þriðjudagur, 23. maí 2006

Af bæjarstjórum

Ég hef yfirleitt sem formaður STH átt í ágætu samstarfi við þá bæjarstjóra sem í Hafnarfirði hafa starfað. Vissulega hefur oft á tíðum hvesst nokkuð hressilega en einungis í örfáum tilfellum hafa viðkomandi bæjarstjóri / ar ekki gert greinarmun á því hvaða hlutverki ég gegni hverju sinni. Sem embættismaður lýt ég hinu pólitíska valdi og framkvæmi af trúmennsku það sem fyrir mig er lagt. Sem formaður stéttarfélags hef ég þá undanbragðalausu skyldu að verja hagsmuni félagsmanna í hvívetna sem talsmaður þeirra. Í þeim efnum hafa yfirmenn embættismannsins ekkert forræði eða húsbóndavald. Þetta er lykilatriði sem einhvern tímann hafa því miður verið misskilin.

Ég hef ávallt átt gott samstarf við Lúðvík Geirsson. Gott samstarf byggir á trausti, hreinskiptni í samskiptum og ekki síst gagnkvæmum skilningi á þeim margvíslegum og flóknu málum er upp koma í starfsmannamálum. Tel að ágæt samskipti mín við bæjarstjóra byggi m.a. á þessum þáttum. Sama get ég ekki sagt um samskipti mín við þessa svokölluðu launanefnd sveitarfélaga og eða fulltrúa hennar. Enda hef ég talið það Hafnarfjarðarbæ helst til vansa að leggja lag sitt við það apparat. Hef ekki trú á öðru en að bæjarfélag eins og Hafnarfjörður komi sér út úr því “bandalagi” strax og kostur verður og afturkalli fullnaðarumboð sitt til nefndarinnar. Væri vel við hæfi og staðfesting á því að Hafnarfjarðarbær ætli sér í fremstu röð í starfsmannamálum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli