast sama dag með tilheyrandi uppsögnum o.fl. Fulltrúar þessara aðferða bregðast svo við opinberri umræðu með greinum eins og „Fagleg æskulýðsmál í Hafnarfirði“ og „Fagleg umræða óskast!“ ómstrítt í meira lagi, svona svipað eins og Raggi Bjarna að spila pönk. Ferli þessa máls segir allt sem segja þarf.

Annað er fúsk – hitt er fagmennska
Bæjarfulltrúinn vísar til umdeildra skipulagsbreytinga í Reykjavík sem hann telur sambærilegar breytingum í Hafnarfirði, sem er rangt í öllum meginatriðum. Í Reykjavík var tekist á um hvort heildstætt og vel starfandi svið Íþrótta- og tómstundamála (ÍTR) ætti að hluta til eða að öllu leiti falla undir annað stjórnsýslusvið eða halda áfram í sömu mynd. Umræðan snerist fyrst og fremst um vistun málaflokka og í þessu tilfelli var æskulýðshlutinn þ.e. frístundaheimili, frístunda- og félagsmiðstöðvar fluttar á nýtt svið, Skóla- og frístundasvið (SFS) Þessum hluta æsklýðsstarfseminar er stýrt af skrifstofu frístundamála af fv. æskulýðsfulltrúa ÍTR sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra frítímamála og tekur sem slíkur bæði rekstrar- og faglega ábyrgð á málaflokknum.
Í Hafnarfirði var skrifstofa íþróttamála í raun lögð niður og starfsemi skrifstofu æskulýðsmála (ÍTH), sem verið höfðu undir félagsþjónustu, flutt í afar breyttri og smættaðri mynd undir forræði fræðslusviðs. Í Hafnarfirði eru einstakir skólastjórar gerðir ábyrgir fyrir starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila hver í sínum ranni. Öll sú þekking, menntun og reynsla sem fyrir er,er að engu gerð – foræðið í formi rekstarábyrgðar flutt til skólastjórnenda sem hafa enga þekkingu á þessu sviði. Niðurstaðan sú að forsendur starfsins hvíla algerlega á herðum óskyldra aðila þ.e. einstakra skólastjóra. Í annari deild innan fræðslusviðsins, æskulýðs- og íþróttadeild situr einhverskonar ráðgjafi, umboðslaus með öllu, án starfsmanna- og fjárforræðis, sem nefndur er „fagstjóri frístundastarfs“ eins og hér sé um að ræða einhverja einstaka kennslugrein í almennu skólastarfi eins þetta starfsheiti gefur til kynna?

Grundvallarmunur
Á þessu tvennu er alger grundvallarmunur. Í tilfelli Reykjavíkurborgar voru tiltekin viðfangsefni flutt milli tiltekinna sviða án nokkurs afsláttar á fag- og fræðilegum vinnubrögðum og eða rekstrarlegum forsendum. Starfsemi heldur áfram og þróast í anda þeirrar fagmennsku sem viðhöfð er bæði hjá ÍTR og SFS. Í Hafnarfirði er forræði og ábyrgð á starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimilinna færð undir forræði skólastjórnenda hvers á sínum stað sem enga sérþekkingu hafa á málaflokknum. Slíkar hugmyndir voru í hávegum hafðar af ýmsum skólamönnum fyrir margt löngu eða um 1970, fyrir tíma frístundaheimilanna, en voru slegnar út af borðinu af framsýnum mönnum eins og Markúsi Erni Antonssyni dugmiklum þ.v. formanni Æskulýðsráðs Reykjavíkur (ÆR), frumherja og baráttumanni sem, ásamt öðrum slíkum Hinriki Bjarnasyni þ.v. framkvæmdastjóra ÆR, lögðu drög að félagsmiðstöðvavæðingu Reykjavíkurborgar sem var mikið heillaspor fyrir Reykvíska æsku og reyndar æskuna almennt í landinu þar sem frumkvæði borgarinnar hafði víða áhrif og varð framsæknum bæjarfélögum til eftirbreyttni.

Ef bæjarfulltrúinn greinir ekki munin á þessu tvennu og telur skipan mála í Reykjavík sambærilega við Hafnarfjörð þá er sú vandræðalega staða sem uppi er í þessum málum í Hafnarfirði sjálfboðin og liggur í hlutarins eðli. Sýnir í reynd nauðsyn þess að vanda til verka, bæði hvað varðar innihald og málsmeðferð stjórnsýslubreytinga, sem í þessu tilfelli hefur verið algerlega óboðleg ferli frá A-Ö. En áfram skal haldið, hvað sem tautar og raular, í nafni þokukenndra og algerlega órökstuddra frasa um bætta þjónustu, samráð o.fl í þeim dúr, ef marka má skrif bæjarfulltrúans. Affarasælast væri hins vegar fyrir bæjaryfirvöld vinda ofan af þessu skipulagsslysi þegar í stað og vinna þetta af virðingu og í samræmi við mikilvægi málflokksins í samvinnu við þá sem málið varðar og af fagmennsku.

mánudagur, 3. ágúst 2015

Af faglegum æskulýðsmálum í Hafnarfirði


Forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og og formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar rita grein í Fréttablaðið þ. 21. júli s.l.  Grein þeirra  Faglegt æskulýðsstarf í Hafnarfirði og er sennilega sett fram sem einhverskonar svar við grein minni í Fjarðarpóstinum þ.9 júli s.l. er nefndist Er björt framtíð í æskulýðsmálum (í Hafnarfirði) sem og umfjöllun Hafnfirska vefmiðilsins Bærinn okkar undir fyrirsögninni Í ruslflokk á sviði æskulýðsmála. Eins og fyrirsagnirnar gefa til kynna þá má vera ljóst að vera að sitt sýnist hverju hvað varðar skipulagsbreytingar í æskulýðsmálum hjá bæjarfélaginu. Sá sem þetta ritar getur vel tekið undir það að æskulýðsstarf í Hafnarfirði sé faglegt því hjá ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar)  starfar fjöldi vel menntaðra og hæfileikaríkra starfsmanna af heildindum og trúmennsku en við stórfellt  skilningsleysi bæjaryfirvalda á þessum mikilvæga málaflokki. Í grein forseta og formanns ÍTH er nánast í engu fjallað um stjórnsýslubreytingar æskulýðsmála sem slíkar en þess í stað, rætt um að tillögur geti miskilist, nú þurfi að fara fram samtal, fólk eigi ekki að vera hrætt við breytingar m.m.

Kjarni málsins er þessi
29. júní s.l. voru tillögur um stjórnsýslubreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ fyrst “ kynntar“  bæjarfulltrúum á lokuðum fundi og í kjölfar „kynningarinnar“ var haldin sérstakur auka fundur í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.  Um 90 mínútum eftir að „tillögurnar“ voru fyrst gerðar opinberar var búið að samþykkja æskulýðshluta þeirra af meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar?  Algerlega umræðulaust, án samráðs eða skoðannaskipta við nokkra þá sem málið raunverulega varðar eða snertir,  án  samráðs eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, án samráðs við ungmenni í ungmennaráði Hafnarfjarðar, án nokkurar kynningar eða opinberrar umræðu í bæjarfélaginu.  Í kjölfarið var svo einhverjum lykilstjórnendum æskulýðsmála sagt upp störfum. Og nú síðast þá hafa  grunnskólar Hafnarfjarðar auglýst laus störf í æskulýðsgeiranum og þá væntanlega í samræmi við nýtt "skipurit".  Að sögn forseta bæjarstjórnar (sbr upptöku af fundi bæjarstjórnar þ. 29. júní) var nauðsynlegt að samþykkja þessar tillögur til þess að skólastjórnendur gætu hafið nauðsynlegan undirbúning nú þegar.

Fúsk
Stjórnkerfisbreytinguna bráðnauðsynlegu er því miður ekki hægt flokka undir annað en fúsk. Oft á tíðum hafa málaflokkar og deildir verið fluttir á milli sviða í bæjarfélögum en haldið viðfangsefnum sínum í öllum meginatriðum. Í þessu tilfelli er gengið mun lengra því samþykktin felur í sér að frístundaheimili  og félagsmiðstöðvar bæjarfélagins eru settar undir forræði einstakra skólastjórnenda (eins og þeir hafi ekki nóg að sinni könnu)  en æskulýðs- og íþróttafulltrúi  verði  „fagstjóri“  frístundamála sem muni hafa það hlutverk ráðleggja skólastjórnendum, sem ekki hafa neina sérþekkingu í tómstunda- og félagsmálafræðum um það hvernig á að reka slíkt starf í stað þess að æskulýðsdeildin geri það og með ágætum eins og verið hefur?  Talandi um að einfaldar boðleiðir,  sem var ein af fáum röksemdunum fyrir þessum undarlegu breytingum. Önnur röksemd var að skólarnir starfi eftir s.k. SMT agastjórnunarkerfi en það geri æskulýðsstarfið ekki?  Svo sé „eðlilegt“ , af því starfsemin sé í sama húsnæði,  að skólastjórar fari með forræðið?  Í þeim nokkru og fátæklegu línum sem eignaðar eru æskulýðsmálum að öðru leiti í þessari skýrslu er rúsínan í pylsuendanum  þessi „Tillagan er rökstudd bæði út frá faglegum og rekstrarlegum sjónarmiðum“.  Þrátt fyrir afar ítarlega leit finnast þessi faglegu rök ekki enda augljóst af lestri skýrslunnar að hvorki Capcent , R3, og HLH ehf búa ekki yfir neinni faglegri þekkingu að sviði æskulýðsmála. 

Spurt er
Á agastjórnunarkerfi skólanna að marka alla tilveru barna og ungmenna og hvernig getur slíkt verið ástæða til grundvallarbreytinga í æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Eiga hafnfirsk ungmenni sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda þess í frítíma sínum? Hvaða sérþekkingu hafa skólastjórar á sviði tómstunda- og félagsmálafræða? Er ekki bara tilvalið að skólastjórar sinni alfarið því sem þeir eru bestir í sem að öllu jöfnu er að reka skóla? Um þetta mætti hafa mörg fleirri orð en verður ekki gert að sinni.

Að lokum
 „Ræðum málin til enda“ skrifar forseti bæjarstjórnar sem hljómar reyndar ekki sérstaklega sannfærandi.  Í fyrsta lagi þegar staðið er frammi fyrir orðnum hlut í æskulýðsmálum og í öðru lagi þegar litið er á ferli þessa máls í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.  Ef forseti  bæjarstjórnar meinar eitthvað með þessum skrifum þá er fyrsta skrefið af hans hálfu að draga þessa samþykkt til baka og skapa með því raunverulegar forsendur til alvöru samtals um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Ekki veitir af því öll viljum við áframhaldandi  faglegt æskulýðsstarfi í Hafnarfirði – ekki satt?


Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 29. júlí s.l.