laugardagur, 31. desember 2005

Gleðilegt nýtt ár

Veit ekki hvað næsta ár ber í skauti sér, sennilega ýmislegt spennandi og vonandi skemmtilegt. Sé á dagskinnunni að árið 2005 var í annasamara lagi. Full mikil læti á tímabili og tóm leiðindi hvernig kjaramálin hafa farið. Fullljóst að betur má ef duga skal á þeim vettvangi. Við verðum að koma Hafnarfjarðarbæ upp úr þessum láglaunapytti sem hann hefur setið fastur í allt of lengi.

Óska lesendum árs og friðar sem og farældar á komandi ári.

föstudagur, 23. desember 2005

Gleðileg jól

Óska lesendum dagskinnunnar gleðilegra jóla. Þakka viðbrögð sem að öllu jöfnu hafa verði hin jákvæðustu þó svo að auðvitað hafi menn ekki verið á eitt sáttir á stundum og sent mér tóninn. Það er bara fínt og hvet ég fólk til þess að láta álit sítt í ljós ef svo ber undir, rafpóstfangið er hér til hliðar.




Hafnfirðingur
Blað Framsóknarmann barst mér inn um bréfalúguna í gær. Las þar að menn blása til sóknar í komandi bæjarstjórnarkosningum. Formaður fulltrúaráðsins ritar grein eina mikla þar sem nokkrum helstu stefnumiðum er lýst.

Brá nokkuð við lesturinn enda sá ég ekki betur en þarna væru saman komin á einn stað öll helstu vandræðamál síðustu tveggja kjörtímabila og slíkt talið til dyggða og eftirbreytni. Rándýrar einkaframkvæmdir dásamaðar og hópuppsagnir ræstingafólks og launalækkanir í kjölfarið taldar til meiriháttar afreka? Þetta er ekki sami Framsóknarflokkurinn sem ágætur tengdafaðirinn minn talar stundum um. Kannski er sá flokkur ekki lengur til - hver veit?

þriðjudagur, 20. desember 2005

Hækkun og lækkun í hafi

Margt kynlegt hendir á leiðinni yfir hafið til Íslands. Körfuknattleiksmenn hafa stundum minnkað á þessu ferðalagi, úr rúmum tveimur metrum niður í nokkuð og jafnvel verulega undir tvo metra? Súrál hækkaði verulega í verði á ferð sinni yfir hafið hér í eina tíð og nú er það blessuð innflutta matvaran sem hækkar sem aldrei fyrr og það þrátt fyrir afar hagstætt gengi íslensku krónurnar?

Þurfum að fá okkar helstu vísindamenn til þess að kanna þetta „phenómen” Gæti hugsanlega verið einhverskonar „Bermúdaþríhyringur” hér í norðrinu sem farið er í gegnum með þessum alvarlegu afleiðingum?

Veit það ekki – sumir segja að hér sé að ferðinni hinn mannlegi breyskleiki sem oftast er kallaður græðgi. Það sé ekkert sérstakt „phenómen” snúist bara um mannlega hegðan sem þykir ekki til eftirbreytni að öllu jöfnu.

miðvikudagur, 14. desember 2005

Hljómsveitin PAN

Drengirnir í hljómsveitinni PAN gaukuð að mér sínum fyrsta diski hér um daginn. Þétt og gott rokk skal ég segja ykkur og ekki laust við að við gömlu rokkhundarnir heyrum áhrif frá Jethro Tull og Deep Purple. Flott skífa og ekki að merkja að hér sé á ferð fyrsti diskur sveitarinnar. Sándið er fínt, flottur flutningur og öll umgjörð til fyrirmyndar. Mæli eindregið með þessum diski og hvet liðsmenn til frekari dáða í rokk and rólinu.

sunnudagur, 11. desember 2005

Verkin tala

Er auðvitað raunin þegar að laun eru annarsvegar. Stefna launanefndar sveitarfelaga er klár láglaunastefna sem ekki hefur tekið nokkurt viðmið af ríkjandi góðæri. Viðbrögð nokkurra bæjarstjóra vegna kjarasamninga Reykjavíkurborgar vekja furðu og viðbrögð frá samtökum atvinnulífsins og ekki sist varaformanns fjárlaganefndar Alþingis eru sorgleg. Málflutningur gagnvart borgarstjóra, úr þeim ranni, þessa daganna er með eindæmum og þeim hætti að það jaðrar við einelti.

Átti þjóðarsáttin og þær fórnir sem verkalýðshreyfingin færði í þeim efnum og sá ávinningur er þessar fórnir skópu einungis að fara til fárra útvaldra í samfélaginu? Eru það þessi gildi sem vinnuveitendur hanga á eins og hundar á roði?

Fólk þarf ekki nema að kíkja í launaumslagið sitt til þess að upplifa grjótharða láglaunastefnu. Orð breyta engu þar um því verkin tala. Að slá skjaldborg um slíka stefnu er því fyrst og fremst spurning um viðhorf til þess ágæta starfsfólks er vinnur af dugnaði og trúmennsku hjá bæjarfélögum.

Láglaunastefna er félagslegt böl. Þess vegna segi ég húrra fyrir borgarstjórnum í Reykjavík sem hafði þor og getu, einn stjórnmálamanna, til að takast á við þann napra raunveruleika, hina grjóthörðu láglaunastefnu sem launafólk hefur búið við til fjölda ára og það þrátt fyrir “góðæri”. Það var sannarlega orðið tímabært að taka til hendinni.

þriðjudagur, 6. desember 2005

Af vegferð

Er ekki á sömu leið og Samfylkingin í Hafnarfirði um þessar mundir þó svo að ég teljist til félagsmanna. Sérstaklega á þetta við þegar að litið er til praktíserandi launastefnu bæjarins sem ég hef verið afar óhress með. Er afar sár yfir þeirri stöðu sem upp er komin í kjaramálum og gerir bæjarfélagið að einu helsta láglaunasvæði landsins. Hef reyndar haft áhyggjur um nokkra hríð af ýmsum tiltökum manna hér í bæ á sviði kjaramála sem ég hef talið víðs fjarri þeirri félagshyggju sem ég hélt að Samfylkingin kenndi sig við. Margt af þessu hef ég fjallað efnislega um hér í dagskinnunni og fjölyrði ekkert frekar um að sinni, að öðru leyti en því að flest hefði betur verið látið algerlega ógert af hálfu bæjarins og margt var ekki gert sem hefði verið nauðsynlegt að gera af hálfu sömu aðila.

Menn verða að rölta í sömu átt og með sama markmiði til þess að kallast samherjar en á það skortir verulega þessa daganna. Hef bæði í ræðu, riti og persónulegum samtölum reynt að hafa áhrif á kúrsinn en því miður með afar takmörkuðum árangri. Oftast hafa stjórnmálamenn vísað málum umyrðalaust til launanefndar sveitarfélaga og afsalað sér öllum áhrifum í jafn mikilvægum málaflokki og hér um ræðir.
Niðurstöður eru dapurlegar sem endurspeglast í grjótharðri láglaunapólitík sem sífellt verður augljósari, launapólitík sem hinir kjörnu fulltrúar bera auðvitað ábyrgð á.

Það er því auðvitað ekkert annað í stöðunni hjá undirrituðum en að staldra við um nokkra stund, hvíla lúin bein og hugsa sinn gang í víðasta skilningi þess orðs? Verð auðvitað að velta fyrir mér hvort röltið þjóni hagsmunum þess hóps sem ég er að vinna fyrir. Þykir það nokkuð ósennilegt að svo sé þessa daganna miðað við stöðu mála.

föstudagur, 2. desember 2005

Vonbrigði

Neikvæð afstaða bæjarráðs Hafnarfjarðar sem færð var til bókar á fundi ráðsins 2. desember varðandi leiðréttingu á kjarasamningum STH til samræmis við félaga okkar í Kópavogi veldur mér sárum vonbrigðum. Það eru nokkur fordæmi þess að slíkt hafi verið gert og við sambærilegar aðstæður og nú eru uppi.

Finnst þessi afstaða bæjarráðs bera vott um mikla skammsýni. Held að menn átti sig ekki á alvarleika málsins né hvaða skilaboð er verið að senda starfsfólki. Sorglegt mál í alla staði. Sjá nánari umfjöllum á heimasíðu STH www.sthafn.is

þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Skólaliðar eru líka fólk

Barst hið undarlegasta bréf, verð ég að segja. “Verkferlar í eldhús og í matsal grunnskólum Hafnarfjarðar” ( þar sem SS matur er). Bréfið merkt Sláturfélagi Suðurlands sem mér vitnanlega hefur ekkert boðvald yfir starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar en var engu að síður afhent skólaliðum í tilteknum skóla hér í bæ. Í bréfinu er skólaliðum skipað út og suður í ýmis viðvik sem ekki eru á verksviði þeirra enda meira í ætt við störf matráða sem njóta annara og mun betri kjara en skólaliðar.

Ekki veit ég hvort þetta sé gert í vitorði eða í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ en ef svo er þá verður ekki annað séð en að bæjarfélagið stundi einhverskonar starfsmannalána- eða leigustarfsemi þ.e. að bæjarfélagið semji við eitthvert fyrirtæki út í bæ um að ráðstafa starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar ? Sem er auðvitað afar slæmt enda ekkert verið rætt við starfsfólk um slíkt. Ekki verður sé að þessi gríðarlegu aukastörf eigi að launa eitthvað sérstaklega nema síður sé?

Það er algerlega út úr korti að eitthvert fyrirtæki út í bæ skundi með einhverjar starfslýsingar inn í skóla bæjarins og skipi málum þvert ofan í gildandi kjarasamninga, m.a. um starfsmat, sem kveður á um tilteknar starfslýsingar skólaliða sem eru ekki í neinu samræmi við verkferla SS. Skólaliðar hafa auk þess nú þegar nóg að gera í sínum daglegu störfum og ekki eru launin til að hrópa húrra fyrir.

Í þessu máli er svo sannarlega byrjað á vitlausum enda og með hætti sem engum er samboðinn. Ef þetta starf á að vera á verksviði skólaliða þá þarf að breyta starfsheitum þeirra, hið nýja og breytta starf þarf að meta og greiða laun í samræmi við það eða þá það að ráða fólk sérstaklega sem matráða. Grundvallaratriðið er auðvitað að fjölga fólki með aukinni þjónustu.

Allt er þetta hið undarlegasta mál - velti fyrir mér hvers vegna mætir fyrirtækið ekki bara með sinn eigin mannskap sem tíðkast víðast hvar þar sem verktakar sjá um skólamáltíðir.

Ef kennarar hafa fengið bætt fyrir ýmsar breytingar í starfi og starfsumhverfi skólanna, sem er auðvitað gott mál, af hverju gildir þá ekki hið sama fyrir aðra starfsmenn skólanna - Veit það ekki en svar óskast!
Eitt er þó algerlega víst sem er að það verður að vinda ofan af þessari vitleysu og koma málum í sæmandi horf - Skólaliðar eru líka fólk.

mánudagur, 21. nóvember 2005

Nú er maður fyrrverandi president

Sem er þægileg tilfinning en dulítið skrýtin samt. Er sem sagt búin að vera formaður Samtaka norrænna félagsmiðstöðva UFN s.l. 11 ár. Langur tími og oftast gefandi en auðvitað stundum erfiður og alltaf annasamur. Hef samt sem áður ávallt notið góðs af því að vera Íslendingur og því átti tillölulega auðvelt með að sætta sjónamiði þegar að þess hefur þurft , sem er nú ekki í mörgum tilfellum.
Ekki hef ég tölu á þeim fjölda ungmennamóta eða námskeiða sem samtökin hafa staðið fyrir í gegnum árin víða á Norðurlöndunum. Eðli málsins vegna hef ég sótt marga af þessum atburðum en auðviðtað ekki alla.

Fínn tími og auðvitað ákveðinn forréttindi. Í gegnum embættið kynnist ég fjöldanum öllum af góðu fólki, lært margt og farið víða. Ég hef komið á marga þá staði sem ég hefði að öllu jöfnu ekki heimsótt og á staði sem ekki liggja beinlínis í alfaraleið. Loften í Noregi er stórkostlega fallegt svæði og sama má segja um norðaustur Finnland, Sænsku Smálöndin eru falleg og sama má segja um norður Svíþjóð, Jósku heiðarnar er fallegar, Færeyjar státa af einstakri náttúrfegurð og sama má segja um norrænu höfuðborgirnar sem allar hafa sinn sérstaka sjarma.

Kveð ákaflega sáttur á aðalfundi samtakanna, sem haldinn er hér í Kaupmannahöfn, enda um tvö ár síðan ég ákvað að hætta sem formaður þessara samtaka, veit einnig sem er að MajLis Blomqvist frá Svíþjóð sem nú tekur við formennskunni af mér mun standa sig með prýði. Óska UFN velfarnaðar og hvet alla sem vettlingi geta valdið til að standa vörð um hina norrænu samvinnu og þau gildi sem þar koma fram.

Norrænt samstarf er einstakt og á sér ekki hliðstæðu í veröldinni. Það er því afar mikilvægt að gefa ungu fólki á Norðurlöndum kost á því að taka þátt í samnorrænum verkefnum eins og þeim sem UFN stendur fyrir. Það er ekki síður mikilvægt að fagfólk úr æskulýðsbransanum eigi kost á því að koma saman á námskeiðum og ráðstefnum til þess að læra og skiptast á skoðunum um allt það sem nýjast er í faginu.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Ekki missa af David Hall

David Hall, prófessor við háskólann í Greenwich í Englandi, heldur erindi um rannsóknir á afleiðingum einkavæðingar á vatnsveitum. Fyrirlesturinn verður kl. 09:00 til 10:30 að Hótel Loftleiðum föstudaginn 18. nóvember nk.

David Hall er forstöðumaður deildar við háskólann í Greenwich sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á mismunandi rekstrarformum innan almannaþjónustunnar.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Erindið verður túlkað

fimmtudagur, 10. nóvember 2005

Óeirðir í Frakklandi

...og svo halda menn að þetta séu „innflytjendurnir” sagði Joelle samstarfsmaður minn innan fulltrúaráðs evrópskra bæjarstarfsmanna EPSU, aðspurð um ástandið í Frakklandi um þessar mundir. Vorum að ræða þetta nokkrir fulltrúar eftir fund s.l. þriðjudag í EPSU, en sjálf býr Jóelle í úthverfi í norður París.

...og áfram hélt hún „ráðherra sem líkir fólki við hunda, þar sem atvinnuleysi ungs fólks er 40 %, þar sem skólar eru yfirfullir, þar sem samdráttur í félagsþjónustu er alger , þar sem möguleikar á vettvangi frítímans eru engir og allt slíkt aflagt, þar sem leigu- og íbúðarverð er hátt og þar sem ríkir almenn fátækt og ómegð.”
Í vonleysinu og „kaótíkinni” þrífst margt sem miður er en hefur akkurat ekkert með innflytjendur að gera enda flestir sem málið snertir barnfæddir Frakkar. Reiðin í öllu þessu vonleysi orðin alger og stjórnlaus.

Ein ummæli ráherra fylltu mælinn og allt varð vitlaust. Kjarni málsins snýst um afar illa stadda lágstétt í miðju góðæri, snýst um afskipta- og úrræðaleysi stjórnvalda til margra ára gangvart ungu fólki, snýst um réttlætiskennd og ekki síst snýst um misheppnaða pólitík.

Franski félagsfræðingurinn Durkheim myndi sennilega segja að óréttlætið í Frönsku samfélagi hafi verið orðið slíkt að lengra hefði ekki verið komist, ríkjandi staða því splundrast og ekkert annað að gera en að raða hlutum upp á nýtt og í samræmi við þarfir allra þegna samfélagsins en ekki bara sumra. Dæmi um slíkt voru stúdentaóeirðirnar 68 sem fyrst og fremst voru barrátta gegn ríkjandi en óréttlátum gildum samfélags þess tíma. Sama uppi á teningnum núna árið 2005 ? – Sennilega, segja margir.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Tvær góðar Úlpa & Sign

Það er gróska í Hafnfirsku tónlistarlíf þessa daganna, sem endranær. Mér áskotnaðist kynningareintak af nýjustu plötu Úlpu en Haraldur Sturluson vinur minn, fyrverandi starfsmaður ÍTH og trommari bandsins gaukaði að mér eintaki af nýjust skífu þeirra. Þurfti ekki að hlusta lengi til þess að gera mér grein fyrir að hér er hörku góður diskur á ferðinni. Flottir spilarar , fín lög ,gott sánd og heilsteypt skífa í alla staði. Fær örugglega frábæra dóma þegar hún kemur út.

Sign er ekki síðri skal ég segja ykkur. Heyrði í þeim á tónleikum í félagsmiðstöðinni Hrauninu um daginn þar sem þeir voru að spila lög af nýju skífunni sinni. Þeir Rafnssynir Ragnar og Egill halda merki og minningu föður síns á lofti sem frábærir tónlistarmenn. Egill er einn af okkar bestu trommurum og sama má segja um Ragnar hvað varðar gítarleikinn . Ragnar hefur þrátt fyrir ungan aldur skapað sinn eigin stíl og verður bara betri og betri.

Mæli því hiklaust með báðu þessum böndum og tel alvöru rokk and rólara vera með góða diska í höndunum þegar að þessar sveitir eru annars vegar.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Er Fréttablaðið hafið yfir íslensk lög?

"Ágæti ríkissaksóknari

Í síðdegisþættinum á útvarpsstöðinni Talstöðinni föstudaginn 28. október árið 2005, þar sem fjallað var um áfengisauglýsingar, viðurkenndi fréttastjóri Fréttablaðsins Kári Jónasson með skýrum og afdráttarlausum hætti í heyrandi hljóði að blaðið birti áfengisauglýsingar.

