sunnudagur, 29. febrúar 2004

Nýr sumarbústaður STH skammt frá Stykkishólmi

Nýr sumarbústaður STH skammt frá Stykkishólmi
Á föstudaginn var undirritaður kaupsamningur varðandi kaup STH á orlofshúsi við Stykkishólm. Húsið er allt hið vegalegasta, stórt og rúmgott , með pottum og öllum hugsanlegum búnaði. Húsið stendur á sjávarlóð og er eins og áður sagði skammt frá Stykkishólmi. Gert er ráð fyrir afhendingu á sumri komanda nánar tiltekið í byrjun júlí. Með þessu aukast orlofsmöguleikar félagsmanna STH enn frekar.

Fyrir á félagið Siggubæ í Biskupstungum, Bjarkarás í Skorradal, Casa de Arno á Spáni, Sjafnarbúð við Eiðavatn, Furulund á Akureyri og Albertslund í Munaðarnesi. Bátar félagsins er tveir: Í Skorradal, Haraldur l og á Eiðum, Haraldur ll, mikil aflaskip báðir tveir sérstaklega þó Haraldur ll

miðvikudagur, 25. febrúar 2004

Fundur með skólariturum

Fundur með skólariturum
Hélt fund með skólariturum í Hafnarfirði í gær. Við fórum yfir helstu mál sem eru í deiglunni.m.a. um starfsheiti starfsmanna. Ljóst að skólaritarastörfin eru að þyngjast verulega og orðið löngu tímabært að breyta þeim starfsheitum í skrifstofustjórastarf. STH hefur haft verulegar athugasemdir við að skólaliðar séu í auknum mæli nýttir til skrifstofustarfa sem skólaritarar væru. ( nema hvað laun varðar )

föstudagur, 20. febrúar 2004

Einkavæðing í Evrópu

Einkavæðing í Evrópu
Er sem sagt staddur í Luxemburg á tveggja daga fundi hjá EPSU. Á okkar ágæta máli myndi það útleggjast sem Fulltrúaráð Evrópskra bæjarstarfsmannafélaga. En í því sit ég fyrir hönd BSRB.
David Hall frá háskólanum í Greenwich hefur verið að fara yfir þróun þessara mála í Evrópu síðustu árin og margt merkilegt sem hann hefur komist að, m.a.:

Að samningum um einkavæðingu fylgir leynd sem gerir að verkum að almenningur hefur ekki sama aðgang að upplýsingum um t.d. hvernig staðið er að viðkomandi þjónustu. Þ.e.a.s. að almenn upplýsingaskylda gildir ekki þegar að búið er að bjóða út þjónustuna? sérkennilegt í meira lagi.

Að kostnaður og gæði fara saman og gæði eftir einkavæðingu séu betri en verið hefur er fjarri því að vera rétt. Mýmörg dæmi eru um hið gagnstæða, hins vegar eru stjórnmálamenn áfram um að lækka framlög og “spara”. Einkavæðing því sé oftast í raun leið til þessa að minnka raunverulegt þjónustustig og oft á tíðum verulega og spara með því einhverjar örfáar krónur sem þó séu ekki í nokkru samræmi hin raunverulega niðurskurð þjónustunnar.

Fleiri og fleiri dæmi koma upp þar sem samfélagið þarf að endurfjármagna og koma í gang einkavæddri samfélagsþjónustu sem farið hefur á hausinn. Sparnaður því til lengri tíma ákaflega lítill og oft rándýrt fyrir samfélagið, eins og dæmið um gjaldþrot.hinnar einkavæddu Vatnsveitu í Grenoble sýndi glögglega

Hall rannsakaði Farum málið í Danmörku, og eftir nokkrar tilraunir til þess að setja það mál í vísindalegt samhengi án nokkurs árangurs þá kemst hann að þeirri niðurstöðu ; sem er samt sem áður hávísindaleg; að allt sem laut að einkavæðingu í Farum byggði að (ofsa)trúarlegum forsendum fremur en útreikningum um gildi þess að einkavæða og þess vegna hafi nú farið eins og fór.

