þriðjudagur, 23. janúar 2007

Rafrænar útivistarreglur

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég og jafnaldrar mínir, foreldrar unglinga dagsins í dag, héngum út í sjoppu og ræddum, fjarri foreldrum okkar, hin mikilvægu málefni hver var skotinn í hverri eða öll önnur þau mál sem unglingar spjalla um og tilheyra þeirri vegferð að verða fullorðin manneskja, að koma sér upp sjálfstæðum skoðunum og vonandi sem jákvæðustu sjálfsmynd.

Fyrir okkur foreldra unglinga dagsins í dag getur reynst erfitt að setja okkur inn í aðstæður unglinganna. Vegna mjög örra þjóðfélagsbreytinga þá er sérhvert æskuskeið einstakt og við sem eldri erum getum ekki notað nema að hluta til reynslu okkar eigin unglingsára við uppeldi barna okkar.

Þetta ástand skapar óöryggi meðal fullorðinna og oft fordóma gagnvart ungu fólki, æskan er ávallt að fara í hundana? En er þó ekki farin eftir öll þessi ár. Unglingum er kennt um margt sem aflaga fer eins og það sé unglinga að mynda ramma um sitt líf en ekki okkar foreldranna. Útihátíðir í gegnum árin eru dæmi um slíkt. Hinir eldri gagnrýna unglinga hvers tíma fyrir sukk og svínarí á útihátíðum í stað þess að setja „hátíðum” af þessum toga einhvern sæmandi ramma. Foreldrar fjargviðrast yfir aukinni unglingadrykkju en eiga samt sem áður viðskipti við fyrirtæki sem stuðla beint að aukinni unglingadrykkju með því að auglýsa átölulaust ólöglega áfengi þar sem börn og ungt fólk er markhópurinn? Ábyrgðin er ekki annars staðar hún er hjá okkur. Það eru við hin eldri sem látum hluti viðgangst.

Margt hefur verið skrafað um netið, tölvutæknina og unglinga. Oft í neikvæðum tón en oft sem betur fer undir jákvæðum formerkjum. Vissulega er margt í netheimum sem ekki veit á gott en það er ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Allt sem á netinu finnst á sér forsögu, þeim sem gengur illt eitt til, þeir finna sjúkleika sínum farveg í gegnum nýja tækni fremur en að sjúkleikinn sé nýr. „Farðu ekki upp í bíl með ókunnugum”, á sér því miður hliðstæður í netheimum.

Þrátt fyrir þessa annmarka sem hin nýja og heillandi tækni hefur í för með sér þá er ljóst og klukkunni verður ekki aftur snúið. Fólk sem ekki þekkir þessa heima þarf auðvitað að gera sér ferð á þessar slóðir og kynna sér þessar víðfemu lendur af eigin raun. Vandi málsins er að í þessari nýju veröld hefur verið nokkur brestur á að fólk viðhafi samskipti, sem ekki eru af sömu kurteisi og útfrá sama siðferði og ríkja í öðrum daglegum samskiptum milli fólks almennt. Í þessu ljósi ber að fagna frumkvæði Heimilis og skóla með SAFT verkefninu, sem fjallar um bætt siðferði og samskipti á netinu. Löngu tímabær umræða, gagnleg fyrir alla aldurshópa og nauðsynleg ef við ætlum að byggja upp siðað samfélag.

MSN-ið og sú tækni er í eðli sínu meinlaus. Þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi í samtímanum að vera einhverskonar „rafrænt sjoppuhangs” þess vegna þurfa foreldrar eins og áður að setja ungmennum ákveðnar rafrænar „útivistarreglur”. Margir unglingar hafa tölvur í herbergjum sínum og geta verið „úti“ eins lengi og þeim sýnist. Foreldrarölt á ekki bara að felast í göngutúr um nánasta hverfi unglinganna, röltið þarf auðvitað einnig að vera rafrænt. Hvet lesendur til þess „rölta um” og kíkja á heimasíður unglinga og fylgast með því sem þar fer fram. Dást að því sem vel er gert en benda óhikað á það sem miður fer og bæta má úr. Eyðum ekki orku í að úthúða tækninni, tökum henni fagnandi, skiptum okkur af, höfum áhrif og styrkjum góðu hliðarnar. En umfram allt, það er okkar foreldranna að setja rammana. Ef við foreldrar gerum það ekki þá gera það einhverjir aðrir, sem ekki endilega hafa velferð barna og unglinga að leiðarljósi.

föstudagur, 12. janúar 2007

Veraldlegar skuldir almættisins

Er að öllu jöfnu engar – skyldi maður ætla - nema í Hafnarfirði. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti, en sagan segir að almættinu hefði áskotnast hús við Austurgötu í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Ónefndur Guðsmaður, einn af fjölmörgum umboðsmönnum almættisins hér á jörðinni, fékk þá köllun að ánafna Guði hús sitt að sér gengnum. Þar sem þessi mikla þörf kom skyndilega upp þá var úr vöndu að ráða varðandi löggildingu erfðaskrárinnar.

Okkar maður dó ekki ráðalaus og skundaði að Bessastöðum árla sunnudagsmorguns, sennilega ögn fyrr en fyrir hefðbundin fótaferðartíma fólks, og bankaði á dyrnar. Forsetinn þáverandi sem einhverjir hafa haldið fram að hafi verið „nokkur gleðimaður” fór í eigin persónu til dyra og hitti Guðsmanninn. Það sem síðan á sér stað var andans verk í öllum skilningi, eða andanna verk því andi þeirra, sem báða höfgaði var af ólíkum meiði. Hvað með það úr varð að þjóðhöfðinginn setti nafn sitt á erfðaskránna, stipmlaði og gaf henni í krafti embættisins löggildingu og þar með nokkurskonar þinglýsingu.

Eins og fyrir okkur öllum liggur þá yfirgaf Guðsmaðurinn þetta jarðríki og þar með var almættið orðið lögformlegur eigandi húss við Austurgötuna í Hafnarfirði. Allt gekk þetta ljómandi vel fyrir sig þangað til að bæjaryfirvöld byrja að gera kröfu á að börn Guðsmannsins greiði af eiginni fasteignargjöld? Þar sem þau voru ekki lögformlegir eigendur þá neituðu börnin skiljanlega að greiða af eiginni. Gekk svo um margra ára skeið og það sem verra var, viðhaldi húsnæðisins var verulega ábótavant. Reyndar var ástandið þannig að húsið mátti muna sinn fífill fegurri.

Hafnfirsk stjórnsýsla dó ekki ráðalaus og gagnvart henni eru allir jafnir. Vandmálið var augljóst stórfeldar fasteignaskuldir, viðhaldi hússins verulega ábótavant og það sem verst var að fjölmörgum erindum og tilmælum bæjarins var ávallt sýnt fálæti. Eigandinn hafði með öllu sniðgegnið réttmætar kröfur og ábendingar virðulegra hafnfirskra embættismanna.

Það var þá ekkert annað í stöðunni en að senda greiðsluáskorun, hvert sem hún var nú send (einhverjir halda því fram að bæjarlögmaðurinn hafi af þessu tilefni verið sendur í messu) og í kjölfarið, ef ekki yrði við brugðist, efna til uppboðs og leysa til sín eignina upp í vanskil.

Menn segja að sá löggerningur, uppboðið og hafi farið fram á eigninni í fjarveru eigandans, sem hafi vakið undrun embættismanna bæjarins. Bærinn eignaðist bæði húsið og lóðina og lauk þar með veraldarvafstri almættisins í bili a.m.k. Húsið var rifið og stendur lóðin enn þann dag í dag auð. Hvers vegna veit ég ekki – kannski vilja embættismenn bæjarins leita álits og hugmynda fyrri eiganda um framtíðarnot lóðarinnar – hver veit og hver segir að þetta eigi allt saman að vera einfalt. Reglugerðarriddarar sigra alltaf að lokum – held ég, a.m.k. hérna megin.

miðvikudagur, 10. janúar 2007

Kalt eða skítkalt

Meintar alþýðuhetjur, sem að eigin sögn hafa kýlt niður vöruverð í landinu okkur smælingjunum til hagsbóta, segja fátt þessa daganna. Ástæður augljósar hæsta vöruverð hérlendis í Evrópu og þó víðar væri leitað, 62% yfir meðalverði í EB/ES löndum segir Mogginn. Er góðmennskan og bjargræðið fólgið í því að vera bara 62% yfir velsæmismörkum en ekki 110% eins og „vondu karlarnir” sem öllu réðu áður myndu örugglega hafa gert?

Málið er einfalt verslunin leggur eins mikið á vörur eins og hún kemst upp með hverju sinni. Verslun í landinu er nánast öll komin á eina hendi og fákeppni leiðir til þess að íslenskar „lágvöruverðsverslanir" bera síður en svo nafn með rentu. Fullkomin öfugmæli eins fram kemur í þeirri verðlagskönnun sem vitnað er til þessa daganna. Hvers vegna er verðlag í Bónus í Þórhöfn í Færeyjum mun lægra en í Bónus í Hafnarfirði? Eru markaðsaðstæður á þessari litlu, torsóttu og fámennu eyju Færeyjum þess eðlis að slíkt sé mögulegt?

Það þýðir ekkert að bjóða manni upp á endalausar langlokur um hið hryllilega landbúnaðarkerfi sem allt skemmir? Alþýðuhetjur sem og aðrir í sétt kaupmanna og heildsala í þessu landi( sem reyndar oft er sami mannskapurinn) þurfa að kunna sér hóf í verðlagningu í stað þess að efna til endalausra málfundaæfinga um að hátt vöruverð sé með öllu öðrum að kenna en þeim sjálfum. Ísland hefur ekki einkaleyfi á tollum og reglugerðum, þær eru alstaðar eins og blessaður búfénaðurinn og allt það regluverk sem honum fylgir.

Er tími pöntunarfélaganna að renna upp – aftur? Veit það ekki – velti því hins vegar fyrir mér hve langt og lengi þessi okurstefna hefur gengið. Kalt eða skítkalt – sennilega allir orðnir dofnir af langvarandi kulda og trekk, þekkja ekki lengur yl og hvað þá hita.

þriðjudagur, 2. janúar 2007

Skattleysismörk

Það er magnað að skattleysismörk hér á landi séu ekki verðtryggð eins og flest annað, nema launin. 136.000 krónur ættu skattleysismörkin að vera í dag ef þau hefðu fylgt verðlagi eins og ætlast var til að þau gerðu í upphafi. Mörkin voru fyrir áramót 78.000 krónur en fara nú í 90.000 krónur. Vantar ennþá 46.000 krónur upp á að þau haldi m.v.upphafleg markmið.

Ekki nóg með það að laun séu lág hérlendis þegar miðað er við helstu nágrannalönd okkar, heldur virðist það vera svo að láglaunahóparnir í samfélaginu, sem og öryrkjar og eldri borgarar séu skattlagðir sérstaklega umfram sambærilega hópa í öðrum löndum með þessum óeðlilega lágu og óverðtryggðu skattleysismörkum. Ekki sæmandi ástand og í raun furðulegt að stjórnvöld virðast ekki líta á þetta óréttlæti sem sérstakt úrlausnarefni sem setja þarf í forgang og leysa. Undarlegt þjóðfélag sem heldur fjölda sinna þegna á mörkum ómegðar með háskattastefnu og lágum launum mitt í góðærinu.

Óska lesendum síðunnar gleðlegs árs og farsældar á árinu.