laugardagur, 31. desember 2011

miðvikudagur, 30. nóvember 2011

Þetta vekur mig til umhugsunar !

Það vakti athygli fyrir nokkru þegar að ógæfumaður  var dæmdur til fangelsisvistar eftir að hann varð uppvís að því að stela nokkrum bjórum í ríkinu. Að vísu  átti hann einhver önnur afbrot af svipuðum toga óuppgerð en var eðli málsins settur í steininn. Lögbrot er lögbrot og umfangið sem slíkt skiptir ekki máli – eða hvað? Lögbrot sem slíkt er nákvæmlega sama hvort það er stórt eða lítið. Í siðuðu samfélagi skiptir ekki máli hvort menn stela einu súkkulaðistykki eða 100 allt eru þetta glæpir.

Þetta vekur  mig til umhugsunar um ákveðið misræmi hvað varðar önnur lögbrot t..d. eins og brot á 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Í þeim efnum hafa “vettlingatök” verið viðhöfð.  Þó  að dómum fjölgi þá er það umhugsunarvert í  Hæstaréttardómi  þar sem ritstjóri Mannlífs var dæmdur til sektar þá skilar einn dómari séráliti þess efnis að þar sem brot séu svo mörg að hinn seki  ætti ekki gjalda þess að vera einn kærður. Jafnræði fælist í því að þessi eini ætti að sleppa? í stað þess þá væntanlega að vinda sér í kæra þá sem lögbrot hafa framið.   Þess má geta að ritstjórinn sakfelldi  lagði fram sér til “málsbóta” fjórar möppur er innihéldu 999 áfengisauglýsingar sem ekki hefðu verið kærðar?

Þetta vekur mig til umhugsunar um hve gríðarlegt virðingarleysi viðkomandi aðilar sýna lögum landsins. Áfengisframleiðendum og innflytjendum áfengis flestum hverjum  virðist vera algerlega sama um  lög landsins sniðganga þau,  brjóta og sýna af sér markvissan og einlægan brotavilja. Dómar þ.e.a.s. fyrir utan það að einn og annar forstjórinn eða ritstjóri lendir á sakaskrá, eru svo vægir að greiðsla sektar er aðeins brotabrot af auglýsingakostnaði  og dómar miðað við fjölda  brota eru allt of fáir.

Þetta vekur mig til umhugsunar um  20. grein áfengislaga sem fyrst og fremst er sett fram sem liður í vernd barna og ungmenna. Það er skynsamlegt enda áfengi engin venjuleg “matavara” . Íslendingar drekka ekki rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum eins og er óskhyggja einhverra þingmanna sem vilja leyfa sölu á  áfengi í stórmörkuðum, en eins og kunnugt er þá er verulegur fjöldi starfsmanna unglingar og í einhverjum tilfellum allt niður í  12 ára börn!  Áfengi er viðkvæm vara eins og t.d. lyf og tóbak og lýtur því að sjálfsögðu öðrum lögmálum en vörur almennt.  Börn og unglingar eiga því lagalega og ótvíræðan rétt á því að vera laus við þennan einhliða áróður sem  áfengisauglýsingar eru.  Bann við áfengisauglýsingum er ekki  skerðing á tjáningarfrelsi eins einhverjir brennivínsbransans menn  hafa haldið fram. Samkvæmt skýrum niðurstöðum Hæstaréttar  um það atriði þá er um keyptan einhliða áróður að ræða sem ekkert á skylt við tjáningarfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er teljandi á fingrum annarar handar þau tilefni sem fulltrúar áfengisbransans hafa tekið þátt í almennum tjáskiptum – t.d. í fjölmiðlum eða öðum opinberum vettvangi. Því þora menn ekki og kjósa að höndla í samræmi við eigin skoðanir um “tjáningarfrelsi” þ.e. með fleiri áfengisauglýsingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hve lágt menn leggjast í þessum málum. Ég sagði eitt sinn á fræðslufundi í ónefndu foreldrafélagi að það væru engin mörk og nefndi það að sennilega myndu menn auglýsa bjór á fæðingardeildinni ef menn kæmust upp með það.  Var þá að ýja að því hvernig áfengisbransinn beinir auglýsingum markvisst að börnum og unglingum. Fékk skömm í hattinn fyrir þessi ummæli en viti menn ekki löngu síðar barst mér myndband þar sem hinir dönsku “Gunni og Felix” léku í bjórauglýsingu.  Nær fæðingardeildinni verður vart komist.

Þetta vekur mig til umhugsunar um þá lágkúru þegar að settar voru áfengisauglýsingar inn á bloggsíður barna; eða þegar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar lét koma fyrir áfengisauglýsingum í strætóskýlum á stór Reykjavíkursvæðinu í aðdraganda grunnskólaprófa og að stjórn Strætó b.s. skyldi sýna sínum helstu kúnnum, börnum og unglingum slíka vanvirðu; eða þegar að íþróttafélag gerir fullann Lunda  með bjór í hönd að einkennismerki útihátíðar; eða þegar RÚV birti áfengisauglýsingum í kjölfar þess að forseti Íslands  veitti íslensku forvarnarverðlaunin og eins í kjölfar þess þegar að liðsmönnum íslenska handknattleikslandsliðsins voru veittar orður; eða þegar börn eru notuð í áfengisauglýsingar eins og fyrirtækið Vífilfell gerir; eða þegar að útvarpstöðvar sem ætlaðar eru börnum og unglingum útvarpa áfengisauglýsingum; eða þegar að auglýst að ekki sé hægt að horfa á enska boltann nema verða ölvaður; eða þegar að áfengisbransinn segist vera hluti af íþróttaleikum; eða  þegar ungt fólk eignast ekki vini fyrr en það hefur drukkið 12 bjóra.? Svona mætti lengi telja og ljóst að virðing fyrir réttindum barna og unglinga er engin.

Þetta vekur mig til umhugsunar um það að áfengisauglýsingar virka. Hagsmunaaðilar hafa haldið hinu gagnstæða fram og nefnt í því samhengi að ekki sé hægt að finna fylgni milli auglýsinga og aukinnar drykkju t.d. ungmenna. Þetta er útúrsnúningur og ætla sér að nýta rannsóknaraðferð sem einungis er nýtt á tilraunstofum í lokuðu eða tilbúnu umhverfi  eins t.d.  við lyfjarannsóknir virka einfaldlega ekki sem mælitæki hvorki hvað varðar áfengisauglýsingar eða annað í þeim dúr. Slíkt er ekki hægt að mæla í margþættu samfélagi þar sem að óteljandi atriði hafa áhrif sem ekki er hægt að einangra sem gera það að verkum að ekki fæst marktæk fylgni. Þetta vita allir sem fást við rannsóknir.  Grundvallar spurningin er því sú ef auglýsingar virka ekki hvers vegna er þá verið að auglýsa?   Auglýsingar virka og því til sönnunar má nefna að Bandaríkjamenn gerðu könnun sem fólst í því að rannsaka ungmenni sem lent höfðu í áfengis- og vímuefnaneyslu og þar kom greinilega í ljós að gagnvart þessum hópi höfðu áfengisauglýsingar haft veruleg áhrif. ( Journal of Public Health Policy (2005) 26, 296-311)

Þetta vekur mig til umhugsunar  um alla þá vinnu sem foreldrasamfélagið og allir þeir aðilar sem vinna með börnum og unglingum hafa lagt á sig í forvarnaskyni. Á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar voru skólaskemmtanir  í unglingadeildum fjarri því að vera áfengislausar og í einhverjum tilfellum þurfti afskipti lögreglu vegna ölvunar. Sem betur fer heyrir þetta fortíðinni til og með sífellt betri samstarfi foreldra með tilkomu  foreldrafélagana og síðar víðtæku samstarfi þeirra aðila sem vinna með börnum og unglingum  breytist ástandið hægt og sígandi til hins betra.  Markmið foreldrasamfélagsins um vímuefnalausan grunnskóla  er raunhæft og með samstilltu átaki allrar þeirra sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti það hefur margt áunnist þrátt fyrir gegndarlausan áfengisáróður sem beint hefur verið sérstaklega að börnum og unglingum. Sá sem þetta ritar veit að árangur hefði án alls efna verið betri ef áfengisbransinn léti börn og unglinga einfaldlega  í friði. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga  sem þau eiga lögvarðann rétt til þess að vera laus við og ganga þvert á öll uppeldismarkmið  foreldrasamfélagsins .

Þetta vekur mig til umhugsunar um  siðferði eða viðskiptasiðferði. Þegar að grjótharðir viðskiptahagsmunir einir ráða algerlega för án nokkurs tillits til laga eða almenns siðferðis vaknar sú áleitna spurning hvort slíkt eigi ekki við alla aðra starfsþætti viðkomandi fyrirtækis? Getur verið að sá hroki sem viðkomandi  fyritæki sýnir  réttindum barna og unglinga sé fyrirtækið í hnotskurn?

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé óviðeigandi að eiga viðskipti við slík fyrirtæki. Er forsvaranlegt að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem ota áfengi á börnum manns? Að mati þess sem þetta ritar er engin spurning um að sniðganga auglýstar áfengistegundir. Myndir þú versla við kaupamann sem ýtti tóbaki að börnunum þínum. Held ekki – og því auðvitað sjálfgefið að slíkt gildi einnig við þá aðila sem ota áfengi að börnum og unglingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvers vegna við all margir foreldrar og fólk sem ber velferð æskunnar fyrir brjósti stofnuðum  Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum (www.foreldrasamtok.is ). Í meira lagi undarlegt að stofna hafi þurft sérstök samtök í þeim eina tilgangi að freista þess til að farið sé að lögum? Er sennilega einstætt i hinum vestræna heimi og  í raun sorglegt dæmi um lágt viðskiptasiðferði og virðingarleysi gagnvart börnum og unglingum . Bendi fólki á síðu samtakanna  (www.foreldrasamtok.is )þar sem koma má á  framfæri  með rafrænum hætti ábendingum um brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum.

Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir – sýnum ábyrgð og tilkynnum um brot.

mánudagur, 21. nóvember 2011

Hermann Fannar Valgarðsson


Dagsins amstur verður afar fáfengilegt þegar að þær fréttir berast að ungur vinur manns hafi í blóma lífsins orðið bráðkvaddur.  Á slíkum stundum setur mann hljóðan og maður skilur lítt hin æðstu rök tilverunnar.   

Það fór ekki fram hjá neinum þegar að unglingurinn Hemmi  mætti á svæðið  ásamt góðum hópi, fremstur meðal jafningja.  Vettvangurinn  var félagmiðstöðin Vitinn í Hafnarfirði  um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Eins og hans var von og vísa var ekkert verið að tvínóna við hlutina og fyrr en varði  var komin mikil aksjón í starfið. Uppátæki  ungmennanna margvísleg og ávallt vörðuð óbilandi bjartsýni æskunnar sem lætur ekki einhver praktísk atriði trufla góða hugmynd.  Það var því margt brallað og stundum fannst starfmönnum nóg um.  En allt gekk þetta vel  og frábært að fylgjast með þessum ungmennum þroskast og dafna sem sjálfstæðir og virkir einstaklingar. 

Það lá beint við að Hemmi kæmi til starfa hjá ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráði  Hafnarfjarðar) þegar að hann hefði aldur til.  Það voru  í hans tilfelli óljós skil því erfitt var að greina hvenær hann hætti að vera unglingur og  varð starfsmaður.  Kannski  að hann hafi ekki heldur gert nein skil sjálfur á því. Þegar við hugsum til Hemma koma upp ótrúlegustu myndir í hugann eins og hæfileikakeppnin Höfrungur og Risapáskaeggjaunginn, aldrei lognmolla eða óleyst vandamál. Hemmi  hafði alla þá eiginleika  sem að góður starfsmaður í æskulýðsstarfi þarf að búa yfir, hann var ungu fólki góð fyrirmynd,  starfaði í anda sköpunar og frumkvæðis og ávallt jákvæður.  Hann vissi að mikilvægi starfsins liggur í því að leiða saman fólk, byggja upp virk samskipti  og gefa ungu fólki kost á að vinna saman undir merkjum lýðræðis að margvíslegum verkefnum.  Að gefa ungu fólki kost á því að öðlast félagslegan þroska og félagslega hæfni í gegnum hin ýmsu viðfangsefni . Með öðrum orðum að gefa ungu fólk kost á að menntast í víðtækasta skilning þess orðs.

Þessar góðu eigindir nýtust Hemma örugglega vel á öðrum vettvangi og í hans margvíslegu  verkefnum síðustu ára. Það er afar sárt að kveðja góðan vin sem yfirgefur okkur allt og fljótt. Mest er þó sorg Söru, sonar þeirra og nánustu skyldmenna. Um leið og við vottum þeim okkar dýpstu samúð þá þökkum við fyrir að hafa átt vináttu Hemma  í gegnum árin og góðar minningar um góðan dreng – blessuð sé minning hans.

Árni Guðmundsson fv. æskulýðs- og tómstundafulltrúi Hafnarfjaðrar
Geir Bjarnason  forvarnafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2011


Íslenskar æskulýðsrannsóknir 2011
Menntavísindasvið Háskóla Íslands v/Stakkahlíð - Bratti 19. nóvember 2011 - Kl. 10:00 – 17:00

Æskulýðsráð í samvinnu við Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands, Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, Rannsókn og greiningu og Ráðgjafanefnd um æskulýðsrannsóknir standa að ráðstefnunni Íslenskra æskulýðsrannsóknir 2011.
Undirbúningshóp skipa; Óskar Dýrmundur Ólafsson formaður Æskulýðsráðs, Árni Guðmundsson MVS HÍ, Andrea Hjálmsdóttir Félagsvísindadeild HA, Jón Sigfússon R&G og Stefán Hrafn Jónsson formaður Ráðgjafarnefndar um æskulýðsrannsóknir. Aðrir samstarfsaðilar eru: Félag fagfólks í frítímaþjónustu FFF og Rannsóknarstofa í Bernsku- og æskulýðsfræðum BÆR.

Þátttökugjald er 500 kr og frítt fyrir nema - Vinsamlegast skráið ykkur í póstfangið arni@hi.is

Laugardagur 19. nóvember 2011

- Dagskrá- 
Ráðstefnustjóri: Stefán Hrafn Jónsson.

10:00 Skráning og morgunkaffi - Veggspjöld

10:10 Ávörp
Jón Torfi Jónasson forseti Menntavísindasviðs HÍ og
Óskar Dýrmundur Ólafsson formaður Æskulýðsráðs.

10:20 Skýrsla ráðgjafanefndar um æskulýðsrannsóknir – Dr. Stefán Hrafn Jónsson HÍ.

10:50 Hugmynda- og aðferðafræði skátahreyfingarinnar -Dr. Ólafur Proppé.

11:20 Forvarnir gegn átröskunum meðal unglingsstúlkna, Elva Björk Ágústsdóttir M.A ( Höf Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur, Elva Björk Ágústsdóttir M.A. í sálfræði, Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði við HÍ og Fanney Þórsdóttir, lektor í sálfræði við HÍ.).

11:50 Umfang og áhrif reykinga í kvikmyndum - Sólveig Karlsdóttir Embætti landlæknis.

12:10 Félagsmiðstöðvar í Reykjavík – Gísli Árni Eggertsson M.ph Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur.

12:40 Börn og sjónvarp á Íslandi – Dr Þorbjörn Broddason HÍ og Dr Kjartan Ólafsson HA.

13:10–14:00 Hádegishlé

14:00 Málstofur
Stofa K 205 / Stofa K 206

14:00
Áhrif tveggja ára skólaíhlutunar á holdafar, hreyfingu og þrek 7 ára barna. - Dr. Kristján Þór Magnússon.
Tómstundamennt á Íslandi – Vanda Sigurgeirsdóttir Lektor HÍ.

14:25
Líðan, félagsleg tengsl og þátttaka í skipulögðu frístundastarfi, Ungmenni í 8.-10. bekk sem alast upp á heimili þar sem annað móðurmál en íslenska er töluð: - Guðrún Inga Baldursdóttir, nemi í sálfræði í HR (Leiðbeinendur: Bryndís Björk Ásgeirsdóttir Háskólinn í Reykjavík og Hrefna Guðmundsdóttir Frístundamiðstöðinni Kampur.
Þróun fagumhverfis – sjónarhorn félagsuppeldisfræðinnar – Árni Guðmundsson M.Ed – HÍ.

14:50
Tengsl bjagaðrar líkamsmyndar við þyngdarstjórnun unglingsstúlkna í eða undir kjörþyngd -Ársæll Arnarsson og Nanna Ingibjörg Viðarsdóttir.
„Þetta er svo miklu dýpra en bara að sitja með þeim og hanga“ – Starfsfólk í félagsmiðstöðvum ÍTR - Hulda Valdís Valdimarsdóttir M.A.

15:15
Síðdegiskaffi

15:35
Afdrif ungmenna sem tóku þátt í Hálendishópnum 2001-2005 - Hervör Alma Árnadóttir lektor HÍ.
Fagmennska í frístundaheimilum: Hver er sýn starfsmanna?
Kolbrún Þ. Pálsdóttir Doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ

16:00
Er siðferðilega rétt að berjast gegn offitu? Sigrún Daníelsdóttir sálfræðingur
Tómstundafræði og rannsóknir? Jakob F Þorsteinsson M. A – HÍ.

16:25
Maður lærir líka að vera góður - Sýn unglinga á félagsmiðstöðvar og eigin þátttöku í starfi þeirra. - Eygló Rúnarsdóttir M.A. Skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar.
Atgervi ungra Íslendinga- Hreyfing og holdafar. Sandra Jónasdóttir M.S. doktorsnemi við MVS

17:00
Kynningar á veggspjöldum -
Ráðstefnuslit

föstudagur, 11. nóvember 2011

Ert þú búin að skrifa undir ?

Einelti er er alvarlegt mál - ert þú búin að sýna hug þinn í verki  gagnvart þessari vá sem einelti er? Þú getur gert það með því að undirrita meðfylgjandi sáttmála:

"Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd. Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er"

Undirritun hér

þriðjudagur, 11. október 2011

Swatch - samhengi þó síðar yrði

Fyrir allmörgum árum var ég á leið með ferju frá Álandseyjum til Svíþjóðar. Sé þetta fína úr í fríverslun ferjunnar og á þessu þokkalega verði. Festi kaup á því „med det samme“ Hef átt þetta ágæta úr síðan og það í alla staðið reynst mér vel. Eins og gengur og gerist þá gaf ólin sig með tímanum þannig að ég brá mér til úrsmiðs sem reyndar áttu eftir að vera fleiri en einn áður en yfir lauk..

Sá fyrsti sagði umsvifalaust „ Við fáum aldrei neitt frá þessum aðila, ég get ekkert gert fyrir þig“ . Sá næsti sagði „ Þetta er drasl við komum ekki nálægt þessu“. Sá þriðji sagði „Það er ekkert hægt að gera við þetta nema skipta um rafhlöðu og búið“. Sá fjórði var á sömu skoðun og kollegar hans en hann kvaðst geta fiffað ól á úrið sem og hann gerið af stakri prýði og nákvæmni sem einkennir þessa ágætu stétt. Skildi þetta ekki alveg en fann á öllu viðmóti að úrsmiðum almennt, sem eru að öllu jöfnu eru ljúft fólk, var meinilla við úr eins og mitt.

Víkur nú sögunni til Noregs en þangað sótti ég fund í starfshóp í tengslum við starf mitt s.l. vor. Hitti þar kollega minn við Háskólann í Vestfold. Sá er félagsuppeldisfræðingur og virtur fræðimaður á sínu sviði. Einhvern vegin barst það í tal að viðkomandi hafði unnið um fimm eða sex ára skeið á auglýsingastofu og í framhaldi af því spannst umræða um hvort hann hafi ekki gert eitthvað sem hann sjái eftir? Jú það var því miður margt sagði hann, kaupið var verulega gott og oft spennandi verkefni en inn á milli voru verkefni sem voru algerlega á jaðrinum og verkefni sem hann hefði helst ekki vilja koma nálægt og hefði jafnvel skammast sín fyrir eftirá.

Eitt verkefni fannst honum þó allra verst en það var þegar að auglýsingastofan sá um að skipuleggja víðtæka auglýsingaherferð á einhverjum drasl úrum, gott ef öll Skandinavia var ekki undir. Úrin væru svo léleg að ef þau biluðu þá þyrfti yfirleitt að henda þeim, það væri hægt að skipta um rafhlöðu, það væri ekki einu sinn hægt að fá ólar á úrin, ekki hægt að skipta um gler og ef vísir losnaði af þá var úrið ónýtt.. „Við auglýstum þetta fyrir gríðarlegar upphæðir sem hágæða vöru og það var eins og við manninn mælt sala rauk upp en úrsmiðirnir urðu vægast sagt óhressir og sögðu að þetta Swatch dót væri algert drasl“ .

Leit á úrið mitt og skyldi þar með undarlega ónotaleg viðbrögð íslenskar úrsmiða.

miðvikudagur, 5. október 2011

Maður spyr sig ?

Eiður Guðnason  f.v. ráðherra og þingmaður skrifar góða grein um málefni Ríkisútvarpsins í Fréttablaðið í dag.

Í lok greinarinnar varpar Eiður fram spurningu, sem margir hafa spurt en í fáu verið svarað, um endalausar og kolólöglegar áfengisauglýsingar í Ríkisútvarpinu. Einbeittur brotvilji  og virðingarleysi  gagnvart lögvörðum réttindum barna og ungmenna er Ríkisútvarpinu til skammar.

Á þessu þarf stjórn Ríkisútvarpsins að taka ?  Sérstaklega þar sem framkvæmdastjórinn lætur sig þessu augljósu sí brot lítt varða? Hve lengi á þetta að viðgangast?  Þarf að dæma Ríkisútvarpið til þess að fara að lögum  um bann við áfengisauglýsingum ? Ætlar stjórn Ríkisútvarpsins virkilega að koma sér í slíka stöðu ,  maður spyr sig?

sunnudagur, 25. september 2011

Veit ekki hvort myndin er táknræn en ...

Myndir og eða myndataka segja oft mun meira en það sem sagt er í viðtölum. Þessi mynd er af hinum ágæta vef www.fotbolti.net - Óneitanlega afar ironiskt að sjá krosstákn í mynd vinstarmegin. Sérstaklega ef litið er til þeirrar erfiðu stöðu sem lið Grindavíkur er í nú fyrir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu

laugardagur, 10. september 2011

Er verið að gera grín að bæjarbúum?

...spyr ritstjóri Fjarðarpóstsins um verulega takmarkað upplýsingagildi fundargerða nefnda og ráða hjá Hafnarfjarðarbæ. Að flestu leyti með réttu en í þessu tilfelli  sem hér er sýnt ( FP 8.sept 2011) er fundagerðin nákvæmlega eins staða málsins - tabula rasa. Staða þessa máls er samkvæmt þessu í besta falli blanko.

Eðlileg færsla og samræmi við stöðu málsins væri  að færa eftirfarandi til bókar:  "Unnið er áfram að verulegum niðurskurði í málefnum barna og unglinga, nú undir formerkjum skipulagsbreytinga. Reiknað er með, að með breyttum störfum, nýju starfsfólki á umtalsvert lægri launum og nýjum starfslýsingum sem að mestu leyti gera ekki ráð fyrir fagmenntun,  sparist um það bil 27% umfram þann verulega niðurskurð sem þegar hefur komið til  framkvæmda í málaflokknum. Fúskvæðing geirans gengur með ágætum."

Nei maður á ekki að grínast með svona há alvarlegt mál. Umræður hafa sennilega verið öllu alvarlegri á fundinum  m.a. í ljósi þess að málið er unnið í  verulegu ósætti við allt umhverfið.  Nánast engin (12 af 13) af fyrrverandi yfirmönnum sækja um stöður í "nýrri stjórnsýslu". Það er grafalvarleg staða og hverning ætla menn að mæta því gríðarlega raski þegar að uppsagnarfrestur fjölda reyndra og vel menntaðra lykilstarfsmanna rennur út  á næstu vikum? Af slíku hljóta allir ábyrgir aðilar að hafa verulega áhyggjur. Sjá nánari umfjöllun ( http://addigum.blogspot.com/2011/08/hvar-er-fagmennskan.html )

Hitt er svo verulegt umhugsunarefni til hvers menn eru eiginlega að skrifa fundargerðir ef ekkert kemur fram í þeim sem hönd er á festandi. Ef þetta snýst um launagreiðslur til hinna kjörnu fulltrúa fyrir fundasetur er þá ekki allt eins betra að viðkomandi stimpli sig inn eins og annað launfólk? Veit það ekki en tek undir með ritstjóra Fjarðarpóstsins um að í þessum efum er verulegt rými til framfara - Alvöru fundargerðir eru grundvallaratriði  í opinni og upplýstri stjórnsýslu.

fimmtudagur, 1. september 2011

Sá skrímslið ...greinilega

Veit það sem er að Lagarfljótsormurinn er bara lítill ormur ef litið er til frænda hans, eða réttar sagt frænku hans, Nessie, sem ku búa í hinu djúpa og mikilfenglega vatni Loch Ness í Skotlandi.

Sannreyndi það um daginn eins og meðfylgjandi ljósmynd sýnir greinilega. Ég er sem sagt einn af örfáum sem hef séð og náð skrímslinu á mynd. Fór fyrir nokkru mikin leiðangur  um þessar ægifögru slóðir sem Loch Ness og umhverfi þess er.

Ég geri mér grein fyrir því að ég eins og aðrir ljósmyndarar sem hafa náð myndum af skrímslinu mun sæta gagnrýni og jafnvel ávirðingum um að myndin sé fölsuð. Ég gef ekkert fyrir það, náði mynd af skrímslinu. Hvort það var skrímslið innra með okkur öllum eða hin fræga Nessie læt ég mér í léttu rúmi liggja. Manneskjan mætir sjálfri sér og sínum innsta kjarna andspænis fegurð náttúrunnar hvort sem það er við hið fagra vatn Loch Ness eða á bökkum Lagarfljóts fyrir austan. "Í mér blundar fól" sagði presturinn og útvarpsstjórinn Heimir Steinsson. Púkar, skrímsli og ormar blunda í okkur öllum hvort sem við náum því á "mynd" eða ekki.  Getur verið að svo sé í þessu tilfelli og ef svo er, er þá myndin spegill sálarinnar? Er okkur öllum ekki hollt að taka slíkar myndir af og til?

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hvar er fagmennskan ?

Að sameina starfsemi félagsmiðstöðva og heilsdagsskóla (HS) í Hafnarfirði er skynsamleg ráðagerð. Það hefði reyndar mátt ganga enn lengra með því að færa félagsmál aldraðra undir ÍTH en það er önnur umræða. Eins vel og þessi sameining hljómar þá er framkvæmdin og innleiðingin út úr öllu korti. Það er sorglegt að forsvarsmenn fjölskyldusviðs virðast ekki vita mikið um málaflokkinn og eða skilja mikilvægi hans. Þetta lýsir sér í því að viðkomandi nýta fagleg sóknarfæri fyrst og fremst til þess að skera niður og gjaldfella starfsemina sérstaklega hvort sem horft er til fjármuna eða fagmennsku sbr Excel skjöl af ýmsum toga um útfærslu á þessum skipulagsbreytingum. Hvernig staðið var að (fjölda) uppsögnum í sambandi við þessar breytingar, tímasetningar, lögfræðilegar tilvísanir, starfslok o.fl er kapítuli út af fyrir sig og sætir furðu að Starfsmannafélag Hafnafjarðar hafi ekki látið sig málið varða? Allt virðist þetta gert í þeim tilgangi að lækka lág laun enn frekar með starfsheitabreytingum.

Samkvæmt atvinnuauglýsingum ( Sjá vef Hafnarfjarðarbæjar) um störf í nýju skipulagi eru gerðar afar takmarkaðar kröfur til starfsmanna (sem reyndar hefur vakið athygli víða og er umtalað í fagumhverfinu). Sjá auglýsingu um Frístundaleiðbeinendur . Starfsfyrirkomulagið byggir að virðist á einhverjum tveimur „farandfagmönnum“ , sem þó þurfa ekki , samkvæmt annarri auglýsingu á sama vef ( Verkefnastjóri frístundastarfs), að hafa viðeigandi háskólamenntun né reynslu af starfsemi af þessum toga. Viðkomandi „fagmenn“ eiga síðan að koma inn á hinum ýmsu starfstöðum sem „sérfræðingar“ þegar að á mæðir og þörf gerist (sbr Excel útfærslu/ bls 13, Greinagerð starfshóps) ? Það er einnig stórkostlegt álitamál hvernig einhver deildastjóri á að starfa sem næsti yfirmaður rúmlega 50 starfsmanna sem vinna á fjölda starfsstaða (bls 13, Greinargerð starfshóps). Þetta er algert metnaðarleysi þar sem markmiðið virðist fyrst og fremst vera að skera ennþá meira niður í þessum mikilvæga málaflokk en gert hefur verið á umliðnum árum og þykir þó flestum nóg um, ekki síst unga fólkinu sem sýndi hug sinn í verki með eftirminnilegum hætt með mótmælum við bæjarskrifstofurnar haustið 2009.

Innleiðing á þessari löngu tímabæru sameiningu hefði mátt útfæra með einföldum og tiltölulega átakalitlum hætti. Grundvallaratriði er að byggja breytingarnar á uppeldisfræðilegum forsendum fremur en einhverjum Excelskjölum. Það sparast strax við sameiningu umtalsverðar fjárhæðir vegna minni kostnaðar við yfirstjórn HS í hverjum skóla . Með aðhaldi, reyndu og góðu fagfólki má útfæra þetta svo vel verði og samlegðaráhrif verði enn meiri. Hitt er svo öllu verra að fjöldi lykilstarfsmanna ÍTH, vel menntuðu fólki á sviði æskulýðsmála , traustu og virtu fagfólki, er svo misboðið að viðkomandi sækja ekki um „niðurfærð“ störf í nýju skipulagi og hverfa á braut. Það er afspyrnu slæmt en segir það sem segja þarf, eru óþægilega skýr skilaboð sem vert er að taka mark á. Í þeim gögnum sem ég hef séð er lítið fjallað um innhald starfseminnar, uppeldisfræðileg markmið, starfsskrá eða annað í þeim dúr. Ég get ekki heldur séð að ágæt umsögn kollega minna í Háskóla Íslands um aukna fagmennsku og mikilvægi menntunar á þessu fagsviði hafi ratað inn í þessa útfærslu (sem nb er að virðist önnur en óskað var umsagnar um )? Það er leitt að horfa upp á þetta klúður sem seint verður flokkað undir fagmennsku. Ég ráðlegg bæjaryfirvöldum eindregið að endurskoða þessa innleiðingu frá A- Ö og framkvæma þetta af einhverjum þeim metnaði og fagmennsku sem er bæjarfélaginu sæmandi. Í því liggja hin faglegu sóknarfæri og raunverulegur „arður“ - Æskan er okkar fjársjóður.

Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.águst

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík

Mestu öfugmæli  sveitarfélaga og annara vinnuveitanda í kjaramálum ( s.l. 30 - 40 ár amk) er frasinn að allt fari til andskotans í efnahagsmálum ef laun hækki. Þangað er allt farið og enn hanga viðsemjendur launafólks á grjótharðri láglaunapólitík eins og hundar á roði, við erum ennþá í þessum láglaunpytti.

Ef litið er til sögunnar þá hefur aldrei verið ráðrúm til launahækkana, hvorki í góðærum eða á samdráttarskeiðum. Rök vinnuveitenda hafa hverju sinni verið gaumgæfilega útfærð og ekkert endilega í samhengi við þau sem áður voru eða eftir á komu.  Í góðærum ógna launahækkanir "stöðugleika" og á samdráttarskeiðum "þarf" að leggja niður og draga saman grunnþjónustu ef laun fara yfir fátækrarmörk. Allt rök sem vega að öryggistilfinningu fólks og ala á ótta þess. Svona mætti lengi telja og þegar að mest á mæðir taka talsmenn vinnuveitenda þetta á "tárakirtlunum"  enda eftir nokkru að slægjast, stöðug láglaunapólitík í húfi .

Það sem verra er að margur trúir því að hin grjótharða íslenska láglaunapólitík sé orsök alls okkar vanda. Þokkalegt sjónvarpstæki og notaður 7 ára gamal fjölskyldubíll er talin orsök hrunsins mikla. Og það að eiga eða hafa þokkalega umgjörð um sig og sína þykir lúxus hérlendis en meðal flestra þjóða talið til grunnþarfa. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl og varð m.a. til þess að hrunið kom verr niður á okkur en ella.

Sænska dagblaðið Dagens Nyheter, sem seint verður talið málsvari félagshyggjunnar, birti,  í kjölfar hrunsins hérlendis, m.a. grein í þessa veru. Í greininni var því haldið fram að vegna lágra launa í hinu íslenska samfélagi "allsnægta" þá hefðu íslendingar fjármagnað neyslu sína með lánum fremur en sparnaði af launum eins og ku vera alsiða í nágrannalöndum okkar þar sem ríkari sátt er um skiptingu auðsins en hérlendis. Í stað sanngjarnar tekjuskiptingar í efnuðu íslensku samfélagi hefði fjármagn safnast á nánast einn stað, í bankakerfið sem síðan lánaði öllu sem hreyfðist (m.a ómálga börnum - innskot ÁG) á okur vöxtum með hræðilegum afleiðingum eins og launafólk margt hvert hefur fengið að reyna í kjölfar hrunsins.

Verkalýðshreyfingin þ.m.t. ég sem f.v. formaður Starfsmannafélags Hafnarfjarðar og  f.v. stjórnarmaður í BSRB m.m. höfum ekki staðið okkur sem skyldi á umliðnum árum eða áratugum. ASÍ hefur að vísu átt góða spretti en betur má ef duga skal. BSRB hefur oft verið meira áberandi en um þessar mundir.

Leikskólakennarafélagið sýnir gríðarlegan styrk um þessar mundir. Frammistaða formannsins í Kastljósi þar sem hann blés á og hrakti hefbundin harmakvein kjarasviðs sveitarfélaganna, var afar góð. Það er einlæg von mín að leikskólakennarar nái markmiðum sínum, enda algerlega nauðsynlegt að brjóta á bak þessa grjóthörðu íslensku láglaunapólitík. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans og ekki síst sem liður í því að byggja upp samfélag sem byggir á öðrum gildum en þeim sem komu okkur til "andskotans". Með því að ganga fram fyrir skjöldu og berjast af einurð og festu fyrir bættum kjörum hafa leikskólakennarar sýnt í verki að þeir eru verðugir fulltrúar samfélagsins til þess að innleiða nýja launastefnu, sem er grundvallarforsenda fyrir sátt í samfélaginu.

þriðjudagur, 9. ágúst 2011

Formannsmyndin tilbúin en að vísu á eftir að kjósa

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og laganemi, hefur gefið kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Framboðsmyndin er ekki af verri endanum og sómir sér vel innan um myndir af reynslunnar mönnum eins og hér má sjá.

Ólafur Ragnar lét sem kunnugt er taka af sér "forsetamyndina" áður en hann var kosin forseti. Hvort þetta bragð nýtist sjálfstæðismanninn unga skal ósagt látið en óneitanlega verður fróðlegt að fylgjast með hverning til tekst.

Myndin er full íhaldssöm og stöðluð fyrir minn smekk - Nútímatæki eins og gemmsi á borðinu hefði komið þessari mynd inn í 21. öldina og höfðað til fleiri en Félags eldri Sjálfstæðismanna - En hvað með það myndin vekur umfjöllun og þar með er takmarkinu sennilega náð... eða hvað ?



sunnudagur, 31. júlí 2011

Hvílík fegurð

Náttúrufegurð er óvíða jafnmikil og hérlendis og alltaf er maður að uppgötva nýja staði. Einn slíkur er Þakgil (GPS: N63 31.809 W18 53.271) milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands. Farið er upp af þjóðvegi 1 við Höfðbrekku skammt austur af Vík. Leiðin er ca 20 km löng og fær öllum bílum. Útsýni á leiðinni er víða afar fallegt m.a. yfir Múlakvíslina, Mýrdalssandinn svo ekki sé minnst á jökulinn. Því miður nær myndavélin ekki að fanga stórfengileikann á svæðinu sbr. myndir hér á síðunni, en það er eins og þessi stóru björg séu nánast að hvolfast yfir mann, svona svipuð tilfinning eins og þegar horft er upp eftir skýjakljúf. Ferð í Þakgil er einstök upplifun og dæmi um fjölbreytileika og fegurð  íslenskrar náttúru.

fimmtudagur, 30. júní 2011

Anders Guðmundsson og fjölskylda fórst í Líbíu

Mér bárust þær sogarfréttir frá Hr. Gnanih í gegnum Fésbókina að íslendingurinn Anders Guðmundsson og fjölskylda hans sé öll eftir sprengjuárás manna Gaddafis í Libíu.  Svo virðist sem þessi frétt hafi algerlega farið fram hjá íslenskum fjölmiðlum - skil ekki hvers vegna og ekki heldur hvers vegna  Hr. Gnanih er að tilkynna mér þetta sérstaklega. Mun leggja til við lögmaninn að hann snúi sér til fjármálaráðuneytisins eða íslenskra skattayfirvalda. Þó ég sé ríkistarfsmaður þá er ég ekkert í erfðamálum. Birti bréfið hér meðfylgjandi:

"Advocate Raphael Gnanih
O6.BP:311 République du Bénin
Telephone: +229 99387948

Attn:Mr. Árni Guðmundsson

I am Advocat Raphael Gnanih an attorney to Late Anders Guðmundsson, a national of your country, who used to work as the Director of Arabian Gulf Oil Company in republic of Libya West Africa, On 20th Match 2011, my client and his family were attacked by Gaddafi rebel force on his way escaping out of the country during the on going crisis in Libya, unfortunately my client and his family were involved in bombing explosion on there way, I was now in Benin Republic with my family for some months now due to the crisis going on in Libya, my late client had an account valued at about $10.5 Million United States Dollars deposited in the bank of Benin west African I want the proceeds of the amount to be paid into your bank account, then we will share it by percentage 60/40 Please send me your address for more information. My email raphaelgnanih1@9.cn
Your email address.
Occupation and Telephone Number
Regards.Barrister Raphael Gnani"

fimmtudagur, 16. júní 2011

Frábær árangur hjá Jóhönnu

Fjarðarpósturinn 16. júní 2011
Jóhanna Flekenstein tómstunda- og félagsmálafræðingur, forstöðumaður félagsmiðstöðvarinnar Hraunsins hlaut viðkenningu Foreldraráðs Hafnarfjarðar fyrir árið 2011. Jóhanna er vel að þessari viðkenningu komin enda afburða góður starfsmaður, fagmanneskja fram í fingurgóma og verðugur talsmaður þeirra sem minna mega sín.

föstudagur, 10. júní 2011

Háskólaumhverfið, sérhagsmunasamtök og lýðræðisleg umræða

Það voru fullkomin mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma. Það var pólitísk ákvörðun byggð á forsendum frjálshyggjunnar. Þjóðhagsstofnun hafði  "orðið það á" að spá ekki því eilífðar sólskini  sem var í hugum forsvarsmanna frjálshyggjunnar og þá sérstaklega þv. forsætisráðherra og helstu ráðgjöfum hans. Við tóku greiningardeildir bankanna og "sérfræðingar" þeirra sem sáu tækifæri í öllu og alltaf var sama sólskinið í efnahagslífinu en því miður algerlega óháð því hvert hið raunverulega ástand var. Tengsl fjármálalífsins og akademíunnar var að einhverju leyti með þeim hætti að stuðningur viðskiptalífsins var "háður" góðum fréttum sbr. ummæli  framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja:

"Eftir fyrirlesturinn fékk Gylfi símtal frá Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem kvartaði undan fyrirlestrinum. Á fundi þeirra nokkrum dögum síðar, þar sem var líka Þórólfur Matthíasson prófessor, tjáði Guðjón þeim Gylfa og Þórólfi að Samtök fjármálafyrirtækja mundu ekki aftur styrkja fyrirlestra á vegum Hagfræðideildar HÍ. Fyrir rannsóknarnefnd
Alþingis sagði Guðjón að ástæða þessa hefði verið sú að hann hefði fengið villandi upplýsingar um efni fyrirlestrarins. Hann hefði komið úr allt annarri átt en þeir áttu von á." ( Rannsóknarnefnd Alþingis VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 225-226)

Sumt segir sig sjálft  í bókstaflegir merkingu. Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér hlutverki háskólasamfélagsins og þá hvort það hafi að einhverju leiti breyst eftir hrunið?

Kvótafrumvarpið hrákasmíð
„Sérfræðingur við Lagastofnun HÍ gerir alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði frumvarpsins og leggur til að það verði fellt eða taki verulegum breytingum í meðferð þingsins. Hið svokallaða minna kvótafrumvarp sjávarútvegsráðherra á sér fáa líka í flokki óvandaðra lagafrumvarpa á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnunar."

Þetta segir Helgi Áss Grétarsson sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands í umsögn sinni um frumvarpið sem lögð var fram í dag. Hann gerir alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði frumvarpsins og leggur til að frumvarpið í heild verði fellt eða þá að það taki verulegum breytingum í meðförum þingsins. Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, kostar stöðu sérfræðings til rannsókna í auðlindarétti við Lagastofnun Háskóla Íslands.“ (RUV 6/6 2011)

Lagastofnun og LÍÚ semja um 22,5 milljón króna styrk
„Landssamband íslenskra útvegsmanna og Lagastofnun Háskóla Íslands hafa skrifað undir samning um kostun starfs sérfræðings til rannsókna í auðlindarétti við Lagastofnun. Samningurinn tekur gildi þann 1. ágúst 2009 og kemur í stað fyrri þriggja ára samnings sömu aðila. LÍÚ greiðir Lagastofnun kr. 7,5 milljónir árlega vegna stöðunnar.
Markmið samningsins er að efla rannsóknir á sviði auðlindaréttar. Lagastofnun mun á grundvelli samningsins láta fara fram lögfræðilegar rannsóknir á reglum um fiskveiðistjórnun og réttarstöðu þátttakenda í fiskveiðistjórnunarkerfum. Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, sem hefur sinnt stöðu sérfræðings við þessar rannsóknir undanfarin ár, mun starfa áfram á grundvelli samningsins. Umsjónarmaður náms í auðlindarétti skal hafa faglegt eftirlit með rannsóknarverkefninu og framvindu þess. Samningurinn er óuppsegjanlegur á samningstímanum og hefur LÍÚ enga aðkomu að rannsókninni eða rannsóknarniðurstöðum frekar en samkvæmt fyrri samningi.
María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar, segir samninginn mjög mikilvægan fyrir stofnunina á tímum samdráttar og niðurskurðar...“ (Vefur HI.is)

Gestir óánægðir með ræðu prófessors
„Baulað var á Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, þegar hann hélt ávarp á hátíðardagskrá Sjómannadagsins á Granda í dag. Ragnar sagði að grafið hafi verið kerfisbundið undan framfarasókn í sjávarútvegi en nú hafi þessi ógn margfaldast. Ragnar sagði þau kvótafrumvörp sem nú hafa verið lögð fram kollvarpa gildandi kerfi fiskveiða, verði þau að lögum.
Nokkrir gestir létu óánægju sína með ræðu Ragnars í ljós með bauli.
Jón Bjarnason flutti einnig ræðu, þar sagði hann að Íslendingar myndi ekki láta fiskimiðin af hendi, hvorki til ríkjasambanda né fyrirtækja.“ (RUV 5/6 2011)

Beinn fjárhagslegur stuðningur
„Beinn fjárhagslegur stuðningur einstakra fyrirtækja við viðskiptadeildirnar leiddi oft á tíðum til sjálfsritskoðunar meðal nemenda og kennara skólanna. Ég man t.d. eftir einu atviki þar sem ég fjallaði um hegðun stjórnenda Eimskips á níunda áratug síðustu aldar til að útskýra það sem hagfræðin kallar
Umboðsvandann (principal agent problem). Umboðsvandinn felst í aðstæðum þar semhagsmunir margra smárra eigenda fyrirtækis og stjórnenda þess fara ekki saman. Einn nemandi minn klagaði mig fyrir að fjalla á neikvæðan hátt um Eimskip í kennslustofu sem kennd var við Eimskip. Þetta og önnur sambærileg atvik urðu til þess að ég var eindregið hvött til þess af stjórnendum skólans að fjalla á jákvæðan hátt um íslensk fyrirtæki. Í kjölfarið ákvað ég að draga mig út úr opinberri umræðu um málefni sem tengdust beint íslenskum fyrirtækjum. Ég vildi halda vinnunni.“
Lilja Mósesdóttir: „Viðskiptafræði á tímum útrásar.“ Erindi á málþingi Reykjavíkurakademíunnar í Háskólabíói 25. október 2008.
(VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)


Háskóli vettvangur sannleiksleitar (í boði Coca Cola ?)
"Ein meginforsenda þess að háskóli geti verið vettvangur sannleiksleitar er að hann búi við frjálslynt, lýðræðislegt umhverfi sem lætur sig til að mynda varða mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi og aðrar forsendur upplýstrar skoðanamyndunar.
Að öðrum kosti er hætt við að fjari smám saman undan þeirri menningu sem háskólar eru sprottnir úr og þeir hafa stuðlað að. Í siðareglum Háskóla Íslands eru ákvæði um ábyrgð háskólamanna gagnvart samfélaginu þar sem þeir eru hvattir til þess að efla frjáls, málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti og minntir á ábyrgð sína sem háskólaborgarar." (Rannsóknarskýrsla Alþingis - VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)

"Háskólar hafa því ekki farið varhluta af svonefndri viðskiptavæðingu samfélagsins og hafa áhyggjur manna aukist af áhrifum þess á háskólastarf, meðal annars vegna þess að siðfræði vísinda og siðferði í viðskiptum fer illa saman.(936) Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að háskólakennarar þiggi ekki aðeins í vaxandi mæli styrki frá fyrirtækjum til að fjármagna rannsóknir sínar, heldur séu þeir og háskólarnir einnig iðulega sjálfir hluthafar í fyrirtækjunum eða fjárhagslega tengdir þeim með öðrum hætti.(937) Færð hafa verið rök fyrir því að þetta dragi úr heiðarleika fræðimanna, þrengi sjóndeildarhring þeirra og val á viðfangsefnum rannsókna.(938)  Hætta á hagsmunaárekstrum stóreykst vitanlega samfara þessari þróun. Sem dæmi má nefna eftirfarandi: „Michael MacCarthy, einn af ritstjórum breska læknavísindatímaritsins The Lancet, heldur því fram að slík tengsl séu orðin svo algeng að „oft sé erfitt að finna nokkurn mann sem ekki hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta“ til að ritrýna fyrir tímaritið greinar um lyf eða læknismeðferð.“(939) Það er mikilvæg spurning hvernig tryggja megi sjálfstæði háskólanna gagnvart auknum fjárhagslegum hagsmunum. Hugsjónir háskólastarfsins eru í húfi"
936. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7. Jennifer Washburn hefur skrifað bókina University, Inc.: The Corporate Corruption of Higher Education (Basic Books 2005) þar sem hún færir rök fyrir því að viðskiptavæðing bandarískra háskóla hafi grafið undan akademískum gildum. 
937. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7. 938. Sjá t.d. Monibot, George: „Guard Dogs of Perception: The Corporate Takeover of Science.“ Science and Engineering Ethics 9 (2003), bls. 49–57. 
939. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7–8.

"Vísindastarf lýtur bæði þekkingarfræðilegum og siðfræðilegum viðmiðum sem eru forsendur þess að fræðimenn gæti hlutlægni.(963) Háskólar hafa notið mikils trausts í samfélaginu og ætla má að það stafi ekki síst af því að fólk telji að háskólamenn leitist við í málflutningi sínum að hafa það sem sannara reynist og stenst röklega skoðun. Þessi hugsjón vísindastarfs er samofin hugmyndinni um háskóla sem griðland hugsunar sem er frjáls undan afskiptum afla sem vilja ráðskast með rannsóknir fræðimanna og niðurstöður þeirra. Þetta tengist kröfunni um hlutleysi vísinda um verðmæti, en hana má orða þannig að hún kveði á um frelsi til að fylgja fræðilegum rökum og efla vísindaleg verðmæti og frelsi undan afskiptum afla sem reyna að sveigja menn af þeirri leið í nafni verðmæta sem koma vísindum ekki við.(964) Hugsjónin er sú að fræðimönnum beri einungis að lúta staðreyndum og fræðilegum rökum og halla ekki réttu máli vegna annarra hagsmuna sem þeir kunna að hafa eða vegna þrýstings utanaðkomandi afla. Í viðleitni sinni til þess að hafa þessa hugsjón í hávegum er mikilvægt að vísindasamfélagið sé á varðbergi gagnvart því hvernig fræðin kunna að vera misnotuð til að þjóna sérhagsmunum í samfélaginu." (Rannsóknarskýrsla Alþingis - VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)

Almenningur í landinu ,sem seint flokkast undir þrælskipulögð hagsmunasamtök,  á ekki fúlgur fjár til þess að kosta rannsóknir í sína þágu. Er það hlutverk vísindasamfélagsins að hlaupa á eftir þeim aðilum sem hafa yfir fjármagni að ráða ? Og er hægt að gera ráð fyrir því að í þeim tilfellum séu vísindamenn óháðir? Eiga kostaðar fræðilegar úttektir að vera grunnur lýðræðislegrar umræðu í samfélaginu? Á  hugtakið vanhæfi ekki við í íslensku háskólasamfélagi. Þarf  háskólasamfélagið ekki að hefja sig upp yfir allan vafa? Held að það hljóti að vera krafa samtímans og ekki síst í ljósi þeirra hremminga sem íslenskt þjóðfélag hefur átt í síðustu ár.  

fimmtudagur, 26. maí 2011

Klúðraði sennilega flugstjórastarfi hjá Icelandair

Fligth simulator er skemmtilegt forrit – sem krónískur flugdellukarl sannreyndi ég það enn frekar um daginn. Var „farþegi“ (en hafði í nógu að snúast) í flugi FI 212 til Köben þann 11/5 2011 en flaug sömu leið í „simmanum“ í Pc vélinni minni, í samtíma að vísu ótengdur netinu sem gerði það að verkum að raunveður var ekki í boði. Eins varð ég að taka mitt flugtak eftir að við vorum komin í loftið og lenda áður en fyrsta freyja tilkynnir að „öll notkun rafeindatækja um borð sé nú bönnuð“.

Sæmundur Stefánsson flugstjóri tilkynnti í upphafi ferðar að Gylfi Ernst Gíslason copilot myndi sjá um flugið að mestu leyti enda nauðsynlegt að þjálfa flugmenn með markvissum hætti. Á sama tíma er ég að koma mér upp mínum eigin flugstjórnarklefa í sætaröð 26 A. Er ánægður með þessar nýju innréttingar í Flugleiðavélunum, gott pláss og ekki er afþreyingarkerfið síðra, ekki síst fyrir „flugmann“ eins og mig sem get stillt inn á flugleiðsögukerfi vélarinnar. Sætið við hliðina á mér var laust þannig að ég nýtti tvo skjái undir flugleiðsögn.

Coarinn er góður flugmaður  því þrátt fyrir gott veður þá voru samfelld dökk bólstraský frá jörðu í ca 4 -5.000 fet  og fullt af  smá cummum austur af Keflavík. Í bólstraskýjum er oft mikil kvika og cummarnir  eru óvinir okkar „flugmanna“. Coarinn velur að fara bratt upp í flugtakinu og yfir þetta sem tekst með ágætum, farþegar sitja eins og heima í stofu hjá sér og njóta flugsins. Í ca 6.500 fetum slekkur Gylfi á „sætisólaskiltinu“ sem er full snemmt fyrir minn smekk en allt í fínu þar sem hann fór aldrei inn í neina kviku. Ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu þar sem að veðrið í simmanum mínum var fínt, ég kom mér bara í hæð hægt og rólega og á hagkvæmari máta en kollegar mínir hjá Icelandair þeir Sæmundur kapteinn og Gylfi copilot, slekk á sætisólaskiltinu í 10.000 fetum.

Hitt er svo annað mál að Gylfi tók mig í nefið í farfluginu sem hann flaug í 39.000 fetum og tókst að nýta meðvind sem mér stóð reyndar ekki til boða þrátt fyrir að hafa verið í sömu hæð! Þannig að í rauntíma var ég á eftir þó svo að ég viðurkenni það ekki nema nauðbeygður. Sparnaður minn í flugtaki við bestu skilyrði vó ekkert á móts við meðvindinn sem Gylfi nýtt sér 100% í farfluginu. Ground speed kerfið lýgur ekki, ekki heldur leiðsögukerfið sem maður hefur í fyrir framan sig og ekki heldur simminn. Játaði mig sigraðan og það þrátt fyrir mjög afgerandi flugáætlun mína sem fólst í beinni línu frá Keflavík til Kaupmannahafnar og enga króka.

Þegar að hér er komið sögu þá erum „við báðir“ staddir á svipuðum slóðum rétt undan ströndum Noregs. Ég tel að ég eigi inni smá pásu áður en ég fer að undirbúa aðflug og lendingu. Stilli simmann á aukin hraða. En það verður að segjast eins og er að hin ágæta afþreyingarþjónusta um borð hjá Icelandair sem og hlýlegt viðmót flugliða gerði það að verkum að árvekni mín var ekki með sama hætti og coarans. Þjónusta Hrafnhildar Proppé yfirfreyju og hennar fólks gerði það að verkum að ég sem pilot in command (í simmanum) fékk engan frið fyrir þjónustunni, jafnvel ekki í mínum eigin cockpit, þurfti því að þiggja ýmsar góðgerðir (eða þannig) sem almennum flugfarþegum er boðið upp á, sem var “allt í lagi“ nema hvað!

Í öllum þessum vellystingum ranka ég skyndilega við mér, ég er sem sagt í 39.000 fetum og sé út undan mér Helsingborg í Sverige sem er ekki gott. Eru auðvitað hrein mistök þ.e.a.s. ef maður ætlar að lenda í Köben sem er í ca 35- 40 km fjarlægð. Góðu fréttirnar þær að flugtíminn var ágætur en lengra náði það ekki! En ég hugsa með mér maður verður að halda áætlun, farþegar eru að fara í tengiflug og fleira og ekki síst hugsa um stundvísina. Ákveð því að bremsa snarlega og taka eins fáa hringi og kleyft er og koma mér inn á Kastrup. Sló af, setti spolerana í 100% og dekkin niður til að draga enn frekar úr hraða. Stollaði að vísu fljótlega og lækkaði flugið eins og hver annar flygill. Fékk tilkynningar af og til um að þetta væri ekki sem best fyrir vélina og stefnuviðvörun þar sem hvorki mér (simmflugstjóranum) né farþegum var ljóst um tíma hvert vélin stefndi. Ég var ekkert að ráðfæra mig við flugumsjón CHP eða ónáða þá á nokkurn hátt.


Hafði reyndar áhyggjur af flugi fyrir neðan mig til að byrja með en trafkík var mikil eins og oft er við Kaupmannahöfn.  Í  ca 16 -17.000   fetum beini ég nefinu niður, gef hraustlega  í og tek til við að „fljúga“ að nýju. Frú Proppé, ef hún væri af mínum rafræna heimi, hefði á þessu stigi málsins komið til mín og sagt að þetta aðflug væri, mér sem (simm) flugstjóra til skammar  sem og íslenskri flugsögu, ég yrði örugglega rekinn þ.e.a.s. ef mér tækist að komast síðasta spölinn klakklaust. Hún myndi láta vin minn Þorgeir Haralds yfirflugstjóra vita af þessu flugi þ.e.a.s. ef ég sæi ekki sóma minn í því að gera það sjálfur.  Get tekið undir hvert orð yfirfreyjunnar. Ég sænsk menntaður vandamálafræðingurinn var komin í mál sem ég réð ekkert við. Tiltölulega einfalt mál, áætlun Icelandair til Köben í tómu klúðri!  Ég geri mér jafnframt grein fyrir því á þessum tímapunkti að ég myndi ekki einu sinni vilja vera farþegi hjá sjálfum mér. En hvað með það eftir þessa hræðilegu lækkun eða „aðflug“ er ég komin í 6.000 fet skammt austur af Malmö. Ég sigli í átt að Kastrup lækka flugið enn frekar og kem mér í lokastefnu á braut 22/04 en er of hraður og aðeins of hár – kem inn á ca 175 flýg töluvert inn á braut, sem er ekki gott, bremsa í botn bæði á  hjólum og mótorum.  Hræðilegu flugi lokið.

Sem betur fer er ég í raunheimum staddur norður af Árósum. Gylfi er aðeins byrjaður að lækka sig og tilkynnir okkur að hann áætli lendingu í Köben eftir ca 25 mín. Landskrona handan Eyrarsundsins blasir fljótlega við og skömmu seinna Malmö. Gylfi tekur fína beygju til vesturs og „smyr“ braut 22/04 með miklum ágætum og af stakri fagmennsku. Frábærri flugferð lokið. Ég þakka Sæmundi og Gylfa „kollegum mínum“ fyrir farsælt flug og segi þeim farir mínar ekki sléttar og rek í stuttum máli raunir mínar í hinum rafrænum flughermiheimum í þessu sama flugi. Játa mig sigraðan og tel frama mínum innan flugsins lokið en fæ ekkert nema fyllsta skilning frá Sæmundi flugstjóra sem telur einsýnt að ég þurfi að æfa mig  meira og ekki síst að sýna 100% árvekni alla ferðina. Þakka kollega mínum góð ráð og kveð með virktum.

Fín reisa í öruggum höndum þeirra Sæmundar og Gylfa. Alger óþarfi fyrir einhverja back side drivers eins  mig (simmulator captiain) að vera að rembast,  maður á bara slaka á og njóta þess að vera í öruggum höndum . Sæmundur, Gylfi, Hildur og þeirra fólk sér um þetta allt saman.  Tek mér far með Icelandair að öllu leyti næst og læt þjónustuna og þægindin um borð trufla mig ...verulega.

laugardagur, 14. maí 2011

Hekla grunsamleg

Ég veit ekkert um jarðfræði en ég sé drottingu íslenskra fjalla Hekluna úr sveitinni minni í Landsveitinni. Sem ljósmyndaáhugamaður hef ég tekið fjölda mynda af fjallinu. Í fyrra fannst mér ýmislegt grunsamlegt m.a. hve suðurhlíðar fjallsins voru snjóléttar. Spáði gosi í Heklu sem ekki varð en hins vegar fór allt í gang í nágrenninu? Var á ferð um daginn og tók þessa mynd af Heklu úr Flugleiðavél í ca 30.000 fetum. Eins og lesendur síðurnar sjá þá eru suðurhlíðar Heklu óvenju snjóléttar. Þori ekkert að leggja út frá þessu, er sænskmenntaður vandamálafræðingur sem veit ekkert um jarðfræði ... en sem grunar ýmislegt

sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí um land allt

Verð fjarri góðu gamni á 1. maí og tek því ekki þátt í hátíðarhöldunum að þessu sinni en læt mitt hins vegar ekki eftir liggja og birti hér ávarp frá 2004 sem ég, sem formaður STH og stjórnarmaður í BSRB, flutti á Grundarfirði og Ólafsvík árið 2004. Segið þið svo að verkalýðshreyfingin hafi ekki haft upp varnaðarorð gangvart því sem á eftir kom? Gleðilega hátíð með von um að með samtakamætti takist að vinna bug á því félagslega böli sem íslensk láglaunapólitík er.




1. maí ávarp flutt í Grundarfirði og í Ólafsvík árið 2004
Gleðilega hátíð

Verkalýðsbaráttan er
eins og sagan endalausa. Þegar að einum áfanga er náð þá blasir hinn næsti við. Verkefnin ótæmandi og stöðugt ný sem bætast við.

Ef litið er til lengri tíma þá er ljóst að margt hefur áunnist í baráttunni hér landi síðustu áratugina og ef við lítum til enn þá lengra tíma og allt að tímaum iðnbyltingarinnar í Englandi um miðja 18 du öldina, þar sem að líf kolanámuhestsins var meira virði en hins þrælkað barns. Hesturinn mun sterkari og bar mikið magn kola úr námunum og því verðmætari vinnukraftur. Börnin allt niður í 4 -5 ára gömul voru veikburða en þóttu hins vega afar nýtileg við að krafla kol úr þröngum útskotum í námunum. Þau entust illa, urðu lasburða, mörg létust, mörg flýðu og lögðust á vergang. Réttindi barna voru minni en vinnudýra og voru þau sett skör neðar. Breski rithöfundurinn Charles Dickens gerir þessum ömurlegu aðstæðum barna og verkafólks góð skil í bókum sínum.

Sem betur fer þá
hefur margt áunnist frá þessum ömurlegu tímum, það hafa margar orrustur unnist og mörgum árásum á kjör alþýðunnar hefur verið hrundið á bak aftur. Setning vökulaganna um 1920 á Íslandi var mikil áfangi og fjarri því sjálfgefin.

Í þessu samhengi það sjáum við greinileg að gríðarlega margt hefur áunnist. Við vitum einnig að það hefur ekkert komið upp í hendurnar á okkur baráttulaust. Fyrir hverri einustu breytingu hefur þurft að hafa fyrir. Þetta segir okkur og sýnir að verkalýðshreyfingin hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerir enn og hreyfingin mun gegna mikilvægu hlutverki áfram.

Það er okkur því nauðsyn að styrkja innviði okkar með margvíslegum hætti. Við verðum að fá unga fólkið til liðs við okkur, við verður að fá hinn almenna félagsmann til að vera virkari og við þurfum að láta rödd okkar heyrast.

Það er engin tilviljun
að fyrir Alþingi liggi tillaga frá þingmanni úr stuttbuxnadeild íhaldsins um að afnema aðild fólks að verkalýðsfélögum. Járnfrúin hin breska sem féll af stalli með eftirminnilegum hætti, og skyldi samfélagið eftir í upplausn, barðist hatrammri baráttu gegn verklýðshreyfingunni bresku og með þeim hætti og árangri að en þann dag í dag hefur hún ekki borði sitt barr.

Það er því varhugavert og allrar varkárni vert að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hér á landi. Verkalýðshreyfingin er litin hornauga og talinn standa í veginum - fyrir hverju spyrja menn? Svarið er augljóst ! Í veginum fyrir grímulausum eignatilfærslum í íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfinginn hefur leyft sér að hafa skoðanir á skiptingu þjóðarteknanna. Verkalýðshreyfingin hefur leyft sér að hafa skoðanir á einkavæðingu og að eignum samfélagsins séu færðar sérvöldum gæðingum
Verkalýðshreyfingin er ógn við þá grímulausu gróðahyggju þeirra afla sem nú ráða íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Verkalýðshreyfinginn er óþægileg því hún stendur í vegi fyrir markmiðum óheftrar gróðahyggju fámennra hópa samfélagsins og truflar þau margmið verulega. Sendisveinar þessara hagsmunaafla eru á Alþingi á stuttbuxunum einum saman og settir sérstaklega í það verkefni að ráðast að hreyfingunni með öllum tiltæknum ráðum.

Verkalýðhreyfingin er samfélagslega ábyrg
gerða sinna og um okkur er samt sem hægt að segja eins og fram kemur í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá" Þjóðarsáttarsamningarnir eru það eldmeti sem núverandi góðæri og velferð byggir á. Við höfum hins vegar ekki fengið sanngjarnan hlut nema síður sé og þrátt fyrir einhverja mælanlega kaupmáttaraukningu almennings þá er hún í engu samræmi við þann ofurgróða sem bankar - og fjármálastofnannir sýna. Okurvextir , ofur þjónustugjöld, verðsamráð olíufélaganna, fákeppni á matvörumarkaði og hlutfallslega hátt vöruverð miðið við samkeppnislöndin gerir það að verkum að hlutdeild almennings í góðærinu er í engu samræmi við þær fórnir sem færðar hafa verið.
Hámarksávöxtun hlutbréfa, hámarksarðsemi,og skyndigróði er hið eina markmið margra fyrirtækja ,ýtrustu einkahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Afkomutölur fyrirtækja í landinu sýna svo ekki verður um villst að ráðrúm er til tekjuskiptingar með öðrum og sanngjarnari hætti en verið hefur.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki
að deila gæðum þó svo að stundum geti virst að svo séu þeirra meginmarkmið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa sátt og samlyndi um helstu gildi og um leikreglur samfélagsins. Í dag fer því víðs fjarri að sátt og samlyndi ríki um skiptingu gæða í samfélaginu og í raun sjaldan verið eins mikil ójöfnuður og nú um þessar mundir. Stjórnvöld hafa ekki haft getu eða vilja til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til þess að sátt náist

Oft er deilt á hinn opinbera geira.
Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í flestum þeim tilfellum þar sem það á rétt á sér, þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlömb misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa með störfum sínum. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra.

Einkavæðing hefur hvergi leitt til
lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi sem kostað hefur ýmis samfélög gríðarlegar fjárhæðir, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Nýleg lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkarekinn einokun er sennilega versta og kostnaðarsamasta rekstraform fyrir samfélagið sem völ er á þegar að upp er staðið.

Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa
sagði ég hér í upphafi. Orð að sönnu, hún þarf að styrkja innviði sína og hún þarf að láta rödd sína heyrast vel og víða og hin ýmsu verkalýðsfélög þurfa að mæla einum rómi. Það þarf að þétta fylkinguna og efla. Það þarf að hvetja unga fólkið til dáða og virkni innan hreyfingarinnar. Hin gömlu klassísku sannindi um að "sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér" er í fullu gildi. Leggjum á eitt til að svo megi verða og þá styrkjumst við og þá mun okkur farnast vel í hinum mörgu og erfiðum verkefnum framtíðarinnar

fimmtudagur, 28. apríl 2011

Hve lágkúruleg getur hin pólitíska umræða orðið - eru engin mörk?

Umræður stjórnmálamanna margra hverra eru fjarri því lausnamiðaðar - snúast um einhverjar "pólitískar keilur" að mati viðkomandi en hljóma í eyrum flestra annarra sem rakalausar dylgjur, dónaskapur og ærumeiðingar.
Dæmi um slíkt er meðfylgjandi frétt í Fréttablaðinu 28/4 2011 .  "Málflutningur" sem er engum boðlegur og sýnir í hnotskurn hvers vegna stjórnmálmenn njóta takmarkaðs trausts. Tek heils hugar undir með Nóbelsskáldinu sem sagði með réttu "er ekki komin tími til þess að lyfta umræðunni á hærra plan. Vandinn er vissulega ærin en "umræða" af þessum toga gerir bara illt verra.

sunnudagur, 17. apríl 2011

Í upphafi skyldi endinn skoða

Samfélag dagsins í dag og sífellt flóknari samfélagsgerð kallar á sérhæfingu og ekki síst hvað varðar uppeldismál. Frístundaheimili eru einn angi hinna nýju viðfangsefna samtímans hérlendis. Að vísu tiltölulega seint fram komin hér á landi miðað við Norðurlöndin til dæmis. Á þeim vettvangi lýtur starfsemin sérstöku fagumhverfi (fritidspedagogik) og hefur um margra áratuga skeið þróast sem starfsemi er lýtur allt öðrum forsendum en hefðbundið skólastarf.
Á Íslandi kallaðist þessi starfsemi, víða til að byrja með, „lengd viðvera“ sem sagði allt sem segja þarf um faglega stöðu starfseminnar og innihald a.m.k. í upphafi. Sá sem þetta ritar vann að úttekt á stöðu þessara starfsemi í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum sem þáverandi yfirmaður æskulýðs- og tómstundarmála hjá bæjarfélaginu. Þar kom m.a. fram að starfsemin sem þar var nefnd „heilsdagsskóli“ var fyrst og fremst samheiti en ekki hugtak eins og t.d . félagsmiðstöð eða skóli.

Starfsemin var eins ólík og staðirnir voru margir og mótuðust fyrst og fremst af viðkomandi starfmönnum sem ekki voru gerðar neinar sérstakar kröfur til hvað varðar menntun eða reynslu á þessum vettvangi. Þetta var sá raunveruleiki sem blasti við ekki bara í Hafnarfirði heldur víða um land. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú ákveðið, eftir tilraunatímabil, að færa starfsemi „heilsdagsskóla“ að öllu leyti undir ÍTH (Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar) sem er gæfuspor alveg eins og það var afar skynsamlegt á sínum tíma hjá borgaryfirvöldum að færa frístundaheimilin undir ÍTR (Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur). Starfsemi sem var í kjölfarið tekin til gagngerrar endurskoðunar frá A- Ö. Innra starf, starfsaðferðir, fagmennska, starfsskrá, endurmenntun og menntun starfsfólks o.fl. Með öðrum orðum starfsemin öðlaðist innhald og sundurlausu samheiti var breytt í hugtakið frístundaheimili. Starfsemi frístundaheimilanna var faglega samræmd og rekin í sama anda hvar sem var í borginni, út frá bestu manna þekkingu hverju sinn og af fagmennsku sem einkennir allt starf ÍTR. Árangurinn hefur verið góður enda foreldrasamfélagið afar sátt ef marka má þær kannanir sem gerðar hafa verið um slíkt og sama á við um starfsfólk frístundaheimilanna en sömu kannanir sýna mikla starfsánægju þess. Sem sagt vaxandi starfsemi sem byggir á fagmennsku og hefur allar forsendur til þess að verða enn betri fá hún frið til þess.

Í þessu ljósi eru þær breytingar illskiljanlegar sem borgaryfirvöld áforma um að færa forræði starfseminnar að einhverju leyti aftur yfir til skólanna og jafnvel með því fororði að skólastjórar séu yfirmenn alls þess starfs sem fram fer innan skólanna? Fyrir slíkt fá viðkomandi allnokkrar aukagreiðslu sbr. kjarasamninga, þó svo að viðkomandi komi ekkert að starfinu að öðru leyti. Og svo hitt að kennarar komi í auknum mæli inn í starfið? sbr. skýrslu starfshópsins. Við Menntavísindasvið HÍ fer fram afbragðsgóð kennaramenntun eins og skólar landsins hafa ekki farið varhluta af. Þar fer reyndar einnig fram afar fjölþætt menntun á sviði uppeldismála m.a. í heildstæðu BA og M.Ed námi í Tómstunda- og félagsmálafræði og úr þeim ranni kemur fagfólk og sérfræðingar á sviði frístundaheimilanna. Sérþekking kennara er ekki á þessu sviði enda tómstunda- og félagsmálafræði ekki hluti af kennaranámi. Tómstunda- og félagsmálafræðingar eru ekki mikið í stærðfræðikennslunni enda lítið lært formlega til þeirra verka og margir sem hefðu efasemdir um ágæti slíks fyrirkomulags. Sama á auðvitað við um kennara sem starfa á öðrum vettvangi en sínum.

Það liggur ekkert annað fyrir en að starfsemi frístundaheimila á vegum ÍTR sé afar vel viðunandi og í því ljósi er erfitt að átta sig á hvað tilgang breytingar af þeim toga sem fram koma í skýrslu starfshóps á vegum borgarinnar þjóna. Það liggur fyrir hvernig starfseminni var háttað áður en ÍTR var falin umsjá hennar. Grundvallarspurningin er því sú hvort einhverjar þær gagngeru breytingar hafi átt sér stað í skólakerfinu síðustu ár sem gera það að verkum og réttlæti breytingar af þeim toga sem tíundaðar eru í skýrslu starfshópsins. Ég get ekki séð það og finn því hvergi stað í skýrslunni. Í hana vantar allar forsendur, faglegt mat á starfseminni og ekki síst hverju væntanlegar breytingar eiga að skila umfram það sem nú er? Ég skora á borgaryfirvöld að draga þessar hugmyndir til baka en vinda sér þess í stað að styðja við og byggja upp þessa afar mikilvægu starfsemi í fullri sátt við fagumhverfið og útfrá þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Árni Guðmundsson M.Ed . sérfræðingur í æskulýðsmálum – starfsmaður á Tómstunda- og félagsmálafræðabraut MVS

mánudagur, 11. apríl 2011

Allir eiga sér sitt eigið Icesave

Icesave málið er „lang besta deila“ sem skotið hefur upp kollinum í Íslensku samfélagi um áratugaskeið. Deilan býður upp á eins marga fleti og hverjum og einum sýnist. Hugmyndir og tilfinningar verða í hita leiksins að staðreyndum sem verða grunnur að umræðum sem leiða til einhverra þeirra ályktanna sem smella passa við skoðanir og eða tilfinningar viðkomandi þá stundina og skipti í engu hvora hliðina menn studdu.

Þannig gátu pólitískir hugmyndasmiðir hrunsins stillt sér upp við hlið fórnarlamba hrunsins og mælt einum rómi mót því að samþykkja Icesave þó svo að á allt öðrum forsendum hafi verið. Annars vegar hinn eindregni vilji að koma ríkisstjórninni frá og komast til valda með hvað ráðum sem hægt er og hins vegar venjulegt fólk sem er stútfullt af réttmætri reið vegna hræðilegra aðstæðna í kjölfar hrunsins. Venjulegt fólk og flokkshestar í grímubúningum og allt þar að milli, allir eiga sitt eigið Icesave. Dæmi um gæðin í deilunni er þegar að forsetinn í baráttu við heimskapítalismann er orðin ein helsta fyrirmynd hugmyndasmiðs nýfrjálshyggjunnar hér á landi. Samsinnungar hvor af sínum pólitíska kanti. Það er af sem áður var – sama ferð sitt hvor tilgangurinn ? Allir eiga sitt eigið Icesave sem sameinar hið ólíklegast fólk og sundrar öðru.

mánudagur, 4. apríl 2011

Músiktilraunir og Íslenska óperan

Þá er velheppnuðum Músiktilraunum lokið. Umgjörðin sem fyrr frábær í alla staði og afar viðeignandi að hafa lokakvöldið í Íslensku óperunni. Sem endranær tóku þátt fjöldi efnilegra listamanna, fjölbreytt tónlist, frábær flutningur og sköpunargleðinn í fyrirrúmi. En eitt árið í glæsilegri 30 ára sögu Músiktilraunanna sem eru sannkallaður stökkpallur fyrir ungt tónlistarfólk eins og dæmin sanna, nánast allir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar hafa einhverja snertingu við Músíktilraunir í upphafi á sínum ferli.
Það eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn til þess að gera þennan menningarviðburð að veruleika. Fyrir utan listfólkið og starfsmenn Hins Hússins (HH)  er framlag fólks eins og Markúsar Guðmundssonar framkvæmdastjóra  HH, Ásu Hauksdóttir deildastjóra  menningarmála í HH, Hauks Harðarsonar tæknigúrús HH, Óla Palla á Rás tvö og Árna Matthíassonar blaðamanns á Morgunblaðinu algerlega ómetanlegt. Allt hefur þetta fólk hvert á sínum sínum vettvangi stuðlað að velheppnuðum Músiktilraunum ár eftir ár og unnið að því af miklum metnaði og meira eða minna í sjálfboðavinnu.

föstudagur, 1. apríl 2011

Ferlegt að missa gott fólk

Jakob F. Þorsteinsson og eiginkona hans Vanda Sig. samstarfsfólk mitt við Tómstunda- og félagsmálafræðibrautina við MVS HÍ eru að flytjast af landi brott. Er auðvitað ekki gott en skiljanlegt eins og ástandið er hérlendis.
 Kobbi hefur fengið fína stöðu við Inverness College UHI sem er hluti af   University of the Higlands and Islands  háskólanum  en þar var hann m.a. við nám  þegar hann vann að afar vandaðri M.A ritgerð sinni um útinám. Kobbi er okkar fremsti sérfræðingur í öllu sem viðvíkur informal education og outdoor learnig and leisure og mun stýra þeirri deild háskólans í Inverness.

Það er auðvitað ekki einfalt að flytjast á milli landa en svo heppilega vill til að Vanda sem stundar doktorsnám við HÍ getur einfaldlega unnið að því verkefni frá Skotlandi,. Hitt svo annað mál að Vanda mun sennilega taka að sér þjálfun  Innverness City Ladies Fotball Club en liðinu hefur gengið afar illa í skosku kvennadeildinni, eru í næst neðsta sæti og verulega farið að hitna undir núverandi þjálfara, sem vægast sagt er afar umdeildur. Ég óska þeim velfarnaðar í mikilvægum störfum en ljóst að það verður skarð fyrir skildi í deildinni okkar næstu misserin.

mánudagur, 28. mars 2011

Í hroðalegri kreppunni birtist bjargvætturinn Dr. Christopher Johnson

Fékk meðfylgjandi bréf frá Dr. Christopher Johnson - velti því fyrir mér hvort Arionbanki, Glitnir, Landsbankinn  eða jafnvel Byr hefðu ekki  áhuga á viðskiptum við doktorinn. Ég sjálfur  á fullt í  fangi við að vísa frá mér afrískum ekkjum sem allar eiga fúlgur fjár eftir menn sína, oftast herforingja, sem ýmist voru skotnir og eða myrtir með hinum ólíklegustu aðferðum í hinum ýmsu ríkjum Afríku. Þessar elskur æskja bara smá viðviks af minni hálfu er varðar vesen í regluverki bankanna í viðkomandi landi og umbun ekki í nokkrum takt við vinnuframlag mitt, ein vildi t.d greiða mér 800.000 pund og önnur 1,200,000 $ sem mér fannst reyndar verulega vel gert og þannig að jafnvel skilanefndafólk mynd roðna.  Ég skil reyndar ekki hvernig og hvað það er í fari mínu sem gerir það að verkum að ég einn fárra Evrópubúa geisla þessum ótrúlega þokka langt út fyrir Schengensvæðið. En hvað með það Dr Christopher Johnson verður að leita annað - ég er einfaldur ríkisstarfsmaður, persónugervingur hinnar íslensku láglaunastefnu og skili ekki þessar stærðir sem doktorinn er að vinna með - sennilega verðug verkefnin fyrir 2007 týpuna af bankamönnum! Einhverjir af þeim dunda sér áfram í bönkunum - Hér er bréfið:

"Halló vinur.
Ég er Dr Christopher Johnson. Deildarstjóri Bókhald endurskoðunar á Suisse inneign banka, One Cabot Square, London E14 4QJ London, hérna í Englandi. Ég er að skrifa þér um viðskipti tillögu sem verða gríðarlega gagnast bæði af okkur. Í deildinni minni, sem framkvæmdastjóri London Regional Office, uppgötvaði ég Summa £ 16,5 milljónir (Sextán milljónir og fimm hundruð þúsund pund Sterling) á reikning sem tilheyrir einu af erlendum viðskiptavinum okkar Late Viðskipti Mogul Mr Moises Saba Masri Milljarðamæringur, Gyðingur frá Mexíkó sem var fórnarlamb þyrla hrun 10 Jan, 2010, drepa hann og fjölskyldu hans. Saba var 46 ára gamall. Einnig í chopper á þeim tíma sem hrun var konan hans, sonur þeirra Avraham (Albert) og dóttur-hans í lögum. Flugmaðurinn var líka dauður.
 
Val á að hafa samband þú vaknar úr landfræðilegum eðli þar sem þú býrð, einkum vegna næmi viðskiptin og trúnað hér. Nú bankinn okkar hefur verið að bíða eftir einhverju aðstandendur að koma upp fyrir kröfunni en enginn hefur gert það. Ég persónulega hef verið misheppnaður í að finna ættingja, leita Ég samþykki þitt til að kynna þér sem aðstandendur / Will Styrkþegi til hins látna svo að ágóði af þessum reikningi metin á 16,5 milljón pund hægt er að greiða þér.
 
Þetta verður ráðstafað eða deilt í þessi hlutföll, 60% í mig og 40% til þín. Ég hef tryggt öll nauðsynleg lagaleg skjöl sem hægt er að nota til að styðja þessa fullyrðingu að við erum að gera. Allt sem ég þarf að fylla í nöfn þeirra gagna og lögleiða það í dómi hér til að sanna að þú sem lögbundin styrkþega. Allt sem ég þarf núna er heiðarleg Co-your rekstri, trúnað og traust til að gera okkur kleift að sjá þessi viðskipti í gegnum. Ég tryggja þér að þetta mun vera framkvæmd undir lögbundin fyrirkomulag sem mun vernda þig frá hvaða brot á lögum.

Vinsamlegast gefa mér eftirfarandi, eins og við höfum 7 daga til að keyra það í gegnum. Þetta er mjög áríðandi PLEASE.

1. Fullt nafn:
2. Bein Mobile Number þín:
3. Netfang þitt:
4. Occupation:
5. Aldur:
6. Kyn:
7. Þjóðerni:
 
Að hafa farið í gegnum methodical leit, ákvað ég að hafa samband við þig og vona að þú finnur þessa tillögu áhugavert. Vinsamlegast á staðfestingu af þessu bréfi og gefa til kynna áhuga þinn ég mun veita þér meiri upplýsingar.
Endeavour að láta mig vita ákvörðun þína heldur en að halda mig bíða.

Þakka þér í aðdraganda hagstæð svarið.

Kveðjur,

Dr Christopher Johnson."