miðvikudagur, 27. júní 2012

Ólafur tapar hvernig sem fer - Pyrrosarsigur í besta falli

Það liggur fyrir að sitjandi forseti fær aldrei yfir 50 % atkvæða í komandi forsetakosningum. Úrslitin sem slík skipta engu máli í raun.  Fjöldi meðframbjóðenda og dreifing atkvæða er helsti liðsmaður sitjandi forseta fremur en einhver málefni eða málefnastaða.  Forsetinn hefur á langri vegferð mæðst í mörgu og margt orkað tvímælis, sumt afar tvímælis s.s innileg samskipti og sendiferðir hans í þágu margra þeirra sem settu landið á hausinn. Málefnin eru engin og í raun flest sem rekst á annars horn í þeim efnum, „í einni eða annarri  mynd“.  Vatnalög fyrri ríkistjórnar sem nánast einka(vina)væddu rigninguna stoppuð stutt á borði forseta á sínum tíma sem signeraði þau umyrðalaust.   Lögin voru sem betur fer afnumin af núverandi ríkistjórn áður en þau komu til framkvæmda. Mörg dæmi má taka um  mál sem höfðu allar forsendur til þess fara með á svipaðan hátt og (seinni) Icesave  en var ekki gert?  Það er því einhverskonar populismi sem ræður för  forsetans í þessum efnum fremur en eitthvað fastmótað kerfi.  Mál eins og Icesave hverfa ekki þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að sigra kosningar með minnihluta þjóðarinnar að baki sér gerir forseta af „þessari tegund“ umboðslausan með öllu, hvað þá að viðkomandi verði talin  „sameiningartákn“ þjóðarinnar. Umboðið verður veikara en allt  sem veikt er. Forseti með ríflega fjórðung þjóðarinnar að baki sér er ekki með neina lýðræðislega innistæðu eða raunverulegt umboð til að grípa framfyrir hendurnar á þjóðkjörum þingmeirihluta hverju sinni.

Upphaf kosningabaráttu sitjandi forseta er umhugsunarverð og ekki síst tímasetningin  13. maí sem byggir á klækjabrögðum atvinnustjórnmálanna af tiltekinni tegund.   Aðstæður helsta mótframbjóðanda hans voru öllum ljósar og að taka ekki tillit til þeirra segir meira en mörg orð. Það hefði hæglega mátt gera í stað þess að blása til stórsóknar gegn höfuðandstæðing sínum, nánast í þann mund er hún leggst á sæng og vitað er að hún yrði ekki til svara fyrst um sinn.

Ólafur Ragnar Grímsson  mun ekki vinna nokkurn sigur algerlega óháð úrslitum komandi kosninga -  Hafi hann í upphafi ferlisins og ekki síst hans ágæta eiginkona Guðrún Katrín verð sameiningartákn þá fer því víðs fjarri að svo sé í dag.  Þvert á móti  forsetinn er orðin virkur gerandi í pólitískum álitamálum –  gamladags pólitíkus og afar umdeildur sem slíkur líkt og fyrrum. Þetta er ekki sá forseti sem ég studdi 1996.   Vettvangur og leið Ólafs sem einhverskonar bjargvættis þjóðarinnar væri best í gegnum hefðbundna klæjapólitík og þangað ætti hann að snúa sér. Til þess hefur hann alla burði og ríflega það eins og kosningarbarátta hans og "herkænska" sýnir glögglega.

