miðvikudagur, 27. október 2004

Starfsmatið

Sátum lengi dags og langt fram á kvöldin í pælingum um tengingu á blessuðu starfsmatinu. Gekk fínt en þó ekki nægilega vel til þess að klára málið alveg.
Verður vonandi leyst á næstu dögum enda miðað við að greitt verið eftir nýju mati um miðjan nóvember.

laugardagur, 23. október 2004

Ungdom, demokrati och deltagelse

Gengu í salinn ungu mennirnir tveir saman. Dressaðir í jakkaföt og bindi. skima salinn, sjá sem er að klæðnaðurinn er full formlegur, taka niður bindin og sá minni fer í pontu og setur í gang Power point showið

Kvaðst koma frá The Independence Party, sem hann kvað stærstan allra flokka á Íslandi og flokkurinn hefði ráðið öllu í fjölmörg ár. Flokkurinn væri flokkur allar stétta en stundum væri sagt að það væri of margir lögfræðingar í flokknum eins og t.d. hann sjálfur. Flokkurinn vildi meiri frelsi og einkavæðingu á öllum sviðum samfélagsins.

Sem dæmi um hve félagið hans ungliðahreyfingin væri stór, þá hefði hann formaðurinn fleiri atkvæði á bak við sig í formannskosningu en núverandi forsætisráðherra hefði fengið í síðustu þingkosningum. Mikið tillit væri tekið til þeirra sjónarmiða innan flokksins enda fjórir ungliðar á þingi, þeir Einbjörn, Tvibjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn. Gerið mikið úr sínu fólki og sparaði hvergi stóru orðin í þeim efnum

Þegar hér var komið sögu varpað ungi maðurinn upp mynd af foringja flokksins, manni á miðjum aldri afar ábúðarmiklum, klæddum jakkafötum, sitjandi í miðjum hópi barna á aldrinum 4- 5 ára..... salurinn hló, enda hinn biblíulega skírskotun afar skýr og manni var auðvitað ljóst að erindið var trúarlegs eðlis fyrst og fremst og eina erindið af fjölmörgum sem var eins og kosningarfundur.

Markmiðið auðvitað ekki slíkt heldur það að ræða hvernig hægt er að virkja ungt fólk til þátttöku, hvernig félög af ýmsum toga geta virkjað ungt fólk til þátttöku hvert á sínu sviði. Hvernig lýðræði og í hvað formi það nýtist ungu fólki, er t.d kjörgengi við 18 ára aldur of hár aldur, er eitthvað annað form hægt að hugsa sér hvað varðar virkt lýðræði.

Jakkafatamaðurinn og lögfræðingurinn komst aldrei upp á þetta plan, en stóð sig hins vegar afar vel í trúboði fyrir þennan ofsatrúarsöfnuð sem hann nefndi The Independence Party

Annars fín ráðstefna daganna 20 - 23 apríl á Selfossi undir yfirskriftinni Ungdom, demokrati och deltagelse. Fjöldi góðra erinda og hugmynda. Þátttakendur voru fjölmargir og komu víða af Norðurlöndunum. Aldurinn 14 - 70 ára en unga fólkið í meiri hluta og allir sem einn virkir þátttakendur.

Fínt framtak og þarft hjá Æskulýðsnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar og vonandi að sem mest af því sem þarna fór fram verði gefið út öðrum til gagns.

miðvikudagur, 20. október 2004

Er ekki komin tími til að tengja

Sungu hinir eldhressu "Skriðjöklar" frá Akureyri hér í eina tíð, vissulega er svarið og er það átt við blessað starfsmatið en þau merku tímamót eiga sér nú stað í þeirri vinnu að tími tenginga við launatöflu er að renna upp. Flókið verk og vandasamt, munum fara í sveitina eftir helgi, fulltrúar Samflotsins og fulltrúar launanefndar og ekki koma til byggða fyrr en búið verður að tengja matið. Tekst vonandi þokkalega, veit það þó af langri vegferð í verkalýðsmálum að ekki verða allir á eitt sáttir í þessum efnum frekar en fyrri daginn, væntingar auðvitað miklar og ekki bætir að biðtími eftir matinu hefur verið afar langur.

