mánudagur, 14. febrúar 2011

Breytingar breytinganna vegna - hvar er hinn faglegi ávinningur?

Vegna umræðu um sameiningu grunnskóla og frístundaheimila hefur stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu sent fjölmiðlum eftirfarandi tilkynningu sem ég tek heils hugar undir:

Stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu er sammála orðum formanns Skólastjórnarfélags Íslands í kvöldfréttum RÚV sunnudaginn 13. febrúar (http://fagfelag.us1.list-manage.com/track/click?u=76dae38c03aa292b1bef24366&id=08f7e46498&e=7a310bf524 um að það skili litlum sparnaði að sameina frístundaheimili og grunnskóla í Reykjavík. Stjórnin getur hinsvegar ekki verið sammála orðum hennar um að það sé faglegur ávinningur af sameiningunni. Á sínum tíma þótti faglegur ávinningur af því að flytja heilsdagsskóla grunnskólanna frá skólunum til Íþrótta- og tómstundasviðs og stofna frístundaheimili. Það er því erfitt að sjá hvernig það getur orðið faglegur ávinningur af því að fara til baka í sama horfið?

Það þótti faglegur ávinningur að skilja að starf skólans og frítímans en sú innleiðing átti sér stað frá 2002 til 2004. Megin ástæða innleiðingarinnar var gífurleg ánægja foreldra auk sýnilegs faglegs ávinnings með það tilraunaverkefni sem unnið var á vegum frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti á árunum 2000 til 2002. Markmiðið var að efla starf frístundaheimilanna með þeirri hugmyndafræði sem fagstarf á vettvangi frítímans byggir á. Einnig var leitað til fyrirmynda frá öðrum Norðurlöndum til stuðnings við uppbyggingu starfsins. Frístundaheimilin eru hluti af starfsemi frístundamiðstöðvanna sem starfræktar eru í hverjum borgarhluta Reykjavíkurborgar. Í frístundamiðstöðvunum er markvisst unnið að því að efla starf frístundaheimilanna og styðja við fagvitund starfsmanna. Með því að færa frístundaheimilin yfir til skólanna væri í raun verið að segja að ekki sé pólitískur vilji fyrir því að unnið sé með börn sérstaklega á vettvangi frítímans heldur sé meiri hagur í því að samnýta starfsfólk skólanna óháð því hver fagvitund þeirra sé á starfi með börnum í frítímaþjónustu. Að lokum má nefna að menning frístundastarfs og skóla er ólík og ekki að ástæðulausu að starfandi er deild innan Háskóla Íslands sem byggir á að mennta fólk í þeim fræðum sem notuð eru á vettvangi frítímans.


þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Sönn menningarverðmæti

Músíktilraunir Tónabæjar og Hins hússins eru mikil menningarverðmæti. Þegar að maður kíkir á listann yfir hljómsveitir sem hafa unnið keppnina frá upphafi þá sér maður hvílík menningarfabrikka keppnin er. Allt frá „sítt að aftan“ Greifarnir yfir í harðkjarnarokk hljómsveitarinnar Mínus og allt þar á milli. Músíktilraunir eru frábær vettvangur sem hefur hvatt mörg bönd til dáða og ekki síst komið efnilegu ungu tónlistarfólki á framfæri. Keppnin hefst í mars og ef að líkum lætur verður þar margt efnilegra banda.

Listi yfir hljómsveitir sem hafa sigrað í Músíktilraunum frá upphafi.

1982 – Dron, 1983 – Dúkkulísurnar, 1984 - Keppni féll niður vegna verkfalls kennara, 1985 – Gipsy, 1986 – Greifarnir, 1987 – Stuðkompaníið, 1988 – Jójó, 1989 – Laglausir, 1990 - Nabblastrengir (Umbilical cords), 1991 - Infusoria (Sororicide), 1992 - Kolrassa Krókríðandi (Bellatrix), 1993 – Yukatan, 1994 – Maus, 1995 - Botnleðja (Silt), 1996 – Stjörnukisi, 1997 - Soðin Fiðla, 1998 – Stæner, 1999 – Mínus, 2000 - XXX Rottweiler hundar, 2001 – Andlát, 2002 – Búdrýgindi, 2003 – Dáðadrengir, 2004 – Mammút, 2005 – Jakobínarína, 2006 - The Foreign Monkeys , 2007 - Shogun. 2008 - Agent Fresco
2009 - Bróðir Svartúlfs. 2010 - Of Mosters and Men