föstudagur, 22. maí 2015

Af íslenskri framleiðni og hinu alræmda kaupgjaldi



Allar hagstæðir í íslensku samfélagi hvíla á herðum þeirra sem minnst hafa – Hugtakið framleiðni er t.d. núorðið nánast alfarið á ábyrgð þessa hóps og þá varðað þeim fordómum að íslenskt launfólk sé verkminna og eða latara en launafólk í öðrum löndum? Framleiðni ku vera lág og því ekkert ráðrúm til að hækka íslenskt kaupgjald úr verulega lágu upp í lágt.

Framleiðni er í sinni einföldustu mynd skilgreind sem fjöldi eininga af afurðum sem hægt er að vinna úr einni einingu af aðföngum og kjarni málsins er hversu mikið er hægt að fá út úr einni einingu í framleiðslu. Í þessum efnum eru laun bara einn þáttur – handónýtur gjaldmiðill,  fyrirtækjatengsl, vaxtaokur o.fl  hafa sennilega mun  meiri áhrif en „kostnaður“ af íslenskri láglaunapólitík. Í umræðunni, ekki síst hvað varðar kjaramál, er ábyrginni nánast alfarið vísað á launafólk? Að framleiða fúlleggjasallad hefur sennilega litla framleiðni í för með sér algerlega óháð vönduðu og eða rösku vinnuframlagi starfsmanna.

Framleiðnihugtakinu má á sama hátt hæglega  beita hvað varðar eininguna fjármagn eða peninga þar  sem ávöxtun þess/þeirra yrði mælikvarðinn þ.e.a.s. hversu mikilli ávöxtun skilar ein eining, t.d. ein króna, eiganda sínum. Í þeim efnum er framleiðni hérlendis verulega góð sem ætti þá að þýða að fjármagnseigendur séu mjög duglegir? Dugnaðurinn þá fólgin í viðvarandi vaxtaokri og háum arðgreiðslum?

Maður hlýtur að spyrja sig um hið „lata“ launafólk og hina dugmiklu fjármagnseigendur? Hugtakið framleiðni er til margra hluta nytsamlegt, ekki síst sem skálkaskjól í þrotlausri baráttu SA fyrir áframhaldandi grjótharðri láglaunapólitík hérlendis. Slíkt er ekki boðlegt, ekki síst í samfélagi þar sem allar hagstærðir hvíla afar lágum og óverðtryggðum launum, grunni hinnar grjóthörðu sér íslensku láglaunapólitíkur sem er fyrir margt löngu orðin að félagslegu böli í íslensku samfélagi. Mikilvægasta viðfangsefni samtímans er að vinna bug á þessari meinsemd. Slíkt er í allra þágu ekki síst SA.