föstudagur, 29. júlí 2005

Stóra plastflöskumálið

Bæði Fréttablaðið og Blaðið skúbba í dag. Ja ekki alveg enda um sömu „stórfrétt” að ræða, en auðvitað geta örlögin hagað því þannig að á vettvangi stóratburðanna séu fleiri en einn blaðamaður staddur hverju sinni

Fréttin er sú að bjórframleiðandi einn sé byrjaður að setja ölið á plastflöskur og dugandi blaðamönnum dugir ekkert minna en að kalla út sína bestu ljósmyndara sem stilla plastflöskunum vel og vendilega upp og mynda þennan tímamótaatburð í bak og fyrir enda stórfrétt bæði að innihaldi og ekki síst í dálksentímetrum. Yrði ekki hissa á því að þessi tímamóta atburður kæmist í heimspressuna

Veit sem er að það er löngu búið að finna upp plastflöskuna og hef það fram yfir viðkomandi fjölmiðlamenn að halda ró minni af þessu tilefni, blessuð plastflaskan er löngu komin, og það meira að segja til Íslands

Frétt Blaðsins er stórkostleg en það sér sérstaka ástæðu til að „kynna” þessa byltingu. Fréttablaðið hefur meiri reynslu af samskiptum við hagsmunaaðila af þessum toga og mörg stórfréttin hafnar því milliliðalaust í hinni deildinni þ.e. auglýsingadeildinni. Sennilega margur blaðamaðurinn því fegin enda vandasamt og erfitt verk að fjalla um jafn stórkostlegan atburð og hér um ræðir.

Verðið á Agúrkum er óbreytt þessa daganna en úr þeim stórtíðindum gera alvöru fjölmiðlar ekkert? Sennilega út af stóra plastflöskumálinu - Verð að segja það eins og er að ég bíð spenntur eftir fréttunum um skrúftappann sem að öllum líkindum er væntanlegur á plastflöskurnar innan skamms og þá verður aðvitað útkall ALFA með ljósmyndurum og öllu tiltæku tæknilið enda spyr maður ekki um kostnað þegar að slík stórtíðinni eru annars vegar.

föstudagur, 22. júlí 2005

Sýnum hug okkar í verki

Sendu endilega meðfylgjandi auglýsingu til vinna þinna. Sýnum hug okkar í verki. Virðum réttindi barna og unglinga.

sunnudagur, 17. júlí 2005

Hvílík lágkúra !

Það eru engin mörk hvorki siðleg né lagalega fyrir því hve lágt menn leggjast í áfengisauglýsingum þessa daganna. Veit sem er að gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál.

Á hins vegar ekki orð yfir því hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert er hjá www.blog.central.is.
Brá alla vega illilega í brún þegar að ég sá að hjá 11 ára dóttur minni og öllum hennar vinkonum var bjórauglýsing. Sendi ábyrgðamönnum meðfylgjandi línur s.l. föstudag en hef ekki fengið neitt svar?

„Ritstjóri Vísis eða ábyrgðarmaður „bloggsamfélagsins"
Var í kvöld að kíkja bloggsíðu hjá 11 ára dóttur minni sem heldur út ágætu bloggi hjá ykkur eins og mörg börn á hennar aldri gera. Rak í rogastans þar sem ég sá að inni á síðunni hjá henni var komin blikkandi áfengisauglýsing (Heineken bjór). Eru engin takmörk fyrir lágkúrunni þegar að ólöglegar áfengisauglýsingar eru annars vegar. Hver er ábyrgur fyrir þessu siðleysi?"
Árni Guðmundsson (sign)


Fyrirtækið fer ekki einu sinn eftir sínum eigin skilmálum sbr grein 6. um notkunarskilmála:

Grein 6. Notandinn samþykkir að hann muni ekki nota þjónustu Fólk.is í að birta nokkuð ólöglegt, móðgandi, hótandi efni eða klámfengið eða meiðyrði af nokkru tagi og fari að lands- og alþjóðalögum hvað varðar höfundarrétt á efni sem birt er." (sjá nánar: http://folk.visir.is/system/?p=13)

Halda menn að það sé almennur vilji forráðamanna barna að þau auglýsi áfengi á ágætum heimasíðum sínum ? Held nú síður - Þetta er bara hágæða lákúra sem að öllum líkindum varðar ekki bara við lög um bann við áfengisauglýsingum, heldur einnig vaflítið réttindi viðkomandi barna sem hafa verið þverbrotin með misnotkun af þessu tagi.

föstudagur, 15. júlí 2005

Verslunarmannhelgin & bjórauglýsingar

Margir foreldrar og forráðmenn barna og unglinga eru ráðlausir gagnvart áfengisauglýsingum. Þær eru sífellt að aukast og ekki er lengur gerðar tilraunir til þess að dylja boðskapinn með útúrsnúningum af ýmsum toga.

Það er algerlega 100% öruggt að í aðdragandi verslunarmannahelgarinnar mun menn auglýsa áfengi hvað af tekur og reyndar er herferðin þegar byrjuð. Ekkert verður til sparað frekar en fyrri daginn enda virðist fjármagn til auglýsinga ekki vera skorið við nögl

Hef mikið velt fyrir mér hvað er til ráða, veit sem er að meirihluta foreldra er ákaflega mótfallið þessum keypta áróðri.

Eitt ráð er að sýna hug sinn í verki til þessara fyrirtækja sem þverbrjóta lög með sniðganga þau á forsendum viðskiptasiðferðis. Velta mál fyrir sér hvort það siðferði sem kemur fram í markvissum brotum við banni á áfengisauglýsingum sé ekki hið almenna viðhorf viðkomandi fyrirtækis á öllum öðrum sviðum þess?

Annað er það að grípa til borgaralegrar skyldu sinnar og benda yfirvöldum á lögbrot þessi sem fyrst og fremst beinast gegn réttindum barna og ungmenna.

Í þessu tilfelli er það embætti ríkissaksóknara sem þarf að tilkynna, tiltaka þarf auglýsingu og í hvað miðil og hvað dag. Ríkisaksóknara er hægt að senda ábendingu í rafpóst bogi.nilsson@tmd.is Held að nú þegar berast embættinu almargar ábendingar en betur mál ef duga skal.

Allt sem er löglegt á að leyfast að auglýsa segja hagmunaaðilar – Má þá ekki búast við tóbaksauglýsingum að nýju? – Veit það ekki - vildi bara óska að menn virtu réttindi barna og unglinga og hættu þessu ólöglegu auglýsingum.

föstudagur, 8. júlí 2005

Með bjórdollu í annarri og fjármagnið í hinni?

Forvarnarnefnd Akureyrar gerði samning við Ölgerðina Egill Skallagrímsson varðandi framlög til forvarna í bæjarfélaginu. 10 krónur af söluandvirði hverrar Mix gosflösku fer til nefndarinnar.

Virkar vel að virðist en bara einn verulega stór galli á gjöf Njarðar sem er auðvitað sá að á sama tíma og samningurinn er gerður er fyrirtækið í óða önn við það að auglýsa áfengi og ota að sömu börnum og unglingum og það er að „verja” með framlögum til forvarna? Fyrirtækið þverbrýtur lög um bann á áfengisauglýsingum og auglýsir auk þess sérstaklega í miðlum sem ætlaðir eru börnum og unglingum.

Alvöru forvarnastefna fyrirtækisins væri auðvitað fólgin í því að hætta að ota áfengi að börnum og unglingum með kolólöglegum auglýsingum. Auglýsingum sem ganga þvert á þau uppeldismarkmið sem uppalendur í þessu landi hafa sett sér og reyna að fara eftir. Mörgum foreldrum gremst þetta ákaflega en upplifa ráðaleysi gagnvart þessum markvissa og ólöglega áfengisáróðri

Meðan að svona er þá er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að „forvarnastefna” Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sé skrumið eitt og í því sambandi má einnig velta fyrir sér „ágæti” þess að opinberir aðilar eins og forvarnarnefndir sveitarfélaga taki þátt í samstarfi á þessum forsendum – Hver eru skilaboðin, er þetta einhver gæðavottun, er verið að gefa grænt ljós og viðurkenna atferli eins og einlægan brotavilja fyrirtækisins gagnvart banni á áfengisauglýsingum – Veit það ekki , dæmi nú hver fyrir sig?

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Mr Smith

Hef sem formaður UFN Samtaka norrænna félagsmiðstöðva þurft að ferðast nokkuð og því víða farið. Eitt er alltaf víst í þessu ferðum sem er að í komuhliðum flugstöðva um heim allan stendur fjöldi manns með spjöld merktum einhverjum einstaklingum sem verið er að sækja. Mr Smith á sitt spjald og er iðulega sóttur út á flugvelli víða um heim

Hef stundum hugsað mér gott til glóðarinnar og gerast einn af þessum „Smith-um” og fá ókeypis far með einhverri Límósíunni í miðborgina. Segja síðan bara sí svona þegar að mál upplýsast „I, am very sorry, this is a big mistake. I, am Mr Smith from Hafnarfjorður not Helsinki” og hverfa við svo búið á braut.

Hef hins vegar aldrei látið verða af þessu, hef í þeim efnum gjarnan hugsað um hinn umkomulausa og ósótta orginal Mr Smith, algerlega ósjálfbjarga úti á flugvelli, húkandi tímunum saman eftir sækjandanum. – Nei er sennilega ekki gott grín eftir allt saman, auk þess sem það er hið besta mál að nýta sér almenningssamgöngur til og frá flugvöllum, sem víðast hvar eru með miklum ágætum og auk þess hagkvæmur kostur.