Forvarnarnefnd Akureyrar gerði samning við Ölgerðina Egill Skallagrímsson varðandi framlög til forvarna í bæjarfélaginu. 10 krónur af söluandvirði hverrar Mix gosflösku fer til nefndarinnar.
Virkar vel að virðist en bara einn verulega stór galli á gjöf Njarðar sem er auðvitað sá að á sama tíma og samningurinn er gerður er fyrirtækið í óða önn við það að auglýsa áfengi og ota að sömu börnum og unglingum og það er að „verja” með framlögum til forvarna? Fyrirtækið þverbrýtur lög um bann á áfengisauglýsingum og auglýsir auk þess sérstaklega í miðlum sem ætlaðir eru börnum og unglingum.
Alvöru forvarnastefna fyrirtækisins væri auðvitað fólgin í því að hætta að ota áfengi að börnum og unglingum með kolólöglegum auglýsingum. Auglýsingum sem ganga þvert á þau uppeldismarkmið sem uppalendur í þessu landi hafa sett sér og reyna að fara eftir. Mörgum foreldrum gremst þetta ákaflega en upplifa ráðaleysi gagnvart þessum markvissa og ólöglega áfengisáróðri
Meðan að svona er þá er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að „forvarnastefna” Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sé skrumið eitt og í því sambandi má einnig velta fyrir sér „ágæti” þess að opinberir aðilar eins og forvarnarnefndir sveitarfélaga taki þátt í samstarfi á þessum forsendum – Hver eru skilaboðin, er þetta einhver gæðavottun, er verið að gefa grænt ljós og viðurkenna atferli eins og einlægan brotavilja fyrirtækisins gagnvart banni á áfengisauglýsingum – Veit það ekki , dæmi nú hver fyrir sig?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli