föstudagur, 27. júní 2003

Fundur með bæjarstjóra

Fundur með bæjarstjóra
Átti fund með bæjarstjóra í dag þar sem mál voru rædd vítt og breytt. Áréttaði meðal annars áhyggjur félagsins af málum. Gagnlegur fundur, vonast til að línur skýrist óðum og því fyrr því betra.

Ímynd
Hef verið að velta fyrir mér ímynd bæjarins í miðjum þessum hamagangi. Minnist þessi ekki að hafa lent í fjölmiðlum á umliðnum árum nema í hasarstellingum.

Eitt sinn datt stjórnmálamönnum í huga að lækka laun fjölda fólks einhliða með skerðingu á yfirvinnugreiðslum. Fyrir rúmum fjórum árum voru gerðar skipulagsbreytingar og að auki var tæpum tug starfmanna sagt upp og starfslokasamningar gerðir í löngum bunum. Ekki eru ennþá öll kurl komin til grafar í því brölti og háar skaðabótakröfur á hendur Hafnarfjarðbæ í meðferð dómskerfisins vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar félagsmálastjóra. Núna eru skipulagsbreytingar og einhverjar uppsagnir enn á ný á döfinni.

Velti fyrir mér hvernig á því standi að Hafnarfjörður sé sífellt í málum af þessum tagi meðan að ekki heyrist hósti né stuna frá öðrum bæjarfélögum í þessa veru? Veit það eitt og hef lært á langri vegferð að brölt af þessu tagi hefur ekki góð áhrif hvað ímynd varðar.

Þó svo að ég viti að starfsmenn bæjarins hafa alflestir mikla ánægju af störfum sínum
( samkvæmt könnun STH ) þá er spurning hvernig utanaðkomandi fólk lítur á Hafnarfjarðarbæ sem vinnustað. Er Hafnarfjarðarbær álitlegur kostur? Veit að svo er, en er ekki viss um að það sé hið almenna viðhorf úti í þjóðfélaginu.

Gott starfsfólk er hin sanna auðlegð og að því býr Hafnarfjarðarbær. Þennan auð þarf að fara vel með og umgangast með þeim hætti að hann renni ekki úr höndum manns á stundarkorni vegna einhverra lausataka eða bráðræðis.

miðvikudagur, 25. júní 2003

Fréttatilkynning STH

Fréttatilkynning
Stjórn Starfsmannafélags Hafnafjarfjarðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum þ. 25. júní 2003.

Um nokkurt skeið hafa verið í bígerð skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ. Ekki virðist að svo komnu máli einfalt að átta sig á upphafi eða endapunkti þeirra mála. Samþykkt bæjarstjórnar frá því í gær virðist einungis vera einn áfangi af fleirum? Nú hefur verið ákveðið að fela sviðum og ráðum bæjarins nánari útfærslu á skipulagsbreytingum. Ljóst er því að vinnuferlið lengist sem verður að teljast afar óheppilegt. Aðstæður af þessum toga hafa í för með sér mikil óþægindi og óöryggi meðal starfsmanna bæjarfélagsins.
Stjórn félagsins skorar því á bæjaryfirvöld að skýra línur hið fyrsta svo koma megi í veg fyrir alkyns óþægindi meðal starfsmanna og ekki síst í veg fyrir flökkusögur af ýmsum toga.
Starfsmannafélagið krefst þess því að fá upp á borðið þær breytingar og tilfærslur sem fyrirhugaðar eru þannig að hægt sé að koma þessum málum í viðundandi horf hið fyrsta. Það getur ekki talist til góðra stjórnunarhátta að halda fjölda starfsmanna í óvissu vikum saman.

Félagið harmar jafnframt þær uppsagnir sem þegar hafa átt sér stað og bendir á að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar eru síst fleiri en hjá sambærilegum sveitarfélögum.

