miðvikudagur, 30. júlí 2003

Dýr yrði Hafliði allur

Dýr yrði Hafliði allur
Hef verið í heimildaröflun, undafarið vegna mastersritgerðar sem ég vinn að um þessar mundir. Ætlaði að skreppa til Ísafjarðar í þrjá daga í þeim tilgangi , taka viðtal við Björn Helgason kollega minn og skanna hið ágæta skjalasafn þeirra Ísfirðinga.
Bíltúr og svefnpokagisting í Önundarfirði var planið. En aldrei þessu vant kom babb í bátinn.

Minn ágæti bíll bilaði og varhlutur ekki til í landinu? Leitaði því á náðir Flugfélags Íslands og Hótels Ísfjarðar. Lítið mál tæpar 10.000 krónur flugið aðra leið og nóttin á hóteli 14.000. Þriggja daga ferð á krónur 48.000. Nei takk, ómögulega sagði ég og fór hvergi enda launakjör opinberra starfsmanna ekki með þeim hætti að þeir geti leyft sér "luxús" af þessu tagi. Hugsaði til landbyggðarinnar sem á engra kosta völ nema flugið yfir vetrarmánuðina - þvílíkur dreifbýlisskattur.

mánudagur, 28. júlí 2003

Bojkott

Bojkott
Var svo heppinn að fá tækifæri til að læra í Svíþjóð á sínum tíma. Lærði mikið af Svíum. Mér varð t.d. á að kaupa mér Coca cola er við samstúdentarnir fórum út að snæða hádegisverð saman á mínum fyrstu skóladögum. Fann fyrir fálæti en áttaði mig ekki á því hvað olli fyrr en einn félagi minn benti mér kurteisislega á að maður keypti ekki vörur frá þessu fyrirtæki þar sem að það væri bendlað við hvarf á verkalýðsleiðtoga í einum af verksmiðjum fyrirtækisins í suður Ameríku. Neysla á kók fór niður í 5% af venjulegri sölu í Svíþjóð, fólk sýndi hug sinn í verki. Á tímum aðskilnaðarstefnu í suður Afríku þótti ekki tilhlýðilegt að kaupa vörur þaðan og svona mætti lengi telja.

Við sem viðskiptavinir og neytendur eigum ekki að versla við fyrirtæki sem misbjóða okkur með viðskiptasiðferði á lægsta plani, eða á annan hátt . Þetta kann hins vegar að vera erfitt í samfélagi kerfisbundinnar einokunar eins og við sjáum dæmi hérlendis um þessar mundir.

Einhver hafði uppi þau skynsamlegu ráð að versla aðeins það nauðsynlegast t.d. með því að kaupa enga smávöru hjá olíufélögunum, eingöngu bensín og ekkert aukalega og snúa viðskiptum sínum til annarra fyrirtækja svo skjótt sem auðið verður. Að SNIÐGANGA er okkar sterkasta vopn - notum það þegar okkur þurfa þykir - látum ekki valta yfir okkur endalaust.

laugardagur, 26. júlí 2003

L. Norðfjörð, stórskáld m.m sendi mér þennan leikþátt
Löggan: Góðan daginn, ríkislögreglustjóraembættið.
Borgari : Góðan daginn. Það er verið að lemja mann hérna, ég er sem sagt að tilkynna hrottalega líkamsárás við Laugarveg 17
Löggan : Nú, við vitum ekkert um það ?
Borgari: Ætlið þið ekki að koma ?
Löggan: Koma? Við vitum ekkert um þetta, það er ekki nóg að hafa samband þú verður að skrifa okkur formlegt erindi, það er ekki nóg að segja okkur þetta, hef enga ástæðu til þess að ætla að um árás sé að ræða. Það er ekkert að marka svona samtal..
Borgari: En ......
Löggan: Hafðu góðan dag, blessaður.

fimmtudagur, 24. júlí 2003

Fyrst hrynur kommúnisminn og svo hrynur kapítalisminn ...