Við sem sent höfum embætti yðar ábendingar um slík lögbrot undanfarin misseri barst þarna óvæntur liðsauki enda verður ekki annað séð en að málið teljist þar með upplýst. Fram eru komnar formlegar ábendingar um lögbrot og fyrir hendi liggur afdráttarlaus játning. Undirritaður gerir því ráð fyrir að embætti yðar grípi til viðeigandi ráðstafanna. Samkvæmt lögum eiga börn og unglingar rétt á því að vera laus við auglýsingar af þessum toga og skora ég á embættið að gera gangskör í þessum málum til þess að svo megi verða.

Virðingarfyllst

Árni Guðmundsson"

sunnudagur, 30. október 2005

Seðilgjald

Ef maður þarf að borga gjald, seðilgjald fyrir að borga reikningana sína. Af hverju þarf maður þá ekki líka að borga gjald fyrir seðilgjald seðilinn? Og ef svo er af hverju þarf maður ekki að borga seðilgjald fyrir seðil seðilgjaldseðilinn... o.sv.fr.?

Skil ekki hvers vegna það er bara gjald fyrir fyrsta seðilinn? Er auðvitað ekki sanngjarnt vegna seðlana sem á eftir koma. Kannski allt í lagi vegna innheimtuþóknunarinnar eða útskriftargjaldsins svo ekki sé minnst á greiðslugjaldið sem allt saman leggst ofan á...?

Tóm rugl - Fyrst og fremst vanvirðing við viðskiptavini enda okur sem byggir eingöngu á forsendum samráðs og fákeppni.

mánudagur, 24. október 2005

Stór flokkur en lítið prófkjör !

Skil ekki að jafn stór og sterkur flokkur eins og Samfylkingin í Hafnarfirði viðhafi lokað prófkjör sem auk þess er keyrt í gegn á rúmum tveimur vikum? Veit ekki hvað liggur svona rosalega á að koma saman lista? Er einhver knýjandi nauðsyn? Nei því fer fjarri lagi og ekkert í stöðunni sem gefur tilefni til þessarar skyndilegu ofvirkni. Samfylkingin í Reykjavík mun t.d. viðhafa sitt prófjör í febrúar á næsta ári.

Flokkur sem er með meirihluta í bæjarstjórn sækir viðtækt umboð til almennra kjósenda í bæjarfélaginu. Sem sagt almennings sem eru ekki nema að litlu leyti félagar í flokknum og munu ekki ganga sérstaklega í hann til þess eins að taka þátt í prófkjöri nema í afar litlu mæli.

Eins og raunin var í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar, þar sem þátttaka var auðvitað allt of lítil. Fyrirkomulag var einnig að mörgu leyti undarlegt eins t.d. það að frambjóðendum stóð ekki til boða félagaskráin en máttu búa við það að líta hana augum á skrifstofutíma, eins einhverja skattskrá? Bara þessi sperra gerði það auðvitað að verkum að starfssamir flokksmenn höfðu allt annan aðgang að kjósendum en aðrir frambjóðendur. Fyrirkomulagið gerði fólki sem ekki starfaði innan flokksins afar erfitt fyrir og takmarkaði möguleika viðkomandi verulega. Var svona svipað eins að vera á veiðum án þess að vita hvar miðin eru. Ekki veiða menn mikið í slíkum ferðum, sem auðvitað varð raunin a.m.k. ef marka má persónulega reynslu undirritaðs.

Ef stór flokkur eins og Samfylkingin ætlar að nýta svona lokað kerfi eins og hér um ræðir þá er auðvitað bara betra að fara alla leið og stilla upp með gamla laginu.. Affarasælast hefði auðvitað verið að viðhafa án nokkurs kinnroða eða minnimáttarkendar opið prófkjör allra stuðningsmanna flokksins. Stór flokkur - fjölmennt opið prófkjör. Reyndist vel hér í eina tíð t.d. þegar ágætur vinur minn Guðmundur Árni náði vel á fjórða þúsund manns til þátttöku.

Núverandi prófkjörsfyrirkomulag er ekki vænlegt fyrir fólk úti í samfélaginu sem vinnur á öðrum vettvangi samfélagsins en hins pólitíska en gæti vel hugsað sér að taka þátt í slíkri vinnu. Forsendur eru því miður ekki þess eðlis að slík sé kleyft.

Til þess að svo verði þá þarf fólk sem gefur kost á sér að hafa sama byrjunarreit, svo er ekki – og þess vegna verður vettvangurinn fyrst og fremst vettvangur dugmikilla og virkra flokksmanna!

miðvikudagur, 19. október 2005

Bæjarstjórinn í Latabæ

Hefur ávallt reynst okkur vel, sem að 17. júní hátíðarhöldunum í Hafnarfirði höfum staðið. Móli eins og bæjarstjórinn er oft nefndur hefur verið kynnir hjá okkur og nokkrum sinnum skemmt sem Bjössi bolla.

Eitt skipti er algerlega ógleymanlegt en það var þegar að Bjössi ásamt frænda sínum stórleikaranum Stefáni Karli, sem þá var unglingur, léku í troðfullum sal í Kaplakrika. Stebbi lék einhverskonar bakaradreng og var atriðið eftir því enda ljóst að Bjössi bolla sem bakarameistari og Stebbi sem lærlingur er bara ávísun á eitt... mikið fjör og mikil ærsl.

Sem varð því brösuglega gekk að kenna baksturinn og fyrr en varir fer hveitið að dreifast vel yfir sviðið sem og yfir fremstu raðirnar í áhorfendaskaranum. Þeir gestir sem komu dökkklæddir til hátíðar skiptu óðfluga lit og það sem verra var að sökum fjöldans var engrar undankomu auðið.

Æstust nú leikar verulega enda þar komið sögu að blessuð eggin áttu að fara í uppskriftina en sökum ágreingins þeirra frændanna um baksturinn þá tóku eggin að fljúga í ýmsar áttir um sviðið sem og í þá félaga.

Eitt eggið, sem sennilega hafði það göfuga markmið og átti sér þann draum einan að lenda í virðulegri rjómatertu hjá alvörubakara, endaði skeið sitt með því að tvístrast inn í bakhlið gítarmagnara. Sem var ekki gott. Luku þeir félagar atriðinu í nokkurri sátt, hurfu á braut en sviðið var eins og síldarplan sem átti eftir að hreinsa. Og tóku þá málin að flækjast verulega og kom þar tvennt til.

Í fyrsta lagi voru nokkrir „hvítþvegnir" gestir nokkuð óhressir með útgang sinn sem þeir réttilega röktu til skemmtiatriðis þeirra frænda og tóku ekki gleði sín fyrr en ég fyrir hönd hins opinbera lofaði hreinsun fatnaðarins þeim algerlega að kostnaðarlausu auk þess sem ég bað þá afsökunar fyrir hönd sömu aðila.

Í öðru lagi upphófst mikið karp við hljómsveitna sem var næst á svið. Gítarleikarinn, eigandi magnarans eggfyllta, harðneitaði að spila enda myndi magnarinn hitna og eyðileggjast. „The show must go on" segir einhversstaðar og með réttu þá verður það bara að vera svo og ef það er bara einn gítarmagnari í húsinu þá verða menn bara að spila í gegnum hann. Sagðist því taka ábyrgð á magnaranum.

Hófst því spilamennskan á þeim tíma sem ráð var fyrir gert og viti menn eftir fyrsta lagið mátti finna þessa yndislegu lykt leggja yfir sviðið, lyktina góðu sem við öll þekkjum svo vel, lyktin af steiktu eggi. Ekki fer öðrum sögum af magnaranum en að hann hafi þjónað eiganda sínum vel og lengi eftir þetta.

Held því að ef bæjarstjóri Latabæjar hefði náð þeirri pólitísku forfrömun að gerast bæjarstjóri okkar Hafnfirðinga þá yrði auðvitað 17. júní stemming í bæjarkerfinu allt árið, tala nú ekki um ef Stebbi væri honum til halds og trausts í embættisverkunum.

laugardagur, 15. október 2005

Færeyjar

Hef aldrei farid dult med addaun mina a Færeyjum. Er staddur thar thessa daganna vid ad skipuleggja unglingamenningarmotid Ung i Norden sem verdur haldid her næsta sumar. Thatttakendur verda ca 230 ungmenni a aldrinum 14 til 18 ara og koma fra øllum Nordurløndum. Færeyingar sem avallt høfdingjar heim ad sækja og gott ad vinna med teim..

Velti fyrir mer hinni riku og godu musikhefd eyjaskeggja. Nadi mer af tvi tilefni i disk med "Harkaralidid" fra 1971. Her er a ferdinni færeysk visnatonlist eins og hun gerist best . Nadi mer eining i fyrsta disk Eyvarar Pålsdottur, frabær diskur eins og allt sem hun gerir. Diskur hennar og vestur islendingsins Billy Borne, sem m.a innheldur margar perlur islenskra søngbokmennta, er alger snilld og dæmi rikan skopunarkraft hinnar norrænu menningar.

föstudagur, 7. október 2005

Þessi íslenska öfund

Hugsað ég með mér þegar að fólk var að hneykslast á því að eigandi einhvers lyfjafyrirtækis hér á landi hefði keypt sér bíl fyrir hluta af mánaðarlaunum sínum. Einhvern risa jeppa með hinum og þessu fylgihlutum sem tilheyra án þess að það sé nokkuð pjatt.

Ég get auðveldlega gert það sama og keypt mér bíl fyrir mánaðarlaunin mín og átt smá afgang. Hver slær t.d. hendinni á móti Toyota bifreið árgerð 1972 ekinn 512.000 km eða Skoda bifreið með austantjalds lúkki árgerð 1981 ekinn 340.000 km. Þarf maður að kvarta og kveina ?

miðvikudagur, 5. október 2005

Af hverju borga ég sérstök "færslugjöld"

Af debetkortinu mínu en ekki vinkona mín MajLis Blomqvist i Stokkhólmi eða vinur minn Rainer Lenze í Kaupmannahöfn? Er það vegna þess að bankarnir hér á landi sannmælast um að nýta kortin sem auka tekjulind ofan á önnur okurgjöld á sama tíma sem að bankar í Skandinavíu sjá akk sinn ( og gróða) í aukinni hagræðingu sem notkun kortanna ein og sér hefur í för með sér?

Eru Íslendingar að borga bönkunum sérstaklega í formi „færslugjalda” fyrir að fækka almennum starfsmönnum í bankakerfinu? Er einhver kostnaður af þessu kerfi sem réttlætir þessa gjaldtöku og ef svo er af hverju halda bankarnir sig ekki bara við gamla kerfið ? Hvað er svona rosalega óhagstætt við hið rafræna kerfi?

Er ekki verið að gera okkur að fíflum? Af hverju sitjum við ekki við sama borð og grannar okkar í þessum efnum. Ástæður augljósar, fákeppni, samráð og almenn þjónustugjaldafíkn hins Íslenska bankakerfis. Almennt launafólk á fá, ef nokkur, ráð gegn þessu óréttlæti og situr „innmúrað” í þessari svikamyllu.

Bind vonir við að nýtt embætti, “Talsmaður neytenda”, taki þetta og sambærileg mál til formlegrar meðferðar.

föstudagur, 30. september 2005

Ég var „KLUKKAÐUR"

Ég var klukkaður og því ekkert annað en að vinda sé í fimm lítt kunnar staðreyndir um mig sem ku vera háttur og lenska þeirra sem eru klukkaðir og svo auðvitað að klukka einhverja aðra bloggara.

1. Ég átti farsælan feril sem leikari við Þjóðleikhúsið á mínum yngri árum. Lék mörg helstu hlutverk leikbókmenntanna. M.a. lék ég aftari enda á asna Tóbísar í Kardimommubænum, fremrihluta á ísbirni í Ferðinni til Tunglsins, nokkur hlutverk í Kaupmanninum frá Feneyjum, varðmann í Jóni Arasyni og hippa í Lausnargjaldininu og nokkur önnur vegaminni hlutverk í gagnmerkum leikhúsverkum. Frami minn varð mestur á sviði leiklistar þegar ég lék bóndason í kvikmyndinni Lénharði fógeta, mynd sem mörgum er algerlega ógleymanleg. Hef dreymt um eitt hlutverk sem kannski verður möguleiki á að leika seinna en það er hlutverkið „skóhljóð í fjarska”

2. Ég var einnig atvinnudansari og á launaseðil frá hinu opinbera því til sönnunar „Árni Guðmundsson dansari” stendur á seðlinum. Konu minni, sem ég hef troðið um tær á dansgólfum í gegnum árin, finnst ekki mikið til fagmennsku minnar á þessu sviði koma en ég hef gjarnan sagt að ég sé með sérstakan og afar listrænan dansstíl. Held hins vegar að háskólamenntaðir bókarar ( stundum kallaðir viðskiptafræðingar) á launadeild Þjóðleikhússins hafi verið í veseni með launabókhaldið og stórvirki mín á sviði leiklistar verið bókfærð sem laun dansara ? ( Þessi ónákvæmi skýrir m.a. hvers vegna viðskiptafræðin mun aldrei öðlast viðkenningu Nóbels)

3. Að lokum af leiklistinni. Það eru fáir sem vita það að ég neitaði veigamiklu hlutverki í bíómynd Clint Eastwood, þótti tilvalin í hlutverk miðaldra foringja. Hollywood heillaði ekki og þar sem ég átti ekki að fá neina setningu eða verða skotinn, þá sagði ég nei við Clint sem ku hafa verið spældur. Tek auðvitað ekki að mér eitthvert statistadæmi.

4. Ég er bassaleikari hljómsveitarinnar Plús, sem skipuð er Markúsi Guðmundssyni söngvara og gítarleikara, forstöðumanni Hins Hússins, Trausta Jónssyni trommara og söngvara, frístundaráðgjafa í Vesturgarði og síðast en ekki síst Ólafi Þór Ólafssyni gítarleikara og söngvara, forstöðumanni félagsmiðstöðvarinnar Versins og formaður SAMFÉS. Þetta er hörkuband sem spilar rokk and ról.

Er auk þess smekkmaður á tónlist og leiðrétti einnig þann misskilning að mér þyki lítið koma til hljómsveitarinnar Mínus. Atferli og hegðan bandsins var auðvitað ekki til eftirbreytin enda drengirnir að mestu hættir þessum undarlegu stælum. Sem spilandi rokkband eru þeir fantagóðir og eitt af mínum uppáhaldsböndum.

5. Ég stunda útsaum og aðrar hannyrðir í mínum örfáu..........Nei, nei smá plat- Bloggheimar voru mér kynntir í hinum ágæta skóla KHÍ þar sem ég hef verið við nám undanfarin þrjú ár. Það var Dr. Salvör Gissurardóttir sem opnað þessa veröld fyrir mér ásamt mörgu öðru í tölvu- og upplýsingaheimum og fyrir það verð ég henni æfinlega þakklátur.

Ég ætla að klukka Salvöru, Vin minn Gissur Guðmundsson , Steinunni Guðnadóttir , Magnús Gunnarsson og síðast en ekki síst ágætan félaga minn Ögmund Jónasson

þriðjudagur, 27. september 2005

Dallas með verulegum Bónus

Kom að því að við fengum íslenskt Dallas eða fengum við raunveruleikaþátt? Skiptir ekki öllu máli. „Kettir í bólum bjarna” væri fínt nafn á þættina. Fleirtalan helgast af því að maður veit ekki hver er kötturinn og hver björninn, enda fléttan afar margslungin í þessari sögu.

Veit það ekki. Veit þó það eitt að söguþráðurinn verður sífellt æsilegri. Svikin kona , viðskiptaslit, ljúfa lífið, einkaspæjari , undirferli, mútur, lögsóknir, dómsmál, stjórnmálamenn, hótannir, ritstjórar, ómerkilegir blaðamenn, valdablokkir, góðir karlar, einelti, vondir karlar, fórnarlömb, framhjáhald, þjófnaðir, pólitísk plott, hatur, ástarsambönd og ég veit ekki hvað og hvað.

Bíð spenntur eftir næsta þætti sem mun sennilega fjalla um ýmsar aukapersónur. Þátturinn um bankamanninn Sveinþór Grettir Pétursson, sem hittir háskólanemann og listdansarann Natalíu um borð í lystisnekkjunni Garp eftir vel lukkaðan viðskiptafund, verður án efa spennandi.

Held að spennan magnist verulega í næstu þáttum og verði óbærileg þegar að fram í sækir. Sennilegt að Phyrosarsigur verði niðurstaðan í lokaþættinum. Veiti ekki alveg hverjir eru góðu karlarnir og hverjir eru þeir vondu. Sennilega verður afar tragískur endir – Gamall bitur maður eða kona sem situr í slitnum ruggustól í hrörlegri lítilli íbúð í flash backi, hugsandi um velmektartíma á árum áður – of væmið - kannski. Væri sennilega flottara og ekki síst praktískara að stofna til viðskiptahjónabanda eins aðallinn hefur lögum gert og leyst þar með sín mál – Sennilegt, en leiðinlegur endir á annars góðri seríu. En gæti auðvitað verið byrjun á nýrri þáttaröð „Kolkrabbi gengur í hjónaband"

Lífið er lýginni líkast er það sem manni dettur helst í hug þessi dægrin enda stóð ég í þeirri trú að Dallas yrði ekki toppað. Það hefur verið gert með þvílíkum barvör að ég get bara sagt - lifi fatasían sem á sér engin takmörk og er endalaus uppspretta nýrra hugmynda.

sunnudagur, 25. september 2005

Bónus fréttir?

Einu sinni voru bara flokksblöð, gufan og ríkissjónvarpið og mikið var nú lífið einfaldara í þá daga. Allavega gat maður gengið að vísu sjónarhorni í fréttflutningi. Þjóðviljinn var eins hann var og Mogginn eins og hann var o.sv fr. Núna er fjórða valdið, eins og gjarnan er sagt um fjölmiðla, í gíslingu viðskiptajörfa, gamalla valdblokka og eða stjórnmálaflokks. Fólk veit ekki upp né niður hvað er hvað, enda ekki nema á færi sérfræðinga að reiða úr eignarhaldi á íslenskum fjölmiðlum og tengdum fyrirtækjum og því vonlaust að greina hagsmuni viðkomandi frá “fréttum”

Öll þjóðfélagumræða verður afar ómarkviss og mótast fyrst og fremst af ítrustu viðskiptahagsmunum. Fjórða valdið í boði Baugs ? eða Símans? Virðist allavega raunin þessa daganna sem sjá má í Baugsmálum.
Mæli ekki með afturhvarfi til gamalla tíma en bendi á augljóst mikilvægi Ríkisútvarpsins í þessu viðskiptafárviðri sem skekur íslenskt samfélag stafna á milli þessi misserin. RÚV er yfir þetta brölt hafði, hefur enga hagsmuni og flytur óháðar og vandaðar fréttir. Kannski er það akkurat þess vegna sem margir úr viðskiptalífinu hafa horn í síðu RÚV. Það er jafnframt af þessum sökum sem RÚV nýtur traust almennings. Lífi hin óháða umræða - Lifi RÚV.

sunnudagur, 18. september 2005

Þjónustugjaldafíkn

Var hugtak er ég viðhafði hjá mér í síðasta pistli. Ágætum kunningja mínum í bankakerfinu fannst þetta full djúpt í árina tekið hjá mér og óðviðeigandi orðalag.
Er honum ósammála og birti hér á síðunni fólki til fróðleiks örlítið brot að þessum algera gjaldafrumskógi bankanna sem bætist ofan á viðvarandi vaxtaokur.

Debetkort, kortaárgjald .Debetkort, kortaárgjald 290,00 kr. Gulldebetkort, kortaárgjald 290,00 kr. Tékkhefti með 25 eyðublöðum 600,00 kr. Endurútgefið glatað debetkort 1.000,00 kr. Vanskilagjald (e. 7 daga vanskil) 600,00 kr. Innstæðulaus tékki eða debetkortafærsla: Yfirdregin fjárhæð 0 - 5.000 750 kr. Yfirdregin fjárhæð 5.001 - 10.000 1.410 kr. Yfirdregin fjárhæð 10.001 - 50.000 2.295 kr. Yfirdregin fjárhæð 50.001 - 200.000 4.500 kr. Yfirdregin fjárhæð 200.001 og hærra 8.200 kr. Innstæða á reikningi er alltaf dregin frá fyrsta innstæðulausa tékkanum áður en flokkað er í gjaldþrep. MILLIFÆRSLUR OG FÆRSLUGJÖLD. Millifærslur utan sparisjóðs (símbeiðni) 100,00 kr. Millifærslur innan sparisjóðs (símbeiðni) 100,00 kr. Millifærslur í hraðbönkum 0,00 kr. Færslugjöld debetkorta í posum 13,00 kr. Millifærslur í þjónustusíma 0,00 kr. Upplýsingar um stöðu og færslur í síma 100,00 kr. Reikningsyfirlit um áramót 0,00 kr. Reikningsyfirlit sent í pósti annað en um áramót 90,00 kr. Yfirlit birt í netbanka 60,00 kr. Færslugjöld netbanka 0,00 kr. Færslugjöld tékka og eigin úttekta 45,00 kr. Kvittun send vegna millifærslu 90,00 kr. Reglubundnar millifærslur á reikning í bönkum 100,00 kr. SKULDABRÉF/AFBORGUNARSAMNINGUR. Lánveitingar og skuldabréfakaup Lántökugjald, lágmark 0,50%. Lántökugjald, hámark 2,00% Útbúið tryggingarbréf, handveð eða afb. samningur. 1.750,00 kr. Veðbókarvottorð og þinglýsing .Útprentun veðbandayfirlits 950,00 kr. -Þ.a. veðbandayfirlit (sbr gjaldskrá sýslum.) 550,00 kr. Útvegun veðbókarvottorðs hjá sýslumanni 2.600,00 kr. -Þ.a. veðbókarvottorð (sbr gjaldskrá sýslum.) 1.000,00 kr. Umsjón með þinglýsingu 500,00 kr. Þinglýsingargjald (sbr. Gjaldskrá sýslumanns) 1.350,00 kr. Tilkynningar- og greiðslugjald -útlagður kostnaður við hverja greiðslu hjá gjaldkera 490,00 kr. -útlagður kostnaður við hverja skuldfærslu af reikningi 190,00 kr. -kostnaður við hverja greiðslu án útprentunar 410,00 kr. -kostnaður við hverja skuldfærslu án útprentunar 115,00 kr. Veðleyfi, veðbandslausn, skuldskeyting: Útlagður kostnaður 4.500,00 kr. Þóknun (reiknast af eftirstöðvum) 0,25%. Lámarksþóknun 4.500,00 kr. Veltukort og kreditkort. Árgjald - kredit- og veltukort, með ferðaávísun 4.000,00 kr. Árgjald vegna aukakorts - kredit- og veltukort, með ferðaávísun 2.000,00 kr. Árgjald - gullkredit-og gullveltukort, með ferðaávísun 6.500,00 kr. Árgjald vegna aukakorts - gullkredit-og gullveltukort, með ferðaávísun 3.250,00 kr. Árgjald - veltukort, án ferðaávísunar 4.000,00 kr. Árgjald vegna aukakorts - veltukort, án ferðaávísunar 2.000,00 kr. Árgjald - gullveltukort, án ferðaávísunar 6.500,00 kr. Árgjald vegna aukakorts - gullveltukort, án ferðaávísunar 3.250,00 kr. Stofngjald vegna aukakorts, án ferðaávísunar 500,00 kr. Útskrifargjald (gíróseðill sendur) 245,00 kr. Útskrifargjald (skldfærsla á viðskiptareikning) 185,00 kr. Greiðsludreifing pr. mán 200,00 kr. Raðgreiðslur pr. mán 150,00 kr. Peningaúttekt innanlands 1,50% Færslugjald (+50kr.) Peningaúttekt erlendis 2,50% -lágmarks úttekt ( 4 usd) Færslugjald 0,00 kr. Innheimtubréf 515,00 kr. Ítrekunarbréf 1.560,00 kr. Lokunargjald 0,00 kr. Lokaaðvörun 3.250,00 kr. Endurútgáfa á glötuðu korti 1.000,00 kr. Lágmarksgreiðsla af útistandandi skuld 5%/5000 kr. Vákortalaun 5.000,00 kr. VANSKIL SKULDBINDINGA: Viðbótargjald vegna vanskilatilkynninga Útlagður kostnaður v/skuldabr./afbsamn. (e. 7 daga) 600,00 kr. Ítrekaðar tilkynningar vegna vanskila: Tvöfalt ofangreint gjald v/skbr./afbsamn. (e. 30 daga) 1.200,00 kr. Aukagjald vegna útsendinga: Útlagður kostnaður v/skuldabr./afbsamn. (pr. umslag) 85,00 kr. Sérstök innheimtumeðferð 3.250,00 kr. Síðara milliinnheimtubréf (handvirk innsetning) 5.500,00 kr. Lögfræðikostnaður skv. sérstakri gjaldskrá. Netbanki. Stofngjald 0,00 kr. Árgjald 0,00 kr. Færslugjöld 0,00 kr. Kvittun send úr netbanka 90,00 kr. Yfirlit birt í netbanka 60,00 kr. SMS skeyti (1. ágúst 2003) 6,00 kr. Erlend millifærsla í gegnum netbanka 500,00 kr. GSM-banki GSM-banki, stofngjald 0,00 kr. GSM-banki, árgjald 0,00 kr. Færslugjöld 0,00 kr. Ýmislegt. Myndsending innlands, 1. blað 150,00 kr. Hvert blað umfram innanlands 100,00 kr. Myndsending til útlanda 1. blað 350,00 kr. Hvert blað umfram til útlanda 200,00 kr. Leit að færsluskjali og ljósritun (pr. eintak) 200,00 kr. Leit að reikningsyfirliti og útprentun (pr. eintak) 200,00 kr. Meðmælabréf til innlendra og erlendra aðila 1.200,00 kr. Ljósritun (pr. eintak) 50,00 kr. Viðskiptayfirlit vegna skattaframtals 190,00 kr. Viðskiptayfirlit FE-kerfið, Fjármál einstaklinga 1.000,00 kr. Veski 400,00 kr. Útprentun á fasteignamati fyri viðskiptavin 300,00 kr. Símgreiðslur - gjaldeyrir. Símgreiðslur 800,00 kr. Símgreiðslur - hraðþjónusta (express) 1.600,00 kr. Erlend millifærsla í gegnum netbanka 500,00 kr. Ef greitt er inn á reikning í sparisjóði 450,00 kr. Hraðbanki DEBETKORT - INNANLANDS Hraðbankar S24 - Hámarksúttekt á dag 25.000,00 kr. Hraðbankar S24 - Færslugjald 0,00 kr. Hraðbankar Sparisjóðanna - Hámarksúttekt á dag 25.000,00 kr. Hraðbankar Sparisjóðanna - Færslugjald 0,00 kr. Aðrir hraðbankar - Hámarksúttekt á dag 15.000,00 kr. Aðrir hraðbankar - Færslugjald 0,00 kr. GULLDEBETKORT - INNANLANDS Hraðbankar S24 - Hámarksúttekt á dag 25.000,00 kr. Hraðbankar S24 - Færslugjald 0,00 kr. Hraðabankar Sparisjóðanna - Hámarksúttekt á dag 25.000,00 kr. Hraðabankar Sparisjóðanna - Færslugjald 0,00 kr. Aðrir hraðbankar - Hámarksúttekt á dag 20.000,00 kr. Aðrir hraðbankar - Færslugjald 0,00 kr. KREDITKORT - INNANLANDS. Hraðbankar S24 - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 30.000,00 kr. Hraðbankar S24 - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% Hraðbankar Sparisjóðanna - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 30.000,00 kr. Hraðbankar Sparisjóðanna - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% Aðrir hraðbankar - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 30.000,00 kr. Aðrir hraðbankar - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% GULLKREDITKORT - INNANLANDS Hraðbankar S24 - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 60.000,00 kr. Hraðbankar S24 - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% Hraðbankar Sparisjóðanna - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 60.000,00 kr. Hraðbankar Sparisjóðanna - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% Aðrir hraðbankar - 4 sinnum í mánuði - Hámarksúttekt á dag 60.000,00 kr. Aðrir hraðbankar - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 1,50% DEBETKORT - ERLENDIS Hraðbankar erlendis - Hámarksúttekt 500,00 USD Hraðbankar erlendis - Færslugjald 2,00% GULLDEBETKORT - ERLENDIS Hraðbankar erlendis 800 USD 2% - Hámarksúttekt 800,00 USD Hraðbankar erlendis 800 USD 2% - Færslugjald 2,00% KREDITKORT - ERLENDIS Hraðbankar erlendis - 4 sinnum í mánuði - Hámark 30.000,00 kr. Hraðbankar erlendis - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 2,50% GULLKREDITKORT - ERLENDIS Hraðbankar erlendis - 4 sinnum í mánuði - Hámark 60.000,00 kr. Hraðbankar erlendis - 4 sinnum í mánuði - Færslugjald 2,5%. (Heimild verðskrá S24 & SPH, 18 sept 2005 )