Langur fundur í bæjarstjórn

Langur fundur í bæjarstjórn
Það voru heitar umræður og langar á bæjarstjórnarfundi í kvöld. Lét mig hafa það að sitja sem áheyrandi frá kl 17:05 til 00:25.
Heldur þótti mér fyrrverandi bæjarstjóri senda STH tóninn í upphafi fundar er hann lýsti eftir hvar félagið væri núna og hefur sennilega haldið að undirritaður og fleiri sætu með hendur í skauti þessa dagana . Áttaði mig fljótlega á því að viðkomandi er sennilega ekki einn af þeim sem les heimasíðu STH eða Dagskinnu formanns reglulega. Það hefði hins vegar verið æskilegt því viðbrögð starfsmannafélagsins eru í engu öðru vísi nú en þegar að fyrrverandi meirihluti stóð í sömu sporum fyrir rúmum fjórum árum. Ennþá er reyndar ekki séð fyrir endann á málum sem þar var stofnað til eins og t.d. brottrekstri Mörtu Bergmann fv. félagsmálastjóra.

STH bregst við tilteknum aðstæðum með tilteknum viðbrögðum og á sínum forsendum og alltaf í þágu sinna umbjóðenda. STH lýtur engu öðru og félagið skuldar engum eitt né neitt. Í þessu máli hefur félagið haft upp nákvæmlega sömu vinnubrögð og ávallt í sambærilegum tilfellum. Flokkspólitískir hagsmunir eru félaginu algerlega óviðkomandi og það rekst ekki eftir þeim, hvorki fyrr né síðar.

En sem sagt um þessi mál var karpað lengi kvölds og bókað vel og ítarlega á báða bóga. Ég hvet alla félagsmenn til þess að kynna sér innhald þeirra en fundargerð bæjarstjórnar er birt á vefsíðu bæjarins.

Skipulagsbreytingarnar voru að lokum samþykktar auk þess sem samþykkt var að segja upp Jafnréttisfulltrúa og Skipulagsstjóra. Jafnréttisfulltrúi er félagsmaður STH og eins og fram hefur komið þá er Gestur Jónsson lögfræðingur komin með þau mál og er í þeim efnum verið að skoða réttindi viðkomandi starfsmanns. Tilfærslum var vísað til viðkomandi sviða og gert ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi 1. sept. n.k

Ef / Þegar önnur mál koma upp þá mun félagið taka á þeim er þau berast. Það er fullvíst að einhver álitamál verða uppi, þó svo að fyrir liggi að launabreytingar eigi sér ekki stað við tilfærslu. Það getur verið að flokka megi nýja vettvanginn sem lægra sett starf og þar af leiðandi gæti skapst biðlaunaréttur ef viðkomandi velur að hafna hinu nýja starfi á þeirri forsendu að það sé ekki sambærilegt. Félagið mun því bregðast við hverju máli fyrir sig

Hvað varðar skoðanir á þessu breytingum þá eru hér áréttaðir fyrri annálar Dagskinnunnar og eins og lesendur sjá þá ríkir ekki sérleg kátína með þessar breytingar.

þriðjudagur, 24. júní 2003

Fundað um skipulagsbreytingar

Fundað um skipulagsbreytingar
Mætti á fund hjá Samfylkingunni í gærkvöldi. Mæti reyndar bæði beðin og óumbeðin á alla þá fundi sem ég tel þjóna hagsmunum STH. Hef hins vegar ekkert haft mig í frammi á hinum pólitíska sviði um langa hríð. Á þennan fund þótti mér við hæfi að mæta þar sem hann fjallaði m.a. um fyrirhugaðar stjórnsýslubreytingar og þá í þeim tilgangi að koma viðhorfum Starfsmannafélagsins á framfæri sem og ég gerði. Umræður á fundinum voru málefnalegar og hreinskiptar. Því fer hins vegar víðs fjarri að túlka beri nærveru mína á fundinum sem "heilbrigðisvottorð" á tilvonandi breytingar. Starfsmannafélagið mun sem fyrr gæta ýtrustu hagsmuna sinna félagsmanna í þessu máli sem og öðrum. Afstaða okkar er ljós og viðbrögð okkar verða í samræmi við það.

sunnudagur, 22. júní 2003

Fínt golfmót

Fínt golfmót
Fínt golfmót bæjarstarfsmanna á föstudaginn. Þjónustumiðstöðin átti veg og vanda að framkvæmdinni í ár. Varð svo frægur að sjá loksins Karlsen stýrimann þessa frægu og umtöluð dönsku mynd en hún var sýnd í Bæjarbíói á laugardaginn í tengslum við menningarhátíðina Bjarta daga. Skemmtileg mynd. Annars gaman hve þessi menningarhátíð hefur tekist vel og sett svip á bæinn á umliðnum vikum . Flott framtak.

Skipulagsbreytingar
Fæ mikið af samtölum þessa daganna frá bæjarstarfsmönnum sem vilja kynna sér réttindi sín. Það er ekkert launungarmál að margir eru uggandi um sinn hag. Kynning í aðdraganda langrar helgar og keyrslan á málum í gegnum bæjarapparatið þykir mörgum ekki góður fyrirboði. Bæði kom inn í þetta ferli Hvítasunnan og 17 . júní. Með þetta er margir mjög óánægðir.
Eitt stykki bæjarfélag er ekki eins og lítið kompaní úti í bæ því er auðvitað nauðsynlegt að ganga hægt inn um gleðinnar dyr í þessum efnum. Bæjarfélag er ekki fyrirtæki heldur samfélagsþjónusta. Kerfisbreytingar á þeim vettvangi lúta auðvitað allt öðrum lögmálum en hjá harðsvíruðum bíssnesfyrirtækjum.

Mál Jafnréttisfulltrúa fer beint til lögfræðings eftir helgi. Gert er ráð fyrir að það starf verði lagt niður.

fimmtudagur, 19. júní 2003

20% kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ

20% kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ
Kynbundin launamunur hjá Hafnarfjarðarbæ er ca 20 %. Könnun STH 1996 sýndi þetta glögglega og þessar niðurstöður hafa fengið frekari stoð í könnun er jafnréttisnefnd Hafnarfjarðar gerði fyrir nokkrum misserum. Næg verkefni á þessum vettvangi en fálæti varðandi framkvæmd. Er ekki komin tími til að koma þessu í lag?

miðvikudagur, 18. júní 2003

Fundur með bæjarstjóra

Fundur með bæjarstjóra
Fór á þessa líka fínu tónleika í Hafnarborg í hádeginu. Frábærir listamenn og vönduð efnisskrá. Átti fund með bæjarstjóra um eittleytið þar sem rætt var um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar. Ákveðið var að ræða mál frekar á næstu dögum.

Línur eru hins vegar að skýrast í málinu og við getum þá einbeitt okkur að því að takast á við þau mál sem uppi eru og hætt að elta flökkusögur. Því miður var kynning á þessum breytingum og umfjöllun í kjölfarið þess eðlis að ætla mætti að breytingarnar væru mun umsvifameiri en efni sanda til. Engu að síður er málið alvarlegt og ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði átt að byrja á þeim enda sem nú stendur út af , starfsmönnum. Ef svo hefði verið er ég viss um að málið hefði þroskast á annan hátt en varð.

mánudagur, 16. júní 2003

Er starfsmannahald að sliga bæjarfélagið?

Gestur Jónsson
Yndisleg þessi gsm-tækni. sem gerir mann kleyft að vera í sambandi nánst hvar sem er á byggðu bóli. Ekki hefur veitt af því síðustu daganna hér í Vestmannaeyjum og margt verið skrafað og ráðgert. Ljóst er að einhverjir starfsmenn munu ekki lúta tilfærslum yfir í önnur störf. Sérstaklega á þetta við um rekstrarfólkið sem með rétt telur margt hvert að um algerlega nýtt starf sé að ræða og með mun minni ábyrgð en verið hefur. Gestur Jónsson lögfræðingur STH mun fara yfir öll þau mál sem þurfa þykir.

Er starfsmannahald og rekstur að sliga bæjarfélagið ?
Það liggur fyrir að staða bæjarfélagsins er arfa slöpp. Hins vegar er það nokkuð sérstætt að starfsmannhald og rekstur séu að sliga bæjarfélagið? Yfirbygging Hafnarfjarðarbæjar er síst meiri en sambærilegra sveitarfélaga og ekki er hin grjótharða íslenska láglaunapólitík að gera yfirvöldum erfitt fyrir nema síður sé. Undarlegt að menn telji þessi lúsarlaun sé eitthvert afgerandi atriði. Skýringanna er auðvitað að leita hjá stjórnmálamönnum. Hér hafa verið tekar margar rangar og kostnaðarsamar ákvarðanir á umliðnum árum. Vandi Hafnarfjarðar liggur því auðvitað í misheppnaðir fjármálapólitík fremur en rangri stjórnsýslu. Blessaðir stjórnmálamennirnir eiga því allan "heiðurinn" af ástandinu. Bakarinn , smiðurinn, hengingin og stjórnsýslubreytingarnar eiga kannski einhverja samsömun í þessu máli?

fimmtudagur, 12. júní 2003

Meira af skipulagsbreytingum

Meira af skipulagsbreytingum
Það var var heitt í kolunum á skólaskrifstofunni í gær. Kynningarfundur um skipulagsmál var á dagskránni og fjarri því að menn væru á eitt sáttir um ágæti tillagnanna. Í máli margra mátti heyra mikil vonbrigði með tillögurnar. Framsögumenn Sveinn Bragarson og Gunnar Beinteinsson máttu því hafa sig alla í frammi en vikust undan fimlega að svara hvað varðar nánari útfærslur. Margt í þessum tillögum þykir fólki þokukennt í meira lagi.

Er staddur á pæjumótinu í Eyjum með dóttur minni . Var vakin snemma dags með símtali (og nokkur önnur fylgdu í kjölfarið) og spurður hvort ég hefði lesið Fjarðarpóstinn.. Fjarðarpósturinn er vissulega fyrstur með fréttirnar. Mér til nokkurar furðu kemur þar fram að til standi að ráða nýjan æskulýðs- og tómstundafulltrúa? Maður er auðvitað orðin ýmsu vanur á langri vegferð í verkalýðsmálum . Við sem í þessu stöndum eru meira og minna með okkur sjálf sem prívatpersónur undir. Hitt auðvitað afar sérstakt að maður lesi örlög sín á síðum blaðanna. Ég kannast ekki við annað en að hafa sinnt starfi mínu sem æskulýðs- og tómstundafulltrúi með ágætum? Velti fyrir mér hvort bæjaryfirvöld eigi í nánara samstarf í þessu skiplagsbrölti sínu við einstaka fjölmiðla fremur en einstaka starfsmenn bæjarins eða stéttarfélag þeirra? Fjarðapósturinn það ágæta blað hefur tvær síðustu vikurnar “skúbbað” í fréttaflutningi sínum af skipulagsbreytingum . Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar bárust hins vegar gögn málsins fyrst í dag 12. júní og eftir að hafa sérstaklega óskað eftir þeim?

Þessir kynningarfundir gefa ekki tilefni til annars en að í mörgu verði að snúast á næstunni. Átt því samtal við Gest Jónsson lögmann STH í dag þar sem mál voru rætt í lengd og breidd. Sem fyrr mun STH standa vörð um réttindi sinna félagsmanna í hvívetna.

miðvikudagur, 11. júní 2003

Skipulagstillögur

Skipulagstillögur
Fór á kynningarfundi um nýtt skipulag í morgun kl 8:30 með starfsmönnum bæjarverkfræðingsembættisins. Ekki verður sagt að ríkt hafi rífandi stemming meðal starfsmanna og þó að fundurinn hafi farið vel fram þá var þungur undirtónn í mannskapnum. Það fannst mér ekki gott því reynslan segir mér að oft hefjast hinar raunverulegu umræður í matartímanum eða kaffitímanum eftir slíka fundi. Auðvitað er best að sem mest komi fram á hinum formlega fundi því að þá eru skilaboð til bæjarstjórnar skýr og hrein. Hitt er annað mál að fólk er að sjá þessar tillögur í fyrsta sinni og því kannski ekki reiðubúið að tjá sig sérstaklega. Einnig er mjög þokukennt á þessu stigi hvar í nýju skipurit fólk lendir. Dagsetningar eru óljósar. Umræðan á því eftir að aukast að næstu dögum.

sunnudagur, 8. júní 2003

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ
Enn eina ferðina er verið að gera skipulagsbreytingar á bæjarkerfinu. Ef mig misminnir ekki þá hafa þrír síðustu meirihlutar gert einhverjar breytingar. Árangur virðist oft á tíðum vera takmarkaður eða misheppnaður, því vart væri endalaust verið að breyta nema ef væri að gamla kerfið virkaði ekki.. Ekki ætla ég að dæma um þessar nýjust hugmyndir enda ekki búin að fá heildarmyndina . Allar svona tilfæringar hafa í för með sér mikið óöryggi meðal starfsmanna.
Ég hef litla trú á ráðgjafafyrirtækjum í þessum bransa. Hver ráðleggur ráðgjöfunum eða er þetta allt upp úr einhverjum amerískum stjórnunarbókmenntun um strúktúra í bandarískum stórfyrirtækjum. Er hinn almenni bæjarstjórnarmaður vel inni í stjórnsýslunni? Veit það ekki? Hef hinsvegar eins og áður sagði efasemdir um þessi mál. Reynslu þeirra sem vinna í kerfinu ætti auðvitað að nýta betur í breytingum af þessu tagi .
STH er auðvitað með viðbúnað og mun bregðast við því sem þurfa þykir með þeim hætti er þjónar viðkomandi félagsmanni best.


2.303% álagning / vextir
Ótrúlegt en satt. Ég hef átt í lítils háttar viðskiptum við S 24 Netbankann. Eftir ágæt viðskipti um nokkra hríð þá kastaðist heldur betur í kekki. Reikningi mínum fylgir kort og mér berst rukkun fyrir endurnýjun þess, sem ég greiði ca tveimur vikum eftir sendingu rukkunarinnar. Skömmu seinna berst mér í póst bréf þar sem ég er krafin um 33 króna greiðslu vega dráttarvaxta, 515 króna "ítrekunargjald", og 245 króna útskriftargjald, eða samtals 793 krónur. Álagning á dráttarvexti sem sjálfur "NET" bankinn S 24 sendir í "SNAIL- mail" (venjulegum pósti) orðin 2.303 %. Ég get ekki staðið í viðskiptum við stofnun af þessu tagi og færði snarlega viðskiptin annað. Einhverjar 8 krónur liggja eftir á reikningum.
Forsíðugrein Hlífarmanna í nýjasta Hjálm fjallar meðal annars um sjálftöku af þessu tagi

Fín forystugrein í Hjálm, blaði Hlífar . 1. tbl 92. árg.
Íslenskir okurvextir heitir hún og þar kemur m.a. fram að vextir á Íslandi er 300 % hærri en víðast hvar í Evrópu. Þetta er fín grein hjá Hlífar fólki og orð í tíma töluð.
Frelsi til okurs, fákeppni fjármálamarkaðarins, miljarðahagnaður bankakerfisins og dapurlegt hlutskipti og varnarleysi launafólks gangvart þessum stofnunum er umfjöllunarefnið.

þriðjudagur, 3. júní 2003

Verkalýðsblogg

Jæja þá er ég búin að ákveða að breyta blogginu yfir í verkalýðsblogg. Hugmyndin er að nýta dagbókarformið undir minni fréttir og hugleiðingar. Heimasíða STH verður samt sem áður á sínum stað og mun þjóna sínu ágæta hlutverki áfram. Á næstu dögum mun bloggið því taka einhverjum breytingum. Á blogginu verða fyrst og fremst persónulegar skoðanir mínar sem formanns STH og er bloggið því ekki á ábyrgð stjórnarinnar sem slíkt.