þriðjudagur, 19. október 2004

Að pissa í skóinn

Finnst hugsanleg lagasetning í kennaradeilunni afar slæmt mál. Hvers vegna? Svarið einfalt, kennarar munu auðvitað segja upp störfum nánast allir sem einn, enda engin önnur leið í stöðunni , vinnandi hjá sveitarfélögum sem virða störf þeirra afar lítils sem á laununum má merkja. Uppsagnarfrestur eru þrír mánuðir þannig að allt mun þetta renna saman í eitt, samningar okkar BSRB félaga og annarra s.s. framhaldsskólakennara sem eru lausir í lok mars.

Með lagasetningu er því óréttlætið fryst, stór deila óleyst, skólarninr í enn meira lamasessi en nú er og önnur og gríðarlegri átök í vændum. Lagsetning mun því ekkert leysa neitt nema síður sé og sennilega virka eingöngu um þriggja mánaða skeið þ.e.a.s út lögbundin uppsagnarfrest.

Íslensk láglaunapóltík er böl og löngu komin tími til þess að brjóta hana á bak aftur. Gef ekkert fyrir það að hagkerfið fari til fjandans, þó svo að kaupið hækki um nokkrar krónur. Vaxtaokur, verðsamráð, hátt vöruverð og annar vitleysisgangur í íslensku efnahagslífi hefur hingað til ekki þótt hafa nein áhrif.
Snýst málið kannski bara um það eitt að halda fjármagninu í vasa þeirra sem þegar hafa allt til alls? Mér heyrst mesta gagnrýni á verkfall kennara einmitt koma úr efri lögum samfélagsins og gott ef það er ekki akkúrat úr þeim ranni sem umræðan um hve nauðsynlegt sé að koma á einkaskólum er sprottin.

Þekki af eigin raun hina afar óbilgjörnu launastefnu sveitarfélaganna sem nánast öll sem eitt hafa afsalað sér forræði í jafn mikilvægum málum til launanefndar sveitarfélaganna. Ísland er í fallsæti hvað laun varðar ef tekið er mið af nágrannalöndum okkar þar með talið Grænland og Færeyjar

Launanefnd sveitarfélaganna á auðvitað ekki láta hafa sig út í sendiferð af þessu tagi. Sveitarfélögin hafa enga sérstaka skyldu til að ganga fram fyrir skjöldu praktíserandi grjótharða láglaunastefnu, sveitarfélögin í landinu eiga auðvitað að endurspegla vilja almennings í stað þess að vera persónugerfingur láglaunastefnu og ganga þar með fyrst og fremst erinda vinnuveitendasambandsins og annarra þeirra afla samfélagsins sem öllu vilja halda í lægstu viðmiðum nema e.t.v. eigin ágóða.

miðvikudagur, 13. október 2004

Fiskur undir steini

Missti því miður af þeirri umdeildu og afargóðu heimildarmynd "Fiskur undir steini" sem sýnd var í Bæjarbíói s.l. laugardag á vegum Kvikmyndasafns Íslands.
Sá hins vegar í kvöld nokkrar góðar meðal annars "Bóndann" og "Við byggjum hús" eftir Þorstein Jónsson og "Að byggja Ísland" eftir Þorgeir Þorgeirson, allt saman ljómandi fínar myndir.

Skemmtilegt þema, heimildarmyndin. Fiskur undir steini var ekki í boði Grindavíkurbæjar og varð fyrir vikið hvöss þjóðfélagsádeila. Landvirkjum er með "heimildarmynd" um Kárahnjúka í vinnslu? Verður hún nokkuð annað Landsvirkjun að monta sig.? Heimildarmyndin er frábært listform þ.e.a.s. ef listamaðurinn er trúr viðfangsefninu sem því miður er ekki alltaf.

