laugardagur, 28. nóvember 2009

Teiknimyndin um drykkfelda jólsveininn

Af vefnum 
Working on driving the world slightly insane.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað börn hafa gaman af teiknimyndum. Núna í aðdraganda jólanna þykir Ölgerð Egils Skallagrímsonar, m.a. í nánu og innilegu samstarfi við markaðsdeild RÚV ohf og yfirmenn þessa fyrirtækis allra landsmanna, við hæfi að bjóða börnum upp á teiknimynd.

Að vísu sama teiknimyndin sýnd ítrekað fyrir og eftir og jafnvel inni í þáttum . En teiknimyndin fjallar í stuttu máli um drykkfeldan jólasvein sem á sleða sínum er á leið til að sinna mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna. Á ferð sinni mætir hann vöruflutningabifreið sem er full af áfengi. Í stað þess að halda áfram sem leið liggur til hefðbundinna jólasveinastarfa þá snýr sveinki sér tafarlaust við og eltir áfengið með þeim hætti sem einungis langt gengnir alkahólistar myndu gera. Ekki veit ég hvað síðan á sér stað en tel einsýnt að sveinki eigi erfitt að með að sinna skyldum sínum þetta kvöld þéttkenndur eða augafullur eftir drykkju á áfenginu eftirsótta ("léttöli sem er ekki til") Þar sem þetta er auðvita teiknimynd og þær eru "ekki alvöru" þá er áfengið það ekki heldur enda stendur afar óljósum stöfum og birtist örskamma stund að sveinki sé einungis á eftir "léttöli". Þetta gera börnin sér auðvitað grein fyrir að mati Ölgerðarinnar og RÚV en það sem verra er að "léttölið" er ekki til og hefur aldrei verið framleitt! en hinn útlenski texti teiknimyndarinnar er um áfengi en það er allt í lagi þar sem börnin skilja ekki dönsku alla vega ekki þau yngstu.

Mér dettur hug sambærileg auglýsingaherferð frá sígarettufyrirtæki sem bjó til alveg einstaklega geðþekka teiknimyndapersónu, úr merki fyrirtækisins, úlfalda nokkurn sem þau kölluðu að mig minnir Joe. Blessuðum börnunum fannst mikið til mannkosta Joe koma og auðvita gátu sígrettupakkar með mynd af honum í huga barnsins ekki verið neitt annað en eitthvað jákvætt og gott. Teiknimyndaþættirnir voru sýndir í barnatímum víða í Bandaríkunum. Báru vott um sorglega lágt siðferðisplan þar sem í engu var svifist í markaðsátaki og engu skeytt um annað en að selja sem mest.

Ölgerð Egils Skallgrímasonar hefur nokkra dóma á bakinu vegna brota á réttindum barna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Það er einungis tímaspursmál hvenær "Sjónvarp allra landsmanna" RÚV ohf lendir í þessum vafasama félagsskap. Teiknimyndir um drykkfeldan jólasvein eða um úlfaldann Joe sem liður í auglýsingaherferð sem sérstaklega snýr að börnum er fullkomin lágkúra. Viðskiptasiðferði ef siðferði skyldi kalla af þessum toga er þessum aðilum til skammar. Að Rúv ohf skuli taka þátt í þessu er með ólíkindum og algerlega ljóst að það er ekki með fulltingi 317.829 eigenda þess. Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem starfa á svona lágu plani, Skilja stjórnendur RÚV ohf ekki ábyrgð sína í samfélaginu og er ekki réttast að koma RÚV út af auglýsingamarkaði a.m.k. meðan að svo er.

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Bréfaskóli Hannesar Hólmsteins

„Vonandi missir Samfylkingin a.m.k. 2 menn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Þannig öðlast Hafnfirðingar von um að einveldi Lúðvíks (og Gunnars) ljúki og "lýðræði komist aftur á að nýju" í Hafnarfirði. “ segir Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir stjórnmálafræðingur formaður Fram, sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar á bloggi sínu.

Spurt er: Er það bara kallað lýðræði þegar að sjálfstæðisflokkurinn nær meirihluta í kosningum. Ef meirihluti Hafnfirðinga kýs annan flokk en íhaldið er það þá einveldi sem á ekkert skylt við lýðræði? Í hvaða stjórnmálafræðibókmenntum finnur maður þessum "vísindum" stað. Er það í bréfaskóla Hannesar Hólmsteins?

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Skynsamir unglingar í Hafnarfirði

Hafnfirskir unglingar sýndu frábært frumkvæði í gær þegar að þeir efndu til mótmæla við bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar. Æska bæjarins er greinilega orðin langþreytt á eilífum niðurskurði til félagsmiðstöðva og sífellt verri aðstöðu til félagsmiðstöðvastarfseminnar. Þegar að rúmlega 700 ungmenni þramma í mótmælagöngu, halda fund og ræða málefnalega og skýrt um sínar aðstæður þá er það skylda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að taka fullt mark á slíku og ekki síst koma til móts við óskir unga fólksins.

Staðreyndin sú að æskulýðsstarfsemi í Hafnarfirði hefur átt undir högg að sækja í mörg ár og það jafnvel á tímum góðæris. Það hefur því verið eða var að a.m.k. eitt af meginhlutverkum þeirra sem unnu í málflokknum að berjast fyrir tilveru félagsmiðstöðvanna og fjárveitingum til þeirra og því miður oft við lítinn skilning og eða áhuga æðstu embættismanna og einstakra bæjarfulltrúa.

Þær tillögur sem nú liggja fyrir fylltu greinilega mælinn og margt sem olli því. Unglingarnir skynja stöðugt minnkandi þjónustu. Einstakir starfsmenn fengu óformlega að heyra um að þeirra væri ekki vænst í nýju skipulagi. Og svo hitt að fyrirhugað skipulag er arfa vitlaust og gerir ráð fyrir tæplega 25% fækkun starfa í félagsmiðstöðvum þar sem auk þess er gert ráð fyrir "að við aðgerð eins og þessa gefist tækifæri til þess að endurskoða launkjör starfsmanna félagsmiðstöðva"! Samkvæmt reynslu minni af launastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Hafnarfjaðrarbæjar þá er ekki átt við "upp á við". Grundvallaratriði í þessum skipulagsbreytingum er því að skera verulega niður og minnka þjónustu við æsku bæjarins enn og aftur og umfram annan niðurskurð hjá bæjarfélaginu.

Það er sagt að reynsla tilraunverkefnis í Áslandinu hafi gefið góða raun? og slík staðhæfing gerð að aðalatriði sem ástæða fyrir skipulagsbreytingum. Spurt er hefur einhver fagleg úttekt farið fram á því? Veit sem er að forstöðumaður Ássins er afar góður starfsmaður og ferst flest vel úr hendi algerlega óháð einhverri skipulagslegri umgjörð. Á því hvort vel hefur til tekist eða ekki er ekki annað en eitthvert einka mat embættismanna sem er fjarri því ígrundað eða faglegt, einhverjar tvær þrjár línur í einhverri greinargerð þess efnis hafa einfaldlega ekkert faglegt gildi.

Hvað sem menn kunna að segja í umræðunni m.a. í bæjarstjórn þá er margt undarlegt í þessu máli. Fyrirmynd skipulagsbreytinga er sögð koma frá Reykjavík ? og Kópavogi? Hafnarfjörður er ekki þrisvar sinnum stærri en Grafarvogurinn og skiplag mála í Kópavogi hefur ekki þótt til eftirbreytni.

Skipurit hins nýja skipulags sýnir einfaldlega að fækka á forstöðumönnum um helming og setja í stað þeirra ódýrari starfskrafta á gólfið og með því draga úr afleiðingum hins mikla niðurskurðar. Á skrifstofu ÍTH munu því væntanlega bætast við þrír skrifstofumenn og síðan er óljóst hvað verður um ágætan rekstrarstjóra ÍTH. Með þessu verður yfirbyggingin því orðin veruleg

Í þessum hugmyndum um skipulagsbreytingar er ekki stafur um fagleg málefni? En ljóst að starfseminna á að byggja á "ódýrari" starfsmönnum sem þýðir á mannamáli að ekki verða gerðar neinar teljandi kröfur um menntun. Horfið er til baka til "samræmis" við frístundheimili þar sem litlar sem engar kröfur hafa verið gerðar um fagmenntun og eiga langt í það að ná félagsmiðstöðvum. Fagfólkið þeir fáu sem verða eftir verður skrifstofumannskapur langt frá vettvangi.

Faglegur standard í félagsmiðstöðvum í Hafnarfirði verður með þeim hætti að nemar í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands geta ekki sótt vettvangsnám sitt til Hafnarfjarðar þar sem starfsmenn munu ekki uppfylla lágmarksskilyrði til þess að taka að sér nema. Þá má því miður segja að hugtakið faglegur metnaður sé fjarri í þessum skipulagslagsbreytingum sem auk þess eru sennilega unnar án nokkurs samráðs við það ágæta fagfólk sem (ennþá) vinnur hjá ÍTH.

Starfsaðferðir unglingalýðræðis hafa lengi verið við lýði í starfsemi félagsmiðstöðva í Hafnarfirði, í því starf felst hvatning til unga fólksins til virkar þátttöku, ábyrgðar og frumkvæðis í starfi og leik. Með því auka ungmennin félagslega hæfni sína sem er ákaflega góð "menntun" í nútímasamfélagi og ekki síðri en hin formlega menntun skólakerfisins. Með virkri afstöðu sinni gegn óhóflega miklum niðurskurði til félagsmiðstöðva og skerðingar á þeirri starfsemi sýnir unga fólki í verki hug sinn til þessara mála enda finna þau á eigin skinni hverning þjónustan er sífellt skorin niður. Þessu frumkvæði unga fólksins ber að fagna að taka fyllsta mark á.

Sjá ennfremur:
Unglingalýðræði
Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

mánudagur, 2. nóvember 2009

Ólafur landlæknir og fleira gott fólk

Hef stundum verið að velta því fyrir mér hvers vegna mér finnst engin landlæknir hafa verið síðan Ólafur Ólafsson lét af störfum? Nú eða hvers vegna frú Vigdís er alltaf forsetinn í mínum huga og sr Sigurbjörn Einarsson alltaf biskupinn?

Leiðir hugann að því að það er fólk sem gerir embætti að því sem þau verða en ekki embættin sjálf. Þetta fólk sem hér er nefnt er dæmi um fólk sem hefur vegna persónulegra eiginleika sinna og visku hafið embættin upp til vegs og virðingar. Þau hafa með störfum sínum, frumkvæði og málsvarahlutverki sínu lagt samfélaginu ómetanlegt lið.

Er sennilega óvitlaust að hafa þetta í huga á þessum síðustu og verstu þar sem við höfum og fáum örugglega dæmi um hið gangstæða. Ráðuneytisstjóri sem hverfur frá störfum með ríflegan starfslokasamning til þess að "skapa starfsfrið" fremur en að tilteknar og gildar siðferðilegar ástæður hafi verið fyrir brotthvarfinu er dæmi um hið gagnstæða. Vonandi fáum við fleiri "Ólafi, Vigdísar og Sigurbirni" til áhrifa í íslensku samfélagi.