fimmtudagur, 23. júní 2005

Af félagsfundi STH

Félagsfundur STH á þriðjudaginn var afar líflegur. Um 130 félagsmenn voru saman komnir.

Í fyrstu tveimur röðunum vinstra megin í salnum sátu starfsmenn frá tiltekinni uppeldisstofnun og höfðu sig mikið i frammi sem er hið besta mál, hefði sennilega skipt litlu máli hvaða samningur hefði verið kynntur, viðkomandi myndu hafna öllu, ekki vegna þess að samningurinn sé ekki nógu góður, heldur vegna þess að viðkomandi starfsmenn eru lagþreyttir á aðstæðum sínum, þreyttir á því að láta fara illa með sig, gegna störfum sem bera ekki rétt starfsheiti og eru lægra launuð en ella og standa í eilífu veseni með vinnufyrirkomulag og sitthvað fleirra í þessum dúr.

Fólk sem hefur búið við slíkt ástand um lengri tíma hættir auðvita að treysta því að nokkur skapaður hlutur gangi upp. Fólk treystir ekki formlegum samningi eða bókunum ,ekki vegna þess að orðanna hljóðan sé óljós, heldur vegna þess að vantraustið er orðið svo djúpstætt að það treystir einfaldlega ekki á að undirritað samkomulag verði framkvæmt.

Það er nokkuð athyglisvert út frá sjónarhól starfsmannafélagsins að meirihluti allra erinda ( þ.e.a.s. annarra en þeirra sem varða almenna þjónustu ) eru frá tiltölulega fáum stofnunum? Erindi safnast saman og lítið verður um úrlausnir og þær koma seint,ef þær þá koma.

Starfsmannastefna og framkvæmd hennar er ekki einkamál viðkomandi forstöðumanna og ef hún fer verulega á skjön við ríkjandi og yfirlýst markmið bæjaryfirvalda hverju sinni þá verða bæjaryfirvöld einfaldlega að grípa inn í og gera þær ráðstafannir sem til þarf, til þess að fyrirbyggja slíkt.
Í þessu liggur vandinn og í þessu liggur sennilega hluti skýringarinnar á því hve margir félagsmenn sögðu nei í atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning í fyrradag.

Samningur snýst um traust og gagnkvæman skilning, án þess er samningur bara orð á blaði og hefur enga þýðingu. Til að fyrirbyggja að slíkt hendi þá þurfa samningsaðilar hvor í sínum ranni að tryggja vinnubrögð sem eru til þess fallinn að svo verði – Gríðarleg óánægja eins og lýst er hér að ofan verður að leysa í sátt við viðkomandi starfshópa, áframhaldandi óánægja grefur hægt og sígandi undan þeim trúverðugleika sem nauðsynlegur er. Slíkt má ekki henda og því er þetta okkur öllum þörf ábending um verkefni sem þarf að leysa.

Afstaða til kjarasamnings getur því allt eins mótast af almennu viðhorfi gagnvart vinnuveitandanum fremur en innihaldi samningsins sem slíks – sennilegt að svo hafi verið á í tilfelli margra félagsmanna STH á fundinum fjöruga í Álfafelli þriðjudaginn 21. júní 2005

Engin ummæli:

Skrifa ummæli