fimmtudagur, 30. júní 2005

Hann er fallegur bærinn okkar

Og það eigum við unga fólkinu í Vinnuskólanum að þakka, þau gera einfaldlega fagran bæ fegurri með vinnu sinni. Finnst stundum sem fólk geri sér ekki grein fyrir þessu mikilvæga framlagi og því sé unglingunum ekki þakkað sem skyldi.

Fékk meira að segja samtal fyrir nokkru, á skrifstofu ÍTH, frá konu einni er sagði farir sínar ekki sléttar og kvað ungviðið hina mestu auðnuleysingja því klukkan 10:00 viðkomandi morgun hefði vinnuhópur ungmenna setið auðum höndum ásamt flokkstjóra sínum fyrir utan húsið hennar, hlegið og spjallað saman, a.m.k. 15 – 20 mínótur. Yfir þessu vildi hún kvarta!

Hún fékk að vita sem er að allir eiga sinn kaffitíma. Geta ekkert farið frá og fá ekki einu sinni að skjótast í sjoppu. Heyrði sem var að konunni brá enda haft unga fólkið fyrir rangri sök.

Er því miður allt of algengt að svo sé. Bendi fólki bara á að líta á okkar snyrtilega bæ – verkin tala og ekkert á sér stað af sjálfu sér - framlag unga fólksins blasir við hvert sem litið er.

fimmtudagur, 23. júní 2005

Af félagsfundi STH

Félagsfundur STH á þriðjudaginn var afar líflegur. Um 130 félagsmenn voru saman komnir.

Í fyrstu tveimur röðunum vinstra megin í salnum sátu starfsmenn frá tiltekinni uppeldisstofnun og höfðu sig mikið i frammi sem er hið besta mál, hefði sennilega skipt litlu máli hvaða samningur hefði verið kynntur, viðkomandi myndu hafna öllu, ekki vegna þess að samningurinn sé ekki nógu góður, heldur vegna þess að viðkomandi starfsmenn eru lagþreyttir á aðstæðum sínum, þreyttir á því að láta fara illa með sig, gegna störfum sem bera ekki rétt starfsheiti og eru lægra launuð en ella og standa í eilífu veseni með vinnufyrirkomulag og sitthvað fleirra í þessum dúr.

Fólk sem hefur búið við slíkt ástand um lengri tíma hættir auðvita að treysta því að nokkur skapaður hlutur gangi upp. Fólk treystir ekki formlegum samningi eða bókunum ,ekki vegna þess að orðanna hljóðan sé óljós, heldur vegna þess að vantraustið er orðið svo djúpstætt að það treystir einfaldlega ekki á að undirritað samkomulag verði framkvæmt.

Það er nokkuð athyglisvert út frá sjónarhól starfsmannafélagsins að meirihluti allra erinda ( þ.e.a.s. annarra en þeirra sem varða almenna þjónustu ) eru frá tiltölulega fáum stofnunum? Erindi safnast saman og lítið verður um úrlausnir og þær koma seint,ef þær þá koma.

Starfsmannastefna og framkvæmd hennar er ekki einkamál viðkomandi forstöðumanna og ef hún fer verulega á skjön við ríkjandi og yfirlýst markmið bæjaryfirvalda hverju sinni þá verða bæjaryfirvöld einfaldlega að grípa inn í og gera þær ráðstafannir sem til þarf, til þess að fyrirbyggja slíkt.
Í þessu liggur vandinn og í þessu liggur sennilega hluti skýringarinnar á því hve margir félagsmenn sögðu nei í atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning í fyrradag.

Samningur snýst um traust og gagnkvæman skilning, án þess er samningur bara orð á blaði og hefur enga þýðingu. Til að fyrirbyggja að slíkt hendi þá þurfa samningsaðilar hvor í sínum ranni að tryggja vinnubrögð sem eru til þess fallinn að svo verði – Gríðarleg óánægja eins og lýst er hér að ofan verður að leysa í sátt við viðkomandi starfshópa, áframhaldandi óánægja grefur hægt og sígandi undan þeim trúverðugleika sem nauðsynlegur er. Slíkt má ekki henda og því er þetta okkur öllum þörf ábending um verkefni sem þarf að leysa.

Afstaða til kjarasamnings getur því allt eins mótast af almennu viðhorfi gagnvart vinnuveitandanum fremur en innihaldi samningsins sem slíks – sennilegt að svo hafi verið á í tilfelli margra félagsmanna STH á fundinum fjöruga í Álfafelli þriðjudaginn 21. júní 2005

sunnudagur, 19. júní 2005

Hamar

Hið virta málgagn sjálfstæðismanna hér í bæ Hamar sendir mér tóninn í nýjasta blaði sínu. "Iðrast Árni" er hin virðulega fyrirsögn og best á því að byrja með því að staðfesta að svo er alls ekki. Tel að með sama áframhaldi þá hefði Hafnarfjörður orðið að risastórri tilraunastofu í einkavæðingu. Fólk vildi ekki frekari tilraunir enda féll þáverandi meirihluti?
Skoðanir undirritaðs hvað varðar einkavæðingu eru fólki vel kunnar og hafa ekkert breyst. Allmargar greinar hef ég ritað um þau mál, bæði um algerlega misheppnaða einkavæðingu hérlendis sem og erlendis. Á örugglega eftir að skrifa fleiri og fylgi þar sem endranær eigin sannfæringu og geri engan greinarmun á milli flokka í þeim efnum.

Hins vegar er það svo að blað sem veit ekki að komið er frábært menningar og kaffihús ungmenna í Mjósund 10, "Gamla bókasafnið", fyrir margt löngu og agnúast yfir því að svo sé ekki og það jafnvel þó að einn ritstjórnamanna sitji í forvarnarnefnd sem fer með stjórn hússins, þá verður að segjast eins og er að trúverðugleiki blaðsins dofnar verulega og jafnvel hverfur.

Sama á við skrif um hinn iðrandi Árna, grein sem höfundur treystir sér ekki til að rita nafn sitt undir? Greinin byggir á þeirri grundvallarskekkju að ræstingarfólk hafi verið félagsmenn í STH, en svo hefur aldrei verið. Af þeim sökum er starfsfólkinu því algerlega ókleift að yfirgefa félagið. Allir þeir sem vit hafa á uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar vita að ræstingafólk var áratugum saman í Verkakvennafélaginu Framtíðinni og síðustu ár í sameinuðu félagi undir nafni Verkamannafélagsins Hlífar

Formaður STH var fyrstur manna til að benda á hvað alvarlegu afleiðingar útboð á ræstingum bæjarins myndi hafa. Fjöldi fólks missti vinnuna og þeir sem ráðnir voru fengu mun lægra kaup fyrir mun meiri vinnu! Yfir þessu virtist öll bæjarstjórnin vera himinlifandi.

Það voru bara tveir menn sem létu að sér kveða í þessu máli í upphafi . Það var formaður STH og það var ágætur vinur hans , bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Gissur Guðmundsson sem einn manna hafði upp andmæli gegn þessu í bæjarstjórn, 10 -1 í bæjarstjórn?

Formaður starfsmannafélags hefur kosningarrétt rétt eins og aðrir þegnar samfélagsins en þegar að kjaramál eru annars vegar þá eru auðvitað hagsmunir félagsmanna í fyrirrúmi. Á langri vegferð hefur formaðurinn þurft að fara inn alskyns erfið starfsmannamál og starfslokasamninga , einkum hefur þetta átt við þegar að stjórnaskipti verða. Í þeim efnum skiptir engu máli hið pólitíska litróf bæjarstjórnar eða viðkomandi einstaklinga, það á enginn STH og félagið lýtur í engu öðru en fremstu hagsmunum sinna félagsmanna hverju sinni.

Það skiptir þann sem þetta ritar engu hvort sjálfstæðismönnum sem stýra Hamri sé illa við formann STH , Starfsmannafélag Hafnarfjarðar eða bara verkalýðshreyfinguna í heild. Verkalýðhreyfingin hefur staðið vörð um mörg þau gildi og réttindi sem virðast þvælast fyrir pólitískum markmiðum íhaldsins um þessar mundir sem skýrir m.a. nafnlaus greinarskrif af þeim toga sem gaf að líta í Hamri .

"Stétt með stétt" - veit það ekki - er ekki hinn blákaldi pólitíski veruleiki orðin "stétt fyrir stétt" ?

þriðjudagur, 14. júní 2005

Lóðaúthlutunarnefnd sveitarfélaga

Myndu bæjarfulltrúar í Hafnarfirði ( eða annars staðar) fela einhverri „Lóðaúthlutunarnefnd sveitarfélaga” fullnaðarumboð til lóðaúthlutanna í sveitarfélögum um land allt?
Hin merka nefnd myndi úthluta lóðum hægri vinstri og að því loknu senda sveitarfélögunum afrit af gjörðum sínum. Hinir kjörnu fulltrúar eða sveitarstjórnir þyrftu ekki einu sinni að samþykkja gjörninginn eða blessa með formlegri samþykkt og hafa í raun ekkert um hann að segja frekar en Pétur og Páll.

Nei 100% öruggt að hinir kjörnu fulltrúar mundu aldrei samþykkja slíkt fyrirkomulag! – Nema ef vera vildi varðandi launamál. Þar hafa menn afsalað sér öllum áhrifum og umboði til launanefndar sveitarfélaga sem hefur ótakmarkað umboð og þarf ekki að gera neitt annað en að senda afrit af samningum til sveitarfélaganna í landinu. Sjálfstæð launapólitík einstakra sveitarfélaga sem liður í starfsmannastefnu er ekki á valdsviði hinna kjörnu fulltrúa?

Finnst það skrítið, enda ávallt talið að pólitík fælist bæði í að taka á „sætu” og „súru” málunum – Veit það ekki finnst einhvern vegin launanefnd sveitarfélag vera sérstakur umboðsmaður bæjarstjórna í súru málunum. Nútíma stjórnsýsla , mannauðsstefna felst hún í slíku afsali?

Nei segi ég , bæjarfélög og samsetning þeirra er ólík, sama á við um starfsmenn og samtök þeirra – að steypa öllum í eitt mót er eins að ætla sér koma öllum í eina skóstærð óháð hinni raunverulegu skóstærð viðkomandi – til þessara hluta þarf og verður að taka tillit. Ef launanefnd sveitarfélaga getur það ekki, eða vill ekki, þá þurfa viðkomandi bæjaryfirvöld að taka af skarið - Málið er ekkert flóknara en það.

föstudagur, 10. júní 2005

Af pæjum

Er í Vestmannaeyjum á Pæjumótinu í fótbolta. Var síðast hér í sama tilgangi fyrir tveimur árum og stóð í ströngu. Ekki varðandi boltann. Nei málið var að tillögur um skiplagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ voru birtar í Fjarðarpóstinum, sem greinilega hafði skúbbað. Félaginu var ekki kunnugt um hvaða breytingarnar voru í bígerð , hafði ekki verið með í ráðum né haft vitneskju um hve langt málið var komið enda fór svo á formaðurinn var í símanum alla helgina og mikil vinna fór í hönd næstu vikur.

Nú tveimur árum seinna er ég en á sömu slóðum í sama tilgangi en til þess að fyrirbyggja vesen í fjarveru minni þá komum við málum þannig fyrir að forseti bæjarstjórnar var gerður að yfirfararstjóra okkar FH-inga á mótinu. Skynsöm ráðagerð enda forsetinn frábær fararstjóri – skipulag og framkvæmd til sóma, allt afslappað og fín stemming.
Gengið á vellinum er svona upp og niður enda ekki alltaf á vísan að róa á þeim vettvangi

fimmtudagur, 2. júní 2005

Á launanefnd sveitarfélaga að skipa í sveitir?

Starfsmannafélag Hafnafjarðar er merkt félag. Það var eitt af fyrstu bæjarstarfsmannafélögum landsins, var stofnaðili að BSRB og eitt af þeim félögum sem hafði hvað mest frumkvæði þar um. Margir forystumenn félagsins hafa verði virkir í forystusveit BSRB og launþegahreyfingarinnar. Uppbygging félagsins hefur ávalt byggt á mikilli breidd og í gegnum árin þá hafa félagsmenn verið nánast allir þeir starfsmenn er vinna hjá Hafnarfjarðarbæ í það og það sinnið, nema almenn verkamannstöf sem voru innan Hlífar og eða Framtíðarinnar og tilheyrðu hinum s.k. almenna vinnumarkaði.

Þetta fyrirkomulag hefur alla tíð haldist enda eitt af grundvallarmarkmiðum með stofnun félagsins. Við sem höfum stýrt félaginu höfum haldið þessu í heiðri og ávallt haft að leiðarljósi hagsmuni allra okkar félaga óháð störfum eða menntun.

Þetta höfum við valið sjálf og svona viljum við hafa þetta og eftir þessu vinnum við. Hvað launnefnd sveitarfélaga finnst um þetta gef ég ekkert fyrir enda er það ekki í verkhring þeirra kumpána að skipa fólki í sveitir, það er okkar hlutverk. Hlutverk launanefndar er að koma á samningum og skylda þeirra er gagnvart félögunum eins og þau eru uppbyggð en ekki eins og þeir vilja að þau séu uppbyggð!

Í þessari afstöðu launanefndarinnar kristallast meðal annars sú alvarlega kjaradeila sem nú er uppi, sá samningur sem lá á borðinu hentar einungis hluta okkar félagsmanna og er því óásættanlegur. Með einfaldri bókun sem í raun kostar Hafnarfjarðarbæ ekki 10 eyring, annað en ákveðnar fyrirkomulagsbreytingar, hefði sennilega verið hægt að bjarga málum en því var alfarið hafnað? Málið ljóst, launanefnd sveitarfélaga, sérlegur umboðsaðili Hafnarfjarðarbæjar, vill ekki semja við nema hluta félagsmanna í STH og það þarf engin að segja mér það að fulltrúar launanefndar hafi ekki gert sér algera grein fyrir því að tilboðið væri þess eðlis.

Annar angi deilunnar er starfsmatið og samfelld harmasaga þess, bæði innleiðing kerfisins og ekki síst tenging matsins sem er úr öllu samhengi við raunveruleikann.
Hér er ekki verið að sakast við það afburðarfólk sem unnið hefur við matið, oft á tíðum algerlega undirmönnuð vinna og því unnið undir mikilli pressu við erfiðar aðstæður. Gagnrýnin snýst fyrst og fremst um hvernig farið er með kerfið af hálfu viðsemjenda okkar.

Það getur vel verið að ég taki starfsmatið sérstaklega til umfjöllunar á dagskinnunni á næstu dögum- sennilega ekki vanþörf á opinberri umræðum um kerfið?