laugardagur, 31. desember 2005

Gleðilegt nýtt ár

Veit ekki hvað næsta ár ber í skauti sér, sennilega ýmislegt spennandi og vonandi skemmtilegt. Sé á dagskinnunni að árið 2005 var í annasamara lagi. Full mikil læti á tímabili og tóm leiðindi hvernig kjaramálin hafa farið. Fullljóst að betur má ef duga skal á þeim vettvangi. Við verðum að koma Hafnarfjarðarbæ upp úr þessum láglaunapytti sem hann hefur setið fastur í allt of lengi.

Óska lesendum árs og friðar sem og farældar á komandi ári.

föstudagur, 23. desember 2005

Gleðileg jól

Óska lesendum dagskinnunnar gleðilegra jóla. Þakka viðbrögð sem að öllu jöfnu hafa verði hin jákvæðustu þó svo að auðvitað hafi menn ekki verið á eitt sáttir á stundum og sent mér tóninn. Það er bara fínt og hvet ég fólk til þess að láta álit sítt í ljós ef svo ber undir, rafpóstfangið er hér til hliðar.




Hafnfirðingur
Blað Framsóknarmann barst mér inn um bréfalúguna í gær. Las þar að menn blása til sóknar í komandi bæjarstjórnarkosningum. Formaður fulltrúaráðsins ritar grein eina mikla þar sem nokkrum helstu stefnumiðum er lýst.

Brá nokkuð við lesturinn enda sá ég ekki betur en þarna væru saman komin á einn stað öll helstu vandræðamál síðustu tveggja kjörtímabila og slíkt talið til dyggða og eftirbreytni. Rándýrar einkaframkvæmdir dásamaðar og hópuppsagnir ræstingafólks og launalækkanir í kjölfarið taldar til meiriháttar afreka? Þetta er ekki sami Framsóknarflokkurinn sem ágætur tengdafaðirinn minn talar stundum um. Kannski er sá flokkur ekki lengur til - hver veit?

þriðjudagur, 20. desember 2005

Hækkun og lækkun í hafi

Margt kynlegt hendir á leiðinni yfir hafið til Íslands. Körfuknattleiksmenn hafa stundum minnkað á þessu ferðalagi, úr rúmum tveimur metrum niður í nokkuð og jafnvel verulega undir tvo metra? Súrál hækkaði verulega í verði á ferð sinni yfir hafið hér í eina tíð og nú er það blessuð innflutta matvaran sem hækkar sem aldrei fyrr og það þrátt fyrir afar hagstætt gengi íslensku krónurnar?

Þurfum að fá okkar helstu vísindamenn til þess að kanna þetta „phenómen” Gæti hugsanlega verið einhverskonar „Bermúdaþríhyringur” hér í norðrinu sem farið er í gegnum með þessum alvarlegu afleiðingum?

Veit það ekki – sumir segja að hér sé að ferðinni hinn mannlegi breyskleiki sem oftast er kallaður græðgi. Það sé ekkert sérstakt „phenómen” snúist bara um mannlega hegðan sem þykir ekki til eftirbreytni að öllu jöfnu.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Hljómsveitin PAN

Drengirnir í hljómsveitinni PAN gaukuð að mér sínum fyrsta diski hér um daginn. Þétt og gott rokk skal ég segja ykkur og ekki laust við að við gömlu rokkhundarnir heyrum áhrif frá Jethro Tull og Deep Purple. Flott skífa og ekki að merkja að hér sé á ferð fyrsti diskur sveitarinnar. Sándið er fínt, flottur flutningur og öll umgjörð til fyrirmyndar. Mæli eindregið með þessum diski og hvet liðsmenn til frekari dáða í rokk and rólinu.

sunnudagur, 11. desember 2005

Verkin tala

Er auðvitað raunin þegar að laun eru annarsvegar. Stefna launanefndar sveitarfelaga er klár láglaunastefna sem ekki hefur tekið nokkurt viðmið af ríkjandi góðæri. Viðbrögð nokkurra bæjarstjóra vegna kjarasamninga Reykjavíkurborgar vekja furðu og viðbrögð frá samtökum atvinnulífsins og ekki sist varaformanns fjárlaganefndar Alþingis eru sorgleg. Málflutningur gagnvart borgarstjóra, úr þeim ranni, þessa daganna er með eindæmum og þeim hætti að það jaðrar við einelti.

Átti þjóðarsáttin og þær fórnir sem verkalýðshreyfingin færði í þeim efnum og sá ávinningur er þessar fórnir skópu einungis að fara til fárra útvaldra í samfélaginu? Eru það þessi gildi sem vinnuveitendur hanga á eins og hundar á roði?

Fólk þarf ekki nema að kíkja í launaumslagið sitt til þess að upplifa grjótharða láglaunastefnu. Orð breyta engu þar um því verkin tala. Að slá skjaldborg um slíka stefnu er því fyrst og fremst spurning um viðhorf til þess ágæta starfsfólks er vinnur af dugnaði og trúmennsku hjá bæjarfélögum.

Láglaunastefna er félagslegt böl. Þess vegna segi ég húrra fyrir borgarstjórnum í Reykjavík sem hafði þor og getu, einn stjórnmálamanna, til að takast á við þann napra raunveruleika, hina grjóthörðu láglaunastefnu sem launafólk hefur búið við til fjölda ára og það þrátt fyrir “góðæri”. Það var sannarlega orðið tímabært að taka til hendinni.

þriðjudagur, 6. desember 2005

Af vegferð

Er ekki á sömu leið og Samfylkingin í Hafnarfirði um þessar mundir þó svo að ég teljist til félagsmanna. Sérstaklega á þetta við þegar að litið er til praktíserandi launastefnu bæjarins sem ég hef verið afar óhress með. Er afar sár yfir þeirri stöðu sem upp er komin í kjaramálum og gerir bæjarfélagið að einu helsta láglaunasvæði landsins. Hef reyndar haft áhyggjur um nokkra hríð af ýmsum tiltökum manna hér í bæ á sviði kjaramála sem ég hef talið víðs fjarri þeirri félagshyggju sem ég hélt að Samfylkingin kenndi sig við. Margt af þessu hef ég fjallað efnislega um hér í dagskinnunni og fjölyrði ekkert frekar um að sinni, að öðru leyti en því að flest hefði betur verið látið algerlega ógert af hálfu bæjarins og margt var ekki gert sem hefði verið nauðsynlegt að gera af hálfu sömu aðila.

Menn verða að rölta í sömu átt og með sama markmiði til þess að kallast samherjar en á það skortir verulega þessa daganna. Hef bæði í ræðu, riti og persónulegum samtölum reynt að hafa áhrif á kúrsinn en því miður með afar takmörkuðum árangri. Oftast hafa stjórnmálamenn vísað málum umyrðalaust til launanefndar sveitarfélaga og afsalað sér öllum áhrifum í jafn mikilvægum málaflokki og hér um ræðir.
Niðurstöður eru dapurlegar sem endurspeglast í grjótharðri láglaunapólitík sem sífellt verður augljósari, launapólitík sem hinir kjörnu fulltrúar bera auðvitað ábyrgð á.

Það er því auðvitað ekkert annað í stöðunni hjá undirrituðum en að staldra við um nokkra stund, hvíla lúin bein og hugsa sinn gang í víðasta skilningi þess orðs? Verð auðvitað að velta fyrir mér hvort röltið þjóni hagsmunum þess hóps sem ég er að vinna fyrir. Þykir það nokkuð ósennilegt að svo sé þessa daganna miðað við stöðu mála.

föstudagur, 2. desember 2005

Vonbrigði

Neikvæð afstaða bæjarráðs Hafnarfjarðar sem færð var til bókar á fundi ráðsins 2. desember varðandi leiðréttingu á kjarasamningum STH til samræmis við félaga okkar í Kópavogi veldur mér sárum vonbrigðum. Það eru nokkur fordæmi þess að slíkt hafi verið gert og við sambærilegar aðstæður og nú eru uppi.

Finnst þessi afstaða bæjarráðs bera vott um mikla skammsýni. Held að menn átti sig ekki á alvarleika málsins né hvaða skilaboð er verið að senda starfsfólki. Sorglegt mál í alla staði. Sjá nánari umfjöllum á heimasíðu STH www.sthafn.is