þriðjudagur, 12. júní 2012

Mesta PR flopp seinni tíma

Það verður ekki annað sagt en að hinar s.k. mótmælaaðgerðir (Samstöðufundur) LÍÚ á Austurvelli um daginn hafi verðir þær allra misheppnuðustu í manna minnum. Þátttaka sjómanna hluti af veiðiferð, viðkomandi mótmælendur á fullum launum og sennilega margir með óbragð í munninum enda í miðri kjaradeilu við LÍÚ. Til þess að kóróna alla vitleysuna var „mótmælendum“ í einhverjum tilfellum boðið upp á áfengi í aðdraganda mótmælanna ( http://www.dv.is/frettir/2012/6/7/fengu-afengi-fyrir-ad-motmaela/ )

Ekki veit ég hvaða auglýsingastofa á vegum LÍÚ það var sem missti sig svo rosalega í hugflæðihrynunni að úr varð hreinn kjánaskapur. Austurvöllur er vettvangur „Jóns Jónssonar“, grasrótarinnar, búsáhaldabyltingarinnar. Á miðjum vellinum er vegleg stytta af Jóni Sigurðssyni þjóðfrelsishetju sem stóð fyrir allt öðrum gildum en afar fámenn sérhagsmunasamtök LÍÚ gera. Umgjörðin, formið, staðurinn og nafnið „Samstöðufundur“ leggst allt á eitt við það að gera þessi undarlegu mótmæli að einu mesta (og sennilega dýrasta) PR floppi seinni tíma. Gríðarlegur fjáraustur í ómerkilegar áróðursauglýsingar í sjónvarpi og dagblöðum vikum og mánuðum saman sem enda með algerlega misheppnuðum fundi hljóta að vera þessum háværa minnihluta umhugsunarefni - og ekki síst hvort að „málstaðurinn“ sé ekki senn bæði hallærislegur og „illseljanlegur“ .

mánudagur, 4. júní 2012

Lena er að skilja – Hans ekki allur þar sem hann er séður.

Var fyrir margt löngu í „röð“ í miðasölu á Fornebu flugvelli í Osló, ef röð skyldi kalla. Vorum bara þrjú en afgreiðslan gekk treglega í meira lagi. Í biðinni þá byrjar maðurinn fyrir aftan mig skyndilega að heilsa háum rómi og með virktum. Í fyrstu taldi ég að hann væri að hefja samræður við mig út úr tómum leiðindum en sá (og heyrði) sem var að hann vildi ekkert við mig ræða en hélt áfram eins og einhver væri viðmælandinn? Mér varð um og ó enda maðurinn ekki með sjálfum sér í bókstaflegir merkingu þess orðs. Sá mér til nokkurar furðu að hann var með mjóa leiðslu útúr öðru eyranu sem leiddi í einhverskonar kúlu eða sívalning sem hann bar að vitum sér og talaði í?

Gerði mér greini fyrir því á þessum tímapunkti að ég var vitni að algeru tækniundri, eiginlega byltingu. Var snöggur að koma mér upp slíkum búnaði sem kostaði að vísu ansi mikið. En á móti gríðarlegt hagræði og farsíminn þetta helsta samskiptatæki samtímans orðið öflugt í meira lagi, þótti manni.

Nú mörgum árum seinna er ég staddur í Stokkhólmi á námskeiði og ráðstefnu. Notfæri mér óspart hið afar góða samgöngukerfi borgarinnar . Á tímum snjallsímans hefur margt breyst. Í stað blaða og bókalesturs í strætisvagna- og lestakerfinu er snjallsíminn ( sem verður orðin tæknilega úreltur og hallærislegur innan nokkurra ára og eitthvað annað og betra tekið við ) komin og domínerar með öllu miðlun og miðla af öllum hugsanlegum og ó hugsanlegum tegundum. Er ekki sérsænskt einungis tæknileg formbreyting.

Eitt hefur þó breyst sem er að vinur minn í röðinni forðum hefur öðlast gríðarlegt margfeldi sitt á þessum árum sem liðin eru. Ástandinu má við fyrstu sýn líkja við ógrynni kollektívra mónológa. Svona svipað og maður upplifir í leikskólum þegar og börnin í hóp en þó hvert í sínum heimi leika sér og oft án samhengis við neitt annað en þau sjálf og þeirra hugarheim. Svona er ástandið í lestunum, fullt af fólki sem talar hátt og snjallt í símann og með engum örðum hætti en ef væri það í algeru einkarými. Sennilega er það svo að margur skilgreinir sig fremur sem hluta af rafrænum heimi en hinum hefðbundna sem varðar viðkomandi afar lítið og skiptir litlu máli a.m.k. hvað samskipti og annað varðar. Skyldurnar því fremst við hina rafrænu veröld og þar fara öll megin samskipti fram. Hin fysiska umgjörð, nánasta umhverfi, skiptir litlu sem engu máli, viðkomandi einstaklingar eru einungis líkamlega nærverandi.

Á þessari viku sem ég hef verið hérna hef ég orðið margs vísari um hagi margra og ekki allt gott. Lena er að skilja við Hans sem hún hefur verið gift til nokkurra ára. Hann var ekki allur þar sem hann var séður tjáði hún viðmælanda sínum. Hjónabandið hefði verið mistök sennilega frá upphafi en hinn innri Hans hefði reyndar ekki komið í ljós strax. Hann hafi eytt peningum í hreina vitleysu og verið eitt risa stórt egó. Jonas var æstur einn eftirmiðdaginn, sennilega búinn að fá sér í tánna . Hann sagði viðmælenda sínum, sennilega fyrrverandi eða a.m.k. tilvonandi fyrrverandi kærustu, að hún gæti hirt þessa andskotas íbúð upp i Falun hann kærði sig ekkert um íbúðina og svo kvaðst hann ekki nenna að tala lengur við hana. Eldri maður var svakalega ánægður með pípara sem hann hafði ráðið til að lagfæra lagnir í íbúð sinni. Kvað hann bæði vandvirkan og ódýrann, hvatti viðmælanda sinn eindregið til þess að hafa sambandi við hann og hefja viðskipti enda myndi sturklefinn hjá honum eyðileggjast ef hann drægi viðgerð lengur .

Ung stúlka sagð að mamma hennar væri rosalega leiðinleg og ungur maður taldi fótboltaþjálfarann ekki skilja hvað hann væri góður á kantinum og aðrir þjálfara myndu fyrir löngu verða búnir að sjá þetta og setja hann í liðið, hann taldi sig gegna veigamiklu hlutverki en það væri ferlegt að þjálfarinn skyldi það ekki, það væru margir sem teldu að þjálfarinn ætti að hætta. Ung kona var að fara í sumarfrí í næstu viku, mjög ánægð, ferðin hafi verið á góðu verði, að vísu hefði maðurinn hennar kríað út verulegan auka afslátt af því hann var í Rotary eða einhverju slíku. Það væri bara fínt en það væri eitthvert Rotary fólk með í ferðinni sem væri allt í lagi þó svo að þetta Rotary stand væri hálf leiðinlegt. Sara hafði drukkið rosalega mikið í partínu um helgina og það sem verra var að hún hafði daðrað við Gustav sem hún veit að er kærasti Anniku. Þetta gerði hún alltaf þegar hún var full og það var svona hegðun sem gerði það að verkum að síðasti kærastinn hennar dömpaði henni. Hún ætti að hætta að drekka var mat ungu stúlkunnar sem var að ræða þetta við vinkonu sína

Já þetta og margt annað fékk maður að vita algerlega ó umbeðið. Lífið er fullt af smásögum og þær eru út um allt. Sápuóperuáhorf er með öllu óþarft þegar að Stockholms Tunnelbana er annars vegar – allt löðrandi í „sápum“ þar . Leiðarljós , Aðþrengdar eiginkonur, Dallas og allt hvað þetta heitir nú er hjómið eitt miða við raunveruleikaþáttinn Lífið í lestunum (Tunnelbanan) . Lífið er leikhús segir Goffman með réttu sem og það að félagsfræði lærir maður í stórmörkuðum ( og í Stockholms Tunnelbana)

Hitt er svo annað mál hvort hvað heimur er hvaða heimur og í hvorum við lifum. Það er í mörgum tilfellum mörgum óljóst – ekki satt og ekki síst það  hvort annar er öðrum merkilegri ?