föstudagur, 13. febrúar 2004

"Mange takk" eins og danskurinn segir

"Mange takk" eins og danskurinn segir
Þakka fólki öll þau jákvæðu viðbrögð og góðar kveðjur sem ég hef fengið vegna umræðna um áfengisauglýsingar í Kastljósi í gærkvöldi sem og vegna áskorunarinnar. Einn hafði þó samband og fannst afar ósanngjarnt að "ráðist" væri sérstaklega á eitt fyrirtæki.
Þeir sem ekki áttu kost á að fylgjast með umræðunum geta nálgast þáttinn hér

Áhrif auglýsinga
Hin ósanngjarna "árás" mín "á eitt fyrirtæki" sýnir í hnotskurn hve auglýsingatæknin er áhrifarík því að ef grannt er skoða þá er hvergi minnst á að sniðganga sérstaklega Egill Skallagrímsson fremur en aðra?
Staðhæfingarnar í auglýsingunni eru:
1. Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir....
og síðar
2. ....sniðgöngum fyrirtæki sem þverbrjóta...

Spurning er ekki fullyrðing.
Ég velti hins vegar upp spurningunni hvort Ölgerð Egils Skallagrímssonar sé hafin yfir íslensk lög? Spurningu en ekki fullyrðing.
Boðskapurinn á því ekki síður við um þau fyrirtæki sem þverbrjóta lög um bann við áfengisauglýsingum. Spurningin sem slík er hins vegar fullkomlega réttlætanleg.
Ölgerðin hefur verið dæmd fyrir brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum og þar sem fyrirtækið virðist ekki láta segjast, eins og flestar þær auglýsingar sem birst hafa á síðustu dögum bera vott um, þá er spurning um hvort fyrirtækið telji sig hafið yfir íslensk lög auðvitað í fullkomnu samhengi.

Hitt er einnig rétt að mörg fyrirtæki eiga skilið hinn óverðuga sess sem hinn óhressi viðmælandi minn taldi ómaklega veittur Agli Skallagrimssyni einum og sér. En það er önnur Ella.

Umræða um þessi mál víða
Ögmundur Jónasson heldur úti lifandi og góðri heimasíðu ogmundur.is . Ögmundur fjallar þessa daganna um áfengisauglýsingar og tekur dæmi um hvernig fyrirtækið Vífilfell beinir auglýsingum sínum til ungs fólks. Sjón er sögu ríkari sjá hér

fimmtudagur, 12. febrúar 2004

Skýrari geta skilaboð ekki orðið!

Skýrari geta skilaboð ekki orðið!
Ég vissi að mörgum misbýður allar þessar áfengisauglýsingar. Ég vissi hins vegar ekki hve þetta neikvæða viðhorf er almennt og útbreytt. Þess vegna óraði mig ekki fyrir því hvílíka gríðarlega og snögga dreifingu auglýsingin hér að neðan fékk.
Ég sendi hana frá mér kl 14:01 í gær þann 11. febrúar. Á þessum rúma sólarhring sem liðin er þá hafa þúsundir ef ekki tugþúsundir íslendinga tjáð hug sinn og afstöðu til áfengisauglýsinga með því einu að senda auglýsinguna áfram til vina sinna. Afstaða þjóðarinnar liggur algerlega ljós fyrir - fólk vill ekki þessar auglýsingar.

Mýtan um að einungis sænsk menntaðir vandamálafræðingar og örfáir sérvitringar væru á móti þessum áfengisauglýsingum er sem sagt gjör fallinn -
Þeir einu sem fylgjandi eru áfengisauglýsingum eru greinlega aðeins örfáir áfengisframleiðendur / innflytjendur sem og hagsmunasamtök þeirra. Aðilar sem í krafti gríðarlegs fjármagns auglýsa í miklu trássi við skoðanir megin þorra almennings.

Börn, unglingar, velferð þeirra, frelsi til að vera laus við það áreyti sem áfengisauglýsingar eru, eru hin skýru skilaboð þess mikla fjölda fólks er sendi skilaboðin áfram í dag. Þau skilaboð ber að virða.

miðvikudagur, 11. febrúar 2004

Sýnum hug okkar í verki

Sýnum hug okkar í verki
Sendið myndina áfram til vina með því að fara yfir myndina með örina og smella músinni á rafpóstsendingu.

mánudagur, 9. febrúar 2004

Fundur í Víðistaðaskóla & Jazzmessa

Fundur í Víðstaðaskóla
Hélt fund í Víðistaðaskóla með STH félögum. Fórum í gegnum helstu mál og það sem er á döfinni. Fín mæting og góðar umræður. Fleiri fundir af þessu tagi á dagskránni næstu vikur. Þeir vinnustaðir sem óska eftir fund geta haft samband við skrifstofu sími 555 36 36

Brá mér í messu í gær;
Jazzmessu, en verð að viðurkenna að ekki var það nú blessað guðsorðið eitt og sér sem dró mig þangað, enda telst ég vart kirkjurækinn maður. Ágætur kunningi minn Ómar Guðjónsson gítarleikari og bróðir hans Óskar saxafónleikari ásamt píanista einum, léku afburðar fínan jazz í Víðistaðakirkjunni. Frábær flutningur og ekki spillir fyrir að "sándið" í kirkjunni er mjög gott. Hitt er svo auðvitað ekki verra að hlusta á hinn ágæta boðskap kirkjunnar. Hefði kannski verði viðeigandi að hafa vini mína í Mínus með mér , er viss um að drengirnir hefðu bara haft gott af því í öllu tilliti.

mánudagur, 2. febrúar 2004

Mér finnast áfengisauglýsingar

Mér finnast áfengisauglýsingar
sem dynja kerfisbundið á börnum og unglingum ekki vera spurning um tjáningarfrelsi. Þetta eru þrælskipulagðar söluherferðir sem kosta stórfé og miða að því einu að auka sölu vöru sem ekki er ætluð ungu fólki?
Þessi fyrirtæki eru því í raun boðflennur í líf barna og unglinga. Þessi fyrirtæki hika ekki við að búa til lífsstíl og gjörauglýsa hann eins og hann sé viðtekin. Íslendingar eru ekki rallhálfir af bjórdrykkju fyrir framan fótboltasjónvarpið á laugardögum - það er auglýst óskhyggja áfengisframleiðenda og það er þeirra leið til þess að móta lífstíl óharðnaðra unglinga. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð - áfengisauglýsingar lúta ekki þeirri ábyrgð nema síður sé.

Ef ég ætti 500 milljónir
og mér væri í nöp við t.d. útlendinga og ég myndi kjósa að eyða öllum þessum peningum í auglýsingar og úthúða öllu þessu ágæta fólki, væri ég þá að gera það í nafni tjáningarfrelsis.
Ég er hræddur um að svo yrði ekki raunin, ég væri auðvitað kallaður rasisti og það með réttu. Ég legði fólk í einelti í krafti fjármagns og þetta fjallaði á engan hátt um tjáningarfrelsi.

Ef maður segir frelsi
þá verður maður líka að segja ábyrgð. Ef maður lifir í samfélagi þá verður maður að taka tillit til ýmissa annarra hagsmuna en sinna ýtrustu. Frelsi barna og unglinga til þess að vera laus við þessa samfélagslegu boðflennu, áfengisauglýsingar, er mun mikilvægara í mínum huga heldur en frelsi til þess að brjóta lög og freista þess að ota áfengi að börnum og unglingum. Hvar liggja hin siðferðilegu mörk - eða eru þau yfirleitt til staðar hvað varðar áfengisauglýsingar???