Fyrst hrynur kommúnisminn og svo hrynur kapítalisminn ...
og svo kemur Allah segja múhameðstrúarmennirnir? Ekki veit ég hvað er satt í því en óneitanlega sýnist mér hinar rómuð markaðlausnir á Íslandi hafa mislukkast og styrkja þar með í nokkru mæli fullyrðingarnar hér að ofan. Hinn frjálsi markaður Íslandi er sem sagt brandari. Sérstakur talsmaður og umboðsmaður frelsisins hér á landi HH Gissurarson er fjarri góðu gamni og hefur ekki séð ástæðu til að tjá sig um málið. Ekki veit hvort hann og hans samsinnungar sækja áfallahjálp eða íhuga stórslysaviðbrögð þ.e. eins og Kaninn myndi segja "Communicating Bad News"

Verðlagsráð hið nýja
Hið aflagða og umdeilda verðlagsráð lifir nú sem aldrei fyrr góðu lífi m.a. sem einkavætt verðsamráð olíufélaganna. Íslenskt efnahagslíf - lítið hagkerfi eins og hvert annað Matador þar sem bestu göturnar hafa safnast til afar fárra sem skara eld að sinni köku.

Viðskiptasiðferði, hvað er nú það?
Innherjasvik, verðsamráð og einkarekin einokun, okurvaxtastefna bera því miður hinu íslenska efnahagskerfi ekki vott um ríkt viðskiptasiðferði. Íslenskt efnahagslíf er eins og knattleikur án dómara með hrúgu af fúlmennum inni á vellinum.
Taparar sem fyrr, íslensk alþýða.

þriðjudagur, 22. júlí 2003

Stjórnarfundur í dag

Stjórnarfundur í dag
Í dag klukka 18:00 var stjórnarfundur í STH. Þar var farið yfir skipulagsmálin og stjórnin harmaði að félaginu hafi ekki borist afrit af gögnum eins venja hefur verið og sjálfsagt hefur þótt í málum af þessu tagi áður.

Einnig var farið yfir stöðu í fæðingaorlofsmálinu. Orlofsmál eru alltaf á dagskrá á þessum árstíma. Flugafsláttarmiðar er það eitthvað sem koma skal eða erlendir hótelmiðar ?
Hvað finnst þér segðu okkur þína skoðun á málinu adressan er sthafn@simnet.is

mánudagur, 21. júlí 2003

Skipulagsbreytingar

Skipulagbreytingar
Hitti Gest Jónsson lögfræðing í morgun. Tvö mál á dagskrá. Þar var farið yfir réttindamál allnokkurra starfsmanna vegna skipulagsbreytinga m.a. með tilliti til biðlauna o.fl.

Fæðingarorlofsgreiðslur - Hafnarfjarðarbæ stefnt
Hitt málið var að fela Gesti formlega að stefna Hafnarfjarðarbæ til greiðslu á vangoldnum fæðingarorlofslaunum til nokkurra starfsmanna Hafnarfjaðarbæjar. Krafa þessi er ekki ný af nálinni og í samræmi við nýgengin dóm Hæstaréttar um greiðslur til ríkisstarfsmanna í sambærilegum málum. Þetta Hafnfirska mál á sér langa forsögu og búið að velkjast um kerfið s.l. 3-4 ár. Þrátt fyrir þetta dómafordæmi þá hefur Hafnarfjarðarbær hafnað því að greiða með sambærilegum hætti. Því er ekkert í stöðunni annað en að stefna Hafnarfjarðarbæ til greiðslu þess sem upp á vantar.

Kaffi Cultura - Frábær Jazz

Kaffi Cultura - Frábær Jazz
Brá mér á Jazztónleika í Alþjóðahúsinu á föstudagskvöldið. Fínir tónleikar en þar komu fram Ragnheiður Gröndal söngkona, Jón Páll Bjarnason gítarleikari. Haukur Gröndal saxafónleikari og Morten Lundby Kontrabassaleikari. Ragnheiður er af góðu einu kunn í tónlistinni en fyrst er að nefna að hún sigrað á söngvakeppni Samfés ( Samtaka félagsmiðstöðva) fyrir nokkrum árum en er sennileg þekktust fyrir að syngja í undakeppni Evrópu söngvakeppninnar í ár. Skemmst er hins vegar frá því að segja að hér er á ferð afburðar Jazzari sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér, sem og allt það fólk sem með henni spilaði. Jón Páll, sá snjalli gítarleikari, spilar því miður allt of sjaldan hérlendis. Sem sagt frábærir tónleikar í Cafe Kultura í Alþjóðahúsinu. Bíð spenntur eftir hljómdisk frá þessum frábæru listamönnum sem ku vera væntanlegur.

föstudagur, 18. júlí 2003

Ekki hefur farið fé betra

Ekki hefur farið fé betra
Þykir mér við þá ráðagerð að færa menningarmálin yfir á þjónustu og þróunarsvið af fjölskyldusviðinu . Hélt að plottið væri það að hafa málaflokka sem "snúa inn á við" saman og þá sem "snúa út á" við saman. Dæmi um "inn á við" er t.d. launadeild og bókhaldið. Deildir sem þjónusta t.d. skólanna og eru ekki formlegar rekstarstofnannir og hafa ekki formlegan snertiflöt við almenning. Sinna innri strúktur fyrst og fremst.

Menningarmál er tvímælalaust málaflokkur sem snýr "út á við " ( eins og allt sem tilheyrir fjölskyldusviði gerir) Það sýnir t.d. hin frábærlega vel heppnaða menningarhátíð "Bjartir dagar" Árshátíð bæjarstarfsmanna er hins vegar eitthvað sem snýr "inn á við" og flokkast undir menningu. Hvort það verði verk málaflokksins á hinu nýja sviði skal ósagt látið en hitt er víst að mér þykir nokkur missir af menningarmálum af fjölskyldusviðinu. Hafnarfjörður á margt ungt og efnilegt listafólk og í gegnum félagsmiðstöðvarnar og starf ÆTH eru margir snertifletir við menningarmálin og því ótvírætt í mínum huga að þessir málaflokkar eiga heima á sama sviði. Hin afar eftirsóttu og margrómuð samlegðaráhrif gera sig vel í núverandi fyrirkomulagi, hefði maður nú haldið.

miðvikudagur, 16. júlí 2003

Af foringjum

Af foringjum
Jæja þá eru línur að skýrast í skipulagsmálunum . Það eru nokkur mál sem Gestur Jónsson mun fara yfir í næstu viku og athuga réttarstöðu viðkomandi félagsmanna. Meðal þeirra eru mál undirritaðs en þannig háttar til að verkalýðsforingjar eru líka venjulegt fólk sem hafa m.a. lifibrauð sitt af embættismennsku. Hitt er annað mál að formaður á engra kosta völ þegar út í átök eru komið aðra en þá að standa vörð um hagsmuni sinna félagsmanna. Það þýðir ekkert að fela sig bak við hurð , maður tekur slaginn og veður í ölduna ef því er að skipta. Hins vegar verða verkalýðsforingjar að geta treyst á það að greinarmunur sé gerður á verkum þeirra sem verkalýðsforingja og þeirra verka sem viðkomandi inna af hendi sem embættismenn. Það hefur ekki komið oft fyrir að svo sé, en því miður átt sér stað.
Að greina á milli hlutverka og meta fólk af verðleikum óháð hinum ólíku hlutverkum er lykilatriði í öllum samskiptum milli aðila.

Í einhverri hrinu fyrir nokkrum árum þá var komin einhver sú tóntegund í samskipti aðila sem varð til þess að formaður, varaformaður og gjaldkeri voru ráðnir með formlegri gerð í lítil starfshlutföll hjá félaginu í þeim eina tilgangi að tryggja þeim félagsaðild að félaginu óháð sínum eignlegu störfum hjá bæjarfélaginu. Með þessu er tryggt að þó svo að viðkomandi sé sagt upp sínu eiginlega starfi þá er málið ekki þess eðlis að þar með sé forystumanni verkalýðsfélags einnig sagt upp.

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni
Ágætt þetta Eddumiðakerfi. Átti fína helgi á Laugarvatni í góðra vina hópi. Dvaldi í Menntaskólanum í ágætu herbergi. Fínt að öllu leyti nema baðherbergi fylgir ekki og ef maður kýs að taka herbergi af því tagi þá er kostnaður 4.000 kall aukalega per nótt!

Sem leiðir hugann að því hve rosalega dýrt er að ferðast innanlands. Á raunvirði er herbergi með baði því á um 12.000 krónur. Þar við bætist 2 x 850 krónur í morgunverð. Út i hinum stóra heimi fær maður afar gott herbergi fyrir þann prís og með mun fleiri stjörnum en heimavist Menntaskólans á Laugarvatni státar af. Hið íslenska verðlag er ekki beint vinsamlegt og með aukinni samkeppni í flugi til og frá landinu verður ódýrasti kosturinn fyrir íslendinga að fara erlendis í frí. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef sú verður raunin. Verklýðshreyfingin hefur með orlofshúsum sínum og hótelmiðum gert fjölda manns kleyft að ferðast innanlands sem annars ætti þess ekki kost. Verkalýðhreyfingin hefur því lagt sitt á vogarskálarnar, en hvað með aðra?

Betur má ef duga skal í þeim efnum því annars verður það eini raunhæfi kosturinn til að upplifa landið sitt fyrir vísitölu fjölskylduna að kaupa tollfrjálsan DVD disk um "Undur Vestfjarða" í Leifsstöð á leið til Kaupmannahafnar í fríið.

mánudagur, 14. júlí 2003

Sveit vaskra sveina og meyja

Sveit vaskra sveina og meyja
Gerðust matvinnungar fyrir tveimur árum þegar að hópur félagsmanna fór í Skorradal og bar á bústaðinn okkar, "Bessastaði". Þessi röska sveit bæjarstarfsmanna var ekki nema um tvo tíma að klára allt verkið. Nú er svo komið að ekki veitir af að bera á bústaðinn aftur og verður því síðsumars efnt til ferðar í Skorradalinn þar sem að fyrir utan fúavörnina og tilheyrandi verður auk þess meðferðis eitthvað gott á grillið sem og eitthvað er slekkur sárasta þorstann við verklok. Ferðin verður nánar auglýst er nær dregur á heimasíðu STH.

sunnudagur, 13. júlí 2003

Hver er að hjálpa hverjum ?

Hver er að hjálpa hverjum ?
Fór á ansi góðan fyrirlestur í Odda um daginn. Sá að Armain- jakkafötunum, sem mörg hver voru þarna saman komin ásamt fjölda annara til að hlusta á bandarískan hagfræðiprófessor, leið ekki vel. Enda hlustandi á þær merku og jafnframt óþægilegu staðreyndir að þrátt fyrir alkyns einkavæðingarbrölt Alþjóðabankans og "aðstoð " hins vestræna heims við vanþróuðu ríkin þá eykst ekki hagsæld fólks í þessu löndum að sama skapi. Þeir sem höfðu einn dollar á dag í tekjur fyrir ca 25 árum hafa hann einnig í dag? Þetta leiðir hugann að því að harðsvíruð nýlendustefna í nýrri og jafnvel grimmari mynd hefur litið dagsins ljós. Hvað tilgangur er t.d. að einkavæða og stofna fyrirtæki í samfélögum sem vantar eingöngu hin einföldustu tæki til frumvinnslu og framleiðslu í eigin landi. Plottið er auðvitað það að þessi einkvæddu fyrirtæki tilheyra oftar en ekki þröngum forréttindahópum í landinu eða fjölþjóðlegum auðhringjum. Arðurinn kemst því sjaldan og illa til almennings í landinu og hver er þá að hjálpa hverjum?

föstudagur, 11. júlí 2003

Fæðingarorlofsmál

Fæðingarorlofsmál
Átti fund með nokkrum félagsmönnum í morgun. Þar var farið yfir greinargerð bæjarlögmanns og starfsmannastjóra um hið s.k fæðingarorlofsmál. Ekki er annað í spilunum á þessu stigi en að stefna Hafnafjarðarbæ til greiðslu fæðingarorlofs á tilteknum mismun milli lágra dagvinnulauna og fastrar eftirvinnu. Með tilkomu hins nýja fæðingarorlofssjóðs eru vandamál af þessum toga úr sögunni enda greitt af heildarlaunum. Hæstiréttur dæmdi ríkið til að greiða af fastri yfirvinnu. Hví skyldi það ekki eiga við í Hafnarfirði, bærinn er jú hluti af hinu íslenska lýðveldi

