þriðjudagur, 28. mars 2006

Kæri pennavinur

„Ágæti ríkissaksóknari
Tel það borgaralega skyldu mína að vekja athygli yðar á meðfylgjandi heilsíðu áfengisauglýsingu frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem birtist í tímaritinu Birtu 25. mars á síðu 57. Vek einnig athygli embættisins á að í Fréttablaðinu ( m.a. á forsíðu og baksíðu blaðsins 25.mars) auglýsir fyrirtækið HÓB Faxe bjór eins og skilmerkilega kemur fram á mynd í auglýsingunni Faxe -Danish lager beer. Samkvæmt íslenskum lögum og út frá velferðarsjónarmiðum um vernd barna og ungmenna eiga þau rétt til þess að vera laus við áreiti af þessum toga. Í þeim tilfellum sem hér eru tíunduð er um einlægan brotavilja og ásetning að ræða. Sem foreldri og almennur borgari í þessu landi geri ég kröfu um að sú vernd sem lög um bann við áfengisauglýsingum á að veita börnum og unglingum sé virt. Svo er ekki og því er nauðsynlegt fyrir yður að grípa til þeirra úrræða sem embættið hefur gangvart lögbrotum.

Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson"

laugardagur, 25. mars 2006

Tótalráðgjöfin

Er flottur ráðgjafavefur sem Hitt húsið í Reykjavík heldur úti. Alvöru ráðgjöf til ungs fólks gefin af okkar hæfasta fagfólki. Sjón er sögu ríkari. Tótalráðgjöf

laugardagur, 18. mars 2006

Heldur margur mig sig?

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður er þessa daganna í deilum við okkar helstu heilbrigðisvísindamenn um tengsl óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Sigurður er einnig mikil baráttumaður fyrir því að selja áfengi í matvöruverslunum sem og að leyfa auglýsingar á áfengi. Sigurður er því með mörg járni í eldinum og hefur í mörg horn að líta.

Ekki dettur mér í hug eina sekúndu, sem áhugamanni um viðskiptasiðferði og velferðarmál barna og ungmenna, að halda því fram að þingmaðurinn sé í þessari baráttu sinni í umboð sígrettu- og áfengisbransans. Ég held einfaldlega að þetta séu staðfastar skoðanir þingmannsins og spekulasjónir um annað séu út í hött.

Í þessu ljósi er auðvitað nokkuð sérkennilegt hvernig þingmaðurinn vinklar umræður um vatnalög og heldur því staðfastlega fram að Ögmundur Jónasson samstarfsmaður minn í stjórn BSRB nýti samtökin eins og deild í VG. Verð því að velta því fyrir mér hvort þingmaðurinn Sigurður sé ekki sammála mér um mitt mat á störfum hans sjálfs (þ.e. Sigurðar). Eru stjórnmálamenn rígbundnir á klafa hjá hagsmunaaðilum. Er frumvarp um afnám áfengisauglýsingabanns í boði bjórframleiðenda?

Í stjórn BSRB er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Margir af nánustu samstarfsmönnum Ögmundar Jónassonar eru flokksfélagar Sigurðar. Ögmundur Jónasson þiggur ekki laun hjá BSRB ólikt því sem t.d. fyrverandi þingmaður sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands gerði. Sem formaður BSRB hefur Ögmundur ávallt haft eitt markmið og það er að þjóna hagmunum allra sinna umbjóðenda. Í þeim efnum hefur hann verði kröftugur talsmaður auk þess sem hann hefur ávallt staðið vörð um velferð þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.

Aðgangur að vatni eru mannréttindi en ekki söluvara . Öll hin alþjóðlega umræða lýtur að því og þeim skoðunum má finna stað í ýmsum alþjóðasamningum. Umræðan hér á landi þarf því að vera á hærra plani en því að gera lítið úr þverpólitískum samtökum eins og BSRB sem og formanni samtakanna með brigslyrðum af þeim toga er Sigurður Kári gerir.

þriðjudagur, 14. mars 2006

Af veruleikanum

Launanefnd sveitarfélaga lætur ávallt eins og bæjarstarfsmannastarfsmannafélög séu öðru vísi en þau í raun eru og kemur fram við þau sem slík. Skapalón launanefndar er félag X sem samanstendur að lang mestu leyti af störfum sem ekki gera miklar kröfur um menntun. Reyndin er hins vegar sú að félög eru mismunandi uppbyggð og sennilega hefur STH mestu sérstöðuna meðal þeirra.

Samningar um sk. starfsmat virka alls ekki þegar komið er upp fyrir allra lægstu störfin m.a. vegna vonlausrar launatengingar við kerfið. Ekki var við það komandi, af hálfu launanefndar sveitarfélaga, í síðustu kjarasamningum að fara sömu leið í tengingum og Reykjavíkurborg gerði síðan nokkrum mánuðum síðar.

Og ekki fór launanefnd þá augljósu leið leiðréttingar að samræma tengingar starfsmatsins við Reykjavík þegar að laun voru leiðrétt fyrir skemmstu. Afleiðingar þær að all nokkur hópur STH félaga hefur verið settur hjá garði, situr eftir og stenst ekki samanburð við sömu störf eða önnur störf í sama fagi eins og t.d. varðandi kennslu- og uppeldisstörf. Það sem gerir málið enn sérkennilegra er að það var þessi sama launanefnd sem gerði einnig þá samninga sem vísað er til?

Hafnarfjarðarbær á að sýna fordæmi og koma sér út úr launanefnd sveitarfélaga. Viðhorf og afstaða launanefndar til starfsmannafélags eins og STH er með þeim hætti að slíkt getur ekki þjónað öðru en ágætum markmiðum bæjarins í starfsmannamálum sem m.a. koma fram í mannauðsstefnu bæjarins.

sunnudagur, 12. mars 2006

www.astradur.is

Er fínn fræðsluvefur um kynferðismál fyrir ungt fólk og foreldra. Að honum standa læknanemar sem eru mjög virkir á þessu sviði fræðslumála. Framtak þeirra , bæði vefurinn sem og bein fræðsla, er afar vönduð og góð. Því miður er það svo að á netinu eru sjálfskipaðir „sérfræðingar” á þessu sviði sem þó koma ekki einu sinni fram undir nafni eða í besta falli fölsku nafni. Regla númer 1 er því að vita hver er að ráðleggja og að ráðleggingar séu þær bestu sem völ er á hverju sinni.
Þessi skilyrði uppfyllir vefur læknanema að öllu leyti. Hvet því fólk bæði til að kíkja á vefinn og ekki síst láta aðra vita af honum. Sjón er sögu ríkari sjá astradur.is

þriðjudagur, 7. mars 2006

Formannafundur í Kríunesi

Formenn Samflotsfélaganna munu funda í Kríunesi 8 og 9 mars. Fundarefnið verður starfsmatið. Verður örugglega fjörugur fundur en að mörgu leiti er einsýnt hvert stefnir, starfsmatið hefur einfaldlega reynst illa og spila þar inn margir þættir. Menn vita ekki almennilega hvort kerfið er samræmt milli félaga eða hvort kerfið er keyrt út á einstaklinga , störf eða á einstök sveitarfélög? Starfslýsingum er einhliða breytt út og suður án tillits til þess hvort eða hvernig störfum var háttað áður en starfsmatið kom til. Öðruvísi tenging er á sama kerfi hjá borginni þar sem punktar eru mun verðmætari. Þýðir einfaldlega að sambærileg störf eru mun „verðminni “ hjá sveitarfélögunum. Innleiðing kerfisins tekist illa, seint og með endalausum þrætum. Í dag eru 1.193 dagar síðan kerfið átti að taka gildi fyrir alla starfsmenn bæjarfélaganna, ennþá skortir nokkuð á að svo sé! Kerfið hvað sem um það má segja hefur einfaldlega ekki staðið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar af hálfu starfsmanna sveitarfélaganna.

Það má vel vera að einhverja kosti sjái launanefnd sveitarfélaga í þessu, helst er það að mínu mati að flækjustig kerfisins er gríðarlega hátt og innleiðing þess með þeim hætti að eðlileg launþróun meðal bæjarstarfsmanna innan Samflots hefur ekki átt sér stað. Enda var málum svo komið að neðar varð ekki komist í þeim efnum. Grípa þurfti til sértækra aðgerða til þess að bjarga hluta af vitleysunni með sérstakri samþykkt á launaráðstefnu sveitarfélaganna.

Í stað þess að blása lífi í starfsmatskerfið t.d. með því að samræma tengingu þess og launasetningu við það sem gerist hjá borginni þá var það gert með uppbótargreiðslum sem fela í sér að yfirvinna tekur áfram mið af gamla taxtanum sem og margt annað s.s. lífeyrisgreiðslur í mörgum tilfellum, framlag í endurmenntunarsjóð, veikindaréttur o.s.frv. Bútasaumur í stað þess að leysa málið heildrænt.

Útkoman er handónýtt launakerfi og marklaust starfsmat. Niðurstöður sem fjarri því gagnast starfsfólki sveitarfélaganna. Hlýtur einnig að vera öllum alvöru sveitarfélögum verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni. Sá sem þetta ritar mun ekki í leggja nokkra áherslu á viðgang þessa starfsmatskerfis. Tel reyndar að takmörkuð trú (ef nokkur) hins almenna félagsmanns á starfsmatskerfinu leiði einfaldlega til þess að í næstu kjarasamningum þá komi það einfaldlega ekki til greina sem launamyndunarkerfi og því verði einfaldlega sjálfhætt af þeim sökum