mánudagur, 27. desember 2004

Gildi auglýsinga

Ágætur vinur minn og samstarfsmaður til margra ára innan verkalýðshreyfingarinnar Ögmundur Jónasson heldur úti líflegri heimasíðu www.ogmundur.is. Bregð mér oft á síðuna og í dag rakst ég á athyglisverða grein á síðunni um gildi auglýsinga. Þar er Ögmundur að fjalla um grein framkvæmdastjóra Sambands íslenskra auglýsingastofa, Ingólf Hjörleifsson sem birtist í Morgunblaðinu þ. 24. des. s.l. og bar yfirskriftina Auglýstu skoðun þína. Athyglisverð umræða og orð í tíma rituð. Greinin í heild HÉR

fimmtudagur, 23. desember 2004

þriðjudagur, 21. desember 2004

Risinn er vaknaður

Virkilega fín bók hjá Orra vini mínum Þórðarsyni. „Risinn er vaknaður" er nafn með rentu og fjallar um velgengni FH-inga í fótboltanum í sumar. Flott bók vel upp sett , fínar myndir og góður texti. Bókin ætti auðvitað að vera til á hverju FH heimili landsins. Gef smíðinni topp einkunn.

þriðjudagur, 14. desember 2004

Blessað Netið

Fínt framtak hjá unglingum í Hagskóla sem unnu meðfylgjandi veggspjald í samvinnu við Umboðsmann barna. Einelti í netheimum er því miður leiðinleg staðreynd, þekki nokkra krakka sem lent hafa í slíku. Á ekki að líðast frekar en annað einelti. Læt veggspjaldið fylgja. Þeir sem vilja stærri útgáfu geta nálgast hana hér. Um að gera að dreifa þessu veggspjaldi sem víðast.

þriðjudagur, 7. desember 2004

Blessað lýðræðið

Allt í einu fóru ýmsir stjórnmálamenn að tala í tíma og ótíma um hluti eins og t.d. framhaldsskólanna og fullt af málum sem fram að því höfðu ekkert verið sérstaklega á dagskrá hjá viðkomandi stjórnmálamanni eða mönnum.
Margir furðuðu sig á þessum jákvæðu breytingum en skýringin var auðvitað sú að kjörgengi hafði verið fært niður í 18 ár úr 20 árum. Málefni þessa aldurshóps komst á dagskrá stjórnmálanna í mun meira mæli en dæmi voru um fram að þessu.

Nú nokkrum árum síðar þarf að taka nýja ákvörðun að mínu mati sem er sú að breyta kjörgengi í 16 ár. Hef reyndar haft þessa skoðun lengi. Það má byrja á bæjarstjórnarkosningum. Ég er viss um að það lukkast vel og þeir efasemdarmenn, sem ég þekki nokkra, munu sjá að rökrétt framhald málsins er að veita 16 ára fólki fullt kjörgengi.

Málefni unga fólksins munu fá allt annað vægi og annan blæ, mörg hagsmunamál sem ekki hafa fengið pláss í stjórnmálaumræðunni komast á dagskrá einfaldlega í krafti þess að 16 ára ungt fólk hefur atkvæðisrétt.

Lýðræðið er hornsteinn samfélagsins og því fleiri sem eru virkir í því betra. Ungt fólk hefur mun betri forsendur í dag til að mynda sér skoðanir en jafnaldrar þeirra höfðu fyrir 60 - 70 árum og eru því örugglega flestir búnir að koma sér upp mun mótaðri lífssýn og skoðunum mun fyrr í lífinu en áður var.

Forsenda lýðræðislegara ákvarðana er almenn umræða um málefnið. Hún fer fram víða bæði fjölmiðlum og í netheimum. Einn verulegur ljóður er ennþá á blessuð netinu sem er sá að allt of margir koma ekki fram undir nafni og aðrir sigla undir fölsku flaggi sem er auðvitað stórkostlegur galli. Verður í þeim tilfellum tilgangs- og ábyrgðarlaust tal sem ekki er hægt að taka mark á og hvað þá byggja ákvarðanir á.
Hins vegar mun þetta örugglega breytast á komandi árum og umræðan þroskast í þá veru að baki skrifa / skoðana sé ávallt ábyrgur einstaklingur.

Kjörgengi við 16 ára aldur - óraunhæft- alls ekki - kemst örugglega á dagskrá og vonandi fyrr en seinna.

sunnudagur, 5. desember 2004

Mugison - ekki spurning

Það kom mér ekki á óvart að Mugison fékk fimm tilnefningar til hinna íslensku tónlistarverðlauna. Kæmi mér heldur ekki á óvart að næsta stóra íslenska "meikið " í útlöndum yrði þessi framúrskarandi vestfirski tónlistarmaður. Maðurinn er auðvitað á góðri leið með það nú þegar, held samt að það eigi eftir að verða miklu meira út úr þessu hjá honum á næstu misserum. Fantagóður gítarleikari og lagasmiður, erfitt að staðsetja hann tónlistarlega enda bara einn Mugison til. Frábær árangur.

fimmtudagur, 2. desember 2004

Meiri vitleysan hjá mér í Kastljósinu í kvöld

Auðvitað eru blessaðir jólasveinarnir til. Þekki sjálfur marga jólasveina . Er reyndar sjálfur óttalegur jólasveinn sem sannast best á því að vera blanda þeim að ósekju inn í einhvern umræðuþátt.


Stúf og Kertasníki hitti ég báða tvo ljóslifandi í jólaþorpinu í Hafnarfirði á laugardaginn var. Þeir voru að vísu aðeins á undan áætlun. Voru dulítið stirðir karlagreyin enda búnir að vera lengi á fjöllum. Sungu samt og trölluðu, kváðust hafa í mörgu að snúast næstu vikurnar og þá sérstaklega við að gefa í skóinn, íslensk börn hefðu verið eins og venjulega mjög þæg og góð þetta árið.