Hefði auðvitað þurft að sækja bíóið stíft undanfarið, í fræðsluskyni, sérstaklega slæmt að missa af áróðursmyndunum frá seinni heimstyrjöldinni sem sýndar hafa verið síðustu vikur, sennilega margt sem við verkalýðsforingjar getum af þeim myndum lært í "retorikinni" þó svo að viðfangsefni dagsins í verkalýðsmálum séu sem betur fer ekki í samræmi við þau sorglegu átök og hörmungar sem styrjöldin hafði í för með sér. Hins vegar veltir maður ósjálfrátt fyrir sér í þessu sambandi "fréttaflutningi " frá Írak eða miðausturlöndum

Hef áður sagt það og segi það aftur. Fínt safn, kvikmyndasafnið og virðingarvert framtak að halda úti kvikmyndaklassík af ýmsum toga. Hvet fólk til þess að kíkja í Bæjarbíó á þriðjudagskvöldum eða á laugardagseftirmiðdögum

miðvikudagur, 6. október 2004

Íbúaþing á laugardag

Hvet alla sem vettlingi geta valdið til þess að sækja íbúaþingið í Hafnarfirði sem fram fer á laugardaginn. Íbúaþing er fínn vettvangur til þess að móta sitt bæjarfélag og hafa áhrif á þróun þess. Veit það að reynslan af þingum sem þessum er góð og fjölmargar og góðar hugmyndir og tillögur líta dagsins ljós. Á ekki von á öðru en að slíkt hið sama verði upp á teningunum hjá okkur. Verð því miður erlendis og kemst því ekki en hefði svo gjarnan viljað taka þátt. Óska öllum velfarnaðar á þinginu og vona að maður geti verið með næst.

þriðjudagur, 5. október 2004

Áttu góða hugmynd um sparnað?

Segir á innra neti Hafnarfjarðarbæjar, en þar er starfsfólk hvatt til þess að leggja inn sparnaðartillögur í tengslum við fjárhagsáætlun. Það er allt saman gott og gilt ef ekki væri einn stórkostlegur ljóður á ráðagerð þessari sem er sá að allt er þetta nafnlaust. Fær fyrir vikið allt aðra áferð en ef fólk gerði grein fyrir tillögum sínum undir nafni.

Billegt þykir mér og það í meira lagi . Hef sjálfur vanið mig á það að skrifa alltaf undir nafni. Færi að vísu stundum í letur hugrenningar vinar míns L. Norðfjörð sem skrifar af ábyrgðarleysi og reynir að herma eftir vini sínum Flosa Ólafssyni.

Nafnleynd gefur tillögum ekkert gildi eða vigt enda ekkert vitað hvaðan þær koma og í hvað tilgangi þær eru settar fram. Verður auðvitað slúðurkennt og opnar á þann möguleika að menn setji fram tillögur af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Skil satt að segja ekki þessa hugmynd og ekki heldur hvað pæling er á bak við. Er verið að etja deildum og eða fólki saman eða hver er eiginlega tilgangurinn?

Ég get alveg haft þær hugmyndir að skipulagsbreytingar hafi ekki haft sparnað í för með sér nema síður sé og að allt of margir og dýrir embættismenn skipi hið s.k. rekstrarteymi. Fyrirkomulag beiðnakerfis bæjarins sé handónýtt og margt annað. Ef ég geri það þá geri ég það undir nafni en fel mig ekki bak við stól eða bauna úr launsátri.

Skora á bæjaryfirvöld að breyta fyrirkomulagi á síðunni þannig að þær tillögur sem framkoma séu settar fram undir nafni- annað sæmir ekki bæjarfélaginu og er í raun algerlega óviðeigandi.