miðvikudagur, 10. nóvember 2004

Anna Pálína Árnadóttir


Þau verða fáfengileg viðfangsefni dagsins þegar að maður stendur frammi fyrir forgengileika tilverunnar og lífsins. Og á slíkum stundum staldrar fólk við og gefur gaum að hinum sönnu verðmætum. Þetta rann í gegnum huga minn er ég fylgdi ágætri vinkonu minni Önnu Pálínu Árnadóttur síðasta spölinn s.l. mánudag

Athöfnin var öll hin virðulegasta og fór fram í Hallgrímskirkju að viðstöddu miklu fjölmenni, þar sem hver stóll var skipaður: Perlur vísnatónbókmenntanna voru leiknar af okkar færust hljómlistarmönnum. Sinikka Langeland kantele- leikari lék spunaverk, einlægt og fallegt. Næmni, auðmýkt og virðing eru þau orð sem eru mér efst í sinni þegar ég hugsa um þátt séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Falleg umgjörð og athöfnin sem slík í raun eitt listaverk.

Listaverk og því ákaflega falleg og viðeigandi umgjörð um minningu Önnu Pálínu sem var einn mikilhæfasti listamaður þjóðarinnar og þá ekki síst fyrir ríkulegt framlag sitt á sviði vísnatónlistar. Listin er eilíf og því mun minning hennar og sem verk lifa sem hluti af hinum íslenska og skandnaviska tónlistararfi. Þar mun hún eiga verðugan sess um ókomna tíð.
Blessuð sé minning Önnu Pálínu sem kvaddi okkur allt of fljótt, hún hafði mörgu góðu komið í verk og í raun miklu meira en aldur hennar sagði til um, en hún átti örugglega margt eftir ógert.

Votta Aðalsteini , börnunum og öllum ættingjum mína dýpstu samúð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli