laugardagur, 28. nóvember 2009

Teiknimyndin um drykkfelda jólsveininn

Af vefnum 
Working on driving the world slightly insane.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað börn hafa gaman af teiknimyndum. Núna í aðdraganda jólanna þykir Ölgerð Egils Skallagrímsonar, m.a. í nánu og innilegu samstarfi við markaðsdeild RÚV ohf og yfirmenn þessa fyrirtækis allra landsmanna, við hæfi að bjóða börnum upp á teiknimynd.

Að vísu sama teiknimyndin sýnd ítrekað fyrir og eftir og jafnvel inni í þáttum . En teiknimyndin fjallar í stuttu máli um drykkfeldan jólasvein sem á sleða sínum er á leið til að sinna mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna. Á ferð sinni mætir hann vöruflutningabifreið sem er full af áfengi. Í stað þess að halda áfram sem leið liggur til hefðbundinna jólasveinastarfa þá snýr sveinki sér tafarlaust við og eltir áfengið með þeim hætti sem einungis langt gengnir alkahólistar myndu gera. Ekki veit ég hvað síðan á sér stað en tel einsýnt að sveinki eigi erfitt að með að sinna skyldum sínum þetta kvöld þéttkenndur eða augafullur eftir drykkju á áfenginu eftirsótta ("léttöli sem er ekki til") Þar sem þetta er auðvita teiknimynd og þær eru "ekki alvöru" þá er áfengið það ekki heldur enda stendur afar óljósum stöfum og birtist örskamma stund að sveinki sé einungis á eftir "léttöli". Þetta gera börnin sér auðvitað grein fyrir að mati Ölgerðarinnar og RÚV en það sem verra er að "léttölið" er ekki til og hefur aldrei verið framleitt! en hinn útlenski texti teiknimyndarinnar er um áfengi en það er allt í lagi þar sem börnin skilja ekki dönsku alla vega ekki þau yngstu.

Mér dettur hug sambærileg auglýsingaherferð frá sígarettufyrirtæki sem bjó til alveg einstaklega geðþekka teiknimyndapersónu, úr merki fyrirtækisins, úlfalda nokkurn sem þau kölluðu að mig minnir Joe. Blessuðum börnunum fannst mikið til mannkosta Joe koma og auðvita gátu sígrettupakkar með mynd af honum í huga barnsins ekki verið neitt annað en eitthvað jákvætt og gott. Teiknimyndaþættirnir voru sýndir í barnatímum víða í Bandaríkunum. Báru vott um sorglega lágt siðferðisplan þar sem í engu var svifist í markaðsátaki og engu skeytt um annað en að selja sem mest.

Ölgerð Egils Skallgrímasonar hefur nokkra dóma á bakinu vegna brota á réttindum barna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Það er einungis tímaspursmál hvenær "Sjónvarp allra landsmanna" RÚV ohf lendir í þessum vafasama félagsskap. Teiknimyndir um drykkfeldan jólasvein eða um úlfaldann Joe sem liður í auglýsingaherferð sem sérstaklega snýr að börnum er fullkomin lágkúra. Viðskiptasiðferði ef siðferði skyldi kalla af þessum toga er þessum aðilum til skammar. Að Rúv ohf skuli taka þátt í þessu er með ólíkindum og algerlega ljóst að það er ekki með fulltingi 317.829 eigenda þess. Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem starfa á svona lágu plani, Skilja stjórnendur RÚV ohf ekki ábyrgð sína í samfélaginu og er ekki réttast að koma RÚV út af auglýsingamarkaði a.m.k. meðan að svo er.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli