miðvikudagur, 28. apríl 2004

Ég held að þessarar ríkisstjórnar

Ég held að þessarar ríkisstjórnar,
sem vonandi fer frá sem fyrst, verði helst minnst fyrir stanslausar og óbilgjarnar deilur sínar við öryrkja árum saman, hennar verður minnst fyrir látlausar árásir á Hæstarétt og óvirðingu við dómskerfið, hennar verður minnst fyrir undarleg viðhorf gagnvart innflytjendum, hennar verður minnst fyrir skraddarasaumuð ofur eftirlaunalög varðandi sérhagsmuni einstakra stjórnmálamanna, hennar verður minnst fyrir fálæti gagnvart vaxtaokri og verðsamráð af margvíslegum toga, hennar verður minnst fyrir að selja eigur almennings á tómbóluprís til útvaldra, hennar verður minnst fyrir að gefa auðlindir sjávarins til fárra útvaldra og festa í sessi kvótabraskið, hennar verður minnst fyrir byggðaröskun, hennar veður minnst fyrir að klúðra heilbrigðiskerfinu, hennar verður minnst fyrir skattpíningu, hennar verður minnst fyrir fálæti og dugleysi gagnvart hagsmunum og velferð alþýðunnar, hennar verður minnst fyrir grjótharða hagsmunagæslu í þágu sérstakra auðhópa og hennar verður minnst fyrir árásir á aðra slíka sem eru stjórnvöldum ekki þóknanlegir.

Eftirmæli: Hagsmunagæsla fyrir útvalin hóp hins íslenska aðals - tókst vel, en ansi langt seilst í að halda "silfurskeiðunum" á sínum stað, tilgangurinn helgaði meðalið.

Velti fyrir mér hvort við eigum þetta skilið - einhverjir kjósa þennan mannskap ítrekað -og svona er nú lýðræðið - sennilega einhverjir með óbragð í munninum eins og einu sinni var svo snyrtilega orðað.

Mun hins vegar fagna þegar að sér fyrir brotthvarf þessara ríkisstjórnar, mun jafnvel skála við einhverja vini mín af tilefninu - Bermúda skál - varla.

mánudagur, 26. apríl 2004

Trúnaðarmannafundur í hádeginu

Trúnaðarmannafundur í hádeginu
Trúnaðarmenn STH og stjórn félagsins hittust í hádeginu til skrafs og ráðagerða. Nú er meiningin að efna til umræðu í félaginu um áhersluatriði í næstu kjarasamningum. Trúnaðarmenn á viðkomandi vinnustöðum munu því safna í sarpinn á næstu vikum. Meininginn er síðan að efna til trúnaðarmannráðstefnu þar sem helstu línur verða skerptar og nýttar í frekari kröfugerð fyrir væntanlega kjarasamninga.

sunnudagur, 25. apríl 2004

Gullfallegar þessar Færeyjar

Gullfallegar þessar Færeyjar
verð ég að segja, þó svo að ég hafi aldrei komið þangað. Var svo heppinn að fljúga yfir eyjarnar í dag sem og s.l. miðvikudag og viti menn í bæði skiptin var heiðskírt og eyjarnar hinar mörgu og fögru blöstu við út um gluggann eins og landakort. Vegna starfa minna innan hins norræna samstarfs þá flýg ég oft þarna yfir á leið til Kaupmannahafnar en hins vegar er því miður fremur sjaldgæft að sjá eyjarnar úr 35.000 fetum og hvað þá tvisvar í röð.

Hef ekkert nema gott eitt
af færeyingum að segja , hef unnið nokkuð með þeim í Norðurlandasamstarfi og líkað vel enda upp til hópa gott fólk. Lenti þó í því fyrir mörgum árum, þegar ég hitt færeying í fyrsta sinn að ég hældi viðkomandi fyrir hve góða skandinavísku hann talaði.
Ekki var okkar maður beint kátur með hólið og tjáði mér umsvifalaust að þessi skandinavíska sem hann talaði væri daglega kölluð færeyska og sem slík nyti hún alþjólegar viðurkenningar og að ég sem íslendingur ætti manna best að ...... o. sv.fr. Bað vin minni innlega og snarlega afsökunar, reynslunni ríkari,án frekari eftirmála og án þess að nokkurn frekari skugga bæri á samstarfið.

föstudagur, 23. apríl 2004

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar
Sem svo sannarlega er raunin hér í Kaupmannahöfn.. Er sem sagt staddur þar ásamt föngulegum hópi starfsmanna ÍTH sem eru í námsferð. Margt gott hægt að læra af danskinum á sviði félagsmiðstöðvamála sem og á sviði félagsmála almennt.

Athyglisvert er starf lögreglunar á sviði æskulýðsmála, svo kallað PUK starf eða Polisens ungdomsklubber. Fyrirbyggjandi hópastarf í fyrirrúmi og markmiðið að snúa unglingum í áhættuhópum inn á réttar brautir. Frábært starf og árangursríkt, öllum til heilla , einstaklingnum sem og samfélaginu.

þriðjudagur, 20. apríl 2004

Hvimleiður þessi draslpóstur

Hvimleiður þessi draslpóstur
og þessir "hi there" vírusar. Reyndi að kveða þetta lið í kútinn, með takmörkuðum árangri. Og þó, því einhverjir vilja ekkert af mér vita lengur.

Ráð mitt er því
þetta: Búðu til einfalt skjal í wordpad og skírðu það til dæmis bigboom.exe og í hvert sinn sem viagrapóstur eða annað rusl kemur þá reply-ar maður (án þess að opna viðkomandi skjal og alls ekki viðhengið) og sendir viðhengið, hið sauðmeinlausa textaskjal með hinu ógnvekjandi nafni bigboom.exe, með.
Og viti menn, ég er ekki frá því að hinir hrekklausu en afar upp á þrengjandi sölumenn, margir hverjir, verði snarlega afhuga frekari samskiptum við mig og ekki græt ég það.

Hitt er öllu verra
að margir af þessum dónum og boðflennum í póstkerfinu hylja slóð sína og því erfitt að senda þeim kveðjuna góðu til baka. Ef einhver kann ráð við því þá þætti mér vænt um að fá línu um aðferðina.

mánudagur, 19. apríl 2004

Ekki fer miklum fréttum af rafrænum happdrættismálum

Ekki fer miklum fréttum af rafrænum happdrættismálum
hjá Hafnarfjarðarbæ. Ekki hefur nokkur maður sést missa sig í taumlausri gleði yfir óvæntum feng. Það er sem sagt sama smotteríið til útborgunar hvort sem maður fær rafrænan launaseðill eður ei. Tvennt kann að valda tíðindaleysinu þ.e. að vinningar voru óverulegir eða hitt að um slíkar fúlgur sé að ræða að viðkomandi vilji alls ekki gefa upp nafn sitt.

Þetta ku vera alsiða hjá hinum stóru lottófyrirtækjum. Þar er einnig boðin fjármálaráðgjöf. Hver veit nema að okkar ástkæra rekstrarteymi sitji nú með sveittan skallann í ráðgjafavinnu með hinum heppna bæjarstarfsmanni sem vann þann stóra í raf-launaseðla-happdrætti bæjarins? Eða þá hitt að áreiðanleiki dagsetningarinnar 1. apríl ( dregið 1. apríl!!!!) sem veldur nokkrum ugg, enda margt brallað á þeim merka degi sem hefur lítið með raunveruleikann að gera ?

Veit það ekki - bíð hins vegar spenntur tíðinda af þessum vettvangi og mun að sjálfsögðu deila þeim tíðindum með lesendum síðunnar.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

Ólafur Þór vinur minn

Ólafur Þór vinur minn
og kollegi í Sandgerði stendur í stórræðum þessa daganna. Æskulýðsfulltrúinn Ólafur er látinn kenna á því sem minnihlutamaðurinn og bæjarfulltrúinn Ólafur gerir eða finnst? Njóta opinberir starfmenn ekki kjörgengis eða almennra lýðréttinda og þurfa opinberri starfsmenn að afsala sér þátttöku í lýðræðislegri umræðu samfélagsins? Nei segi ég bæjarstarfsmenn hafa öll almenn lýðréttindi og ég undrast yfir þeirri lágkúru sem vini mínum er sýnd með því að sparka í æskulýðsfulltrúann fyrir það sem bæjarfulltrúinn gerir.

Hef sjálfur sem embættismaður og verkalýðsforingi
fengið að kenna á því, en í afar litlu mæli, enda sem betur fer flestir stjórnmálamenn sem hafa gæfu til þess að skilja á milli hlutverka og embætta er fólk gegnir hverju sinni.

Í Sandgerði
er því ekki að skipta um þessar mundir og synd að harðduglegur og vandaður embættismaður eins og Ólafur Þór Ólafsson skuli í raun flæmdur úr starfi fyrir það eitt að vilja vinna bæjarfélagi sínu gagn með þátttöku í bæjarstjórnarmálum. Ráðstjórn af versta tagi og vinnubrögð sem eru engu bæjarfélagi til sóma.

laugardagur, 10. apríl 2004

Um leið og ég óska lesendum síðunnar gleðilegra páska

Um leið og ég óska lesendum síðunnar gleðilegra páska þá læt ég fylgja með þessa hugleiðingu:

Er bjart framundan
í kjaramálum ? Jafnvel segja einhverjir , en mörg ljón verða í veginum, segja aðrir . Öruggt er því orð sem sennilega á ekki við á komandi misserum. Röksemdir vinnuveitenda og málflutningur allur sem endranær hinn neikvæðasti í garð launafólks. Komandi kjarasamningar verða því erfiðir og sennilega þeir átakamestu um langa hríð. Ég veit það eitt af reynslunni að hlutdeild launafólks í góðærinu er aldrei auðsótt.

Góðærið
er því fyrst og fremst átök um skiptingu þjóðartekna og auðs og í þeim efnum gefa hin efri lög samfélagsins sem og vinnuveitendur ekkert eftir.
Efalítið mun þetta ástand verða viðvarandi ef ekkert verður að gert. Líklega munu stéttarskil og stéttaskipting aukast og þeir efnameiri auðgast enn frekar en orðið er á kostnað þeirra sem þegar hafa úr litlu að spila.

Samtakamáttur
verklýðshreyfingarinnar er og verður lykilatriði. Kjarabætur munu ekki fást með öðrum hætti og því nauðsynlegt að þétta liðsheildina og vera betur í stakk búinn að takast á við þetta óréttlæti sem ein heild launþega. Að öðrum kosti nást ekki fram markmið um réttláta skiptingu þjóðartekna og um aukin og sanngjarnan hlut launafólks.
Þetta er því miður hinn harði veruleiki og um þessa óréttlátu skiptingum liggja allar helstu átaklínur í íslensku samfélagi. Innan skamms hefst undirbúningsvinna varðandi kjarasamningana. Grundvallaratriði í þeim efnum verður að vera góð samstaða launafólks og sterk málafylgja fyrir bættum kjörum.

þriðjudagur, 6. apríl 2004

Fínn aðalfundur hjá Samflotinu

Fínn aðalfundur hjá Samflotinu
og ekki síst baráttuhugur í mannskapnum, er mér tjáð. Komandi samningar verða erfiðir og því nauðsynlegt að safna liði og efla liðsandann fyrir væntaleg átök. Þátttaka var fín og nokkur félög að koma til liðs að nýju eftir smá fjarveru. Samflot bæjarstarfsmanna mun því fyrr en seinna hefja undirbúning að kjarasamningsgerð, enda innan við ár þar til samningar verða lausir. Það verður að mörgu að hyggja og margt úr síðustu samningalotu sem er "geymt en ekki gleymt"

fimmtudagur, 1. apríl 2004

Loðmundur Norðfjörð sendi þennan pistil sem birtur er algerlega án ábyrgðar

Loðmundur Norðfjörð sendi þennan pistil sem birtur er algerlega án ábyrgðar

Davíð er að hætta , Jón Júl er hættur og sjálfur er ég orðin hálfslappur

Þau merku
tíðindi hafa spurt út og jafnvel hingað til Svíaríkis, þar sem ég er nú staddur, að Jón vinur minn Júlíusson sé hættur sem formaður Starfsmannafélags Kópavogs. Og það sem er en merkara er að hann hafi kosið það sjálfviljugur. Hvorki maðurinn með ljáinn eða hið harðsvíraða lýðræðisbrölt og kosningar ná ekki að granda honum, eins og alsiða er í þessum bransa . Enda skilst mér að viðkomandi spóki sig nú í friði og spekt, á aðalfundi Samflots bæjarastarfsmanna, á friðarstóli og ræði málin eins og sá sem reynsluna telur sig hafa og gefur ráð, óumbeðin, til hægri og vinstri ?

Mér er jafnvel tjáð
að ræða hans sem fráfarandi formanns SfK hefði verið (svo ég noti nú annarra orð ) allt að því verulega væmin og að einhverjum félagsmönnum SfK hafi ekki tekist að hemja tilfinningar sínar, sérstaklega er ræðan var í hámarki, þeim hafi vöknað um augun eins og ungabörnum, með tilheyrandi ekkasogum og án hliðstæðu ef frá er talið er viðkomandi brugðu sér á stórmyndina Titanic hér um árið.

Samningar
ganga, eins og fólk veit, út á það að drekka kaffi og borða vínarbrauð. Og það verð ég að segja að annan eins dugnað og Jón hefur sýnt í samskiptum sínum við vínarbrauðin í gegnum árin er án alls efa með því besta sem gerist í bransanum. Og ekki bara það, Bridgespilari er hann góður, bæði með eða án svindlkerfa. Jón hefur t.d. aldrei látið þetta "bögg" (ónæði) sem samningafundirnir vissulega eru, slá sig út af laginu varðandi næstu sagnir.

Aðeins einu sinni
hef ég haft verulegar athugasemdir við hátterni hins afgengna formanns en það var þegar ég og gjaldkeri STH lékum Monopóly (með miklum og góðum arði að við töldum) við formanninn og gjaldkera SfK. Hneykslið varð algert enda tilefnið ærið. Formaðurinn þáverandi og gjaldkerinn voru staðnir að víðtækum fjárdrætti, stakri fjármálóreiðu og undanskoti eigna (sem "féhirðir" SfK hafði einnig stolið)

Nú taka við annasamir tímar
hjá formanninum fyrrverandi í embættismennskunni, að sögn eru heilu stæðurnar af ónöguðum blýöntum sem bíða örlaga sinna. Og nú koma vel þjálfaðir kjálkarnir, eftir allt vínabrauðsátið, vel að notum.

Skarð formannsins (fyrrverandi)
verður vandfyllt. Hver á að drekka allt þetta kaffi og hver að borða öll þessi vínarbrauð? Verður veröldin söm ? - veit það ekki ? Verða ekki alltaf einhverjir að naga blýanta - gakktu hæg inn um gleðinnar dyr í þeim efnum! En að lokum þetta hafðu þakkir fyrir framlagið ( í eintölu) þitt til verklýðsmála og gangi þér sem best í reglugerðar-riddara-mennskunni
L. Norðrfjörð