miðvikudagur, 25. júní 2003

Langur fundur í bæjarstjórn

Langur fundur í bæjarstjórn
Það voru heitar umræður og langar á bæjarstjórnarfundi í kvöld. Lét mig hafa það að sitja sem áheyrandi frá kl 17:05 til 00:25.
Heldur þótti mér fyrrverandi bæjarstjóri senda STH tóninn í upphafi fundar er hann lýsti eftir hvar félagið væri núna og hefur sennilega haldið að undirritaður og fleiri sætu með hendur í skauti þessa dagana . Áttaði mig fljótlega á því að viðkomandi er sennilega ekki einn af þeim sem les heimasíðu STH eða Dagskinnu formanns reglulega. Það hefði hins vegar verið æskilegt því viðbrögð starfsmannafélagsins eru í engu öðru vísi nú en þegar að fyrrverandi meirihluti stóð í sömu sporum fyrir rúmum fjórum árum. Ennþá er reyndar ekki séð fyrir endann á málum sem þar var stofnað til eins og t.d. brottrekstri Mörtu Bergmann fv. félagsmálastjóra.

STH bregst við tilteknum aðstæðum með tilteknum viðbrögðum og á sínum forsendum og alltaf í þágu sinna umbjóðenda. STH lýtur engu öðru og félagið skuldar engum eitt né neitt. Í þessu máli hefur félagið haft upp nákvæmlega sömu vinnubrögð og ávallt í sambærilegum tilfellum. Flokkspólitískir hagsmunir eru félaginu algerlega óviðkomandi og það rekst ekki eftir þeim, hvorki fyrr né síðar.

En sem sagt um þessi mál var karpað lengi kvölds og bókað vel og ítarlega á báða bóga. Ég hvet alla félagsmenn til þess að kynna sér innhald þeirra en fundargerð bæjarstjórnar er birt á vefsíðu bæjarins.

Skipulagsbreytingarnar voru að lokum samþykktar auk þess sem samþykkt var að segja upp Jafnréttisfulltrúa og Skipulagsstjóra. Jafnréttisfulltrúi er félagsmaður STH og eins og fram hefur komið þá er Gestur Jónsson lögfræðingur komin með þau mál og er í þeim efnum verið að skoða réttindi viðkomandi starfsmanns. Tilfærslum var vísað til viðkomandi sviða og gert ráð fyrir að nýtt skipulag taki gildi 1. sept. n.k

Ef / Þegar önnur mál koma upp þá mun félagið taka á þeim er þau berast. Það er fullvíst að einhver álitamál verða uppi, þó svo að fyrir liggi að launabreytingar eigi sér ekki stað við tilfærslu. Það getur verið að flokka megi nýja vettvanginn sem lægra sett starf og þar af leiðandi gæti skapst biðlaunaréttur ef viðkomandi velur að hafna hinu nýja starfi á þeirri forsendu að það sé ekki sambærilegt. Félagið mun því bregðast við hverju máli fyrir sig

Hvað varðar skoðanir á þessu breytingum þá eru hér áréttaðir fyrri annálar Dagskinnunnar og eins og lesendur sjá þá ríkir ekki sérleg kátína með þessar breytingar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli