fimmtudagur, 2. júní 2005

Á launanefnd sveitarfélaga að skipa í sveitir?

Starfsmannafélag Hafnafjarðar er merkt félag. Það var eitt af fyrstu bæjarstarfsmannafélögum landsins, var stofnaðili að BSRB og eitt af þeim félögum sem hafði hvað mest frumkvæði þar um. Margir forystumenn félagsins hafa verði virkir í forystusveit BSRB og launþegahreyfingarinnar. Uppbygging félagsins hefur ávalt byggt á mikilli breidd og í gegnum árin þá hafa félagsmenn verið nánast allir þeir starfsmenn er vinna hjá Hafnarfjarðarbæ í það og það sinnið, nema almenn verkamannstöf sem voru innan Hlífar og eða Framtíðarinnar og tilheyrðu hinum s.k. almenna vinnumarkaði.

Þetta fyrirkomulag hefur alla tíð haldist enda eitt af grundvallarmarkmiðum með stofnun félagsins. Við sem höfum stýrt félaginu höfum haldið þessu í heiðri og ávallt haft að leiðarljósi hagsmuni allra okkar félaga óháð störfum eða menntun.

Þetta höfum við valið sjálf og svona viljum við hafa þetta og eftir þessu vinnum við. Hvað launnefnd sveitarfélaga finnst um þetta gef ég ekkert fyrir enda er það ekki í verkhring þeirra kumpána að skipa fólki í sveitir, það er okkar hlutverk. Hlutverk launanefndar er að koma á samningum og skylda þeirra er gagnvart félögunum eins og þau eru uppbyggð en ekki eins og þeir vilja að þau séu uppbyggð!

Í þessari afstöðu launanefndarinnar kristallast meðal annars sú alvarlega kjaradeila sem nú er uppi, sá samningur sem lá á borðinu hentar einungis hluta okkar félagsmanna og er því óásættanlegur. Með einfaldri bókun sem í raun kostar Hafnarfjarðarbæ ekki 10 eyring, annað en ákveðnar fyrirkomulagsbreytingar, hefði sennilega verið hægt að bjarga málum en því var alfarið hafnað? Málið ljóst, launanefnd sveitarfélaga, sérlegur umboðsaðili Hafnarfjarðarbæjar, vill ekki semja við nema hluta félagsmanna í STH og það þarf engin að segja mér það að fulltrúar launanefndar hafi ekki gert sér algera grein fyrir því að tilboðið væri þess eðlis.

Annar angi deilunnar er starfsmatið og samfelld harmasaga þess, bæði innleiðing kerfisins og ekki síst tenging matsins sem er úr öllu samhengi við raunveruleikann.
Hér er ekki verið að sakast við það afburðarfólk sem unnið hefur við matið, oft á tíðum algerlega undirmönnuð vinna og því unnið undir mikilli pressu við erfiðar aðstæður. Gagnrýnin snýst fyrst og fremst um hvernig farið er með kerfið af hálfu viðsemjenda okkar.

Það getur vel verið að ég taki starfsmatið sérstaklega til umfjöllunar á dagskinnunni á næstu dögum- sennilega ekki vanþörf á opinberri umræðum um kerfið?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli