fimmtudagur, 11. maí 2006

Akranesbær gefst upp á launanefnd sveitarfélaga

Akranesfélagið mun hugsanlega ganga inn í Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar – Akranesbær óskar í kjölfarið eftir því við Reykjavíkurborg að hún taki yfir samningsumboð sitt vegna starfsmanna á Akranesi?

Til hvers allt þetta brölt . Málið einfalt Akranesbær losnar undan þeirri skussastefnu sem launanefnd sveitarfélaga hefur haft uppi í launamálum, starfsmenn fá Reykjavíkursamninginn að öllu leyti og ekki síst þá gildir starfsmat og starfsmatstenging Reykjavíkurborgar. Sem sagt allur þessi leikur til þess eins gerður að rétta kjör starfsmanna Akranesbæjar án aðkomu launanefndar sveitarfélaga!

Krýsuvíkurleið, ekki spurning. Sennilega eina leið bæjarfélagsins til þess að losna undan launanefnd án verulegra óþæginda? Þurfa sveitarflögin í landinu að afsala samningumboði sínu til höfuðborgarinnar til þess að fólk fái starfsmat sem virkar? Kjánaskapur að öllu leyti og óþarfi en eitt af fjölmörgum merkjum þess um að verulega sé farið að vatna undan launanefnd sveitarfélaga.

Annað merki er það að Mosfellsbær er að taka upp Reykjavíkurtengingar starfsmatsins gagnvart sínu starfsfólki. Það er gert án þess að velta bæjarfélaginu og starfsmannafélaginu á annan endann enda verulegur efi um að endurskipuleggja þurfi heilu og hálfu bæjarfélögin til þess að komast undan samþykktum launanefndar.

Fyrir áhugfólk um stjórnsýslu birti ég hér úrdrátt úr fundargerð bæjarráð Akraness:

„3. Viðræður við stjórn Starfsmannafélags Akraness. Til viðræðna mættu Valdimar Þorvaldsson formaður, Hafdís Sigurþórsdóttir, Anna Pála Magnúsdóttir og Emilía Árnadóttir.Stjórn St.Ak. afhenti bæjarráði svohljóðandi yfirlýsingu:

“Stjórn Starfsmannafélags Akraness hefur ákveðið að óska eftir formlegum viðræðum við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um sameiningu félaganna þannig að samþykktir Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar gildi um hið sameinaða félag eftir samrunann. Verður boðað til almenns félagsfundar í Starfsmannafélagi Akraness á næstunni þar sem leitað verður heimildar félagsmanna til samninga um þetta efni.”

Eftirfarandi bókun var lögð fram af meirihluta bæjarráðs:
“Á undanförnum árum hefur samvinna og samstarf milli Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar stöðugt aukist. Nægir þar til að nefna samstarf í Orkuveitu Reykjavíkur, sameiningu hafna við Faxaflóa og almenningssamgöngur. Svæðið er því orðið eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Akraneskaupstaður samþykkir því að leitað verði eftir samvinnu við Reykjavíkurborg um launa- og kjaramál, enda verði tillaga stjórnar Starfsmannafélags Akraness um sameiningu þess félags við Starfsmannafélag Reykjavíkur samþykkt á almennum félagsfundi og Reykjavíkurborg samþykki fyrir sitt leyti að gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn sem starfa hjá Akraneskaupstað verði á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Ákvörðun þessi er tekin að fenginni yfirlýsingu Starfsmannafélags Akraness um viðræður um sameiningu félagsins við Starfsmannfélag Reykjavíkurborgar. Bæjarstjóra og bæjarráði er falið að óska eftir viðræðum við borgaryfirvöld um málið.”Bæjarráð samþykkir bókunina

Engin ummæli:

Skrifa ummæli