Veit það sem er að Lagarfljótsormurinn er bara lítill ormur ef litið er til frænda hans, eða réttar sagt frænku hans, Nessie, sem ku búa í hinu djúpa og mikilfenglega vatni Loch Ness í Skotlandi.
Sannreyndi það um daginn eins og meðfylgjandi ljósmynd sýnir greinilega. Ég er sem sagt einn af örfáum sem hef séð og náð skrímslinu á mynd. Fór fyrir nokkru mikin leiðangur um þessar ægifögru slóðir sem Loch Ness og umhverfi þess er.
Ég geri mér grein fyrir því að ég eins og aðrir ljósmyndarar sem hafa náð myndum af skrímslinu mun sæta gagnrýni og jafnvel ávirðingum um að myndin sé fölsuð. Ég gef ekkert fyrir það, náði mynd af skrímslinu. Hvort það var skrímslið innra með okkur öllum eða hin fræga Nessie læt ég mér í léttu rúmi liggja. Manneskjan mætir sjálfri sér og sínum innsta kjarna andspænis fegurð náttúrunnar hvort sem það er við hið fagra vatn Loch Ness eða á bökkum Lagarfljóts fyrir austan. "Í mér blundar fól" sagði presturinn og útvarpsstjórinn Heimir Steinsson. Púkar, skrímsli og ormar blunda í okkur öllum hvort sem við náum því á "mynd" eða ekki. Getur verið að svo sé í þessu tilfelli og ef svo er, er þá myndin spegill sálarinnar? Er okkur öllum ekki hollt að taka slíkar myndir af og til?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli