mánudagur, 27. desember 2004

Gildi auglýsinga

Ágætur vinur minn og samstarfsmaður til margra ára innan verkalýðshreyfingarinnar Ögmundur Jónasson heldur úti líflegri heimasíðu www.ogmundur.is. Bregð mér oft á síðuna og í dag rakst ég á athyglisverða grein á síðunni um gildi auglýsinga. Þar er Ögmundur að fjalla um grein framkvæmdastjóra Sambands íslenskra auglýsingastofa, Ingólf Hjörleifsson sem birtist í Morgunblaðinu þ. 24. des. s.l. og bar yfirskriftina Auglýstu skoðun þína. Athyglisverð umræða og orð í tíma rituð. Greinin í heild HÉR

fimmtudagur, 23. desember 2004

þriðjudagur, 21. desember 2004

Risinn er vaknaður

Virkilega fín bók hjá Orra vini mínum Þórðarsyni. „Risinn er vaknaður" er nafn með rentu og fjallar um velgengni FH-inga í fótboltanum í sumar. Flott bók vel upp sett , fínar myndir og góður texti. Bókin ætti auðvitað að vera til á hverju FH heimili landsins. Gef smíðinni topp einkunn.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Blessað Netið

Fínt framtak hjá unglingum í Hagskóla sem unnu meðfylgjandi veggspjald í samvinnu við Umboðsmann barna. Einelti í netheimum er því miður leiðinleg staðreynd, þekki nokkra krakka sem lent hafa í slíku. Á ekki að líðast frekar en annað einelti. Læt veggspjaldið fylgja. Þeir sem vilja stærri útgáfu geta nálgast hana hér. Um að gera að dreifa þessu veggspjaldi sem víðast.

þriðjudagur, 7. desember 2004

Blessað lýðræðið

Allt í einu fóru ýmsir stjórnmálamenn að tala í tíma og ótíma um hluti eins og t.d. framhaldsskólanna og fullt af málum sem fram að því höfðu ekkert verið sérstaklega á dagskrá hjá viðkomandi stjórnmálamanni eða mönnum.
Margir furðuðu sig á þessum jákvæðu breytingum en skýringin var auðvitað sú að kjörgengi hafði verið fært niður í 18 ár úr 20 árum. Málefni þessa aldurshóps komst á dagskrá stjórnmálanna í mun meira mæli en dæmi voru um fram að þessu.

Nú nokkrum árum síðar þarf að taka nýja ákvörðun að mínu mati sem er sú að breyta kjörgengi í 16 ár. Hef reyndar haft þessa skoðun lengi. Það má byrja á bæjarstjórnarkosningum. Ég er viss um að það lukkast vel og þeir efasemdarmenn, sem ég þekki nokkra, munu sjá að rökrétt framhald málsins er að veita 16 ára fólki fullt kjörgengi.

Málefni unga fólksins munu fá allt annað vægi og annan blæ, mörg hagsmunamál sem ekki hafa fengið pláss í stjórnmálaumræðunni komast á dagskrá einfaldlega í krafti þess að 16 ára ungt fólk hefur atkvæðisrétt.

Lýðræðið er hornsteinn samfélagsins og því fleiri sem eru virkir í því betra. Ungt fólk hefur mun betri forsendur í dag til að mynda sér skoðanir en jafnaldrar þeirra höfðu fyrir 60 - 70 árum og eru því örugglega flestir búnir að koma sér upp mun mótaðri lífssýn og skoðunum mun fyrr í lífinu en áður var.

Forsenda lýðræðislegara ákvarðana er almenn umræða um málefnið. Hún fer fram víða bæði fjölmiðlum og í netheimum. Einn verulegur ljóður er ennþá á blessuð netinu sem er sá að allt of margir koma ekki fram undir nafni og aðrir sigla undir fölsku flaggi sem er auðvitað stórkostlegur galli. Verður í þeim tilfellum tilgangs- og ábyrgðarlaust tal sem ekki er hægt að taka mark á og hvað þá byggja ákvarðanir á.
Hins vegar mun þetta örugglega breytast á komandi árum og umræðan þroskast í þá veru að baki skrifa / skoðana sé ávallt ábyrgur einstaklingur.

Kjörgengi við 16 ára aldur - óraunhæft- alls ekki - kemst örugglega á dagskrá og vonandi fyrr en seinna.

sunnudagur, 5. desember 2004

Mugison - ekki spurning

Það kom mér ekki á óvart að Mugison fékk fimm tilnefningar til hinna íslensku tónlistarverðlauna. Kæmi mér heldur ekki á óvart að næsta stóra íslenska "meikið " í útlöndum yrði þessi framúrskarandi vestfirski tónlistarmaður. Maðurinn er auðvitað á góðri leið með það nú þegar, held samt að það eigi eftir að verða miklu meira út úr þessu hjá honum á næstu misserum. Fantagóður gítarleikari og lagasmiður, erfitt að staðsetja hann tónlistarlega enda bara einn Mugison til. Frábær árangur.

fimmtudagur, 2. desember 2004

Meiri vitleysan hjá mér í Kastljósinu í kvöld

Auðvitað eru blessaðir jólasveinarnir til. Þekki sjálfur marga jólasveina . Er reyndar sjálfur óttalegur jólasveinn sem sannast best á því að vera blanda þeim að ósekju inn í einhvern umræðuþátt.


Stúf og Kertasníki hitti ég báða tvo ljóslifandi í jólaþorpinu í Hafnarfirði á laugardaginn var. Þeir voru að vísu aðeins á undan áætlun. Voru dulítið stirðir karlagreyin enda búnir að vera lengi á fjöllum. Sungu samt og trölluðu, kváðust hafa í mörgu að snúast næstu vikurnar og þá sérstaklega við að gefa í skóinn, íslensk börn hefðu verið eins og venjulega mjög þæg og góð þetta árið.

mánudagur, 29. nóvember 2004

I left my heart in San Francisco

“Komdu þá endilega með á tónleika hjá okkur í kvöld, við munum spila á sjúkrahúsi hér í útjaðri borgarinnar” sagði Juhanni stjórnarmaður í UFN við mig. Ég var nýkomin til Helsinki og hafði sagt honum að ég hefði ekkert sérstakt á prjónum þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Samkvæmt venju var stjórnarfundur UFN á dagskrá kl 13.00 næsta dag.

Ekki slæmt að lenda á tónleikum hjá lúðrasveit samtaka Finnskra félagsmiðstöðva, hugsa ég með mér. Þetta er áhugamannasveit sem leikur víða og gjarnan á ýmsum stofnum.

Heldur var bandið dapurt, trommarinn átti í mesta basli með taktinn og það vantaði allt “grúv” í bandið. En samt sem áður voru áheyrendur allir sem einn himinlifandi og þegar að sveitin lék lagið “I left my heart in San Francisco”, gamlan “standard” sem vinsæll var á stríðsárunum, þá féllu víða tár. Veit sem var að það var ekki vegna tónlistarflutningsins.

Var staddur á hersjúkrahúsi og í salnum voru 200 -300 manns – allt karlmenn frá aldrinum 65 + og upp úr, mismunandi mikið fatlaðir og áttu það allir sameignlegt að hafa verið sendir á vígvöllinn sem kornungir menn eða réttara sagt sem unglingar og hafa í raun aldrei komið heim eftir stríðið. Mér varð það skyndilega ljóst að tala fallinna segir ekkert þegar styrjaldarátök eru annars vegar. Hér (1997) rúmum 50 árum eftir stríðslok blasa en við hinar hörmulegu afleiðingar seinni heimsstyrjaldarinnar. Mér varð það einnig ljóst hér voru sögur hinna óþekktu hermanna saman komnar og þvílík firring og sóun stríðsátök eru. Hvað höfðu þessir menn eiginlega til saka unnið?

Enginn lýsir þessu tilgangsleysi betur en hinn stórkostlegi finnski rithöfundur Väinö Linna í bók sinni “Óþekkti hermaðurinn” sem fjallar um örlög hermanna í finnska vetrarstríðinu. Bókin ætti að vera öllum og sérstaklega ungu kynslóðinni skyldulesning.

Áhrifamestu tónleikar sem ég hef nokkru sinni farið á – varð ekki samur maður eftir - erfitt en lærdómsríkt – varð þarna ljóst hvílíka gæfu við íslendingar búum við að hafa lent að sem mestu leyti utan þessa hildarleiks sem seinni heimstyrjöldin var. Verð Juhanni ávallt þakklátur fyrir boðið.

mánudagur, 22. nóvember 2004

Al er norður íri

Al er norður íri og bjó í Belfast , flutti hins vegar fyrir alnokkrum árum til Dyflinnar, í friðsældina, eins og hann segir. Hafði verið virkur í póltík og verkalýðsmálum, var einlægur aðskilnaðarsinni og fannst sem slíkum lítið koma til bretanna. Fann þeim flest til foráttu og taldi að þeir hefðu sem aðall og herraþjóð sölsað undir sig eigur sem með öllum rétti væri sameign hinnar írsku þjóðar, landinu sjálfu.

Einn dag fékk hann nóg , viðurkenndi ósigur , og flutti til Dyflinnar með alla fjölskylduna. Hafði verið að keyra börnin þá 11 og 13 ára í skólann árla morguns og verður vitni að því þegar að skyndilega lýstur saman fylkingum manna, steinsnar frá skóla barnanna. Upp hófst skothríð sem lyktaði með því að nokkrir menn lágu í valnum, flestir nærstaddra urðu lamaðir af ótta og fyrir börnin var þetta óbærileg og mjög erfið reynsla.

Okkar maður hugsar með sér að samfélag af þessum toga sé engum bjóðandi og síst af öllu saklausum börnum sem engan þátt eiga í þessu ástandi. Býð ekki börnunum mínum upp á þetta hugsaði hann fór með alla fjölskylduna og hefur aldrei komið til baka.

sunnudagur, 14. nóvember 2004

60 % af íslenska hernum í lamasessi

“Íslenski herinn var í vanda las ég í blöðunum heima í Dublin“ sagði Al vinur minn hinn írski og formaður fulltrúarráðs Evrópskra bæjarstarfsmanna, hélt svo áfram og sagði, “að einhver Viggertsson?, íslenskur geniráll hefði dvalið fulllengi við teppakaup í miðborg Kabúl og engum togum skipt að herinn íslenski lenti í hryðjuverkaárs og sennilegast ekki orðið af teppakaupum genirálsins í þetta sinnið, íslenskir hermenn , þrír ef ekki fjórir, hefðu verið stórslasaðir”

Her, segi ég, við höfum nú engan her, köllum þessa menn friðargæsluliða, eru að mig minnir fimm stykki, verðum auðvitað að vera með í þessum hasar ekki satt?

“Hvað segir þú” segir Al afar undrandi og gefur lítið fyrir þetta friðargæslu tal í mér, “greinilega gríðarlegt áfall fyrir íslenska herinn þarna í Kabúl, 60 % íslenska heraflans í lamasessi eftir þessa einu árás”. Reyni ekki að skýra mál frekar tek undir hið hræðilega áfall hersins íslenska og færi talið að öðru!

fimmtudagur, 11. nóvember 2004

Sumar og sól - finnst mér

Sumar og sól taldi ég, en var sennilega einn um það, því fólkið í kringum mig var kappklætt? Fannst eins og ég væri í vitlausri bíómynd. Fínt ef við gætum gengið að svo veðri vísu á 17. júní, myndi létta alla vinnu við hátíðarhöldin, hugsaði ég með mér í blíðunni.

Hér í Madrid er fólk sem sagt að drepast úr kulda í ca + 15 og glampandi sól. Blæs úr norðri sem veit ekki á gott að sögn innfæddra. Kannski erum við íslendingar með öðruvísi hitaeliment því ekki fannst mér nokkurt tilefni, hjá blessuð leigubílstjóranum sem kom mér á fundarstað í morgun, að hafa hitann í bílnum á fullu í þessu sannkallaða blíðviðri. Sennilega er maður víkingur þrátt fyrir allt?

Er sem sagt í Madrid á fundi í fulltrúaráði Evrópska bæjarstarfsmanna EPSU þar sem ég sit fyrir hönd BSRB. Hefði gjarna vilja vera heima enda miklar annir á öllum vígstöðvum, en því miður var búið að ganga frá öllum endum varðandi fundinn þannig að ég átti þess ekki kost. Treysti á góða vinni mína og samherja í verkalýðsmálum.

Á fundinum hér er m.a verið að ræða nýja könnun á vegum EPSU varðandi samninga opinberra starfsmanna víða í Evrópu. Þar er fjallað um atrið eins og vinnustundafjölda á ári, frídaga, orlofsdaga, vikulega vinnuskyldu, hvenær samningar eru lausir, hvað þjónusta er á vegum hins opinbera og hvaða þætti einkageirinn hefur “séð” um.
Skýrsla þessi verður von bráðar gefin út og á í raun að vera skyldulesning fyrir alla sem fjalla um samningamál.

Einkavæðingin er í sífelldri umræðu. Hið hörmulega járnbrautslys í Bretlandi fyrir nokkrum dögum rekja menn beint til einkavæðingar, því augljóslega eru orsakir þessa hörmulega slyss að rekstraraðilinn er uppvís af því að vinna ekki samkvæmt þeim öryggisstöðlum sem bresku járnbrautirnar sálugu viðhöfðu og fóru eftir.

miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Anna Pálína Árnadóttir


Þau verða fáfengileg viðfangsefni dagsins þegar að maður stendur frammi fyrir forgengileika tilverunnar og lífsins. Og á slíkum stundum staldrar fólk við og gefur gaum að hinum sönnu verðmætum. Þetta rann í gegnum huga minn er ég fylgdi ágætri vinkonu minni Önnu Pálínu Árnadóttur síðasta spölinn s.l. mánudag

Athöfnin var öll hin virðulegasta og fór fram í Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni, þar sem hver stóll var skipaður: Perlur vísnatónbókmenntanna voru leiknar af okkar færust hljómlistarmönnum. Sinikka Langeland kantele- leikari lék spunaverk, einlægt og fallegt. Næmni, auðmýkt og virðing eru þau orð sem eru mér efst í sinni þegar ég hugsa um þátt séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Falleg umgjörð og athöfnin sem slík í raun eitt listaverk.

Listaverk og því ákaflega falleg og viðeigandi umgjörð um minningu Önnu Pálínu sem var einn mikilhæfasti listamaður þjóðarinnar og þá ekki síst fyrir ríkulegt framlag sitt á sviði vísnatónlistar. Listin er eilíf og því mun minning hennar og sem verk lifa sem hluti af hinum íslenska og skandnaviska tónlistararfi. Þar mun hún eiga verðugan sess um ókomna tíð.
Blessuð sé minning Önnu Pálínu sem kvaddi okkur allt of fljótt, hún hafði mörgu góðu komið í verk og í raun miklu meira en aldur hennar sagði til um, en hún átti örugglega margt eftir ógert.