Ræddi við bæjarstjóra
Átti samtal við bæjarstjóra í morgun. Við ræðum reyndar oft saman og viðræður okkar eru yfirleitt bæði gagnlegar og hreinskiptar. Ekki þurfa menn endilega að vera sammála en orð eins og gagnkvæmur skilningur á sennilega vel við í þessum efnum. Á umliðnum vikum höfum við auðvitað rætt um mál málanna skipulagsbreytingarnar og ýmislegt þeim tengt. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hefur undirritaður haft uppi nokkurn pirring varðandi upplýsingaflæði milli aðila í þessu máli. Hins vegar væri það alrangt af mér að halda því fram að félaginu væru ekki ljós helstu efnisatriði málsins. Hins vegar er afar nauðsynlegt að félaginu berist öll gögn í máli eins og þessu, bæði fljótt og vel. Félagið þarf að bregðast við ótal fyrirspurnum félagsmanna , kanna ýmis réttindamál o.fl. Sem sagt hafa sem nákvæmastar upplýsingar hverju sinni. Það er öllum aðilum til hagsbóta, bæjaryfirvöldum, starfsmannafélaginu og starfsmönnum. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því að þessi mál valdi vandkvæðum á næstu misserum.

Áhyggjur
Það veldur mér hins vegar nokkrum áhyggjum að flökkusögur af ýmsum toga lifa sjálfstæðu lífi í kerfinu og valda bæði usla og óþægindum. Einfaldasta ráðið í þeim efnum er að óska staðfestingar t.d. starfsmannastjóra á slíku. Orka og einbeiting þarf að vera 100 % á raunverulegum atburðum en ekki á einhverjum sögum sem eiga allt sitt undir kvendi eins og Gróu á Leiti. Slíkt er einfaldlega ekki hægt að elta uppi og þjónar ekki neinum tilgangi frekar en hver annar vindmylluslagur.

miðvikudagur, 9. júlí 2003

Bréfin streyma

Bréfin streyma
Þessa daganna hafa allnokkrir starfsmenn bæjarins fengið ábyrgðarbréf frá bæjaryfirvöldum. Innihaldið er að bjóða fólki nýtt starf í nýrri stjórnsýslu. Ekki verður annað séð í fyrstu en að í flestum tilfellum sé einungis um sambærileg störf í nýju skipuriti að ræða. Uppsagnir eru vart hægt að telja nema á fingrum annarra handar en um er að ræða tvo STH félaga ( sem er samt of margt).
Hins vegar eru einhverjir sem ennþá íhuga hvort þeir ætli að sæta tilfærslu og íhuga biðlaunarétt sinn. Breytingar eru mestar hjá bæjarverkfræðingsembættinu. Ef einhverjir félagsmenn eru í hinum minnsta vafa um sín mál þá er félaginu bæði ljúft og skylt að veita aðstoð. Hægt er að hafa samband við formanninn í gegnum rafpóst addigum@simnet.is

Nánari útfærslur um tilflutning einstakra starfsmanna má lesa um í næsta Fjarðarpósti??? Af því tilefni þá hefur formaður STH sent inn hugmynd í hugmyndabanka á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar um á hvern veg best er að haga "samstarfi" bæjarins og STH í framtíðinni. Svo virðist vera að hinar fremstu skyldur bæjarins séu við hið ágæta blað Fjarðarpóstinn og mun fremur en við hagsmunafélag starfsmanna STH . Eitt skipti slys, tvö skipti "too much" , þrisvar sinnum ???

Skynsamlegt hefði verið

Mikil vonbrigði
Nú liggur fyrir að Hafnarfjarðarbær mun ekki greiða fæðingarorlof með sama hætti og nýgengin Hæstaréttardómur segir til um og gekk í máli nokkurra kvenna er vinna hjá ríkinu. Sá dómur gekk m.a. út á að greiða beri fæðingarorlof af heildarlaunum þ.e.a.s. einnig af fastri eftirvinnu en ekki bara af (lágum) grunnlaunum. Sanngjörnum óskum nokkurra starfsmanna bæjarins í þessa veru hafna bæjaryfirvöld nú alfarið og eftir að hafa velt þessu máli á undan sér mánuðum saman. Þessi afstaða bæjarins veldur Starfsmannafélaginu miklum vonbrigðum og ljóst að næstu skref af okkar hálfu eru einfaldlega þau að sækja mál þetta fyrir dómsstólum.

Skynsamlegt hefði verið
Leið skynseminnar hefði hins vegar verið sú að bæjaryfirvöld hefðu einfaldlega viðurkennt fordæmi Hæstaréttar og greitt þessar krónur sem upp á vantar. Slíkt hefði verið ágæt yfirlýsing í anda jafnréttis og jákvæðrar starfsmannastefnu. Því er ekki að skipta í þessu máli og því ekki um aðrar leiðir en að senda málið inn í dómskerfið (aftur og nýbúið ?) .

fimmtudagur, 3. júlí 2003

"Listdans" og taugaáföll

"Listdans" og taugaáföll
Hlusta oft á útvarp Sögu, fínn miðill og fjölbreyttur. Ágætt að hafa stöðina í bakgrunni þegar maður er að vinna ýmis verkefni. Hlustaði í morgun á þátt Arnþrúðar Karlsdóttir þar sem hún ræddi við einhvern Gústaf sérlegan tengilið "listdansstaðarins" Boheim við erlendar umboðsskrifstofur. Geri ráð fyrir að nefndur Gústaf hafi sérþekkingu á listdanssviðinu, sé jafnvel menntaður dansari?

Var svo heppnin/óheppnin að á námsárum mínum (hinum fyrri) í Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins, að fá tækifæri til þess að kynna mér ítarlega hið hollenska félagsmálakerfi og aðstæður þeirra sem minna mega sín í því þjóðfélagi. Þar í landi eru "listdansstaðir" af þessu tagi víða. "Starfsfólkið" þar eru hvorki "háskólastúdínur" eða stúlkur sem vilja næla sér tímabundið í ríflegar aukatekjur. Hollenski bransinn sem er ekkert öðruvísi en annars staðar og gengur á dópi. Sá sem er þræll fíkniefna á ekkert val og gerir hvað sem er fyrir næsta skammt. Í Hollandi fá um 90 % "listdönsurunum" taugáfall í "vinnunni" árlega. Ungar stúlkur á niðurleið er samnefndari yfir vegferð þessa fólks sem lendir í þessum ömurlegum aðstæðum. Frá "fylgdarþjónustu" í ræsið er því miður hinn bitri veruleiki.

Hér á landi eru greyin sem fyrir þessari starfsemi standa, að eigin sögn , lagðir einelti og sæta pólitískum ofsóknum? Málið er hins vegar að bransinn á Íslandi sker sig ekkert úr nema síður sé og hin "hörmulega" (í öllum skilningi þess orðs) "listdansstarfsemi" er ekki rekin á neinum öðrum forsendum en annarsstaðar, forsendum mannlegra auðmýkingar og niðurlægingar.

Greiðslur í fæðingarorlofi

Greiðslur í fæðingarorlofi
Fyrir nokkru féll Hæstaréttardómur varðandi greiðslur vegna fastrar eftirvinnu í fæðingarorlofi. Mál þetta er í athugun og geri ég ráð fyrir dómafordæmið eigi fyllilega við hér í bæ og mál verði því leiðrétt fyrr en seinna. Um er að ræða 4 - 5 félagsmenn STH.

þriðjudagur, 1. júlí 2003

Þá eru tveir farnir

Þá eru tveir farnir
Jafnréttisfulltrúinn, skipulagsstjórinn farnir og starfsmaður á bæjarverkfræðingsembættinu búin að fá munnlega uppsögn? Stemmingin á 3. hæðinni ( hjá bæjarverkfræðingsembættinu ) er því ekki upp á marga fiska þessa daganna. Breytingar og tilfærslur ennþá í lausu lofti með tilheyrandi óöryggi og óþægindum. Finnst þess mál öll fyrir neðan allar hellur og vinnubrögð ekki sæmandi bæjarfélaginu.
Væri ekki ráð að halda fund með starfsfólki bæjarverkfræðingsembættisins og skýra út fyrir fólkinu í hverju þessar "skipulagsbreytingar" eru fólgnar.