fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Það eru ekki allir með tvö eistu!


Það eru ekki allir með tvö eistu! Hlustaði á umræður um áfengisfrumvarpið á Alþingi í dag (23.feb.2017)  Var athyglisvert í meira lagi.  Framsaga fyrsta flutningsmanns frumvarpsins, sem hóf þessa sjöundu eða áttundu tilraun Sjálfstæðismanna til að koma brennivíni í búðir, var einstök. Þingmaðurinn fór um víðan völl en skautaði afar létt yfir allt sem laut að lýðheilsu og velferðarsjónarmiðum en hafði í hávegum hin ítrustu viðskiptasjónarmið. Og af því að engin (lesist áfengisbransinn) tæki mark á lögum um bann  á áfengisauglýsingum þá ætti bara að leyfa þær samhliða því að koma brennivíni í búðir.

Einhverstaðar þarna innan um í framsögunni var umfjöllun um rannsóknir almennt á þessu sviði sem viðkomandi kvað  nánast almennt eiginlega ekkert mark á takandi, þá væntanlega rannsóknum frá Alþjóðheilbrigðisstofnuninni WHO, Landlækni og fleirum. Frummælandi taldi flestar rannsóknir vera mest megnis einhver andstæð meðaltöl út og suður, miðgildi m.m. , tók nokkur dæmi, lagði saman, deildi og lokaði þeim þætti ræðunnar með umfjöllun um að  þetta væri ekki svona flókið.  Kom að lokum, máli sínu til útskýringa, með dæmi um þá  fullyrðingu að mannkynið hefði að meðaltali bara eitt eista? sem væri auðvitað „rétt“ en væri þekking sem hefði engan tilgang?   Afhjúpaði með þeirri staðhæfingu sinni allnokkra vanþekkingu á sviði vísinda og aðferðafræða. Sem gefur auk þess fyllsta tilefni til þess að setja málið í svolítið „Halla & Ladderí“

Því þó svo að þingmaðurinn kunni af hafa tvö eistu þá er slíkt ekki algilt, margar manneskjur hafi misst eistu eitt eða tvö af margvíslegum ástæðum og þvi rétta svarið að mannfólkið hefur minna en eitt ( < 1 ) eista að meðaltali. Og ef við höldum okkur áfram við þessa líkingu og segjum, sem dæmi, að fram komi í rannsókn hérlendis að  meðaltalsfjöldi eistna á Vestfjörðum væri mun lægri en landsmeðaltal eistna, t.d. 0,6 per manneskju í stað 0,95,  þá þyrfti að rannsaka málið enn frekar og grípa til viðeigandi aðgerða því ekki væri slíkum eistnaskorti viðbætandi á aðra búsifjan Vestfirðinga síðustu árin.  Með öðrum orðum ekki vanmeta meðaltölin, miðgildin o.fl. 

En að öllu gríni slepptu þá get ég ekki sem einarður andstæðingur þessa frumvarps verið annað en ánægður með framsöguræðuna, ekki það að ég hafi verið sammála því sem þar kom fram, þvert á móti, ég er ósamála ræðumanni og flytjendum þessa frumvarps í öllum meginatriðum, ræðan sýndi í hnotskurn og með skýrum hætti, og í því liggur mikilvægi hennar, hvað þetta frumvarp er tilgangslaust, illa ígrundað og algerlega úr takt við öll lýðheilsu- og velferðarsjónarmið í okkar samfélagi – Hvet alla til þess að kynna sér umræðu dagsins á Alþingi því þrátt fyrir þessa einstöku ræðu kom margt afar athyglisvert fram í ræðum margra þingmanna

þriðjudagur, 21. febrúar 2017

Pólitískt handafl - mikið í húfi



Þegar að litið er á málalista Alþingis  fyrstu starfsdaga nýrrar ríkistjórnar og tekin út þau mál sem lögð hafa verið fram af þingmönnum minnihluta þá lítur málalistinn  svona út:



Eins og sjá má af þessu þá er áfengisfrumvarpið í raun algert forgangsmál  á þessu þingi, lagt fram sem mál númer sjö af dagskrá meirihlutans. Þar af eru fjögur frumvörp Villhjálms Bjarnasonar, Eitt frumvarp fjármálaráðherra og eitt frumvarp úr velferðarnefnd.  Fyrsti flutningsmaður áfengisfrumvarpsins kvað aðspurður mikla vinnu hafa verið lagða í frumvarpið að þessu sinni.  Í þessu ljósi er sólklárt að þingið mun eins fljótt og frekast verður unnt taka málið á dagskrá.  Skoðanir forseta þingsins og formanns alsherjar- og menntamálanefndar til málsins, þangað sem málinu verður vísað, eru kunnar. Og í ljósi mikilvægi málsins mun forseti og nefndarformaður (sem jafnframt er meðflutningsmaður frumvarpsins) nýta til fullnustu  það vald sem þeim hefur verið falið af hálfu þingsins í því skyni að koma málinu í gegn.  Já í mörgu er að  mæðast  þegar að mikilvægar pólitískar hugsjónir eru í húfi og ekki síst þar sem flutningsmenn frumvarpsins virðast byggja pólitíska vegferð sína á málinu. Af þeim sökum þarf engum að koma á óvart að málið verið fyrr en seinna sett á dagskrá þingsins. 

fimmtudagur, 8. september 2016

Fyrst kom feitur karl inn á sviðið frá vinstri


Vín er stórfengleg borg – kom þangað fyrst fyrir langa löngu sennilega 1994 sem þátttakandi í aðalfundi  EYCE (Samtök Evrópskra félagsmiðstöðva) og hef komið þangað nokkrum sinnum síðar.  Í tengslum við aðalfundinn og ráðstefnuna 94 var boðið upp á : A) Óperuna Ísold og Tristan eftir Wagner í Vínar óperunni (þrír þættir ca sex klukkustundir)  B) Evrópsku jazzhátíðina sem fram fór á bökkum Dónár (12 svið og ég hef ekki tölu á öllum þeim artistum sem komu fram). Valið einfalt jazzhátíðin og það þrátt fyrir að  Wagner hafi verið mesti þungarokkari sinnar tíðar, sem hefði átt á freista (hefði samt sem áður mátt bæta við 6- 10 kontrabössum í 120 manna band sitt og 120 manna kórinn sem stóðu fyrir grúvinu hjá Wagner).

Norskur vinur minn ásamt allri dönsku sendinefndinni ákváðu að fara á Wagner óperuna. Daginn eftir spurði ég hann hverning honum hefði líkað og ekki stóð á svarinu:
"…Árni þetta var stórkostleg  sýning, í fyrsta þætti sem tók um tvo tíma þá var töluvert af fólki syngjandi víða um sviðið og í nægu að snúast bæði hjá hljómsveit og kór, í öðrum þætti ákváðum við að fara út að borða þ.e.a.s öll nema Sören sem ákvað að halda áfram að sofa. Þriðji þáttur var stórfenglegur. Fyrst kom feitur karl inn á sviðið frá vinstri og söng af feykilegum styrk í ca 30 mín og svo kom feitlagin kona skyndilega inn hægra megin og söng há tíðni skala af engu minni styrk en karlinn þéttvaxni í ca 30 mín. Óperan  náði síðan hápunkti sínum þegar að þau færðu sig fram á mitt sviðið og sungu saman í ca 45 mín, Strengir þandir til hins ítrasta, blásið af miklum móð,slagverk í algleymi og kórinn allur á útopnu …en skyndilega þegar leikar standa sem hæðst,  varð eitthvað vesen, nánar tiltekið á 43. mínútu, sem varð til þess að þau söngparið íturvaxna hné niður með afar sannfæraandi tilburðum leiklistarfræðilega örend … og öllu lokið. Ég gat ekki annað gert en staðið upp og hrópað bravissiomo, bravissiomo"

Með fullri virðingu fyrir Wagner og sem praktíserandi bassaleikari hef ég aldri sé eftir því að hafa drifið mig á Jazzhátíðina. Datt þetta í hug um daginn er ég sótt fund í ritstjórn The International journal of Open Youth Work*  í þessari fögru borg.

þriðjudagur, 25. ágúst 2015

Öll gagnrýni afþökkuð


Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi í Hafnarfirði sendir mér tóninn í grein í Fréttablaðinu 5. ágúst s.l. undir titlinum „Fagleg umfjöllun óskast!“ og vísar til skrifa minna um æskulýðsmál í Hafnarfirði. Mér þykir leitt að bæjarfulltrúinn hafi ekki getað gert skrifin mín sér að góðu og velti fyrir mér hvort það geti ekki talist hluti þess vanda sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur komið sér í á vettvangi æskulýðsmála. Ekki endilega skrif í mín um æskulýðsmál, ekki síður algert samráðsleysi við fag- og fræðaumhverfið og þá aðila sem málið varðar. Vandi sem felst í grundvallarbreytingum sem var þvingað í gegnum bæjarstjórn umræðulaust á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi og komið til framkvæmda nánast sama dag með tilheyrandi uppsögnum o.fl. Fulltrúar þessara aðferða bregðast svo við opinberri umræðu með greinum eins og „Fagleg æskulýðsmál í Hafnarfirði“ og „Fagleg umræða óskast!“ ómstrítt í meira lagi, svona svipað eins og Raggi Bjarna að spila pönk. Ferli þessa máls segir allt sem segja þarf.

Annað er fúsk – hitt er fagmennska
Bæjarfulltrúinn vísar til umdeildra skipulagsbreytinga í Reykjavík sem hann telur sambærilegar breytingum í Hafnarfirði, sem er rangt í öllum meginatriðum. Í Reykjavík var tekist á um hvort heildstætt og vel starfandi svið Íþrótta- og tómstundamála (ÍTR) ætti að hluta til eða að öllu leiti falla undir annað stjórnsýslusvið eða halda áfram í sömu mynd. Umræðan snerist fyrst og fremst um vistun málaflokka og í þessu tilfelli var æskulýðshlutinn þ.e. frístundaheimili, frístunda- og félagsmiðstöðvar fluttar á nýtt svið, Skóla- og frístundasvið (SFS) Þessum hluta æsklýðsstarfseminar er stýrt af skrifstofu frístundamála af fv. æskulýðsfulltrúa ÍTR sem nú gegnir starfi framkvæmdastjóra frítímamála og tekur sem slíkur bæði rekstrar- og faglega ábyrgð á málaflokknum.
Í Hafnarfirði var skrifstofa íþróttamála í raun lögð niður og starfsemi skrifstofu æskulýðsmála (ÍTH), sem verið höfðu undir félagsþjónustu, flutt í afar breyttri og smættaðri mynd undir forræði fræðslusviðs. Í Hafnarfirði eru einstakir skólastjórar gerðir ábyrgir fyrir starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimila hver í sínum ranni. Öll sú þekking, menntun og reynsla sem fyrir er,er að engu gerð – foræðið í formi rekstarábyrgðar flutt til skólastjórnenda sem hafa enga þekkingu á þessu sviði. Niðurstaðan sú að forsendur starfsins hvíla algerlega á herðum óskyldra aðila þ.e. einstakra skólastjóra. Í annari deild innan fræðslusviðsins, æskulýðs- og íþróttadeild situr einhverskonar ráðgjafi, umboðslaus með öllu, án starfsmanna- og fjárforræðis, sem nefndur er „fagstjóri frístundastarfs“ eins og hér sé um að ræða einhverja einstaka kennslugrein í almennu skólastarfi eins þetta starfsheiti gefur til kynna?

Grundvallarmunur
Á þessu tvennu er alger grundvallarmunur. Í tilfelli Reykjavíkurborgar voru tiltekin viðfangsefni flutt milli tiltekinna sviða án nokkurs afsláttar á fag- og fræðilegum vinnubrögðum og eða rekstrarlegum forsendum. Starfsemi heldur áfram og þróast í anda þeirrar fagmennsku sem viðhöfð er bæði hjá ÍTR og SFS. Í Hafnarfirði er forræði og ábyrgð á starfsemi félagsmiðstöðva og frístundaheimilinna færð undir forræði skólastjórnenda hvers á sínum stað sem enga sérþekkingu hafa á málaflokknum. Slíkar hugmyndir voru í hávegum hafðar af ýmsum skólamönnum fyrir margt löngu eða um 1970, fyrir tíma frístundaheimilanna, en voru slegnar út af borðinu af framsýnum mönnum eins og Markúsi Erni Antonssyni dugmiklum þ.v. formanni Æskulýðsráðs Reykjavíkur (ÆR), frumherja og baráttumanni sem, ásamt öðrum slíkum Hinriki Bjarnasyni þ.v. framkvæmdastjóra ÆR, lögðu drög að félagsmiðstöðvavæðingu Reykjavíkurborgar sem var mikið heillaspor fyrir Reykvíska æsku og reyndar æskuna almennt í landinu þar sem frumkvæði borgarinnar hafði víða áhrif og varð framsæknum bæjarfélögum til eftirbreyttni.

Ef bæjarfulltrúinn greinir ekki munin á þessu tvennu og telur skipan mála í Reykjavík sambærilega við Hafnarfjörð þá er sú vandræðalega staða sem uppi er í þessum málum í Hafnarfirði sjálfboðin og liggur í hlutarins eðli. Sýnir í reynd nauðsyn þess að vanda til verka, bæði hvað varðar innihald og málsmeðferð stjórnsýslubreytinga, sem í þessu tilfelli hefur verið algerlega óboðleg ferli frá A-Ö. En áfram skal haldið, hvað sem tautar og raular, í nafni þokukenndra og algerlega órökstuddra frasa um bætta þjónustu, samráð o.fl í þeim dúr, ef marka má skrif bæjarfulltrúans. Affarasælast væri hins vegar fyrir bæjaryfirvöld vinda ofan af þessu skipulagsslysi þegar í stað og vinna þetta af virðingu og í samræmi við mikilvægi málflokksins í samvinnu við þá sem málið varðar og af fagmennsku.