Votta Aðalsteini , börnunum og öllum ættingjum mína dýpstu samúð.

miðvikudagur, 3. nóvember 2004

Á almennt siðferði bara við um vinstra fólk

Finnst með eindæmum hvernig formaður Sjálfstæðisflokksins fer með olíusamráðsmál. Borgastjórinn í Reykjavík vondi karlinn!

Veit ekki betur en að málið teygi sig vel inn í innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Velt fyrir mér hvort þriðji varaforseti Alþingis eigi ekki að segja af sér vegna augljósra tengsla við málið? Spurning hvort að stjórnarformenn og forstjórar þessara fyrirtækja, sem lugu blygðunarlaust og kerfisbundið að þjóðinni, eigi ekki að sæta ábyrgð í stað þess að rífa stólpa kjaft?

Get auðvitað tekið undir að borgarstjóri er í erfiðum málum. Gæfi hins vegar mikið fyrir það að Sjálfstæðismenn nýttu sér í eigin þágu þá siðferðisramma er þeir ætla öðrum að fara eftir.

Er til eitthvað sérstakt hægri siðgæði sem lýtur ekki sömu viðmiðum og hjá okkur hinum? Veit það ekki en dettur í hug "bjálkinn og flísin". Velti fyrir mér hvort vinstra fólk hafi sterkari siðferðiskennd og viðmið en þau sem formaður Sjálfstæðisflokksins stendur fyrir.

mánudagur, 1. nóvember 2004

Atti kapp

Átti í kappræðum við markaðstjóra Ölgerðar Egils Skallagrímssonar s.l. föstudag á ráðstefnu viðskipta og hagfræðinema við Háskólann í Reykjavík. Þemað, siðferði og bjórauglýsingar. Vorum ekki á eitt sáttir frekar en fyrri daginn en áttum engu að síður gott spjall. Virði fyrirtækið fyrir það að mæta til leiks og ræða málið á opnum vettvangi. Það er mun meira en önnur sambærileg fyrirtæki gera.

Sum hver henda einhverjum 100.000 köllum í auglýsingarstofur þegar að þessi mál ber á góma í samfélaginu og svara með nokkrum heilsíðuauglýsingum eða sjónvarpsauglýsingum. Kalla þetta meira að segja tjáningarfrelsi. Einhliða áróður í krafti fjármagns segir Hæstiréttur í dómsútskurði ef mig minnir rétt.

Tel að miðlunartillagan falli

Hef ekki trú á öðru en að kennara felli miðlunartillögu sáttasemjara. Ástæðan einföld. Kjör eru með þeim hætti að tillagan nær ekki einu sinni þeim samningum er ríkið samdi við sína kennara í framhaldsskólum í kjölfara síðustu samninga við grunnskóla kennara. Það er því verið að gera kennurum tilboð sem ríkið treysti sér ekki að bjóða sínu fólki í síðustu samningum.

Hví ætti ríkið ekki að hafa afskipti af þessari deilu, samningar á hinum almenna markaði hafa nánast ávallt verið þríhliða þ.e.a.s. að ríkið hefur komið inn með framlög í einu eða öðru formi til þess að loka samningum. Oftar en ekki hafa þessi inngrip ríkisins haft úrslitaáhrif. Sérkennilegt ef slíkt getur ekki átti við þegar að starfsmenn sveitarfélaga freista þess að semja við sveitarfélögin. Á ríkið bara "að splæsa" þegar að almenni markaðurinn á í hlut og er það þá hlutverk ríkisins að niðurgreiða sérstaklega laun á hinum almenna vinnumarkaði umfram hinn opinbera?

miðvikudagur, 27. október 2004

Starfsmatið

Sátum lengi dags og langt fram á kvöldin í pælingum um tengingu á blessuðu starfsmatinu. Gekk fínt en þó ekki nægilega vel til þess að klára málið alveg.
Verður vonandi leyst á næstu dögum enda miðað við að greitt verið eftir nýju mati um miðjan nóvember.

laugardagur, 23. október 2004

Ungdom, demokrati och deltagelse

Gengu í salinn ungu mennirnir tveir saman. Dressaðir í jakkaföt og bindi. skima salinn, sjá sem er að klæðnaðurinn er full formlegur, taka niður bindin og sá minni fer í pontu og setur í gang Power point showið

Kvaðst koma frá The Independence Party, sem hann kvað stærstan allra flokka á Íslandi og flokkurinn hefði ráðið öllu í fjölmörg ár. Flokkurinn væri flokkur allar stétta en stundum væri sagt að það væri of margir lögfræðingar í flokknum eins og t.d. hann sjálfur. Flokkurinn vildi meiri frelsi og einkavæðingu á öllum sviðum samfélagsins.

Sem dæmi um hve félagið hans ungliðahreyfingin væri stór, þá hefði hann formaðurinn fleiri atkvæði á bak við sig í formannskosningu en núverandi forsætisráðherra hefði fengið í síðustu þingkosningum. Mikið tillit væri tekið til þeirra sjónarmiða innan flokksins enda fjórir ungliðar á þingi, þeir Einbjörn, Tvibjörn, Þríbjörn og Fjórbjörn. Gerið mikið úr sínu fólki og sparaði hvergi stóru orðin í þeim efnum

Þegar hér var komið sögu varpað ungi maðurinn upp mynd af foringja flokksins, manni á miðjum aldri afar ábúðarmiklum, klæddum jakkafötum, sitjandi í miðjum hópi barna á aldrinum 4- 5 ára..... salurinn hló, enda hinn biblíulega skírskotun afar skýr og manni var auðvitað ljóst að erindið var trúarlegs eðlis fyrst og fremst og eina erindið af fjölmörgum sem var eins og kosningarfundur.

Markmiðið auðvitað ekki slíkt heldur það að ræða hvernig hægt er að virkja ungt fólk til þátttöku, hvernig félög af ýmsum toga geta virkjað ungt fólk til þátttöku hvert á sínu sviði. Hvernig lýðræði og í hvað formi það nýtist ungu fólki, er t.d kjörgengi við 18 ára aldur of hár aldur, er eitthvað annað form hægt að hugsa sér hvað varðar virkt lýðræði.

Jakkafatamaðurinn og lögfræðingurinn komst aldrei upp á þetta plan, en stóð sig hins vegar afar vel í trúboði fyrir þennan ofsatrúarsöfnuð sem hann nefndi The Independence Party

Annars fín ráðstefna daganna 20 - 23 apríl á Selfossi undir yfirskriftinni Ungdom, demokrati och deltagelse. Fjöldi góðra erinda og hugmynda. Þátttakendur voru fjölmargir og komu víða af Norðurlöndunum. Aldurinn 14 - 70 ára en unga fólkið í meiri hluta og allir sem einn virkir þátttakendur.

Fínt framtak og þarft hjá Æskulýðsnefnd Norrænu ráðherranefndarinnar og vonandi að sem mest af því sem þarna fór fram verði gefið út öðrum til gagns.

miðvikudagur, 20. október 2004

Er ekki komin tími til að tengja

Sungu hinir eldhressu "Skriðjöklar" frá Akureyri hér í eina tíð, vissulega er svarið og er það átt við blessað starfsmatið en þau merku tímamót eiga sér nú stað í þeirri vinnu að tími tenginga við launatöflu er að renna upp. Flókið verk og vandasamt, munum fara í sveitina eftir helgi, fulltrúar Samflotsins og fulltrúar launanefndar og ekki koma til byggða fyrr en búið verður að tengja matið. Tekst vonandi þokkalega, veit það þó af langri vegferð í verkalýðsmálum að ekki verða allir á eitt sáttir í þessum efnum frekar en fyrri daginn, væntingar auðvitað miklar og ekki bætir að biðtími eftir matinu hefur verið afar langur.

þriðjudagur, 19. október 2004

Að pissa í skóinn

Finnst hugsanleg lagasetning í kennaradeilunni afar slæmt mál. Hvers vegna? Svarið einfalt, kennarar munu auðvitað segja upp störfum nánast allir sem einn, enda engin önnur leið í stöðunni , vinnandi hjá sveitarfélögum sem virða störf þeirra afar lítils sem á laununum má merkja. Uppsagnarfrestur eru þrír mánuðir þannig að allt mun þetta renna saman í eitt, samningar okkar BSRB félaga og annarra s.s. framhaldsskólakennara sem eru lausir í lok mars.

Með lagasetningu er því óréttlætið fryst, stór deila óleyst, skólarninr í enn meira lamasessi en nú er og önnur og gríðarlegri átök í vændum. Lagsetning mun því ekkert leysa neitt nema síður sé og sennilega virka eingöngu um þriggja mánaða skeið þ.e.a.s út lögbundin uppsagnarfrest.

Íslensk láglaunapóltík er böl og löngu komin tími til þess að brjóta hana á bak aftur. Gef ekkert fyrir það að hagkerfið fari til fjandans, þó svo að kaupið hækki um nokkrar krónur. Vaxtaokur, verðsamráð, hátt vöruverð og annar vitleysisgangur í íslensku efnahagslífi hefur hingað til ekki þótt hafa nein áhrif.
Snýst málið kannski bara um það eitt að halda fjármagninu í vasa þeirra sem þegar hafa allt til alls? Mér heyrst mesta gagnrýni á verkfall kennara einmitt koma úr efri lögum samfélagsins og gott ef það er ekki akkúrat úr þeim ranni sem umræðan um hve nauðsynlegt sé að koma á einkaskólum er sprottin.

Þekki af eigin raun hina afar óbilgjörnu launastefnu sveitarfélaganna sem nánast öll sem eitt hafa afsalað sér forræði í jafn mikilvægum málum til launanefndar sveitarfélaganna. Ísland er í fallsæti hvað laun varðar ef tekið er mið af nágrannalöndum okkar þar með talið Grænland og Færeyjar

Launanefnd sveitarfélaganna á auðvitað ekki láta hafa sig út í sendiferð af þessu tagi. Sveitarfélögin hafa enga sérstaka skyldu til að ganga fram fyrir skjöldu praktíserandi grjótharða láglaunastefnu, sveitarfélögin í landinu eiga auðvitað að endurspegla vilja almennings í stað þess að vera persónugerfingur láglaunastefnu og ganga þar með fyrst og fremst erinda vinnuveitendasambandsins og annarra þeirra afla samfélagsins sem öllu vilja halda í lægstu viðmiðum nema e.t.v. eigin ágóða.

miðvikudagur, 13. október 2004

Fiskur undir steini

Missti því miður af þeirri umdeildu og afargóðu heimildarmynd "Fiskur undir steini" sem sýnd var í Bæjarbíói s.l. laugardag á vegum Kvikmyndasafns Íslands.
Sá hins vegar í kvöld nokkrar góðar meðal annars "Bóndann" og "Við byggjum hús" eftir Þorstein Jónsson og "Að byggja Ísland" eftir Þorgeir Þorgeirson, allt saman ljómandi fínar myndir.

Skemmtilegt þema, heimildarmyndin. Fiskur undir steini var ekki í boði Grindavíkurbæjar og varð fyrir vikið hvöss þjóðfélagsádeila. Landvirkjum er með "heimildarmynd" um Kárahnjúka í vinnslu? Verður hún nokkuð annað Landsvirkjun að monta sig.? Heimildarmyndin er frábært listform þ.e.a.s. ef listamaðurinn er trúr viðfangsefninu sem því miður er ekki alltaf.

Hefði auðvitað þurft að sækja bíóið stíft undanfarið, í fræðsluskyni, sérstaklega slæmt að missa af áróðursmyndunum frá seinni heimstyrjöldinni sem sýndar hafa verið síðustu vikur, sennilega margt sem við verkalýðsforingjar getum af þeim myndum lært í "retorikinni" þó svo að viðfangsefni dagsins í verkalýðsmálum séu sem betur fer ekki í samræmi við þau sorglegu átök og hörmungar sem styrjöldin hafði í för með sér. Hins vegar veltir maður ósjálfrátt fyrir sér í þessu sambandi "fréttaflutningi " frá Írak eða miðausturlöndum

Hef áður sagt það og segi það aftur. Fínt safn, kvikmyndasafnið og virðingarvert framtak að halda úti kvikmyndaklassík af ýmsum toga. Hvet fólk til þess að kíkja í Bæjarbíó á þriðjudagskvöldum eða á laugardagseftirmiðdögum

miðvikudagur, 6. október 2004

Íbúaþing á laugardag

Hvet alla sem vettlingi geta valdið til þess að sækja íbúaþingið í Hafnarfirði sem fram fer á laugardaginn. Íbúaþing er fínn vettvangur til þess að móta sitt bæjarfélag og hafa áhrif á þróun þess. Veit það að reynslan af þingum sem þessum er góð og fjölmargar og góðar hugmyndir og tillögur líta dagsins ljós. Á ekki von á öðru en að slíkt hið sama verði upp á teningunum hjá okkur. Verð því miður erlendis og kemst því ekki en hefði svo gjarnan viljað taka þátt. Óska öllum velfarnaðar á þinginu og vona að maður geti verið með næst.

þriðjudagur, 5. október 2004

Áttu góða hugmynd um sparnað?

Segir á innra neti Hafnarfjarðarbæjar, en þar er starfsfólk hvatt til þess að leggja inn sparnaðartillögur í tengslum við fjárhagsáætlun. Það er allt saman gott og gilt ef ekki væri einn stórkostlegur ljóður á ráðagerð þessari sem er sá að allt er þetta nafnlaust. Fær fyrir vikið allt aðra áferð en ef fólk gerði grein fyrir tillögum sínum undir nafni.

Billegt þykir mér og það í meira lagi . Hef sjálfur vanið mig á það að skrifa alltaf undir nafni. Færi að vísu stundum í letur hugrenningar vinar míns L. Norðfjörð sem skrifar af ábyrgðarleysi og reynir að herma eftir vini sínum Flosa Ólafssyni.

Nafnleynd gefur tillögum ekkert gildi eða vigt enda ekkert vitað hvaðan þær koma og í hvað tilgangi þær eru settar fram. Verður auðvitað slúðurkennt og opnar á þann möguleika að menn setji fram tillögur af fullkomnu ábyrgðarleysi.
Skil satt að segja ekki þessa hugmynd og ekki heldur hvað pæling er á bak við. Er verið að etja deildum og eða fólki saman eða hver er eiginlega tilgangurinn?

Ég get alveg haft þær hugmyndir að skipulagsbreytingar hafi ekki haft sparnað í för með sér nema síður sé og að allt of margir og dýrir embættismenn skipi hið s.k. rekstrarteymi. Fyrirkomulag beiðnakerfis bæjarins sé handónýtt og margt annað. Ef ég geri það þá geri ég það undir nafni en fel mig ekki bak við stól eða bauna úr launsátri.

Skora á bæjaryfirvöld að breyta fyrirkomulagi á síðunni þannig að þær tillögur sem framkoma séu settar fram undir nafni- annað sæmir ekki bæjarfélaginu og er í raun algerlega óviðeigandi.

fimmtudagur, 30. september 2004

Ekkert heilagt

Þegar að löggjafavaldið , framkvæmdavaldið og dómsvaldið er nánast allt komið á eina hendi þá eru auðvitað blikur á lofti í samfélaginu. Slík völd eru engum til góðs og allra síst þeim sem að þessu brölti standa. Það er heldur ekki til þess ætlast að mál skipist með þessum hætti. Þau "ríki" sem slíka "stjórnskipan" hafa eru yfirleitt nefnd einræðisríki og hafa ekki þótt til eftirbreyttni a.m.k. ekki hér á vesturlöndum.

Að veita einum ráðherra þau völd að ráða algerlega skipan hæstaréttardómara er ekki góð aðferð, eins og dæmin sanna.
Best væri auðvitað að það gerði þingið og til að öðlast setningu þá þyrftu a.m.k. 2/3 hlutar þings að samþykkja ráðninguna. Með því er hægt að hefja ráðningar í jafn mikilvægt embætti og starf hæstaréttardómara upp fyrir pólitískt karp og ekki síst grímulaust valdabrölt.

Það hefur verið mikil órói í íslensku samfélagi á umliðnum misserum. Hvert málið á fætur öðru hefur sett samfélagið á annan endann. Valdastjórnun í neikvæðasta skilning þess orðs hefur verið viðhöfð markvist. Það er ekkert heilagt í þessu valdabrölti, ekki einu sinni meginstoð hins lýðræðislega samfélags , þrískipting ríkisvaldsins.

Mál að linni og undarlegt að flokkur sem einu sinni auglýsti "fólk í fyrirrúmi" skuli láta hafa sig út í að styðja þessa vitleysu. Dýrðlegt að drottna - veit það ekki, en hitt veit ég að að "við og þið" samfélag er veruleiki og ef það var einhvern tímann eitthvað til sem kallaðist "landsföður" þá er það fyrir bí enda hlutverk sem fer illa saman við grímulausa hagsmunagæslu fámennrar valdaklíku.

miðvikudagur, 29. september 2004

Vinir & vandamenn / fundir & fundir

Af vinum og vandamönnum Kom ekki á óvart hvernig skipan hæstaréttardómara varð! Málið í mínum huga afar einfalt. Viðkomandi er fulltrúi ákveðinnar valdaklíku í landinu og auðvitað valin í dóminn sem slíkur. Og ekki í fyrst sinn því mönnum er enn í fersku minn þegar að "frændinn " fékk jobbið í fyrra.
Alveg með ólíkindum að okkar fremstu fræðimenn eigi ekki möguleika og að fram hjá þeim sé gengið með nánast kerfisbundum hætti.
Gef lítið fyrir röksemdir annars ágæts fjármálaráðherra fyrir valinu , fannst þau eins sannfarandi og að réttinn vantaði akkúrat núna örvhentan dómara.

Fundur vegna Orkuveitu Suðurnesja
Í dag hittust trúnaðarmenn STH og STFS á fyrst fundi til að undirbúa komandi kjarasamninga, en þeir renna út 1. nóvember n.k.

Fundur um starfsmat
Ekki þori ég að nefna neina dagsetningu varðandi starfsmatið, og þó! Get sagt það að vonandi verður þess ekki langt að bíða að niðurstöður fáist og að í þeim tilfellum sem það á við verði hægt að fara að greiða samkvæmt því og leiðrétta laun aftur til 1.desember 2002.
Fundað var um málið síðdegis og ljóst að róið verður að því öllum árum að það takist að ganga frá matinu að hluta til eða öllu leyti þann 1. nóvember 2004? Hvort það tekst? Vonum það besta!

Aðlögunarsamningur á Sólvangi í síðustu viku lauk vinnu s.k. aðlögunarnefndar STH og Sólvangs og þar með er vinnu við ríkissamninginn lokið. Athyglisvert er að ríkið sem ekki hefur alltaf þó fara vel með laun til sinna starfsmanna er nú á mörgum sviðum komið langt fram úr sveitarfélögunum hvað þetta varðar.

Sveitarfélögin hafa afsalað sér öllum áhrifum og falið launanefnd sveitarfélaga umboð sitt í þessum málum með þeim dapurlega árangri að nú ríkir ákaflega metnaðarlaus launastefna sem byggir á því einu að viðhalda lægstu viðmiðum,hvað sem tautar og raular.

mánudagur, 27. september 2004

Gott útspil hjá bæjarstjóra

Er sammála Lúðvík Geirssyni bæjarstjóra þegar hann segir í blaðaviðtali að ríkið verði að koma inn í kennaradeiluna með réttlátari tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Skólar eru nú einsetnir, en voru tví- eða þrísetnir á tímum ríkisforræðis. Bara þetta eitt hefur gert það að verkum að byggingakostnaður og umsýsla öll hefur aukist verulega. Sama má segja um gæði starfsins, færri nemendur eru í bekkjum en áður var sem þýðir að fjöldi kennara hefur aukist hlutfallslega. Auk þess má nefna að sérdeildarstarf hefur aukist verulega m.a. vegna samdráttar ríkisins í þeim efnum t.d. með fjársvelti stofnnanna eins og barna og unglingageðdeildarinnar -BUGL sem engan vegin getur þjónustað þann fjölda sem á þyrfti að halda.

Hágæða skólastarf verður einfaldlega ekki rekið fyrir þann "tómbóluprís" sem bæjarfélögin fengu í "meðlag" frá ríkinu og mjög efast ég um að fólki vilji fá skólanna í sama horf og var þegar að ríkið sá alfarið um þessi mál? Ríkið getur einfaldlega ekki vikist undan því að greiða sanngjarna hlutdeild í þeim auknu gæðum skólastarfsins sem átt hafa sér stað á síðustu árum.

Íslendingar vilja alvöru skólakerfi. Til þess að svo megi verða þá verður auðvitað að borga kennurum sómasamleg laun. Því fer hins vegar víðs fjarri að svo sé, enda kennarar hér á landi sama marki brenndir og launþegar almennt, eru alstaðar í lægstu viðmiðum ef borið er saman við hin s.k. samkeppnislönd okkar. Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík blasir hvarvetna við.

fimmtudagur, 23. september 2004

Vinir mínir Svíar og einkavæðingin

Samkvæmt ítarlegri skýrslu Samkeppnisstofnunar Svíþjóðar um einkavæðingu kemur fram að verðhækkanir hafa verið verulegar umfram vísitölu. Dæmi um slíkt er að raforkuverð hefur hækkað um 77 % , póstþjónusta um 9 % , miðar í járnabrautir um 68%.. Afnám opinberrar gjaldskrá fyrir leigubílaakstur hefur leitt til 40 % hækkunar.

Einkarekin einokun er ávísun á okurprísa til almennings. Hvar er þessi hagræðing og hvers vegna skilar hún sér ekki til almennings? Var það kannski ekki markmiðið með þessu öllu saman? Hljómar kunnuglega!

Afar athyglisverð skýrsla sem auðvitað er ekki er hægt að gera fullnægjandi skil á þessum vettvangi en í lokakafla segir m.a. að setja þurfi sérstaka löggjöf og stórefla eftirlitsstofnannir enda séu leikreglur afar óljósar sem leitt hafi til þess að hækkanir hafi orðið verulega umfram það sem gert var ráð fyrir með þessu “frjálsa” fyrirkomulagi .

Fín umfjöllun um þetta mál á heimasíðu BSRB og einnig má nálgast hina sænsku skýrslu í heild á slóðinni http://www.kkv.se/bestall/pdf/rap_2004-3.pdf Athyglisverð lesning og umfangsmikil.

miðvikudagur, 22. september 2004

Samflotið fundar

Samflot bæjarstarfsmanna fundaði í Valhöll á Þingvöllum 21 & 22.september. Fundarefnið var að fara yfir og hefja undirbúning vegna komandi kjarasamninga.

Fín stemming í mannskapnum, þó ljóst sé að komandi kjarasamningar verða bæði flóknir og erfiðir. Það virðist vera svo að ekki náist kjarabætur nema með miklum átökum eins og dæmin sanna. Kennarar hafa ekki fengið nokkurn hlut sjálfkrafa og það munum við ekki heldur fá.

BSRB þing samþykkti 150. þúsund króna lágmarkslaun og að sjálfsögðu þarf kröfugerð að taka mið af því. Bæjarstarfsmenn hafa dregist verulega aftur úr hvað kjör varðar. Nú er í raun svo komið að ríkið sem aldrei hefur fengið mörg prik fyrir framsýna launastefnu er komið vel fram úr flestum sveitarfélögum í landinu hvað laun varðar?

Það má því velta því fyrir sér hvort baráttan hafi verið rekin á röngum forsendum og full hógværum og þá hvort ekki þurfi að breyta algerlega um taktík? Held það við bæjarstarfsmenn eigum svo sannarlega inni verulegar leiðréttingar, þær þurfum við að sækja og með þeim aðferðum sem til þess duga. Bið félagmenn að hugleiða þetta og einnig það að til þess að svo megi verða þurfa allir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar, kaffistofuspjallið gefur ekkert í aðra hönd?

mánudagur, 20. september 2004

Minnist með hlýhug

á þessum tímamótum hafnfirskrar knattspyrnu, vinar míns Þóris Jónssonar. Sá hefði nú verið aldeilis kátur, enda búin að leggja sitt af mörkunum og ríflega það til þess að gera FH að því stórveldi í fótboltanum sem það er orðið.

Legg því til að nafn á væntanlega knattspyrnuhöll við Krikann verði tileinkað minningu hans.

miðvikudagur, 15. september 2004

Gissur Guðmundsson

Bæjarfulltrúi mælti bæði vel og skynsamlega í bæjarstjórn í gær að mínu mati og margra annarra.

Tilefnið, einkavæðing ræstinga hjá Hafnarfjarðarbæ, fyrirkomulag sem snertir fólk sem hvað síst hefur það launalega í okkar samfélagi, háskólanema sem freista þess að ná sér í aukapening til þessa að fjármagna nám sitt, einstæðar mæður, og fólk sem margt hvert hefur ekki átt kost á fjölþættum störfum í okkar margþætta samfélagi m.a. vega skorts á tækifærum til mennta.

Að rýra kjör þessa fólks með útboði og einkavæðingu á ræstingu í bæjarfélaginu er engan vegin við hæfi. Tek því ofan fyrir bæjarfulltrúanum Gissuri Guðmundssyni sem einn bæjarfulltrúa hefur haft í frammi mótbárur gegn þessu fyrirkomulagi og benti á með réttu ýmislegt sem betur gæti farið í þessum málum.

Veit ekki hvað er hægri og hvað er vinstri í þessum málum, er þessi ágæti bæjarfulltrúi í raun sá sem er mest til vinstri í þessu máli? Veit það eitt að skynsemin ein réð för í málflutningi bæjarfulltrúans og tek ofan fyrir þeim viðhorfum sem þarna komu fram. Vísa að öðru leyti til fyrri umfjöllunar minnar um þessi mál hér á dagskinnunni og vona að skynsemin taki völd fyrr en seinna í þessum efnum.

mánudagur, 13. september 2004

Ofurlaunaðir kennarar ?

Vona svo sannarlega að kennurum gangi vel í kjarabaráttu sinni, ekki veitir af. Blæs á það áróðursbragð að kennarar hafi fengið hækkanir umfram aðrar stéttir vegna þess að um það hafi verið þjóðarsátt?

Málið er einfalt, íslensk láglaunapólitík er þjóðfélagslegt böl og kennarar þessa lands hafa verið dugmiklir í tilraunum sínum til að kveða þennan draug í kútinn. Þegar að Launanefnd sveitarfélaga varð að gefa eftir í síðustu kjarasamningum og hækka kennara meira en þeirra grjótharða láglaunapólitík gerði ráð fyrir, þá hét það að það væri "þjóðarsátt" um að hækka kennara umfram aðra.

Staðreyndin er hins vegar einfaldlega sú að kennarar hafa lagt hart að sér og náð af þeim sökum einum saman árangri.

Það er nefnilega svo að það skiptir nánast engu máli hvar stigið er niður fæti í hinu almenna íslenska launaumhverfi, alstaðar eru við í skussaflokki, einnig kennarar. Allar hagstærðir í þessu þjóðfélagi eru hins vegar hagstæðar. Allur samanburður íslenskra launþega stenst engan vegin samanburð við þær þjóðir sem við berum okkur saman við?

Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík á sér því engar efnahagslega forsendur og er í mínum huga einungis staðfesting á þeirri gjá óréttlætis og stéttaskiptingar sem er og hefur verið að myndast í íslensku samfélagi. Gjá milli hins almenna launamanns og ofurlaunaðar yfirstéttar hefur aldrei verið meiri.

Næstu kjarasamningar munu snúast um sanngjörn skipti. Til þess að svo megi verði sýnist mér einsýnt að færa verður einhverjar fórnir. Kjarabætur koma ekki af sjálfum sér og ljóst að aðferðir síðustu kjarasamninga hafa ekki gefið okkur þá hlutdeild í margyfirlýstu góðæri , sem okkur ber. Leiðréttingar verður því að sækja með öðrum aðferðum en gert hefur verið - ekki satt?

mánudagur, 6. september 2004

Embættismenn eru líka fólk

Forseti Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar
Hr. Gunnar Svavarsson


Á síðustu misserum hefur það a.m.k. í þrígang átt sér stað að vegið er að starfsheiðri og æru embættismanna bæjarins úr ræðustól bæjarstjórnar,viðkomandi hafa m.a. verið sérstaklega nafngreindir, lítið gert úr persónum þeirra, sérfræðikunnáttu sem og gerðum.

Í þeim efnum má nefna ummæli tiltekinna bæjarstjórnarmanna í garð fyrrverandi sviðstjóra fjölskyldu- og skólasviðs, ummæli um æskulýðs- og tómstundafulltrúa og nú síðast ummæli um sviðsstjóra atvinnu- og þróunarsviðs.

Félagið vil benda á þá einföldu staðreynd að viðkomandi embættismönnum er með öllu ókleyft að grípa til varna á þessum vettvangi og það er því engan vegin við hæfi að umræða um einstaka embættismenn eigi sér stað með þessum hætti, á opinberum fundi bæjarstjórnar og í beinni útvarpsútsendingu.

Ef bæjarstjórnarmenn telja sig eiga eitthvað sökótt við embættismenn þá er auðvitað eðlilegast að fara hina stjórnsýslulegu leið og koma á framfæri formlegri kvörtun við bæjarstjóra sem er æðsti yfirmaður hinnar hafnfirsku stjórnsýslu. Í þeim tilfellum á viðkomandi starfsmaður a.m.k. formlegan andmælarétt og aðkomu að málinu á jafnréttisgrundvelli.

Félagið bendir jafnframt á þá staðreynd að embættismenn bæjarins búa við almenn lýðréttindi eins og málsfrelsi. Allar tillögur og hugmyndir um takmörkun þess, eins og t.d. með einhverskonar yfirlestri á faglegum erindum embættismanna eru út úr korti.

Félagið væntir þess að málum linni, og að forseti bæjarstjórnar sjái til þess að mál af þessum toga fái umfjöllun á réttum vettvangi.

Virðingarfyllst,

Árni Guðmundsson
formaður STH

föstudagur, 3. september 2004

Með beinakex í annarri - Út í óvissuna

Fínt framtak hjá bæjarstjóra að efna til óvissuferðar meðal starfsfólks á bæjarskrifstofum í kvöld. Lyfta fólki örlítið upp yfir dagsins amstur, þakka fólki góð störf og eiga góða stund saman. Kemst því miður ekki en veit að þetta verður fínt teiti.

Leiðir hugann að ágætu samstarfi bæjarins og starfsmannafélagsins varðandi veglega árshátíð bæjarstarfsmanna.

Sem aftur á móti leiðir hugann að því hvort samskipti bæjarins og starfsmannafélagsins séu ekki með ágætum . Get vottað það hér og nú að svo er nú yfirleitt, en með því fororði að vissulega getur hvesst og vissulega er tekist á oft á tíðum.

Sem einnig leiðir hugann að því að deilur snúast um hagsmuni viðkomandi aðila. Á þessu þarf að vera gangkvæmur skilningur því annars er hætta á að menn persónugeri deilur og átök sem auðvitað kann ekki góðri lukku að stýra.

Þegar að svo er komið þá er oftast stutt í vandræði. Reynslunnar fólk forðast þennan farveg, flest hvert. Hitt kann að vera að í staðbundnum krísum ýmsum t.d. tengdum skipulagsbreytingum einstakra deilda þá hafi aðilar ekki gætt nægilega vel að þessu.

Trúnaðarmenn félagsins hafa þær skyldur að gæta hagmuna sinna umbjóðenda á viðkomandi starfsstað í samráði við félagið. Ef trúnaðarmenn eiga að gjalda starfa sinna í þágu félagsins sem einkapersónur og starfsmenn þá er auðvitað fyrst og fremst verið að vega að stoðum starfsmannafélagsins sem slíks. Allt slíkt setur samskipti félagsins og bæjarins í annað og alvarlegra samhengi

Hef átt góð og afar hreinskiptin samskipti við bæjarstjóra varðandi starfsmannamál Vissulega ekki alltaf sammála en samt sem áður einfalt að ræða málin. Oft með ágætum árangri en stundum ekki.

Að gera fólki veislu eina góða endrum og sinnum er auðvitað ekki stórmál en það sýnir auðvitað ákveðið viðhorf. Ánægður með lítið - hugsar einhver! Veit það ekki - man hins vegar tímana tvenna í þessum efnum.
Sérstaklega minnisstætt tímabilið þegar að allt svona þótti mikið bruðl, var með öllu aflagt og meira að segja sérstakar reglur settar um veitingar á fundum , bara kaffi ef fundur var 1-2 klukkutíma og kex eftir það?

þriðjudagur, 31. ágúst 2004

Thorshavn

Hef stundum minnst á Færeyjar í pistlum mínu. Gott fólk færeyingar, falleg músík og fagrar eyjar. Tók meðfylgjandi mynd í sumar er ég átt leið um eyjarnar með Norrænu.

sunnudagur, 29. ágúst 2004

Vel mælt hjá Halli Magnússyni

Sviðstjóra hjá íbúðarlánasjóði í Fréttablaðinu í dag þegar hann spyr: „...af hverju bankarnir geti boðið lánin á svo miklu lægri og betri kjörum nú en áður þegar þeir hafi alla tíð notið fyrsta veðréttar á húseignum: „Ástæðan er skýr. Þeir vonuðust til þess að eftirlitsstofnun EFTA setti starfsemi Íbúðalánasjóðs skorður. Þeir vonuðust til að Íbúðalánasjóður þyrfti að draga úr lánastarfsemi sinni til þess að geta boðið upp á hærri vexti en 4,4% og hagnast á íbúðalánum."

Svo mörg voru orð sviðstjórans. Kjarni málsins augljós, ýtrustu ofur gróðasjónarmið leiðarljós bankanna nú sem endranær.

Verður alltaf jafn hjárænulegt hjá þessum bransa þegar hann þykist vera að gera almenning stórkostlegan greiða . Saga okurvaxta og ofur þjónustugjalda sýnir okkur og kennir augljóslega annað.

Sé því enga leið skynsamari í dag en að efla Íbúðarlánasjóð enn frekar og gera góða stofnun að enn betri stofnun enda hag almennings er augljóslega mun betur borgið með því fyrirkomulagi en óskafyrirkomulagi bankanna.

fimmtudagur, 26. ágúst 2004

Hvernig væru vextirnir, ef ekki væri Íbúðalánasjóður?

Spyr sá sem veit. Svarið er einfalt, mjög háir eins á öllum sviðum þar sem ekki er virk samkeppni. Í landi samráðs og fákeppni eru því opinberar stofnair eins og Íbúðalánasjóður brýn nauðsyn.

Eitt sinn var sagt að stjórnmálamenn ættu ekki að stýra vöxtum með handafli. Finnst það þó skömminni skárra en þegar að fjármálastofnanir gerða það með víðtæku samráði. Frjálshyggjuformúlurnar eins og ýmis manna verk, eru ófullkomin og skeikul.

Vona að Íbúðalánasjóður dafni sem aldrei fyrr enda gegnir sjóðurinn afar mikilvægu hlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Ég veit einnig að ef hann hættir starfsemi þá mun þeir vextir sem nú bjóðast auðvitað snarhækka. Hef nú ekki meira traust en þetta á þessum kunningjaklúbb sem íslenska bankakerfið er orðið, sennilega helgar tilgangurinn meðulin í þessu máli eins og svo margt annað sem úr þessum ranni samfélagsins kemur.

fimmtudagur, 19. ágúst 2004

Skólaskrifstofa, stjórnarfundur og einkavæðing

Starfsmenn skólaskrifstofu
Fundaði í dag með starfsmönnum skólaskrifstofu sem ekki eru á eitt sáttir varðandi fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skrifstofunni. Ekki nema von þar sem nokkuð er óljóst við hvað er átt og hverjar afleiðingar boðaðar breytingar hafa. Fólkið hefur ekki fengið neinar skýringar þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið leitað með formlegum hætti? Málið stefnir í klúður af bestu sort ef bæjaryfirvöld skýra ekki línur fljótlega.

Stjórnin fundaði síðdegis.
Ýmis mál bar á góma, svo sem komandi kjarasamningar, Fundir innan Samflotsins sem og væntanlegur stjórnarfundur BSRB, Starfsmatið bar á góma að venju og eru þær fregnir helstar að Reykjavíkurborg ætlar að greiða samkvæmt því í október.

Samfylkingin í Hafnarfirði og einkavæðingin
Skil ekki alveg hvert Samfylkingin stefnir varðandi einkavæðingu hér í bæ. Og ekki er það til neinar fyrirmyndar að hún skuli beinast gegn hópum sem hvað síst hafa það launalega.

Einkavæðing ræstinga í skólum er að skella á. Menn vita að launakostnaður er yfir 90% af kostnaðinum við ræstinguna. Með "hagstæðu" tilboði skilst mér að boðið hafi verið rúmlega 60% af kostnaði í verkið allt.
Niðurstaðan er einföld fyrirtækið þarf að fá sitt, enda ekki um góðgerðarstarfsemi að ræða. Starfsmenn munu því margir missa störf sín og miðað við einfalda reikniformúlu mun sennilega tæplega helmingur starfsmanna missa vinnuna og þeir sem eftir verða munu þurfa að leggja helmingi meira á sig en áður var fyrir sama lélega kaupið.

Mér finnst ekki viðeigandi að bæjarfélag standi með óbeinum hætti að svo víðtækum uppsögnum eins og hér verður um að ræða og það er ekki hægt að skýla sér bak við eitthvað fyrirtæki út í bæ í þeim efnum. Hafnarfjarðabær er verkkaupi og ber auðvitað sem slíkur siðferðilegar skyldur á gerðum verktakans.

fimmtudagur, 12. ágúst 2004

Starfskjaranefnd fundaði í gær

Dómsátt
Fátt fréttnæmt nema að aðilar eru að kíkja á frágang á s.k dómsátt varðandi greiðslur í fæðingarorlofi þ.e.a.s. hjá þeim konum sem áttu börn á því tímabili sem lögin breyttust og í hvaða tilfellum sáttin hafi fordæmi. Ákveðið var að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

Launuð námsleyfi
Fyrir lá umsókn um launað námsleyfi en þetta er heimildarákvæði í kjarasamningum sem hefur verið nýtt ágætlega síðustu ár enda er þetta eina leið vinnandi fólks til framhaldsmenntunar. Lánshæfi hjá LÍN er ekkert þegar að fólk kemur úr atvinnulífinu og þessi afar hófsömu launakjör bæjarstarfsmanna gera það að verkum að menn eru ekki lánshæfir fyrsta árið. Loftið og viljinn einn dugir skammt.

Hafnarfjarðarbær ákvað einhliða og í algerri andstöðu við STH að afnema fjárveitingar til þessara mála sem auðvitað er í algeru ósamræmi við annars ágæta endurmenntunarstefnu bæjarins. STH félagar og Leikskólakennarar fá ekki launuð námsleyfi en hins vegar fá kennarar bæjarins það?

Enda fór svo að meirihluti nefndarinnar þ.e. báðir STH fulltrúarnir og annar fulltrúi bæjarins, Valgerður Sigurðardóttir, bókaði áskorum til bæjaryfirvalda að áætla fjármunum til námsleyfa eins og verið hefur.

þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Af pæjum

Var á Pæjumótinu í fótbolta á Siglufirði um helgina með dóttur minni. 90 skvísur úr FH og annað eins frá Haukum á svæðinu. Allar sem ein Hafnarfirði til sóma. Gengið var svona upp og niður eins og gengur og gerist. Skipulagning heimamanna var frábær og í raun ótrúlegt hve allt gekk vel og snurðulaust fyrir sig, sérstaklega þegar að haft er í huga að spilarar voru sennilega um 1.600 talsins. Hef verið á ófáum mótum en set þetta án vafa í fyrsta sæti hvað varða skipulag og framkvæmd.

Annað mál og íhugunarvert þessu tengt er þáttur foreldra á slíkum mótum, sem alflestir og í mjög miklum meirihluta voru til sóma, en þó ekki allir. Fagna því umræðu sem verið hefur undanfarði um þátt þeirra á mótum og kannski ekki vanþörf á. Dæmi um slíkt var:

Framámaður eins félags stóð við markstöng liðs "andstæðinganna" í yngsta aldurflokki og sagði markmanni að láta boltann vera, sem og barnið gerði og úr því varð mark sem gerði út um leikinn? Og svo hitt þegar að fullorðnir einstaklingar hafa uppi afar niðrandi ummæli um dómara og einstaka leikmenn eða lið sem keppt er við. Algerlega óviðeigandi og ekki við hæfi. Sem betur fer er ekki mikið um þetta, en þó allt of mikið.

Legg því til að það verði einfaldlega bannað á mótum sem þessum að argast út í dómarann og lið andstæðinganna og einstaka leikmenn þess. Mætti jafnvel taka upp verðlaun fyrir prúðasta og uppbyggilegasta stuðningsmannaliðið.
Blessuð börnin verða að eiga góðar minningar frá svona mótum og þáttur foreldra og forráðamann þeirra er mikil ef svo á að verða. Tap og sigra er hægt að vinna með á uppbygglegan hátt en það verður ekki gert með ummæli eins og að " þessi eða hinn dómarinn sé fífl" eða að "þessi hlussa sé tuddi"?

fimmtudagur, 5. ágúst 2004

Af einkavæðingu

Ögmundur Jónasson formaður BSRB er með frábæra grein um hina afar döpru reynslu Breta af einkavæðingu, sjón er sögu ríkari. Sjá hér

sunnudagur, 1. ágúst 2004

Stuðmenn og þjóðarsálin

Var staddur með mínu fólki í Húsdýragarðinum í gærkvöldi. Fín skemmtun hjá Stuðmönnum og fólk frá 3 -99 ára tók undir og söng með í hverju laginu á fætur öðru. Hljómsveit allra landsmanna hér að verki án alls vafa. Hef einu sinni verið vitni að sambærilegri uppákomu og í gærkvöldi.

Það var í Fredriksberg í Danmörku þar sem hin frábæra hljómsveit Shu-bi-dua ( Tek ekki ábyrgð á stafsetningunni) lék fyrir 40.000 manns. Þar kunnu allir lögin og textana, sungu hástöfum með og dönsuðu , nema ég, sem var eins og álfur út úr hól, kunni ekkert af þessu en fann mér til mikillar ánægju að ég var staddur mitt í dönsku þjóðarsálinni.

Í gærkvöldi var hin íslenska þjóðarsál mætt í Húsdýragarðinn og öllum ljóst að bandið verður auðvitað að flokka sem menningarverðmæti enda framlag þeirra til íslenskrar alþýðumenningar nú þegar mjög ríkulegt.

fimmtudagur, 29. júlí 2004

Tóbakssalar og Davíð Oddsson

Orð í tíma töluð, þó langt sé um liðið.  Á sér hliðstæðu í "markaðsátaki" bjórbransans í dag.

Fundur Æskulýðsráðs Reykjavíkur, dagurinn er þriðjudagurinn 22. febrúar á því herrans ári 1977. Dagskráliður 7.

"Rætt um auglýsingaherferð tóbaksseljenda sem stendur yfir. Formaður ráðsins, Davíð Oddsson, lagði fram eftirfarandi tillögu:

"Æskulýðsráð Reykjavíkur fordæmir þá herferð, sem hafin er í þeim tilgangi að hvetja m.a. ungt fólk til tóbaksnotkunar. Hvetur ráðið sérhvern borgara að gera sitt til þess að slík herferð renni út í sandinn, svo hún nái ekki að vinna það tjón, sema henni er ætlað.”

Tillagan var samþykkt samhljóða. Jafnframt var framkvæmdastjóra falið að beina þeim eindregnu tilmælum til kaupmanns þess, er verslun rekur í Skaftahlíð 24 ( við Tónabæ) , að hann fjarlægi tóbaksauglýsingar úr gluggum verslunarinnar".

Tek sérstaklega ofan fyrir formanninum fyrir þessa skeleggu bókun. Þurfum nokkrar svona bókanir og viðbrögð í dag gegn auglýsingaherferðum í áfengisbransanum, auglýsingar sem að langstærstum hluta er beint gengdarlaust á börn og ungmenni. Fara því miður yfir strikið átölulaust um þessar mundir, bæði siðferðilega og ekki síst lagalega. Vona hins vegar að það fari fyrir þeim eins og fór fyrir tóbaksauglýsingunum, hverfi, og þangað til að svo verður þá hvet ég fólk til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir

mánudagur, 26. júlí 2004

Sígarettu & "léttöls"auglýsingar

Sígarettuauglýsingar voru hér áður fyrr alsiða í íslenskum blöðum. Rakst reyndar á nokkrar  er ég var að grúska í gömlum dagblöðum á Þjóðskjalasafninu í dag. Svei mér þá það mátti hreinlega halda að retturnar öllum nöfnum sem þær hétu nú væru bara hreinlega meinhollar, þær voru með “bezta ilminn” og ég veit ekki hvað og hvað. Er það nema furða að blessaðir unglingarnir í þá tíð hæfu reykingar fyrr en ella undir þessum dæmalausa boðskap auglýsinganna.

Datt þetta svona í hug þegar að ég sá Kastljós sjónvarpsins í kvöld og varð vitni að því þegar að forsvarsmaður auglýsingabransans gerði m.a. lítið úr merkri BA ritgerð í sálarfræði frá Háskóla Íslands um áhrif hinna s.k. “léttbjórs” auglýsinga á ungt fólk þar sem fram kemur að 95 % þeirra sem sjá viðkomandi “auglýsingar” taka þær (með réttu ) sem bjórauglýsingar.
Forsvarsmaðurinn hélt því fram að það væri lítið að marka þessa merku rannsókn þar sem  ekki væru um “orsakasamband” að ræða?  Við hvað veit ég ekki. Dettur helst í hug að það sé við það að 100 % af unglingum sem sjá þessar auglýsingar fara ekki í meðferð. Í því samhengi mælir forsvarsmaðurinn af “dýpt” og sannfæringu, þó svo að það eigi ekkert skylt við hefðbundna aðferðafræði.

Mér fannst sami ilmur af þessum málflutningi og mér finnst af hinu illa þefjandi reykjarkófi frá sígarettum, sem þó auglýsingabransinn fyrir gnægð fjár reyndi á árum áður að sannfæra ungt fólk um að væri góður.

Hvet alla sem þetta lesa til að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir. Lög um bann við áfengisauglýsingum eru fyrst og fremst komin til vegna velferðarsjónamiða og eru lög um vernd barna og ungmenna, alveg á sama hátt og sígarettuauglýsingar. Dapurlegt að sjá auglýsingabransann taka þátt í að misvirða rétt barna og ungs fólks til að fá að vera í friði fyrir áreyti af þessu tagi.
Hvort vegur þyngra velferð barna og unglinga eða “frelsi” áfengisframleiðenda?


þriðjudagur, 20. júlí 2004

Tóm leiðindi

hafa þetta verið undanfarin misseri í þjóðmálunum og fjarskalega vont fyrir þjóðarsálina. Finnst lítið til koma til þeirra sem gera lítið úr okkar ágæta forseta og finnst sorglegra en tárum taki að lesa og heyra gegndarlausan óhróður "valinkunnra menntamanna".  Í mínum fræðum, uppeldis- og menntunarfræðum, mun hegðun af þessu tagi ótvírætt flokkast undir einelti. Mér finnst lítið til koma til þeirra sem  tala niður til almennings í landinu af hroka og dónaskap.
 
Finnst óviðeigandi að ríkistjórn landsins gangi fram fyrir skjöldu í því að misvirða stjórnarskrá landsins. Og mér þykir miður hve ódrengilega menn taka niðurlagi og með þvílíkum hótunum í garð okkar ágæta forseta Íslands.
 
Ísland er ekki hlutfélag þar sem barist er um áhrif eftir ráðandi eignarhlut. Ráðandi "hluthafar" geta hvorki deilt og drottnað né vaðið áfram eins og þeim sýnist.
Ísland er samfélag og sem betur fer sannar þetta  fjölmiðlafrumvarpsbrölt að þrátt fyrir allt virkar lýðræðið, sem betur fer.
 
Það sem eftir stendur er að ríkisstjórn landsins er rúin trausti. Ef markmið forsætisráðherra hefur einhvern tímann verið að gerast "landsföður" þá er hann sennilega eins langt frá því markmiðið og frekast komist verður.  
 
Vona samt að blessuð þjóðarsálin fari að hressast, ekki veitir af og hver veit nema  "strákarnir"  okkar í handboltanum reddi þessu, geri góða hluti á Ólympíuleikunum og allir verða ein þjóð - handboltaþjóð ?     

mánudagur, 19. júlí 2004

Sumarhús STH við Stykkishólm

Brá mér á Snæfellsnesið um helgina í góðra vina hóp, sem er nú vart í frásögu færandi, nema af því einu að á heimleiðinni kom ég við Stykkishólmi til þess að kíkja á hvernig framkvæmdum við nýtt sumarhús okkar STH félaga líður. 

Því er skemmst frá að segja að húsið verður tilbúið síðsumars. Búið er að koma húsum Starfsmannafélags Kópavogs og Garðabæjar fyrir á sínum stöðum. Við létum endurbæta teikningar með dyggri aðstoð STH félaga í tæknigeiranum. Seinkar aðeins málum en fyrir vikið fáum við frábært hús. Þetta er mjög veglegt hús, stórt, rúmgott og vel búið og ekki spillir glæsilegt  umhverfi og fallegt útsýni fyrir.

miðvikudagur, 14. júlí 2004

Saltvík 71

Er í miklu grúski þessa daganna og dvel á Borgarskjalasafninu í góðu yfirlæti. Þetta er fínt safn sem státar af afbragðs starfsfólki sem er boðið og búið við að sinna gestum safnsins. Var svo heppnin að taka þá greindarlegu ákvörðun að hefja nám við framhaldsdeildina í Kennaraháskóla Íslands fyrir tveimur árum. Er sem sagt að grúska í sögu íslenskra félagsmiðstöðva og freista þess að koma henni í vísindalegt horf. Eins og verða vill þá rekur á fjörur manns ýmis fróðleg gögn.

Eitt af því sem vakið hefur athygli mína eru gögn sem fjalla um hina frægu hátíð Saltvík 71. Einhvern vegin finnst mér sem að sagan hafi farið ómaklega með þessa miklu rigningarhátíð, sérstaklega í ljós þess að Þórsmerkurhátíðir um hvítasunnuhelgar um miðjan sjöunda ártuginn þóttu ekki par fínar og ljóst að Saltvíkurhátíðin var eins og sunnudagaskóli miðið við það sem á undan hafði gegnið. Það sama er upp á teningnum ef jafnað er við Uxa hátíðina sem fram fór fyrir nokkrum árum og varð fræg af endemum.

Saltvík 71 friður, spekt, flott músík, nokkurt kenndirí, en vandamál númer eitt, tvö og þrjú var afar leiðinlegt veður og vosbúð gesta af þeim sökum. Hef því trú á  og vona að sagan eigi eftir að setja hátíðina á verðugri stall en verið hefur er fram líða stundir.


mánudagur, 12. júlí 2004

Hafnfirska spilasveitin Runólfur

Hafnfirska spilasveitin Runólfur setti heimsmet í að spila Kamelljónið eftir Herbie Hancock. Bandið lék lagið samfellt í sex tíma á tennisvellinum á Víðistaðatúni s.l. laugardag. Fínt band sem bauð gestum og gangandi að spila með. Ekki slæmt að bjóða tónleikagestum að mæta á sviðið og spila með um stund. Flott band sem ber hafnfirskri tónlistaræsku gott vitni.

Í þeim efnum er einnig vert að minnast á Bararellurnar, frábært stelpuband sem fram komu í Gamla bókasafninu um daginn. Hörku rokkband með fjölbreytta hljóðfæraskipan , m.a fiðlu og blásara.

Góður tónlistarskóli + vettvangur til að æfa og spila á = gott tónlistarfólk, flott og fjölbreytt tónlistarlíf. Flóknara er það nú ekki.

miðvikudagur, 7. júlí 2004

"Eftir einn ei leiki neinn"

"Eftir einn ei leiki neinn" segir Andri vinur minn Ómarsson. Orð að sönnu og spurning hvort þessi vísu orð þurfi ekki að hafa í huga þegar að boltinn er annars vegar. Ef marka má boðskap Vífilfells þá er "fyllsta" ástæða til þess að vera á varðbergi gangvart drukknum leikmönnum. Þetta er jú hluti leiksins, ekki satt?

föstudagur, 2. júlí 2004

Einkavæddar járnbrautir

Einkavæddar Jarnbrautir her a nordur Jotlandi virka ekki vel. Fargjøld dyr og thjonusta litil sem engin, ferdir mjøg strjalar. By um 6 km fra motstad Ung i Norden og hef um ad ræda 10 ferdir a milli Bested og Hurup fra 06:30 - 23:30. Hef ekki hitt nokkra lifandi salu, en lesid tilkynningar um ad ekki se hægt ad kaupa mida um bord og ef madur er tekin midalaus um bord tha er sektin 500 d.kr. Upplysingar fast hvergi og midar eru keyptir i sjalfsala og bæir a hinu einkavædda svædi heita ekki lengur Hurup eda ødrum almennum bæjarnøfnum heldur 005 eda eitthvad annad tøluglidi. Vagnar gamlir og illa hirtir. Hinar vinalegu lestarstødvar med huggulegheitum a danska visu fyrir bi og standa yfirgefin eins og draugahus.

Af hverju ad kaupa eitthvad a 100 kr sem er ekki einu sinni 50 kr virdi. Af hverju ekki lata 100 kr vera 100 kronur. DSB jarnbrautirnar hinar rikisreknu hafa stadid sig med prydi i gegnum arin, trui ekki ødru en ad thetta lelega og omanneskjulega kerfi a nordur Jotlandi verdi til thess ad menn fari ser hægt i einkavædingunni. Betri thjonusta fyrir sama verd segja menn !!! , thvilik vitleysa og øfugmæli segi eg.

miðvikudagur, 30. júní 2004

Er á Ung i Norden

Er a mennigarmotinu Ung i Norden i Herup a nordur Jotlandi i Danmørku. Sigldum med hop vaskara islenskra ungmenna yfir hafid. Gekk vel ad øllu leyti nema Ægir var i ham vid Færeyjar. Urdu almargir nokkud sjoveikir af theim søkum, en tho ekki undirritadur.

Ekki kemur thessi undarlega stafsetnig min til af godu , malid er ad farsima minum var stolid um bord i ferjunni, get thvi ekki sent post i gegnum fistølvuna mina og hef adeins danska stafi. Vona tho ad thad komi ekki ad søk.

Færeyjar eru fagrar, ekki bara ur lofti, thær eru ekki sidri thegar ad madur siglir thangad, leidin liggur milli eyja a leidinni til Thorshafnar. Thorshøfn er afar fallegur bær en thvi midur er stopp Norænnu stutt, en tho er hægt ad skoda sig um i bænum i nokkra klukkutima.

Serkennilegt ad koma til Hjaltlandseyja, en ferjan stoppa einnig thar, en afar stutt og ekki gefst radrum til thess ad fara i land. Leirvik serkennileg, husagerdir allt adrar en i Færeyjum adrir litir og ekki laust vid ad ahrifa breska heimsveldisins gæti nokkud. Ørugglega margt ad sja thar og athyglisvert

laugardagur, 19. júní 2004

17. Júní, Löggan og verslunin 10 -11

17. júní, Löggan og verslunin 10 -11. Í ýmsu stendur maður í hlutverki framkvæmdastjóra 17. júní hátíðarhaldanna í Hafnarfirði. Flest allt af ánægjulegra taginu en því miður ekki alltaf. Það er að mörgu að hyggja og allt þarf þetta að stemma bæði í tíma og rúmi. Ég bý að gríðarlega dugmiklu samstarfsfólki og af þeim sökum hefur þetta gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig í gegnum árin.

Alltaf er samt eitthvað sem kemur upp og aldrei veit maður fyrirfram hvað það kann að vera. Í þeim tilfellum þá er það bara að bretta upp ermarnar og vinda sér í málið.

Árið í ár var engin undartekning. Þannig háttar til að Þjóðhátíðarnefnd gefur út sérstök (tjald)söluleyfi á hátíðarsvæðunum og eru leyfin einungis veit félagasamtökum sem liður í fjáröflun þeirra. Í ár fór kvöldskemmtunin fram á planinu við Hafnarborg og verslunarmiðstöðina Fjörð. Til þess að allt gengi nú vel fyrir sig ákvað nefndin með ærnum tilkostnaði að hafa sérstaka gæslu inni í verslunarmiðstöðinni enda vitað að veitingastaður og verslunin 10 - 11 væru með opið og að margt fólk yrði á svæðinu.

Nú brá hins vegar svo við að verslunin 10-11 kemur sér fyrir með sölubás á hátíðarsvæðinu í óleyfi og óþökk allra aðila. Þrátt fyrir vinsamleg tilmæli og ábendingar um að fjarlæga sölubásinn þá virti starfsfólk þær að vettugi. Þegar framkvæmdastjóri 10 - 11 tilkynnir undirrituðum (sem gefur út söluleyfi í umboði þjóðhátíðarnefndar) í símtali að verslunin hafi söluleyfi á svæðinu og muni ekki færa sig hvað sem tauti og rauli, þá var orðið fullljóst að það var einlægur ásetningur 10 -11 verslunarinnar á virða að vettugi allar reglur.

Þegar að svona var komið þá var auðvitað bara einn kostur í stöðunni sem var að kalla til Lögreglu. Lögreglan kannaði málið og frekar var það snautlegt að sjá starfsfólk 10 -11 taka saman sitt hafurtask og hafa sig á brott í lögreglufylgd fyrir framan nefið á fleiri þúsund manns? Hitt er einnig snautlegt í meira lagi að verslunarkeðjan skuli ætla að hafa fjáröflun af bláfátækum íþróttafélögum með þessum hætti?

þriðjudagur, 15. júní 2004

Húrra fyrir Sjónvarpinu

Húrra fyrir Sjónvarpinu fyrir að henda boðflennunni Carlsberg út úr umgjörð Evrópukeppninnar í fótbolta. Hef oft verið að velta fyrir hvílíkum félagskap fótboltinn er hafnaður í! Bjór og hamborgarar, þvílík blanda og þvílík vitleysa. Og í hvaða samhengi setur þetta forvarnarstefnu íþróttahreyfingarinnar?

"Carlsberg hluti af leiknum" eru sennilega ein mestu öfugmæli seinni tíma. Leikmenn falla einfaldlega á lyfjaprófi þar sem ein meginforsenda leiksins er að menn séu ódrukknir. Praktíserandi fyllibyttur eru ekki bara slappir í boltanum heldur einnig afar lélegar fyrirmyndir ungu íþróttafólki. Á fjölskyldan að setjast saman fyrir framan sjónvarpið og drekka Carlsberg ? Er það hluti af leiknum ?

Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl. Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar - forvarnir ? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleikinn sjálfur.

"Hluti af leikum" er því að henda þessum boðflennum út og það virðist mér Ríkissjónvarpið hafa gert og fyrir því tek ég ofan.

mánudagur, 14. júní 2004

Gamla bókasafnið

Gamla bókasafnið gegnir stóru hlutverki í hafnfirsku menningarlífi. Í kvöld voru vel heppnaðir tónleikar þar. Hljómsveitirnar Rain, stúlknasveitin Barbarella , Fjöllistahópur Mujaffa, voru meðal þeirra sem létu ljós sitt skína, allt saman ungt og efnilegt listafólk.
Gamla bókasafnið er vettvangur unglista og sem slíkur afar mikilvægur þar sem ungu og efnilegu listafólki af ýmsum sviðum gefst tækifæri til þess að koma fram með list sína og stíga sin fyrstu spor á listabrautinni.
Fínir tónleikar, flott listafólk og fullt hús. Veit bara á gott.

sunnudagur, 13. júní 2004

Besta bíó sem gert er í dag

Besta bíó sem gert er í dag
gerir Gunnar B Guðmundsson og hans lið í "Þeim tveimur". Brá mér sem sagt á menningahátíðina Bjarta daga í gær, nánar tiltekið í Bæjarabíó og sá í annað sinn hina rómuðu og verðlaunuð Karmellumynd.

Aðalatriðið var hins vegar frumsýning á kvikmyndinni "Konunglegt bros". Frábær (heimildar)mynd um hinn afar sérstaka "fjöllistamann" Friðrik Friðriksson og um leikstjóra heimildarmyndarinnar sem missir sig í þær pælingar að toppa fjöllistamanninn í gjörningum. Frábær mynd, þó svo að hún sé "skotin" í vídeó, flott hugmynd sem gerir sig vel.

Bíð eftir að kvikmyndasjóður fari að gjóa augunum hingað suður í Hafnarfjörð, það er löngu tímabært að Gunni og félagar geri "eina með öllu". Vona að þess verði ekki langt að bíða, mæti á svæðið þegar að því kemur og veit að þar verður bíó á heimsmælikvarða.

miðvikudagur, 9. júní 2004

Sáttmáli

Sáttmáli
Það var hátíðleg stund þegar að flest bæjarstarfsmannfélög í landinu undirrituð samstarfssáttmála í tengslum við komandi kjarasamninga á Hótel Loftleiðum þann 1. júní s.l.
Að samkomulaginu ( sjá www.samflot.is ) standa 14 félög bæjarstarfsmanna og líklegt að hugur fleiri félaga standi til samstarfs.

laugardagur, 5. júní 2004

Veit það ekki

Veit það ekki
en held að við höfum gengið of snemma í Evrópusambandið segir Markus hinn eistneski. Við vitum ekki hvernig þjóð við erum og hefðum þurft 10 – 15 ár til þess að komast að því. Árin undir ráðstjórnarríkjum reyndust okkur erfið og við vitum ekki lengur hver okkar raunverulegi þjóðarkarakter er. Hin eistneska þjóðarsál þarf tíma og rými sem ég er ekki viss um að finnist innan Evrópusambandsins.

Er sem sagt búin að vera í Tallinn í Eistlandi í erindagjörðum sem formaður UFN, samtaka norrænna félagsmiðstöðva, erindið að funda með samtökum félagsmiðstöðva þar í landi sem óðum eru að komast á legg. Í ráði er að bjóða hinum nýstofnuðu eistneskum samtökum aukaaðild að hinum norrænu samtökum. UFN hefur verið að aðstoða Baltnesku þjóðirnar varðandi uppbygginu í þessum málaflokki. Eistar er lengst komnir meðal Baltnesku landanna. Lettland og Litháen eiga lengra í land. Það er athyglisvert hve ólíkar þessar þjóðir eru þrátt fyrir landfræðilega nálægð. Tengsl landanna er mun minni en ætla mætti m.a. vegna ólíkar tungumála.

sunnudagur, 30. maí 2004

Vænn kostur - Ragnar Reykás

Vænn kostur - Ragnar Reykás
Veit það ekki en finnst einhvernvegin að tími Ragnars Reykáss sé kominn innan Sjálfstæðisflokksins. Sé það á hinum fyrrum digurbarkalegum frjálshyggjudrengjum sem hika ekki eitt sekúndubrot við að skipta um hugmyndakerfi úr frelsi yfir í helsi og standa vini okkar Ragnar Reykás feti framar í umskiptunum. Ragnar væri því hógvær og föðurlegur leiðtogi í samanburði við hin snörpu umskipti stuttbuxnadeildarinnar. Ragnar er væntanlega á lausu.

En sennilega
er það nú svo að Spaugstofan á eina bestu pólitísku analýsu seinni tíma með "sketsinum" þegar að vakinn er upp frjálshyggjudraugurinn ógurlegi sem síðan ræðst ekkert við og allt fer í vitleysu. Lýsandi fyrir hið pólitíska andrúmsloft um þessar mundir og þau átök milli valdablokka sem nú eiga sér stað í samfélaginu. Býst ekki við almenningur njóti góðs af því stríði frekar en fyrri daginn.

Almenningur
á enga hlutdeild í Kolkrabbanum eða Baugi nema síður sé. Veldi þessara beggja blokka byggir á sama prinsippi þ.e. því einu að taka mun meira til sín en þeim ber og það er auðvitað sótti í vasa almennings með einum eða öðrum hætti, t.d: með grjótharðri láglaunapóltík í bullandi góðæri , með okurvöxtum, okur þjónustugjöldum, með okri á matvörumarkaði, með gjafakvóta, og svona mætti lengi telja.
Í komandi kjarasamningum þarf verkalýðshreyfingin að hafa þetta í huga - góðærið er ekki bara fyrir fáa útvalda - eða hvað?

fimmtudagur, 27. maí 2004

Virðuleg athöfn


Virðuleg athöfn
og mikið fjölmenni lýsir jarðarför Þóris Jónssona vinar míns vel. Sennilega vel yfir 1.500 manns, Víðistaðakirkja fullsetinn sem og íþróttahús Víðistaðaskóla en athöfninni var varpað upp á risaskjá. Virðuleg kveðjustund og vel farið með. Flagga hér á dagskinnuni í minningu Þóris. Blessuð sé minning hans.

fimmtudagur, 20. maí 2004

Þórir Jónsson 1952 - 2004

Þórir Jónsson 1952 - 2004
"Það gengur ekki lengur að vera bíllaus , stoppum á bílasölu", sagði formaðurinn skyndilega. Var að skutla honum í vinnuna að afloknum hádegisfundi í Æskulýðs- og tómstundaráði Hafnarfjarðar. Nýttum tímann í þessum fjölmörgu ökuferðum til þess að fara í gegnum helstu mál í bransanum og ráða ráðum okkar.

"Fínn bíll, býð 200 þúsund á borðið, " sagði formaðurinn
"Gengur aldrei" segir bílasalinn umsvifalaust og heldur áfram "það eru sett 450 þúsund á þessa glæsikerru"
"Ekki þitt mál að skera úr um það, þitt hlutverk er að hringja í eigandann",segir formaðurinn og skömmu seinna "sagði ég ekki, hann tók tilboðinu. Ég kem með auranna eftir augnablik."

"Ég hef ekki hugmynd hvernig ég á að redda aurunum" sagði hann við mig, þegar að við erum komnir út af bílasölunni. Hringdi nokkur símtöl í kjölfarið , aurarnir fljótlega í höfn og kaupin gerð upp snarlega. Seljandinn, sem reyndist vera gamall nemandi formannsins, sagði brosandi " Gat ekki verið annar en þú"

Innan við klukkustund frá ákvörðun þar til að málinu var lokið. Engin aukaatriði, kjarni málsins klár og hin notadrjúga bifreið komin í drift - málið leyst, þurfti ekki að hugsa meira um það og strax farið í næstu verkefni sem voru að vanda fjölmörg.

Svona var Þórir Jónsson vinur minn og margar góðar minningar um hann koma upp í huga manns á þessari sorgarstundu þegar að hann er allur eftir hörmulegt bílslys.
Er maður lítur yfir farin veg þá þakkar maður fyrir þau forréttindi að hafa fengið að vera honum samferða í ýmsum verkum og ekki síst fyrir að hafa átt hann fyrir vin.
Börnum hans, fjölskyldu allri og unnustu votta ég mína dýpstu samúð, missir þeirra og sorg er mikil. Blessuð sé minning hins góða drengs Þóris Jónssonar.

þriðjudagur, 18. maí 2004

Í gær

Í gær
var haldin trúnaðarmannarástefna STH í Skíðaskálnum í Hveradölum.
Ráðstefnan var fyrsta stigið í undirbúning fyrir næstu kjarasamninga. Ræddar voru helstu áherslur í tilvonandi kröfugerð félagsins. Hvet félagmenn til þess að koma ábendingum til trúnaðamanna á sínum vinnustað. Annar fundur af svipuðum toga er ráðgerður í haust.

fimmtudagur, 13. maí 2004

Rafmagnað andrúmsloft

Rafmagnað andrúmsloft
var þegar að dregið var úr rafrænum launaseðlum (hvernig sem það er nú gert) í rafræna hafnfirska launamiða happdrættinu. Spenna og stuð við verðlaunaafhendingu sagði heimildamaður minn. 10.000 kall, í boði KB banka ( þessi sem græddi 7.000.000.000 krónur á fyrsta ársfjórðungi þessa árs ), og blómvöndur í verðlaun. Gott mál og bíð eftir að dregið verði um verðlaun meðal þeirra bæjarstarfsmanna sem eru í pappírsdeildinni.

Lifi jafnræðisreglan
dettur manni þó í hug og spurning hvort bæjayfirvöld leiti ekki á náðir Sparisjóðs Hafnafjarðar varðandi verðlaunafé fyrir pappírsliðið - bíð spenntur eins og smástrákur í sínu fyrst bingói - (launa)miði er möguleiki - spyr bara hvenær verður dregið ?

miðvikudagur, 12. maí 2004

Kjarni

Kjarni
málsins ekki alltaf ljós og ekki liggja allar leiðir um Kjöl. Hvað með það kemst ekki á framhaldsaðalfund fimm bæjarstarfsmannafélag í Munaðarnesi n.k. laugardag, fékk boðið allt of seint ( eða í dag þann 12 . maí sé reyndar á dagsetningu að bréfið er ritað í Hrútafirði þann 25. apríl s.l.) og verð í öðrum málum en FÍÆT Félag íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa er með ráðstefnu og aðlafund um helgina á Selfossi. Gott fólk og sterkur faghópur.

Hvað með það
veit ekki hvort ég hefði mætt, og þó? Hefði kosið aðra þróun meðal bæjarstarfmannafélaga í kjölfar síðustu kjarasamninga og á þá ósk eina að bæjarstarfsmenn geti fyrr en seinna skipað sér í eina sveit og öðlast sinn fyrri styrk og sess.
Kjölur var í fyrstu samstarf 13 félaga og hét þá Kjarni. Á vegferðinni hefur kvarnast nokkuð úr hópnum og ljóst að hugurinn stóð til mun víðtækara og stærra félags en nú er verið að stofna. Hitt er annað mál að skynsamlegt er að sameina nokkur fámenn félög. Ef það er markmiðið þá hefur það tekist og óska ég forsvarsmönnum viðkomandi félaga til hamingju með það og velfarnaðar á hinni oft á tíðum torfæru braut sem verkalýðsmál eru.

Gamla Samflotið
var afar öflug eining og mín skoðun er sú að bæjarstarfsmenn hafi einfaldlega ekki efni á því að koma sitt í hvoru lagi til kjarasamninga. Það er því von mín að Kjölur sjái sér samboðið að starfa með Samflotsfélögunum gömlu og það er einnig von mín að þau örfáu félög sem utan bandalaga hafa starfað komi einnig til liðs við okkur. Hagsmunir umbjóðenda okkar krefjast þess og ábyrgð okkar sem forystumanna er að tryggja að svo verði. Annað er aukaatriði. Látum ekki gust reiðinnar slökkva ljós skynseminnar.

mánudagur, 10. maí 2004

Ekki verður á allt kosið

Ekki verður á allt kosið
í blessaðri tilverunni. Það er hverjum verkalýðsforingja ljóst og ýmislegt er það sem betur má fara, sumt er óhjákvæmilegt, annað sem kannski hefði verið hægt að breyta til betri vegar og svo er auðvitað fullt af atriðum sem gengu eftir.

Datt þetta í hug í aðdragandi kjarasamninga og hugurinn hvarflar af því tilefni í smiðju hins mikla skálds Guðmundar Böðvarssonar sem orti svo snilldarlega um hin glötuðu tækifæri í ljóði sínu Rauði steinninn. Læt hér fylgja með fyrsta og síðasta erindið:

Í vegarins ryki lá rauður steinn
við riðum þar hjá, eins og gengur,
með hávœrum þys í þeysandi hóp.
Þá var ég ungur drengur.
Og röðull skein þá
hverri rós á brá.
Við riðum þar hjá.
------------------------------
Minn glitrandi steinn, hví greip ég þig ei
úr götunni höndum tveimur?
Hví bar mig þar fram um? Þar beið mín þó
heill blikandi unaðarheimur.
Eins og rúbínsteinn
varst þú rauður og hreinn,
eins og rúbínsteinn

Efinn þessi fylgifiskur verkalýðsforingja ávallt erfiður, var eitthvað sem betur mátti fara, voru einhver tækifæri sem ekki voru nýtt, var gegnið til góðs? Veit það ekki alltaf?

Datt þetta í hug í aðdraganda kjarasamninga. Samningar við ríkið lausir í haust og upp úr næstu áramótum fara kjarasamningar við launanefnd sveitarfélaganna í gang.

Verða sennilega ekki á skáldlegu nótunum og ekki um hin glötuðu tækifæri né um blikandi velsæld. Hins vegar þörf hugsun og áminning um að láta ekkert fara fram hjá sér sem hugsanlega getur komið okkar hagsmunum til góða.

fimmtudagur, 6. maí 2004

Stjórn STH ákvað

Stjórn STH ákvað
á fundi sínum 6. maí að selja ekki hótelmiða í ár. Ástæður eru tvíþættar.

1. Miðarnir hafa farið hækkandi
í innkaupum og raunverð þeirra er allt of hátt og ekki í nokkru samræmi við verðgildi. Gisting á heimavist án baðs og morgunverðar er einfaldlega allt of dýrt og í raun merkilegt að verðlag hér á landi sé með þeim hætti að gisting sem ekki nær einni stjörnu sé svipuðu verði og þriggja til fjögurra stjörnu hótel i Danmörku? Einnig hefur það farið fyrir brjóstið á mörgum félagsmönnum að fólk þarf að tilkynna sérstaklega að það sé með hótelmiða og er gert panta með nokkrum fyrirvara. Oft allt upppantað þrátt fyrir góðan fyrirvara og einhverjir talið að farið sé með sig sem annars flokks kúnna

Til að miðar þessir nýtist kaupgetu launafólks þarf því að greiða þá verulega niður. Það getur ekki verið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að "styrkja greinina" með þessum hætti og meðan verðlag til hreyfingarinnar er með þessum hætti er einfaldlega ekki hægt að eiga í þessum viðskiptum.

2. Við erum að fjárfesta
í nýju og glæsilegu sumarhúsi við Stykkishólm og við höfum verðið að taka íbúðina Akureyri í gegn. Endurnýjaður var pottur í Siggubæ og í Munaðarnesi er verið að "pottavæða". Stjórnin telur mikilvægari að einbeita sér að þessari uppbygginu á næstunni í stað þess að eyða miklum fjárhæðum í allt of dýra hótelmiða.

Hvað framtíðin ber
í skauti sér er óljóst en víst að möguleikar eru margir . Ekki er loku fyrir það skotið að semja við erlenda aðila um hótelmiða. Fargjöld til og frá landinu er ódýr og ef við bætist ódýrt hótel þá er frí að slíku tagi orðin verulega hagkvæmur kostur og vænlegur. Einnig má vel vera og vonandi að ferðaþjónustan hér að landi fari að endurskoða verðlag sitt. Eins og staðan er í dag það hefur íslenskt launafólk ekki efni á að ferðast um í eigin landi. Meðan að svo er þá er eitthvað að!

miðvikudagur, 5. maí 2004

Sniðganga / bojkott

Sniðganga / bojkott
Hraunið fjarri lagi ef þú ert í jakkafötum og brýtur lög. Tryggingarfélögin sleppa létt frá víðtæku ,lagvarandi og ólöglegu samráði. Olíufélöginn freista þess að semja? Velti fyrir mér hvað það er í þjóðarsálinni sem gerir það að verkum að fólk lætur þetta ganga yfir sig og hristir þetta af sér eins og hverja aðra óværu. Hve mikla og langvarandi óvirðingu má ráðherra sína lögum landsins? Hve bjánaleg lög er hægt að setja og hve langt er hægt að ganga fram af fólki átölulaust eða án nokkurra eftirmála Er íslenska þjóðarsálin eins og maðurinn sem ávallt sagði þegar að "gaf á" í lífsins ólgu sjó, "verra gat það verið". Velti þessu oft fyrir mér ,ótrúlegt langlundargeð landans og Pollyönnu-legt viðhorf

Ef manni er misboðið
Var heppin að vera uppfóstraður um í tíma í ríki Svía. Lærði mikið af þeim og verð fyrir það þakklátur. Varð það á, þegar ég nýkomin til landsins fór út að borða með nokkrum samstúdentum mínum, að panta kóka kóla með matnum. Sá strax á félögum mínum að ég hafði gert eitthvað vitlaust en vissi ekki hvað ? Eftir nokkurt fum þá vindur skólabróðir minn sér að mér og segir:"Árni ég veit að þú ert nýkomin til landsins og ekki víst að þú vitir að Kóka kóla kompaníð hefur orðið uppvíst að glæpum gangvart starfsfólki sínu í tilteknu landi í suður Ameriku og það sem verra er að baráttumenn þessa fólks hafa horfið sporlaust... til þess að sýna hug okkar í verki gagnvart fyrirtækinu þá er samstaða um það að sniðganga kóka kóla í þessu landi "

Peningakassinn er kjörkassi fyrirtækjanna
Salan fór niður í 5 % af venjulegri sölu á nokkrum mánuðum og hefur nú fjölmörgum árum seinna ekki náð fyrri styrk.
Skilaboðin skýr - fólki misbýður - fólk sýnir hug sinn í verki á einfaldan en áhrifaríkan hátt.
Af þessu getum við mikið lært og ætti að vera okkur til eftirbreytni sérstaklega á þessum "síðustu og verstu" þar sem ærin tilefni hafa gefist til þess að sýna hug sinn i verki. Peningakassinn er kjörkassi fyrirtækjanna og það sem ekki kemur í hann eru ekki síðri skilaboð en t.d. þau skilaboð sem almenningur sendir stjórnmálamönnum í formi kjörseðla í kjörkassanna á fjögurra ára fresti. Hvoru tveggja á maður að nýta sér til hins ýtrasta hvort sem um er að ræða að sýna hug sinn varðandi siðlaust viðskiptilíf eða siðlausa pólitík.

mánudagur, 3. maí 2004

Ég sleppi aldrei "góðu röfli"

Ég sleppi aldrei "góðu röfli"
Duttu tvö góð í hendur mínar um helgina.

Röfl eitt
Samtök atvinnulífsins gráta yfir öllum þessum frídögum sem að þeirra sögn slíta sundur vinnuvikuna? Hvað með 1. maí og aðra hátíðardaga þegar að þeir koma upp á helgum? Af hverju eru þeir ekki bættir með frídegi t.d. fyrir eða eftir helgina? Á það að vera hipsum happs og allt eftir því hvernig árið liggur hvernig frí verða? Nei segi ég, það ætti ekki að vera nokkur spurning um að taka sérstakt leyfi ef viðkomandi dag ber upp á helgardag enda eru þetta umsamdir frídagar.

Röfl tvö
Hafnarfjarðarbær sem sérstaklega verðlaunar starfsmenn þá er þiggja eingöngu rafræna launaseðla greiðir ekki út laun fyrr en á fyrsta virka degi mánaðarins? Þetta þýðir með öðrum orðum að flestir starfsmenn Hafnafjarbæjar fá útborgað þriðja þessa mánaðar? Einhverjir sennilega blankir um helgina af þessum sökum og svo hinir sem ekki njóta vaxta sem skyldi . Stirður enter takkinn þegar á að millifæra launin og virðist sem tölvutæknin sé víðsfjarri. Ætti að vera einfalt mál að kippa í liðinn á "tölvuöld"???

laugardagur, 1. maí 2004

1. maí ávarp

1. maí ávarp flutt í Grundarfirði og í Ólafsvík
Gleðilega hátíð

Verkalýðsbaráttan er
eins og sagan endalausa. Þegar að einum áfanga er náð þá blasir hinn næsti við. Verkefnin ótæmandi og stöðugt ný sem bætast við.

Ef litið er til lengri tíma þá er ljóst að margt hefur áunnist í baráttunni hér landi síðustu áratugina og ef við lítum til enn þá lengra tíma og allt að tímaum iðnbyltingarinnar í Englandi um miðja 18 du öldina, þar sem að líf kolanámuhestsins var meira virði en hins þrælkað barns. Hesturinn mun sterkari og bar mikið magn kola úr námunum og því verðmætari vinnukraftur. Börnin allt niður í 4 -5 ára gömul voru veikburða en þóttu hins vega afar nýtileg við að krafla kol úr þröngum útskotum í námunum. Þau entust illa, urðu lasburða, mörg létust, mörg flýðu og lögðust á vergang. Réttindi barna voru minni en vinnudýra og voru þau sett skör neðar. Breski rithöfundurinn Charles Dickens gerir þessum ömurlegu aðstæðum barna og verkafólks góð skil í bókum sínum.

Sem betur fer þá
hefur margt áunnist frá þessum ömurlegu tímum, það hafa margar orrustur unnist og mörgum árásum á kjör alþýðunnar hefur verið hrundið á bak aftur. Setning vökulaganna um 1920 á Íslandi var mikil áfangi og fjarri því sjálfgefin.

Í þessu samhengi það sjáum við greinileg að gríðarlega margt hefur áunnist. Við vitum einnig að það hefur ekkert komið upp í hendurnar á okkur baráttulaust. Fyrir hverri einustu breytingu hefur þurft að hafa fyrir. Þetta segir okkur og sýnir að verkalýðshreyfingin hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerir enn og hreyfingin mun gegna mikilvægu hlutverki áfram.

Það er okkur því nauðsyn að styrkja innviði okkar með margvíslegum hætti. Við verðum að fá unga fólkið til liðs við okkur, við verður að fá hinn almenna félagsmann til að vera virkari og við þurfum að láta rödd okkar heyrast.

Það er engin tilviljun
að fyrir Alþingi liggi tillaga frá þingmanni úr stuttbuxnadeild íhaldsins um að afnema aðild fólks að verkalýðsfélögum. Járnfrúin hin breska sem féll af stalli með eftirminnilegum hætti, og skyldi samfélagið eftir í upplausn, barðist hatrammri baráttu gegn verklýðshreyfingunni bresku og með þeim hætti og árangri að en þann dag í dag hefur hún ekki borði sitt barr.

Það er því varhugavert og allrar varkárni vert að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hér á landi. Verkalýðshreyfingin er litin hornauga og talinn standa í veginum - fyrir hverju spyrja menn? Svarið er augljóst ! Í veginum fyrir grímulausum eignatilfærslum í íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfinginn hefur leyft sér að hafa skoðanir á skiptingu þjóðarteknanna. Verkalýðshreyfingin hefur leyft sér að hafa skoðanir á einkavæðingu og að eignum samfélagsins séu færðar sérvöldum gæðingum
Verkalýðshreyfingin er ógn við þá grímulausu gróðahyggju þeirra afla sem nú ráða íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Verkalýðshreyfinginn er óþægileg því hún stendur í vegi fyrir markmiðum óheftrar gróðahyggju fámennra hópa samfélagsins og truflar þau margmið verulega. Sendisveinar þessara hagsmunaafla eru á Alþingi á stuttbuxunum einum saman og settir sérstaklega í það verkefni að ráðast að hreyfingunni með öllum tiltæknum ráðum.

Verkalýðhreyfingin er samfélagslega ábyrg
gerða sinna og um okkur er samt sem hægt að segja eins og fram kemur í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá" Þjóðarsáttarsamningarnir eru það eldmeti sem núverandi góðæri og velferð byggir á. Við höfum hins vegar ekki fengið sanngjarnan hlut nema síður sé og þrátt fyrir einhverja mælanlega kaupmáttaraukningu almennings þá er hún í engu samræmi við þann ofurgróða sem bankar - og fjármálastofnannir sýna. Okurvextir , ofur þjónustugjöld, verðsamráð olíufélaganna, fákeppni á matvörumarkaði og hlutfallslega hátt vöruverð miðið við samkeppnislöndin gerir það að verkum að hlutdeild almennings í góðærinu er í engu samræmi við þær fórnir sem færðar hafa verið.
Hámarksávöxtun hlutbréfa, hámarksarðsemi,og skyndigróði er hið eina markmið margra fyrirtækja ,ýtrustu einkahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Afkomutölur fyrirtækja í landinu sýna svo ekki verður um villst að ráðrúm er til tekjuskiptingar með öðrum og sanngjarnari hætti en verið hefur.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki
að deila gæðum þó svo að stundum geti virst að svo séu þeirra meginmarkmið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa sátt og samlyndi um helstu gildi og um leikreglur samfélagsins. Í dag fer því víðs fjarri að sátt og samlyndi ríki um skiptingu gæða í samfélaginu og í raun sjaldan verið eins mikil ójöfnuður og nú um þessar mundir. Stjórnvöld hafa ekki haft getu eða vilja til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til þess að sátt náist

Oft er deilt á hinn opinbera geira.
Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í flestum þeim tilfellum þar sem það á rétt á sér, þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlömb misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa með störfum sínum. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra.

Einkavæðing hefur hvergi leitt til
lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi sem kostað hefur ýmis samfélög gríðarlegar fjárhæðir, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Nýleg lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkarekinn einokun er sennilega versta og kostnaðarsamasta rekstraform fyrir samfélagið sem völ er á þegar að upp er staðið.

Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa
sagði ég hér í upphafi. Orð að sönnu, hún þarf að styrkja innviði sína og hún þarf að láta rödd sína heyrast vel og víða og hin ýmsu verkalýðsfélög þurfa að mæla einum rómi. Það þarf að þétta fylkinguna og efla. Það þarf að hvetja unga fólkið til dáða og virkni innan hreyfingarinnar. Hin gömlu klassísku sannindi um að "sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér" er í fullu gildi. Leggjum á eitt til að svo megi verða og þá styrkjumst við og þá mun okkur farnast vel í hinum mörgu og erfiðum verkefnum framtíðarinnar

miðvikudagur, 28. apríl 2004

Ég held að þessarar ríkisstjórnar

Ég held að þessarar ríkisstjórnar,
sem vonandi fer frá sem fyrst, verði helst minnst fyrir stanslausar og óbilgjarnar deilur sínar við öryrkja árum saman, hennar verður minnst fyrir látlausar árásir á Hæstarétt og óvirðingu við dómskerfið, hennar verður minnst fyrir undarleg viðhorf gagnvart innflytjendum, hennar verður minnst fyrir skraddarasaumuð ofur eftirlaunalög varðandi sérhagsmuni einstakra stjórnmálamanna, hennar verður minnst fyrir fálæti gagnvart vaxtaokri og verðsamráð af margvíslegum toga, hennar verður minnst fyrir að selja eigur almennings á tómbóluprís til útvaldra, hennar verður minnst fyrir að gefa auðlindir sjávarins til fárra útvaldra og festa í sessi kvótabraskið, hennar verður minnst fyrir byggðaröskun, hennar veður minnst fyrir að klúðra heilbrigðiskerfinu, hennar verður minnst fyrir skattpíningu, hennar verður minnst fyrir fálæti og dugleysi gagnvart hagsmunum og velferð alþýðunnar, hennar verður minnst fyrir grjótharða hagsmunagæslu í þágu sérstakra auðhópa og hennar verður minnst fyrir árásir á aðra slíka sem eru stjórnvöldum ekki þóknanlegir.

Eftirmæli: Hagsmunagæsla fyrir útvalin hóp hins íslenska aðals - tókst vel, en ansi langt seilst í að halda "silfurskeiðunum" á sínum stað, tilgangurinn helgaði meðalið.

Velti fyrir mér hvort við eigum þetta skilið - einhverjir kjósa þennan mannskap ítrekað -og svona er nú lýðræðið - sennilega einhverjir með óbragð í munninum eins og einu sinni var svo snyrtilega orðað.

Mun hins vegar fagna þegar að sér fyrir brotthvarf þessara ríkisstjórnar, mun jafnvel skála við einhverja vini mín af tilefninu - Bermúda skál - varla.

mánudagur, 26. apríl 2004

Trúnaðarmannafundur í hádeginu

Trúnaðarmannafundur í hádeginu
Trúnaðarmenn STH og stjórn félagsins hittust í hádeginu til skrafs og ráðagerða. Nú er meiningin að efna til umræðu í félaginu um áhersluatriði í næstu kjarasamningum. Trúnaðarmenn á viðkomandi vinnustöðum munu því safna í sarpinn á næstu vikum. Meininginn er síðan að efna til trúnaðarmannráðstefnu þar sem helstu línur verða skerptar og nýttar í frekari kröfugerð fyrir væntanlega kjarasamninga.

sunnudagur, 25. apríl 2004

Gullfallegar þessar Færeyjar

Gullfallegar þessar Færeyjar
verð ég að segja, þó svo að ég hafi aldrei komið þangað. Var svo heppinn að fljúga yfir eyjarnar í dag sem og s.l. miðvikudag og viti menn í bæði skiptin var heiðskírt og eyjarnar hinar mörgu og fögru blöstu við út um gluggann eins og landakort. Vegna starfa minna innan hins norræna samstarfs þá flýg ég oft þarna yfir á leið til Kaupmannahafnar en hins vegar er því miður fremur sjaldgæft að sjá eyjarnar úr 35.000 fetum og hvað þá tvisvar í röð.

Hef ekkert nema gott eitt
af færeyingum að segja , hef unnið nokkuð með þeim í Norðurlandasamstarfi og líkað vel enda upp til hópa gott fólk. Lenti þó í því fyrir mörgum árum, þegar ég hitt færeying í fyrsta sinn að ég hældi viðkomandi fyrir hve góða skandinavísku hann talaði.
Ekki var okkar maður beint kátur með hólið og tjáði mér umsvifalaust að þessi skandinavíska sem hann talaði væri daglega kölluð færeyska og sem slík nyti hún alþjólegar viðurkenningar og að ég sem íslendingur ætti manna best að ...... o. sv.fr. Bað vin minni innlega og snarlega afsökunar, reynslunni ríkari,án frekari eftirmála og án þess að nokkurn frekari skugga bæri á samstarfið.

föstudagur, 23. apríl 2004

Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar
Sem svo sannarlega er raunin hér í Kaupmannahöfn.. Er sem sagt staddur þar ásamt föngulegum hópi starfsmanna ÍTH sem eru í námsferð. Margt gott hægt að læra af danskinum á sviði félagsmiðstöðvamála sem og á sviði félagsmála almennt.

Athyglisvert er starf lögreglunar á sviði æskulýðsmála, svo kallað PUK starf eða Polisens ungdomsklubber. Fyrirbyggjandi hópastarf í fyrirrúmi og markmiðið að snúa unglingum í áhættuhópum inn á réttar brautir. Frábært starf og árangursríkt, öllum til heilla , einstaklingnum sem og samfélaginu.

þriðjudagur, 20. apríl 2004

Hvimleiður þessi draslpóstur

Hvimleiður þessi draslpóstur
og þessir "hi there" vírusar. Reyndi að kveða þetta lið í kútinn, með takmörkuðum árangri. Og þó, því einhverjir vilja ekkert af mér vita lengur.

Ráð mitt er því
þetta: Búðu til einfalt skjal í wordpad og skírðu það til dæmis bigboom.exe og í hvert sinn sem viagrapóstur eða annað rusl kemur þá reply-ar maður (án þess að opna viðkomandi skjal og alls ekki viðhengið) og sendir viðhengið, hið sauðmeinlausa textaskjal með hinu ógnvekjandi nafni bigboom.exe, með.
Og viti menn, ég er ekki frá því að hinir hrekklausu en afar upp á þrengjandi sölumenn, margir hverjir, verði snarlega afhuga frekari samskiptum við mig og ekki græt ég það.

Hitt er öllu verra
að margir af þessum dónum og boðflennum í póstkerfinu hylja slóð sína og því erfitt að senda þeim kveðjuna góðu til baka. Ef einhver kann ráð við því þá þætti mér vænt um að fá línu um aðferðina.

mánudagur, 19. apríl 2004

Ekki fer miklum fréttum af rafrænum happdrættismálum

Ekki fer miklum fréttum af rafrænum happdrættismálum
hjá Hafnarfjarðarbæ. Ekki hefur nokkur maður sést missa sig í taumlausri gleði yfir óvæntum feng. Það er sem sagt sama smotteríið til útborgunar hvort sem maður fær rafrænan launaseðill eður ei. Tvennt kann að valda tíðindaleysinu þ.e. að vinningar voru óverulegir eða hitt að um slíkar fúlgur sé að ræða að viðkomandi vilji alls ekki gefa upp nafn sitt.

Þetta ku vera alsiða hjá hinum stóru lottófyrirtækjum. Þar er einnig boðin fjármálaráðgjöf. Hver veit nema að okkar ástkæra rekstrarteymi sitji nú með sveittan skallann í ráðgjafavinnu með hinum heppna bæjarstarfsmanni sem vann þann stóra í raf-launaseðla-happdrætti bæjarins? Eða þá hitt að áreiðanleiki dagsetningarinnar 1. apríl ( dregið 1. apríl!!!!) sem veldur nokkrum ugg, enda margt brallað á þeim merka degi sem hefur lítið með raunveruleikann að gera ?

Veit það ekki - bíð hins vegar spenntur tíðinda af þessum vettvangi og mun að sjálfsögðu deila þeim tíðindum með lesendum síðunnar.

miðvikudagur, 14. apríl 2004

Ólafur Þór vinur minn

Ólafur Þór vinur minn
og kollegi í Sandgerði stendur í stórræðum þessa daganna. Æskulýðsfulltrúinn Ólafur er látinn kenna á því sem minnihlutamaðurinn og bæjarfulltrúinn Ólafur gerir eða finnst? Njóta opinberir starfmenn ekki kjörgengis eða almennra lýðréttinda og þurfa opinberri starfsmenn að afsala sér þátttöku í lýðræðislegri umræðu samfélagsins? Nei segi ég bæjarstarfsmenn hafa öll almenn lýðréttindi og ég undrast yfir þeirri lágkúru sem vini mínum er sýnd með því að sparka í æskulýðsfulltrúann fyrir það sem bæjarfulltrúinn gerir.

Hef sjálfur sem embættismaður og verkalýðsforingi
fengið að kenna á því, en í afar litlu mæli, enda sem betur fer flestir stjórnmálamenn sem hafa gæfu til þess að skilja á milli hlutverka og embætta er fólk gegnir hverju sinni.

Í Sandgerði
er því ekki að skipta um þessar mundir og synd að harðduglegur og vandaður embættismaður eins og Ólafur Þór Ólafsson skuli í raun flæmdur úr starfi fyrir það eitt að vilja vinna bæjarfélagi sínu gagn með þátttöku í bæjarstjórnarmálum. Ráðstjórn af versta tagi og vinnubrögð sem eru engu bæjarfélagi til sóma.

laugardagur, 10. apríl 2004

Um leið og ég óska lesendum síðunnar gleðilegra páska

Um leið og ég óska lesendum síðunnar gleðilegra páska þá læt ég fylgja með þessa hugleiðingu:

Er bjart framundan
í kjaramálum ? Jafnvel segja einhverjir , en mörg ljón verða í veginum, segja aðrir . Öruggt er því orð sem sennilega á ekki við á komandi misserum. Röksemdir vinnuveitenda og málflutningur allur sem endranær hinn neikvæðasti í garð launafólks. Komandi kjarasamningar verða því erfiðir og sennilega þeir átakamestu um langa hríð. Ég veit það eitt af reynslunni að hlutdeild launafólks í góðærinu er aldrei auðsótt.

Góðærið
er því fyrst og fremst átök um skiptingu þjóðartekna og auðs og í þeim efnum gefa hin efri lög samfélagsins sem og vinnuveitendur ekkert eftir.
Efalítið mun þetta ástand verða viðvarandi ef ekkert verður að gert. Líklega munu stéttarskil og stéttaskipting aukast og þeir efnameiri auðgast enn frekar en orðið er á kostnað þeirra sem þegar hafa úr litlu að spila.

Samtakamáttur
verklýðshreyfingarinnar er og verður lykilatriði. Kjarabætur munu ekki fást með öðrum hætti og því nauðsynlegt að þétta liðsheildina og vera betur í stakk búinn að takast á við þetta óréttlæti sem ein heild launþega. Að öðrum kosti nást ekki fram markmið um réttláta skiptingu þjóðartekna og um aukin og sanngjarnan hlut launafólks.
Þetta er því miður hinn harði veruleiki og um þessa óréttlátu skiptingum liggja allar helstu átaklínur í íslensku samfélagi. Innan skamms hefst undirbúningsvinna varðandi kjarasamningana. Grundvallaratriði í þeim efnum verður að vera góð samstaða launafólks og sterk málafylgja fyrir bættum kjörum.

þriðjudagur, 6. apríl 2004

Fínn aðalfundur hjá Samflotinu

Fínn aðalfundur hjá Samflotinu
og ekki síst baráttuhugur í mannskapnum, er mér tjáð. Komandi samningar verða erfiðir og því nauðsynlegt að safna liði og efla liðsandann fyrir væntaleg átök. Þátttaka var fín og nokkur félög að koma til liðs að nýju eftir smá fjarveru. Samflot bæjarstarfsmanna mun því fyrr en seinna hefja undirbúning að kjarasamningsgerð, enda innan við ár þar til samningar verða lausir. Það verður að mörgu að hyggja og margt úr síðustu samningalotu sem er "geymt en ekki gleymt"

fimmtudagur, 1. apríl 2004

Loðmundur Norðfjörð sendi þennan pistil sem birtur er algerlega án ábyrgðar

Loðmundur Norðfjörð sendi þennan pistil sem birtur er algerlega án ábyrgðar

Davíð er að hætta , Jón Júl er hættur og sjálfur er ég orðin hálfslappur

Þau merku
tíðindi hafa spurt út og jafnvel hingað til Svíaríkis, þar sem ég er nú staddur, að Jón vinur minn Júlíusson sé hættur sem formaður Starfsmannafélags Kópavogs. Og það sem er en merkara er að hann hafi kosið það sjálfviljugur. Hvorki maðurinn með ljáinn eða hið harðsvíraða lýðræðisbrölt og kosningar ná ekki að granda honum, eins og alsiða er í þessum bransa . Enda skilst mér að viðkomandi spóki sig nú í friði og spekt, á aðalfundi Samflots bæjarastarfsmanna, á friðarstóli og ræði málin eins og sá sem reynsluna telur sig hafa og gefur ráð, óumbeðin, til hægri og vinstri ?

Mér er jafnvel tjáð
að ræða hans sem fráfarandi formanns SfK hefði verið (svo ég noti nú annarra orð ) allt að því verulega væmin og að einhverjum félagsmönnum SfK hafi ekki tekist að hemja tilfinningar sínar, sérstaklega er ræðan var í hámarki, þeim hafi vöknað um augun eins og ungabörnum, með tilheyrandi ekkasogum og án hliðstæðu ef frá er talið er viðkomandi brugðu sér á stórmyndina Titanic hér um árið.

Samningar
ganga, eins og fólk veit, út á það að drekka kaffi og borða vínarbrauð. Og það verð ég að segja að annan eins dugnað og Jón hefur sýnt í samskiptum sínum við vínarbrauðin í gegnum árin er án alls efa með því besta sem gerist í bransanum. Og ekki bara það, Bridgespilari er hann góður, bæði með eða án svindlkerfa. Jón hefur t.d. aldrei látið þetta "bögg" (ónæði) sem samningafundirnir vissulega eru, slá sig út af laginu varðandi næstu sagnir.

Aðeins einu sinni
hef ég haft verulegar athugasemdir við hátterni hins afgengna formanns en það var þegar ég og gjaldkeri STH lékum Monopóly (með miklum og góðum arði að við töldum) við formanninn og gjaldkera SfK. Hneykslið varð algert enda tilefnið ærið. Formaðurinn þáverandi og gjaldkerinn voru staðnir að víðtækum fjárdrætti, stakri fjármálóreiðu og undanskoti eigna (sem "féhirðir" SfK hafði einnig stolið)

Nú taka við annasamir tímar
hjá formanninum fyrrverandi í embættismennskunni, að sögn eru heilu stæðurnar af ónöguðum blýöntum sem bíða örlaga sinna. Og nú koma vel þjálfaðir kjálkarnir, eftir allt vínabrauðsátið, vel að notum.

Skarð formannsins (fyrrverandi)
verður vandfyllt. Hver á að drekka allt þetta kaffi og hver að borða öll þessi vínarbrauð? Verður veröldin söm ? - veit það ekki ? Verða ekki alltaf einhverjir að naga blýanta - gakktu hæg inn um gleðinnar dyr í þeim efnum! En að lokum þetta hafðu þakkir fyrir framlagið ( í eintölu) þitt til verklýðsmála og gangi þér sem best í reglugerðar-riddara-mennskunni
L. Norðrfjörð

mánudagur, 29. mars 2004

Aðalfundur Samflots

Aðalfundur Samflots
bæjarstarfsmanna verður haldin þann 1. apríl n.k. að Geysi. Þátttaka félaga er framar öllum vonum en á þessum fundi mæta þau félög sem ætlað aða standa saman að næstu kjarasamningum. Þegar að þessar línur eru settar í rafrænt form þá hefur einungis eitt félag, STAK á Akureyri afþakkað gott boð um þátttöku.

Ekki er vitað á hvern veg Akureyringar hugsa sér næstu samningalotu en samkvæmt fréttum fjölmiðla í gær þá virðist svo sem að þátttaka í hinu nýja félagi Kili, sem Akureyringar hafa haft veg og vanda að, verði ekki eins almenn og gert var ráð fyrir. Tvö stór félög , Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum og Starfsmannafélag Dala-og Snæfellsness höfnuðu nánast samhljóða aðild að Kili á aðalfundum sínum um helgina.

fimmtudagur, 25. mars 2004

Á þriðja tug samtala

Á þriðja tug samtala
mun eiga sér stað varðandi starfsmatið. En í gær var fundur í Gamla bókasafninu með því fólki sem lenti í úrtaki og mun fara í víðtöl á næstu dögum. Valdimar Þorvaldsson formaður Starfsmannafélags Akraness og nefndarnmaður í "Samstarf" sem er framkvæmdanefnd starfsmatsins, kynnti starfsmatskerfið og hvernig staðið er að framkvæmd þess hér í bæ. Allar upplýsingar um starfsmat er hægt að nálgast á heimsíðu STH og hvet ég félagsmenn og annað áhugafólk um starfsmat að kynna sér málið.