laugardagur, 23. febrúar 2008

Göteborg

... er stundum kölluð París norðursins, með réttu enda borgin afar falleg og prýdd eina alvöru “breiðstrætinu” á norðulöndum Kungsports Avenyn sem endar við Götaplatsen þar sem styttan af sjávarguðinum Psiodon prýðir torgið og er eitt af einkennum borgarinnar. Hin risavaxa stytta þykir ægifögur, en af og til hafa sprottið umræður um að hinn nakti Posidon sé ekki sérlega “manndómlega” vaxinn. Ekki veit ég hvort einhverjir evrópustaðlar eru hafðir til hliðsjónar í þeim efnum. Ein raunhæf kenning hefur verið sett fram í þessu efni, sem hugsanlega skýrir þetta, en hún er að sjávarguðinn hafi verið nýstiginn upp úr ísköldum sjónum og styttan beri þess augljóslega merki? Eitt er víst að umræðan mun koma upp með reglulegu millibili eins og verið hefur.

Er sem sagt staddur í Gautaborg, borginni sem fóstraði mig um rúmlega þriggja ára skeið á ofanverðri síðustu öld er ég nam tómstunda- og félagasmálafræði við Fritdisledarskolan þar í borg. Er núna í þeirri skemmtilegu erindagjörð að halda fyrirlestur í mínum gamla skóla. Notaði auðvitað tækifærið til að hitta gamla skólafélaga en það er svo merkilegt að eftir því sem árin líða þá hefur maður einhverja þörf til að vita hvað varð af mannskapnum. Ég var eini íslendingurinn í hópnum og þar sem ég flutti heim að námi loknum þá hafði maður takmakaða möguleika á að halda sambandi nema við nokkra. Nú er sem betur fer öldin önnur og tilkoma netsins gerir vegalengdir að engu og möguleikar til samskipta verða allt aðrir en á tímun "snail mail", símasnúrunnar og ofurdýrra flugmiða.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Vandað og gott starf til margra ára

Hef fengið nokkuð af e-mailum vegna greinarkorns sem ég skrifaði í hið ágæta blað Kópavogspóstinn og birtist í síðustu viku. Vegna óska sem ég hef fengið birti ég greinina hér.

" Vandað og gott starf til margra ára.

Í Kópavogi hefur til margra ára verið rekið gott og uppbyggilegt æskulýðsstarf. Margar félagsmiðstöðvar starfa í bænum, við þær starfar einvala lið góðara starfsmanna og vel menntaðra og reynslumikilla yfirmanna. Uppbygging málflokksins undanfarin ár hefur verið markviss og starfið gengið mjög vel, svo vel að starfsemin hefur notið verðskuldaðar viðurkenningar fyrir gott starf langt út fyrir bæjarmörkin sem og virðingar innan fagsamfélagsins fyrir fagmennsku.

Fyrir skömmu var auglýst starf verkefnastjóra æskulýðs- og tómstundamála (æskulýðs- og tómstundafulltrúi) . Um starfið sóttu 14 einstaklingar m.a. nokkrir starfandi forstöðumenn félagsmiðstöðva í Kópavogi, vel menntaðir, með langan starfsaldur innan fagsins og farsælan starfsferil. Auk þess sóttu um margir aðrir hæfir og reyndir einstaklinga á þessu sviði. Því var ljóst að valið yrði erfitt. Held að hæfustu einstaklingarnir í umsækjendahópum hefðu sætt sig við jafningjaval.


Svo fór að ekki var ráðinn neinn af starfandi forstöðumönnum félagsmiðstöðva í Kópavogi né heldur neinn af þeim öðrum utanaðkomandi sem bjuggu yfir góðri menntun og mikilli reynslu. Ráðinn var til starfans undirmaður formanns ÍTK Gunnsteins Sigurðssonar skólastjóra og bæjarfulltrúa, sem auk þess reyndist vera meðmælandi viðkomandi umsækjanda. Að vonum urðu sterk viðbrögð við þessum ráðningaráformum bæjarins og vægast sagt mikil óánægja meðal starfsmanna ÍTK sem m.a. komu fram í því að á fjórða tug þeirra sýndu hug sinni í verki og mættu á bæjarstjórnarfund þann 27. nóvember s.l. þegar að ráðningarmál þetta bara á góma.

Sá sem þetta ritar hefur um margra ára skeið haldið úti dagskinnu (bloggi)
www.arnigudmunds.net . Sem starfandi í þessum bransa og sem sérfræðingur í þessum málaflokk og ekki síður sem meðmælandi nokkurra umsækjenda um starfið þá skrifaði ég að a.m.k. tvær færslur um þetta afar sérstaka mál í dagskinnuna. Þá fyrstu með fyrirsögninni “Vekur furðu” dagsetta 22. nóvember og þá síðari “... enn má undrast” dagsetta 28.nóvember. Oft hefur það komið fyrir að í síðuna sé vitnað enda fer efni hennar víða þar hún er m.a. útbúin með sjálfvirkri fréttaveitu og mörgum sinnum hefur efni dagskinnunar verð sett í viðtalsform í dagblöðum. (sérstaklega þegar að ég gegndi formennsku í Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar). Er mér algerlega að meinalausu enda skrifa ég ávallt undir nafni og tek fulla ábyrgð á öllu sem á dagskinnuna er ritað. Svo fór með þessa pistla, sem lentu m.a. á síðum DV, sem ekki var furða enda málið umtalað í æskulýðsbransanum og margir sem furðuðu sig á öllu þessu máli, án þess þó að rita um það opinberlega. Ráðningin sem slík auðvitað viðburður/ frétt sem ekki bara snerti Kópavog heldur líka allt fagsamfélagið.

Fékk af því fregnir að mér hefðu m.a. af þessu tilefni ekki verið vandaðar kveðjurnar í umræðum um þessi máli á bæjarstjórnarfundi þ. 27. nóv . Gerði ekkert með það í fyrstu enda ýmsu vanur. Hins vegar þegar mér fóru að berast fregnir frá ólíklegasta fólki um að, að mér hafi verið afar ómaklega vegið úr ræðustól bæjarstjórnar þá varð það úr að ég hafði samband við ágætan bæjarritara Kópavogsbæjar Páll Magnússon og falaðist eftir hljóðupptökum af fundinum, sem var auðsótt mál.

Ekki verður sagt að umræðurnar hafi verið málefnalegar og ekki þurfti ég að hlutsta lengi á upptökuna til þess að átta mig á því að starfandi formaður ITK og bæjarfulltrúi fór langt yfir strikið í umræðunum, viðhafið ærumeiðandi ummæli og vó að starfsheiðri mínum í stað þess að ræða grundvallaratriði þess máls. Ég fékk i kjölfarið lögfræðing til þess að hlýða á þetta og taldi sá að margt af þeim ummælum sem formaðurinn og bæjarfulltrúinn lét falla vörðuðu við 234. og 235. greina almennra hegningarlaga (um ærumeiðingar) sem og bæjarmálasamþykkt Kópavogs frá 19/12 1997 sbr. 28. grein.(um að bera brigsl á einstakling) Auk þess sé ákaflega óviðeigandi og ekki stórmannlegt að viðhafa ummæli um “einstakling út í bæ” á vettvangi bæjarstjórnar Kópavogs þar sem hinn sami á ekki nokkurn kost á að svara fyrir sig á þeim vettvangi.

Ég hafði í kjölfarið sambandi við Sigurrós Þorgrímsdóttur forseta bæjarstjórnar sem ber ábyrgð á framkvæmd bæjarstjórnafunda, kynnti henni málavexti og lagði eftirfarandi til:
“Ég geri að tillögu minni að þú hafir forgöngu um að loka þessu máli af þeirri virðingu sem er bæjarstjórn Kópavogs samboðin. Að mínu mati er það best gert á sama vettvangi þ.e. vettvangi bæjarstjórnar og eða með formlegri afsökun þess bæjarfulltrúa er viðhafði margþætt ummæli er öll eiga það sammerkt af hafa vegið að æru minni og starfsheiðri.”

Eftir nokkurn umhugsunarfrest fékk ég svar þar sem forseti bæjarstjórnar sér ekki ástæðu til þess að hafast neitt enda hafi ekki verið neitt athugavert við fundinn?

Það liggur því fyrir að bæjarfulltrúar í Kópavogi geta átölulaust úr ræðustól bæjarstjórnar vegið að fólki út í bæ sem þeim er ekki þóknanlegt, fólki sem á þá þann eina kost að sækja viðkomandi bæjarfulltrúa til saka fyrir dómstólum með ærnum kostnaði eins og raunin gæti orðið í þessu máli.

Þetta mál er orðið alsherjafarsi ekki bara hvernig staðið var að ráðningu í þetta mikilvæga embætti æskulýðs- og tómstundafulltrúa, ekki síður það að þeir sem leyfa sér að setja fram aðrar skoðanir en ráðandi bæjarfulltrúar eiga það á hættu að sitja undir fúkyrðaflaum einstakra bæjarfulltrúa í skjóli bæjarstjórnar Kópavogs og síðast en ekki síst, margt af því úrvalsfólki, burðarásrar í góðri starfsemi ÍTK í gegnum árin leita á önnur mið. Sorglegast af öllu er þó að horfa upp á vandað, gott og faglegt starf á sviði æskulýðsmála í Kópavogi , margra ára uppbyggingarstarf sé nánast að engu gert með einu pennastriki – Hver hefur efni á svona vitleysu?"


Svo mörg þau orð.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Frábær sýning

Takk fyrir mig. Brá mér í kvöld á foreldrasýningu Grunnskólahátíðar sem fram fór í íþróttahúsinu við Strandgötu. Leiksýning með atriðum frá öllum félagsmiðstöðvum og skólum hér í Hafnarfirði. Skemmtileg hefð sem hefur vaxið og dafnað með stækkandi bæ, fleiri skólum og félagsmiðstöðvum. Stórt samvinnuverkefni eins og þetta gerir það að verkum að unglingar milli hverfa kynnast mun betur en ella og allt sem heitir getur hverfarígur þekkist vart.

Dansleikur fer fram að loknum sýningum dagsins og hefur sem slíkur gengið áfallalaust árum saman, aldrei komið upp nein vandamál eins og áfengisneysla eða slíkt nema í örfáum tilfellum. Á morgun 14. feb verður mikið fjölmenni enda ókeypis inn af tilefni 100 ára afmæli bæjarins, en nemendur ákváðu samt sem áður að greiða 100 krónur á mann og láta alla innkomuna renna til velferðarmála, sem er til fyrirmyndar. Ballið mun eins og undanfarin ár verða vel lukkað og unga fólkinu til sóma.

Hef séð allar þessar sýningar í gegnum árin. Sýningin í ár er án efa með þeim bestu. Atriði fjölbreytt, vel unnin og skemmtilega útfærð. Leikþættir, söngleikir, ævintýri og tónlist, allt frábær atriði. Sviðið flott, fín lýsing og sándið eins og best verður á kosið. Sá eiginlega mest eftir að hafa ekki gripið með mér myndavélina, þó ekki væri nema til að henda inn einni mynd hér á dagskinnuna til þess að gefa lesendum smá nasaþef af þessari frábæru sýningu – en sem sagt frábær sýning – Hvet alla foreldra og forráðamenn til þessa kíkja næst - Þakka fyrir mig, frábært kvöld.

mánudagur, 11. febrúar 2008

Menningarverðmæti

Músíktilraunir Tónabæjar og Hins hússins eru mikil menningarverðmæti. Þegar að maður kíkir á listann yfir hljómsveitir sem hafa unnið keppnina frá upphafi þá sér maður hvílík menningarfabrikka keppnin er. Allt frá „sítt að aftan“ Greifarnir yfir í harðkjarnarokk vina minna í Mínus og allt þar á milli. Músíktilraunir eru frábær vettvangur sem hefur hvatt mörg bönd til dáða og ekki síst komið efnilegu ungu tónlistarfólki á framfæri. Keppnin hefst í mars og ef að líkum lætur verður þar margt efnilegra banda.

Listi yfir hljómsveitir sem hafa sigrað í Músíktilraunum frá upphafi.

1982 – Dron, 1983 – Dúkkulísurnar, 1984 - Keppni féll niður vegna verkfalls kennara, 1985 – Gipsy, 1986 – Greifarnir, 1987 – Stuðkompaníið, 1988 – Jójó, 1989 – Laglausir, 1990 - Nabblastrengir (Umbilical cords), 1991 - Infusoria (Sororicide), 1992 - Kolrassa Krókríðandi (Bellatrix), 1993 – Yukatan, 1994 – Maus, 1995 - Botnleðja (Silt), 1996 – Stjörnukisi, 1997 - Soðin Fiðla, 1998 – Stæner, 1999 – Mínus, 2000 - XXX Rottweiler hundar, 2001 – Andlát, 2002 – Búdrýgindi, 2003 – Dáðadrengir, 2004 – Mammút, 2005 – Jakobínarína, 2006 - The Foreign Monkeys , 2007 - Shogun.

fimmtudagur, 7. febrúar 2008

Íslenskt verðlag og kjarasamningar

Verg þjóðarframleiðsla 30 % yfir meðaltali.? Verðlag best 7% yfir meðaltali 27 Evrópulanda, mest 126 % , matvara 64% yfir meðalverði?

Byrjunarlaun starfsmanns á leikskóla eru 103 þúsund samkvæmt kjarsamningum Eflingar.
Ærið verk að vinna í komandi kjarasamningum - ekki satt?

Heimild: Hagstofa Íslands

mánudagur, 4. febrúar 2008

Góðtemplarar ...

... á Akureyri skilgreina forvarnarstarfsemi í víðara lagi sbr. samþykktir íslensku Góðtemplarareglunar:

“Markmið IOGT er að fólk um allan heim njóti frelsis og tilgangsríks lífs. Bindindissamtökin IOGT á Íslandi vilja…
Vinna fylgi lífsháttum án vímuefna - og stjórnmálastefnu sem miðar að því að takmarka neyslu áfengis og annarra vímuefna og minnka skaðann sem fylgir henni.
Vinna að því að auka þá virðingu sem fólk ber hvert fyrir öðru án tillits til kynþátta, kyns, trúar- og stjórnmálalegra skoðana.
Leggja sitt af mörkum ásamt IOGT í öðrum löndum til að draga úr fjárhags- og félagslegum mun milli fólks.
Taka þátt í friðarstarfi innanlands og styrkja slíkt starf í heiminum með félögum IOGT í öðrum löndum.
Taka þátt í baráttu fyrir verndun umhverfisins.
Leggja lið raunhæfum aðgerðum og félagslegri þjónustu til að tryggja mannsæmandi líf fyrir fórnarlömb áfengis og annarra vímuefna og fjölskyldur þeirra. “

Góðtemplarar gefa 50.000.000 sjá: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4398175/5

Með fullri virðingu fyrir hinum brýnu viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins þá er samt sem áður vert að benda á að forvarnarbransinn hefur úr afar litlu fjármagni að moða og á ekki sjéns í áfengisbransann sem eyðir ómældum fjárhæðum í auglýsingar. Hefði því talið nær starfsemi og markmiðum hreyfingarinnar að styrkja þann vettvang - ekki veitir af.