fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Skynsamir unglingar í Hafnarfirði

Hafnfirskir unglingar sýndu frábært frumkvæði í gær þegar að þeir efndu til mótmæla við bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar. Æska bæjarins er greinilega orðin langþreytt á eilífum niðurskurði til félagsmiðstöðva og sífellt verri aðstöðu til félagsmiðstöðvastarfseminnar. Þegar að rúmlega 700 ungmenni þramma í mótmælagöngu, halda fund og ræða málefnalega og skýrt um sínar aðstæður þá er það skylda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að taka fullt mark á slíku og ekki síst koma til móts við óskir unga fólksins.

Staðreyndin sú að æskulýðsstarfsemi í Hafnarfirði hefur átt undir högg að sækja í mörg ár og það jafnvel á tímum góðæris. Það hefur því verið eða var að a.m.k. eitt af meginhlutverkum þeirra sem unnu í málflokknum að berjast fyrir tilveru félagsmiðstöðvanna og fjárveitingum til þeirra og því miður oft við lítinn skilning og eða áhuga æðstu embættismanna og einstakra bæjarfulltrúa.

Þær tillögur sem nú liggja fyrir fylltu greinilega mælinn og margt sem olli því. Unglingarnir skynja stöðugt minnkandi þjónustu. Einstakir starfsmenn fengu óformlega að heyra um að þeirra væri ekki vænst í nýju skipulagi. Og svo hitt að fyrirhugað skipulag er arfa vitlaust og gerir ráð fyrir tæplega 25% fækkun starfa í félagsmiðstöðvum þar sem auk þess er gert ráð fyrir "að við aðgerð eins og þessa gefist tækifæri til þess að endurskoða launkjör starfsmanna félagsmiðstöðva"! Samkvæmt reynslu minni af launastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Hafnarfjaðrarbæjar þá er ekki átt við "upp á við". Grundvallaratriði í þessum skipulagsbreytingum er því að skera verulega niður og minnka þjónustu við æsku bæjarins enn og aftur og umfram annan niðurskurð hjá bæjarfélaginu.

Það er sagt að reynsla tilraunverkefnis í Áslandinu hafi gefið góða raun? og slík staðhæfing gerð að aðalatriði sem ástæða fyrir skipulagsbreytingum. Spurt er hefur einhver fagleg úttekt farið fram á því? Veit sem er að forstöðumaður Ássins er afar góður starfsmaður og ferst flest vel úr hendi algerlega óháð einhverri skipulagslegri umgjörð. Á því hvort vel hefur til tekist eða ekki er ekki annað en eitthvert einka mat embættismanna sem er fjarri því ígrundað eða faglegt, einhverjar tvær þrjár línur í einhverri greinargerð þess efnis hafa einfaldlega ekkert faglegt gildi.

Hvað sem menn kunna að segja í umræðunni m.a. í bæjarstjórn þá er margt undarlegt í þessu máli. Fyrirmynd skipulagsbreytinga er sögð koma frá Reykjavík ? og Kópavogi? Hafnarfjörður er ekki þrisvar sinnum stærri en Grafarvogurinn og skiplag mála í Kópavogi hefur ekki þótt til eftirbreytni.

Skipurit hins nýja skipulags sýnir einfaldlega að fækka á forstöðumönnum um helming og setja í stað þeirra ódýrari starfskrafta á gólfið og með því draga úr afleiðingum hins mikla niðurskurðar. Á skrifstofu ÍTH munu því væntanlega bætast við þrír skrifstofumenn og síðan er óljóst hvað verður um ágætan rekstrarstjóra ÍTH. Með þessu verður yfirbyggingin því orðin veruleg

Í þessum hugmyndum um skipulagsbreytingar er ekki stafur um fagleg málefni? En ljóst að starfseminna á að byggja á "ódýrari" starfsmönnum sem þýðir á mannamáli að ekki verða gerðar neinar teljandi kröfur um menntun. Horfið er til baka til "samræmis" við frístundheimili þar sem litlar sem engar kröfur hafa verið gerðar um fagmenntun og eiga langt í það að ná félagsmiðstöðvum. Fagfólkið þeir fáu sem verða eftir verður skrifstofumannskapur langt frá vettvangi.

Faglegur standard í félagsmiðstöðvum í Hafnarfirði verður með þeim hætti að nemar í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands geta ekki sótt vettvangsnám sitt til Hafnarfjarðar þar sem starfsmenn munu ekki uppfylla lágmarksskilyrði til þess að taka að sér nema. Þá má því miður segja að hugtakið faglegur metnaður sé fjarri í þessum skipulagslagsbreytingum sem auk þess eru sennilega unnar án nokkurs samráðs við það ágæta fagfólk sem (ennþá) vinnur hjá ÍTH.

Starfsaðferðir unglingalýðræðis hafa lengi verið við lýði í starfsemi félagsmiðstöðva í Hafnarfirði, í því starf felst hvatning til unga fólksins til virkar þátttöku, ábyrgðar og frumkvæðis í starfi og leik. Með því auka ungmennin félagslega hæfni sína sem er ákaflega góð "menntun" í nútímasamfélagi og ekki síðri en hin formlega menntun skólakerfisins. Með virkri afstöðu sinni gegn óhóflega miklum niðurskurði til félagsmiðstöðva og skerðingar á þeirri starfsemi sýnir unga fólki í verki hug sinn til þessara mála enda finna þau á eigin skinni hverning þjónustan er sífellt skorin niður. Þessu frumkvæði unga fólksins ber að fagna að taka fyllsta mark á.

Sjá ennfremur:
Unglingalýðræði
Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

1 ummæli:

  1. Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    SvaraEyða