sunnudagur, 30. nóvember 2003

Það var ekki bara fyndið

Það var ekki bara fyndið
heldur bráðfyndið hér um árið þegar að blessaðar Jesúmyndirnar sem voru til sýnis í Kringlunni þurftu að víkja fyrir jólaauglýsingunum. Listaðmaðurinn greip til gamalkunnara ráða og fékk leyfi til þess að vista myndirnar í fjárhúsum Húsdýragarðsins. Ekki í fyrsta sinn sem að boðskapur jólanna er gerður hornreka vegna kaupahéðna sem eiga sér þau einu markmið að græða meira í ár en i fyrra.

Nú er úr vöndu að ráða
fyrir kirkjunnar menn og þann ágæta boðskap sem hún hefur fram að færa. Enda svo komið að Jesúbarnið víkur fyrir auglýsingu um fótanuddtæki á extra prís! Spurning hvort ekki þurfi að ráða auglýsingastofu til þess að koma hinum sanna boðskap jólanna á dagskrá í samfélagi þar sem tekist er á um að ná athygli fólks með þrotlausum hætti dag út og dag inn?

Veit það ekki en hitt veit ég að Framsóknarflokkurinn sem býr við mun veikari hugmynda- og hugsjónakerfi en hin kristna trú náði með dyggri aðstoð auglýsingarstofu að koma sér á dagskrá og þótti bara flottur.

miðvikudagur, 26. nóvember 2003

Fjörugur aðalfundur

Fjörugur aðalfundur
Aðalfundur STH í gærkveldi var hinn fjörugasti. Nýja stjórn skipa þau Árni Guðmundsson félagsmálafræðingur ÍTH formaður. Sigríður Bjarnadóttir skólaliði Víðistaðaskóla, Haraldur Eggertsson starfsmannahaldi , Geirlaug Guðmundsdóttir skrifstofumaður Sólvangi og Hallgrímur Kúld laugavörður Suðurbæjarlaug. Í varastjórn voru kjörin Karl Rúnar Þórsson sagnfræðingur Byggðasafni Hafnarfjarðar og Ásdís Bragadóttir talmeinafræðingur Skólaskrifstofu. Einnig gaf kost á sér í varastjórn Helgi Sæmundsson laugarvörður í Suðurbæjarlaug en hann náði ekki kjöri.

Kjartan Jarlsson Hitaveitu Suðurnesja gekk úr stjórn og er honum þökkuð góð og farsæl störf í þágu félagsins á umliðnum árum

Miklar umræður urðu um starfsmatið eðli málsins samkvæmt og ljóst að félagsmönnum þykir framkvæmdin hafa dregist algerlega úr hömlu. Á næstunni er ráðgert að efna til kynningarfundar um starfsmatið fyrir hinn almenna félagsmann í STH. Einnig urðu miklar umræður um starfsfólk skóla og starfsaðstæður þeirra

mánudagur, 24. nóvember 2003

Ágætu STH -arar
Minni á aðalfund félagsins þ. 25/11 í Gaflinum kl 20:00

sunnudagur, 23. nóvember 2003

Ef Ingólfur Arnarson væri ódauðlegur og

Ef Ingólfur Arnarson væri ódauðlegur og
væri BSRB félagi og hefði strax árið 874 ráðið sig í þjónustu hins opinbera á hefðbundin BSRB taxta? Þá þyrfti hann að vinna þúsöldum saman til þess að öðlast þær tekjur sem við sjáum safnast á fárra hendur í íslensku samfélagi á örskotsstund.

Við kristintökuna árið 1000
Gefum okkur að Ingólfur hefði haft ca 120.000 krónur í mánaðarlaun á núvirði (2003). Árslaun hans væru 1.440.000 krónur. Eftir hundrað ára starf væri hann komin 144.000.000 og svo cirka við kristintökuna árið 1000 væri hann komin með tekjur sem næði "kaupauka" Kaupþingsmanna fyrir þetta árið þ.e. ca 150 -60 milljónum.

Á þúsund ára starfsafmælinu
Ingólfur heldur órauður áfram og á 1000 ára starfsafmælinu sínu á því merka ári 1874 eru tekjur hans orðnar 1,440.000.000 - einn milljarður og fjögurhundruð og fjörtíu milljónir sem er nokkurt fé.

Ingólfur verður þreyttur með árunum
Ingólfur sem nú er tekin að lýjast nokkuð á sér hins vegar þann draum að hætta störfum þegar að tekjur hans hafa numið því sem menn hafa tekið út úr sjávarútveginum á örfáum árum. Í þeim efnum horfir hann til "Samherja" er keypti ónafngreindan frænda út úr fyrirtækinu fyrir 3.500.000.000- kr .

Árið 3433
Draumur Ingólfs mun því rætast "fljótlega" upp úr áramótunum árið 3433 en þá fer hann að hyggja að starfslokum en því markmiði sínu nær kallinn loks í júní það sama ár.

Ekki nóg að æsa sig gegn tveimur bankastjórum
Það er ekki nóg að æsa sig bara yfir tveimur ofurlaunuðum bankastjórum. Það er því miður ekki bara bankasukkið í samfélaginu sem þarf að taka á. Það þarf að taka á öllum þessum einokunarpakka eins og hann leggur sig. Verðsamráði olíufélaganna, verðsamráði tryggingarfélaganna, fákeppni í verslun og háu vöruverði, okurvöxtum bankakerfisins, kvótabraskinu og þeim gríðarlegu eignartilfærslum til fárra útvaldra sem þar hafa átt sér stað.

Vonandi ekki bara eitt örstutt spor?
Það er því von mín að ferð forsætisráðherra í Búnaðarbankann hafi verið fyrsti liður í ferð hans um íslenskt efnahagslíf í þeim göfuga tilgangi að tryggja sanngjarna skiptingu þjóðartekna.

Ef ekki þá fær röltið ásjónu þess sem tekur að fullu þátt í valdabrölti tveggja valdablokka í íslensku efnahagslífi og þess sem beitir sér að fullu afli gegn einu fyrirtæki en lætur önnur sem eru í engu skárri óáreytt.

fimmtudagur, 20. nóvember 2003

Húrra fyrir Hafnarborg

Húrra fyrir Hafnarborg
Brá mér á hádegistónleika í Hafnarborg í dag til að hlusta á tvo afbragðs góða listamenn, Öldu Ingibergsdóttir sópran og Antoníu Hevesi píanóleikara. Efnisskráin Mozart eins og hann gerist bestur, frábærir tónleikar og fullt hús. Húrra fyrir Hafnarborg og þessu ánægjulega framtaki.

miðvikudagur, 19. nóvember 2003

100.000 krónur á hvert mannsbarn
ekki 70.000 krónur eins og ég ýjaði að hér á Dagskinnunni um daginn. Það er sem sagt ofurgróði bankakerfisins sem er til umfjöllunar og það mat DV að hann nemi eigi minna en 100.000 krónum á hvern einstakling í landinu. Stal ekki einhver jólunum ? Fór þjóðarsáttin í jólaköttinn?

Ekki mjög félagslega sinnaðir
Það verður ekki sagt að sjálfstæðismenn séu sérlega félagslega sinnaðir og samfélög ýmiskonar greinlega til vansa að þeirra mati. Frumvarp ríkistjórnarinar um að reka fólk án viðvörunar er eitt dæmið , annað er boðað frumvarp Sigurðar Kára frjálshyggjupostula og þingmanns um að koma fólki út úr verkalýðsfélögum og svo hitt sem hve best lýsir stefnunni í verki sem er að fjölda fólks er meinuð innganga í “samfélag” Heimdellinga af stakri einurð.

Flokkur eða samfélag ? Veit ekki hvort það sé réttnefni, væri ekki nær að ræða um “hrúgu” af fólki sem myndar lausbeislað hagsmunabandalag um sína ýtrustu eiginhagsmuni og allt í nafni frelsi einstaklinginsins.

Verst er þegar að “hrúgan” fer að lifa samstæðu og sjálfstæði lífi og ógnar frelsi einhverra tiltekinna einstaklinga til valda. Í þeim tilfellum verður að bregðast afar skjótt við enda samfélag einstaklinga að myndast. Heimdallarhrúgan brást því hárétt við um daginn í baráttunni gegn utanaðkomandi frelsisskerðingu - ekki satt?

föstudagur, 14. nóvember 2003

Háu launin í Hafnarfirði ?
Í síðasta Fjarðarpósti segir ( samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar ) að meðaltalsárslaun hafnfirskra bæjarstarfsmanna ( 2.834 þús) séu hærri en í Kópavogi (2.396 þús) og á Akureyri ( 2.530 þús) vissulega rétt en..........

Afar villandi
samanburður verð ég að segja því ef við miðum við að þjónusta þessara þriggja bæjarfélaga sé nokkuð sambærileg þá eru við hafnfirðingar lang fámennastir með aðeins 928 starfsmenn. Í Kópvogi eru starfsmenn 26% fleiri eða 1173 talsins og á Akureyri eru starfsmenn 12 % fleiri en hér í firðinum eða 1040. Kópavogur er ekki 26% stærri en Hafnarfjörður og Akureyri er ekki 12% stærri en Hafnarfjörður.

Heildarlaunakostnaður lægstur í Hafnarfirði
Ef við berum saman heildarlaunakostnað á sambærilegum grunni þá er launakostnaður Hafnarfjarðarbæjar 2.629.952 þús, Kópavogs 2.810.508 þús, og Akureyrar 2.631.220 þús

Miðað við afköst og fjölda ættum við að vera 9.35% hærri í meðaltalslaunum
Starfsmenn Hafnarfjarðar eru fámennastir og ættu miða við núverandi fjölda að njóta enn betri kjara einfaldlega af þeirri ástæðu að framleiðin er mun meiri en annarra bæjarstarfsmanna í þessum samanburði. Ættu því að vera 3.028.564 ef miða er fjölda í Hafnarfirði og heildarlaunakostnað í Kópavogi.
Þegar að allt kemur til alls þá á hinn fámenni en dugmikli hópur hafnfirskra bæjarstarfsmanna inni allnokkuð og vantar 9,35% á laun okkar fólks miðið við framleiðni.

Svona er það nú
og ekki er alltaf allt sem sýnist og ekki segja meðaltölin allt. Hitt er deginum ljósara að Hafnafjarðarbær er rekinn með mun minni mannafla en önnur sambærileg sveitarfélög og fyrir minni launakostnað. Væri ekki sanngjarnt að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar nyti þess að fullu ?

mánudagur, 10. nóvember 2003

Trúnaðarmenn STH
hittust í hádeginu til skrafs og ráðgerða. Trúnaðarmannafundir eru að öllu jöfnu 2-3 sinnum á ári. Í dag voru rædd ýmis mál er við stöndum í um þessar mundir, ýmis málefni stofnanna, kerfisbreytingar , eftirlaunamál, mismunandi launasetning sambærilegra stofnanna, orlofsmál og ný afstaðið BSRB þing svo eitthvað sé nefnt.

Blessað starfsmatið og framvinda þeirra vinnu var ítarlega rædd. Sú mikla töf sem orðin er veldur fólki vonbrigðum og ljóst að þrátt fyrir að dagsetningin 1, des 2002 standi sem gildistími þá verður að bæta fyrir þessa miklu bið með einhverju hætti. Það hefur enginn bæjarstarfsmaður efni á því að eiga útistandandi leiðréttingar mánuðum ef ekki árum saman. Því verður fast sótt fram í þeim tilgangi að bæta fólki biðtímann. Í bankakerfinu kallast bætur fyrir slíkt dráttarvextir.

Fræðslubækling um starfsmatskerfið munu trúnaðarmenn dreifa á næstu dögum Nánar um framvindu starfsmats og upplýsingar má lesa um á heimasíðu STH www.sthaf.is

Ekki liggja fyrir tillögur um lagabreytingar á aðalfundinum þ. 25 nóv n.k aðrar en þær að breyta ákvæðum um tímasetningu aðalfundar. Í dag er gert ráð fyrir að fundir sé fyrri hluta árs en breytingar ganga út á það að færa fund fram á haust í ljósi þeirra breytinga sem vinnsla og umfang bókhalds á umliðnum árum hefur haft í för með sér varðandi ársuppgjör. Hugmyndin er því að gera ráð fyrir haustfundum í stað vorfunda.

fimmtudagur, 6. nóvember 2003

Fróðir menn segja

Fróðir menn segja
að gróði íslenska bankakerfisins s.l. ár hafi numið ca 20.000.000.000 krónum – 20 milljörðum? Það gerir að verkum að tekjur miðað við kúnna þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir við að hvert mannsbarn í landinu sé í viðskiptum við bankanna (með einum eða öðrum hætti) þá eru þetta litlar 70.000- krónur í gróða per viðskiptaaðila.

Í Bandríkjunum væri samsvarandi summa 5.000.000.000.000.000.000 krónur – veit ekki einu sinni hvað svona summur heita – trilljón billjónir ? fimm-milljón-þúsund-milljónir ?

Tvær þjóðir í einu landi – fámennur íslenskur aðall og við hin. “Stétt með stétt” er kjörorð ákveðins stjórnmálaflokks – væri ekki nær að breyta því í “stétt fyrir stétt”

þriðjudagur, 4. nóvember 2003

Aðalfundur STH
verður haldin 25 nóvember kl 20 í Gaflinum og á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf.

Nokkrir hafa kvartað - Hvað er í gangi ?
Færð þú rafrænan launaseðil og hefur þú beðið sérstaklega um hann? STH furðar sig að launaseðlar séu sendir til viðkomandi banka án formlegs samþykkis launþega og sú spurning hlýtur að vakna hvort t.d. persónuvernd sé í hávegum höfð hvað þetta varðar.
Eru launaseðlar á glámbekk í bönkum landsins? Getur vinnuveitandi tekið einhliða ákvarðanir af þessu tagi - held ekki og þó svo væri þá þarf örugglega staðfesta samþykkt viðkomandi. Og að lokum hvað með þá sem ekki hafa aðgang að tölvubanka?

Af hverju er ekki ávallt greitt út þann 1. hvers mánaðar ?
Ef tölvutæknin er orðin svona öflug væri þá ekki nær að greiða laun ávallt þann 1. hvers mánaðar inn á reikning viðkomandi starfsmanna þó svo að sá dagur falli á helgardaga? Er einhver sanngirni í því að fá útborgað t.d. mánudaginn 3. xxx
Það þarf að kíkja betur á þessi mál - ekki satt?