...og svona mætti lengi telja. Hér er ekki fjallað um lánauppgreiðslugjöld ca 2 -3 % ýmis afgreiðslugjöld m.m.

Við þetta allt saman bætast afar lágir innlánsvextir ( Almenn sparisjóðbók 1,25% vextir) og okur útlánsvextir ( Skuldabréfalán 12 - 17 % vextir og vanskilavextir 20,50% )

Græðgi? Nei verra - Fíkn! Þjónustugjaldafíkn

þriðjudagur, 13. september 2005

Miklir brandarakarlar í bankakerfinu og víðar

Forsendur kjarasamninga eru brostnar samkvæmt verðbólguviðmiðum. Um það þarf ekki að deila . Viðbrögð ýmsa hagsmunaaðila við þessari staðreynd eru því miður grátbrosleg. Hagfræðingur KB banka segir að það borgi sig ekki að hækka launin, það auki bara verðbólguna? Ha... ha... ha..., þetta segir fulltrúi þeirra sem setja hvert heimsmetið á fætur öðru í vaxtaokri, fulltrúi kerfis sem þjáð er af „þjónustugjaldafíkn”.

Væri ekki sniðugt hjá þessum mannskap að líta í eigin rann og velta fyrir sér eigin ábyrgð í því að viðhalda stöðugleika í efnahagskerfinu. Gildir ekki það sama varðandi samtök atvinnulífsins og samtök verslunarinnar. Í stað þess að lækka vöruverð eins og tilefni hefur vissulega verði til þá hækka menn vöruverð. Verðbólgan per exelens hefur ekkert með íslenska láglaunapólitík að gera. Aukin verðbólga á fyrst og fremst rætur sínar í því að þeir sem þegar hafa nóg taka meira til sín en sanngjarnt er, hvort sem það er verðlag á lánsfjármagni, vöruverði eða verðmætasköpunar vinnuframlags starfsmanna.

Málið er ekkert flóknara en þetta og málflutningur af því tagi sem fulltrúar bankakerfisins og atvinnulífsins viðhafa þessa daganna er sérstaklega ósmekklegur og algerlega óviðeigandi. Það er verkalýðshreyfingin, nánast ein og sér, sem með „þjóðarsáttarsamningunum" skóp þennan stöðugleika sem ríkt hefur síðustu ár. Það ber að virða við almennt launafólk í landinu og meta að verðleikum. Annað er hroki.

miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Er á Spáni

Þessa daganna í lagþráðu fríi. Dvel í hinu glæsilega og vel staðsetta húsi STH á La Zenia svæðinu i útjaðri Torraveja. Hitinn þetta 30 - 35 gráður sem er í heitara lagi Er illa tengdur tölvuheimum og því lítið um innlegg á síðuna á næstunni. Kem hins vegar heim þann 7. september og tek þá til óspilltrar málanna.

miðvikudagur, 17. ágúst 2005

Kabarett - ekki spurning

Brá mér í Óperuna um daginn með fjölskyldunni og sá Kabarett. Frábær sýning hjá leikhópnum „Á senunni" þar sem valinn maður var í hverju rúmi. Frábærir tónlistarmenn og afburða leikarar. Flott leikstjórn og mun sterkari boðskapur en kom fram í samnefndri kvikmynd fyrir allmörgum árum.

Mæli sem sagt eindregið með þessari sýningu og hvet alla sem þetta lesa að láta þessa sýningu ekki fram hjá sér fara. Bíð spenntur eftir (vonandi) væntanlegum hljómdisk með tónlistinni sem ég mun fjárfesta í ekki seinna en strax.

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Mjög spes !

Hugsaði ég með mér þegar 3- 4 snagar voru auðir sitt hvoru megin við Martin vin minn og skólafélaga i Gautaborg fyrir margt löngu. Dagurinn var mánudagur, íþróttafræðitími var að hefjast en eitthvað var stemmingin skrítin. Skýringin kom fljótlega í ljós, í gleðskap bekkjarfélaganna um helgina hafði Martin tilkynnt skólafélögunum að hann væri hommi.

Hafði misst af partýinu og því ekki inni í málum. Eitthvað hafði þetta farið skakkt í mannskapinn sem marka mátti af viðbrögðunum í búningsklefanum þennan mánudagsmorgun. Fljótlega var þó veröldin söm og allt féll í ljúfa löð. Martin sem endranær hinn hressasti og lífið gekk sinn vanagang.

Datt þetta svona í hug af tilefni „Hinsegin daga” í Reykjavík. Flott baráttuaðferð að gefa fólki kost á því að taka þátt í gleðinni með sér. Betur má ef duga skal en alltént þá er framvinda stöðug í réttindabaráttunni sem auðvitað er hið besta mál. Og sem betur fer þá hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Martin gaf yfirlýsinguna frægu árið 1982.

þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Stuðningur í verki ?

Þakka lesendum síðunnar, og öðrum þeim fjölmörgu sem sent hafa mér póst undanfarið, fyrir stuðning og hlý orð. Vissi svo sem að fólki leiðist þessi hroki og yfirgangur sem áfengisframleiðendur og salar sýna velferð barna og unglinga með því að þverbrjóta lög um áfengisauglýsingar kerfisbundið.

Veit nú sem er
að fólki þúsundum saman er misboðið því vitað er að auglýsingin ( sjá hér neðar á síðunni) sem fór af stað um daginn hefur farið mjög víða um þjóðfélagið. Fólk þúsundum saman hefur sýnt hug sinn í verki og sent vinum sínum þennan póst.

„Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem ota áfengi að börnunum manns ? “ er auðvita grundvallarspurning þegar að mál hafa fengið að þróast átölulaust út í þá vitleysu sem hér viðgengst. Þegar að svo er komið, og þegar að þar til bær yfirvöld eins og embætti ríkissaksóknara þjást af verkkvíða á háu stigi, þá hefur almenningur bara eina leið.

Leiðin er einföld og er sú að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem virða ekki lögbundin réttindi barna og unglinga. Með viðskiptum styrkir maður viðkomandi fyrirtæki til frekari landvinninga á því sviði og ekki trúi ég því að það sé vilji fólks? Samhengi hlutanna er ekki flóknari en þetta og það ættu afar, ömmur , pabbar, mömmur, frænkur, frændur og allir þeir sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti að hafa hugfast við hin ólíklegustu tækifæri - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.

föstudagur, 29. júlí 2005

Stóra plastflöskumálið

Bæði Fréttablaðið og Blaðið skúbba í dag. Ja ekki alveg enda um sömu „stórfrétt” að ræða, en auðvitað geta örlögin hagað því þannig að á vettvangi stóratburðanna séu fleiri en einn blaðamaður staddur hverju sinni

Fréttin er sú að bjórframleiðandi einn sé byrjaður að setja ölið á plastflöskur og dugandi blaðamönnum dugir ekkert minna en að kalla út sína bestu ljósmyndara sem stilla plastflöskunum vel og vendilega upp og mynda þennan tímamótaatburð í bak og fyrir enda stórfrétt bæði að innihaldi og ekki síst í dálksentímetrum. Yrði ekki hissa á því að þessi tímamóta atburður kæmist í heimspressuna

Veit sem er að það er löngu búið að finna upp plastflöskuna og hef það fram yfir viðkomandi fjölmiðlamenn að halda ró minni af þessu tilefni, blessuð plastflaskan er löngu komin, og það meira að segja til Íslands

Frétt Blaðsins er stórkostleg en það sér sérstaka ástæðu til að „kynna” þessa byltingu. Fréttablaðið hefur meiri reynslu af samskiptum við hagsmunaaðila af þessum toga og mörg stórfréttin hafnar því milliliðalaust í hinni deildinni þ.e. auglýsingadeildinni. Sennilega margur blaðamaðurinn því fegin enda vandasamt og erfitt verk að fjalla um jafn stórkostlegan atburð og hér um ræðir.

Verðið á Agúrkum er óbreytt þessa daganna en úr þeim stórtíðindum gera alvöru fjölmiðlar ekkert? Sennilega út af stóra plastflöskumálinu - Verð að segja það eins og er að ég bíð spenntur eftir fréttunum um skrúftappann sem að öllum líkindum er væntanlegur á plastflöskurnar innan skamms og þá verður aðvitað útkall ALFA með ljósmyndurum og öllu tiltæku tæknilið enda spyr maður ekki um kostnað þegar að slík stórtíðinni eru annars vegar.

föstudagur, 22. júlí 2005

Sýnum hug okkar í verki

Sendu endilega meðfylgjandi auglýsingu til vinna þinna. Sýnum hug okkar í verki. Virðum réttindi barna og unglinga.

sunnudagur, 17. júlí 2005

Hvílík lágkúra !

Það eru engin mörk hvorki siðleg né lagalega fyrir því hve lágt menn leggjast í áfengisauglýsingum þessa daganna. Veit sem er að gríðarlegur fjöldi barna heldur úti bloggsíðum sem að öllu jöfnu er hið besta mál.

Á hins vegar ekki orð yfir því hvernig heilvita fólki dettur í hug að setja inn áfengisauglýsingar á bloggsíður barna eins og gert er hjá www.blog.central.is.
Brá alla vega illilega í brún þegar að ég sá að hjá 11 ára dóttur minni og öllum hennar vinkonum var bjórauglýsing. Sendi ábyrgðamönnum meðfylgjandi línur s.l. föstudag en hef ekki fengið neitt svar?

„Ritstjóri Vísis eða ábyrgðarmaður „bloggsamfélagsins"
Var í kvöld að kíkja bloggsíðu hjá 11 ára dóttur minni sem heldur út ágætu bloggi hjá ykkur eins og mörg börn á hennar aldri gera. Rak í rogastans þar sem ég sá að inni á síðunni hjá henni var komin blikkandi áfengisauglýsing (Heineken bjór). Eru engin takmörk fyrir lágkúrunni þegar að ólöglegar áfengisauglýsingar eru annars vegar. Hver er ábyrgur fyrir þessu siðleysi?"
Árni Guðmundsson (sign)


Fyrirtækið fer ekki einu sinn eftir sínum eigin skilmálum sbr grein 6. um notkunarskilmála:

Grein 6. Notandinn samþykkir að hann muni ekki nota þjónustu Fólk.is í að birta nokkuð ólöglegt, móðgandi, hótandi efni eða klámfengið eða meiðyrði af nokkru tagi og fari að lands- og alþjóðalögum hvað varðar höfundarrétt á efni sem birt er." (sjá nánar: http://folk.visir.is/system/?p=13)

Halda menn að það sé almennur vilji forráðamanna barna að þau auglýsi áfengi á ágætum heimasíðum sínum ? Held nú síður - Þetta er bara hágæða lákúra sem að öllum líkindum varðar ekki bara við lög um bann við áfengisauglýsingum, heldur einnig vaflítið réttindi viðkomandi barna sem hafa verið þverbrotin með misnotkun af þessu tagi.

föstudagur, 15. júlí 2005

Verslunarmannhelgin & bjórauglýsingar

Margir foreldrar og forráðmenn barna og unglinga eru ráðlausir gagnvart áfengisauglýsingum. Þær eru sífellt að aukast og ekki er lengur gerðar tilraunir til þess að dylja boðskapinn með útúrsnúningum af ýmsum toga.

Það er algerlega 100% öruggt að í aðdragandi verslunarmannahelgarinnar mun menn auglýsa áfengi hvað af tekur og reyndar er herferðin þegar byrjuð. Ekkert verður til sparað frekar en fyrri daginn enda virðist fjármagn til auglýsinga ekki vera skorið við nögl

Hef mikið velt fyrir mér hvað er til ráða, veit sem er að meirihluta foreldra er ákaflega mótfallið þessum keypta áróðri.

Eitt ráð er að sýna hug sinn í verki til þessara fyrirtækja sem þverbrjóta lög með sniðganga þau á forsendum viðskiptasiðferðis. Velta mál fyrir sér hvort það siðferði sem kemur fram í markvissum brotum við banni á áfengisauglýsingum sé ekki hið almenna viðhorf viðkomandi fyrirtækis á öllum öðrum sviðum þess?

Annað er það að grípa til borgaralegrar skyldu sinnar og benda yfirvöldum á lögbrot þessi sem fyrst og fremst beinast gegn réttindum barna og ungmenna.

Í þessu tilfelli er það embætti ríkissaksóknara sem þarf að tilkynna, tiltaka þarf auglýsingu og í hvað miðil og hvað dag. Ríkisaksóknara er hægt að senda ábendingu í rafpóst bogi.nilsson@tmd.is Held að nú þegar berast embættinu almargar ábendingar en betur mál ef duga skal.

Allt sem er löglegt á að leyfast að auglýsa segja hagmunaaðilar – Má þá ekki búast við tóbaksauglýsingum að nýju? – Veit það ekki - vildi bara óska að menn virtu réttindi barna og unglinga og hættu þessu ólöglegu auglýsingum.

föstudagur, 8. júlí 2005

Með bjórdollu í annarri og fjármagnið í hinni?

Forvarnarnefnd Akureyrar gerði samning við Ölgerðina Egill Skallagrímsson varðandi framlög til forvarna í bæjarfélaginu. 10 krónur af söluandvirði hverrar Mix gosflösku fer til nefndarinnar.

Virkar vel að virðist en bara einn verulega stór galli á gjöf Njarðar sem er auðvitað sá að á sama tíma og samningurinn er gerður er fyrirtækið í óða önn við það að auglýsa áfengi og ota að sömu börnum og unglingum og það er að „verja” með framlögum til forvarna? Fyrirtækið þverbrýtur lög um bann á áfengisauglýsingum og auglýsir auk þess sérstaklega í miðlum sem ætlaðir eru börnum og unglingum.

Alvöru forvarnastefna fyrirtækisins væri auðvitað fólgin í því að hætta að ota áfengi að börnum og unglingum með kolólöglegum auglýsingum. Auglýsingum sem ganga þvert á þau uppeldismarkmið sem uppalendur í þessu landi hafa sett sér og reyna að fara eftir. Mörgum foreldrum gremst þetta ákaflega en upplifa ráðaleysi gagnvart þessum markvissa og ólöglega áfengisáróðri

Meðan að svona er þá er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en að „forvarnastefna” Ölgerðar Egils Skallagrímssonar sé skrumið eitt og í því sambandi má einnig velta fyrir sér „ágæti” þess að opinberir aðilar eins og forvarnarnefndir sveitarfélaga taki þátt í samstarfi á þessum forsendum – Hver eru skilaboðin, er þetta einhver gæðavottun, er verið að gefa grænt ljós og viðurkenna atferli eins og einlægan brotavilja fyrirtækisins gagnvart banni á áfengisauglýsingum – Veit það ekki , dæmi nú hver fyrir sig?

miðvikudagur, 6. júlí 2005

Mr Smith

Hef sem formaður UFN Samtaka norrænna félagsmiðstöðva þurft að ferðast nokkuð og því víða farið. Eitt er alltaf víst í þessu ferðum sem er að í komuhliðum flugstöðva um heim allan stendur fjöldi manns með spjöld merktum einhverjum einstaklingum sem verið er að sækja. Mr Smith á sitt spjald og er iðulega sóttur út á flugvelli víða um heim

Hef stundum hugsað mér gott til glóðarinnar og gerast einn af þessum „Smith-um” og fá ókeypis far með einhverri Límósíunni í miðborgina. Segja síðan bara sí svona þegar að mál upplýsast „I, am very sorry, this is a big mistake. I, am Mr Smith from Hafnarfjorður not Helsinki” og hverfa við svo búið á braut.

Hef hins vegar aldrei látið verða af þessu, hef í þeim efnum gjarnan hugsað um hinn umkomulausa og ósótta orginal Mr Smith, algerlega ósjálfbjarga úti á flugvelli, húkandi tímunum saman eftir sækjandanum. – Nei er sennilega ekki gott grín eftir allt saman, auk þess sem það er hið besta mál að nýta sér almenningssamgöngur til og frá flugvöllum, sem víðast hvar eru með miklum ágætum og auk þess hagkvæmur kostur.

fimmtudagur, 30. júní 2005

Hann er fallegur bærinn okkar

Og það eigum við unga fólkinu í Vinnuskólanum að þakka, þau gera einfaldlega fagran bæ fegurri með vinnu sinni. Finnst stundum sem fólk geri sér ekki grein fyrir þessu mikilvæga framlagi og því sé unglingunum ekki þakkað sem skyldi.

Fékk meira að segja samtal fyrir nokkru, á skrifstofu ÍTH, frá konu einni er sagði farir sínar ekki sléttar og kvað ungviðið hina mestu auðnuleysingja því klukkan 10:00 viðkomandi morgun hefði vinnuhópur ungmenna setið auðum höndum ásamt flokkstjóra sínum fyrir utan húsið hennar, hlegið og spjallað saman, a.m.k. 15 – 20 mínótur. Yfir þessu vildi hún kvarta!

Hún fékk að vita sem er að allir eiga sinn kaffitíma. Geta ekkert farið frá og fá ekki einu sinni að skjótast í sjoppu. Heyrði sem var að konunni brá enda haft unga fólkið fyrir rangri sök.

Er því miður allt of algengt að svo sé. Bendi fólki bara á að líta á okkar snyrtilega bæ – verkin tala og ekkert á sér stað af sjálfu sér - framlag unga fólksins blasir við hvert sem litið er.

fimmtudagur, 23. júní 2005

Af félagsfundi STH

Félagsfundur STH á þriðjudaginn var afar líflegur. Um 130 félagsmenn voru saman komnir.

Í fyrstu tveimur röðunum vinstra megin í salnum sátu starfsmenn frá tiltekinni uppeldisstofnun og höfðu sig mikið i frammi sem er hið besta mál, hefði sennilega skipt litlu máli hvaða samningur hefði verið kynntur, viðkomandi myndu hafna öllu, ekki vegna þess að samningurinn sé ekki nógu góður, heldur vegna þess að viðkomandi starfsmenn eru lagþreyttir á aðstæðum sínum, þreyttir á því að láta fara illa með sig, gegna störfum sem bera ekki rétt starfsheiti og eru lægra launuð en ella og standa í eilífu veseni með vinnufyrirkomulag og sitthvað fleirra í þessum dúr.

Fólk sem hefur búið við slíkt ástand um lengri tíma hættir auðvita að treysta því að nokkur skapaður hlutur gangi upp. Fólk treystir ekki formlegum samningi eða bókunum ,ekki vegna þess að orðanna hljóðan sé óljós, heldur vegna þess að vantraustið er orðið svo djúpstætt að það treystir einfaldlega ekki á að undirritað samkomulag verði framkvæmt.

Það er nokkuð athyglisvert út frá sjónarhól starfsmannafélagsins að meirihluti allra erinda ( þ.e.a.s. annarra en þeirra sem varða almenna þjónustu ) eru frá tiltölulega fáum stofnunum? Erindi safnast saman og lítið verður um úrlausnir og þær koma seint,ef þær þá koma.

Starfsmannastefna og framkvæmd hennar er ekki einkamál viðkomandi forstöðumanna og ef hún fer verulega á skjön við ríkjandi og yfirlýst markmið bæjaryfirvalda hverju sinni þá verða bæjaryfirvöld einfaldlega að grípa inn í og gera þær ráðstafannir sem til þarf, til þess að fyrirbyggja slíkt.
Í þessu liggur vandinn og í þessu liggur sennilega hluti skýringarinnar á því hve margir félagsmenn sögðu nei í atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning í fyrradag.

Samningur snýst um traust og gagnkvæman skilning, án þess er samningur bara orð á blaði og hefur enga þýðingu. Til að fyrirbyggja að slíkt hendi þá þurfa samningsaðilar hvor í sínum ranni að tryggja vinnubrögð sem eru til þess fallinn að svo verði – Gríðarleg óánægja eins og lýst er hér að ofan verður að leysa í sátt við viðkomandi starfshópa, áframhaldandi óánægja grefur hægt og sígandi undan þeim trúverðugleika sem nauðsynlegur er. Slíkt má ekki henda og því er þetta okkur öllum þörf ábending um verkefni sem þarf að leysa.

Afstaða til kjarasamnings getur því allt eins mótast af almennu viðhorfi gagnvart vinnuveitandanum fremur en innihaldi samningsins sem slíks – sennilegt að svo hafi verið á í tilfelli margra félagsmanna STH á fundinum fjöruga í Álfafelli þriðjudaginn 21. júní 2005

sunnudagur, 19. júní 2005

Hamar

Hið virta málgagn sjálfstæðismanna hér í bæ Hamar sendir mér tóninn í nýjasta blaði sínu. "Iðrast Árni" er hin virðulega fyrirsögn og best á því að byrja með því að staðfesta að svo er alls ekki. Tel að með sama áframhaldi þá hefði Hafnarfjörður orðið að risastórri tilraunastofu í einkavæðingu. Fólk vildi ekki frekari tilraunir enda féll þáverandi meirihluti?
Skoðanir undirritaðs hvað varðar einkavæðingu eru fólki vel kunnar og hafa ekkert breyst. Allmargar greinar hef ég ritað um þau mál, bæði um algerlega misheppnaða einkavæðingu hérlendis sem og erlendis. Á örugglega eftir að skrifa fleiri og fylgi þar sem endranær eigin sannfæringu og geri engan greinarmun á milli flokka í þeim efnum.

Hins vegar er það svo að blað sem veit ekki að komið er frábært menningar og kaffihús ungmenna í Mjósund 10, "Gamla bókasafnið", fyrir margt löngu og agnúast yfir því að svo sé ekki og það jafnvel þó að einn ritstjórnamanna sitji í forvarnarnefnd sem fer með stjórn hússins, þá verður að segjast eins og er að trúverðugleiki blaðsins dofnar verulega og jafnvel hverfur.

Sama á við skrif um hinn iðrandi Árna, grein sem höfundur treystir sér ekki til að rita nafn sitt undir? Greinin byggir á þeirri grundvallarskekkju að ræstingarfólk hafi verið félagsmenn í STH, en svo hefur aldrei verið. Af þeim sökum er starfsfólkinu því algerlega ókleift að yfirgefa félagið. Allir þeir sem vit hafa á uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar vita að ræstingafólk var áratugum saman í Verkakvennafélaginu Framtíðinni og síðustu ár í sameinuðu félagi undir nafni Verkamannafélagsins Hlífar

Formaður STH var fyrstur manna til að benda á hvað alvarlegu afleiðingar útboð á ræstingum bæjarins myndi hafa. Fjöldi fólks missti vinnuna og þeir sem ráðnir voru fengu mun lægra kaup fyrir mun meiri vinnu! Yfir þessu virtist öll bæjarstjórnin vera himinlifandi.

Það voru bara tveir menn sem létu að sér kveða í þessu máli í upphafi . Það var formaður STH og það var ágætur vinur hans , bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Gissur Guðmundsson sem einn manna hafði upp andmæli gegn þessu í bæjarstjórn, 10 -1 í bæjarstjórn?

Formaður starfsmannafélags hefur kosningarrétt rétt eins og aðrir þegnar samfélagsins en þegar að kjaramál eru annars vegar þá eru auðvitað hagsmunir félagsmanna í fyrirrúmi. Á langri vegferð hefur formaðurinn þurft að fara inn alskyns erfið starfsmannamál og starfslokasamninga , einkum hefur þetta átt við þegar að stjórnaskipti verða. Í þeim efnum skiptir engu máli hið pólitíska litróf bæjarstjórnar eða viðkomandi einstaklinga, það á enginn STH og félagið lýtur í engu öðru en fremstu hagsmunum sinna félagsmanna hverju sinni.

Það skiptir þann sem þetta ritar engu hvort sjálfstæðismönnum sem stýra Hamri sé illa við formann STH , Starfsmannafélag Hafnarfjarðar eða bara verkalýðshreyfinguna í heild. Verkalýðhreyfingin hefur staðið vörð um mörg þau gildi og réttindi sem virðast þvælast fyrir pólitískum markmiðum íhaldsins um þessar mundir sem skýrir m.a. nafnlaus greinarskrif af þeim toga sem gaf að líta í Hamri .

"Stétt með stétt" - veit það ekki - er ekki hinn blákaldi pólitíski veruleiki orðin "stétt fyrir stétt" ?

þriðjudagur, 14. júní 2005

Lóðaúthlutunarnefnd sveitarfélaga

Myndu bæjarfulltrúar í Hafnarfirði ( eða annars staðar) fela einhverri „Lóðaúthlutunarnefnd sveitarfélaga” fullnaðarumboð til lóðaúthlutanna í sveitarfélögum um land allt?
Hin merka nefnd myndi úthluta lóðum hægri vinstri og að því loknu senda sveitarfélögunum afrit af gjörðum sínum. Hinir kjörnu fulltrúar eða sveitarstjórnir þyrftu ekki einu sinni að samþykkja gjörninginn eða blessa með formlegri samþykkt og hafa í raun ekkert um hann að segja frekar en Pétur og Páll.

Nei 100% öruggt að hinir kjörnu fulltrúar mundu aldrei samþykkja slíkt fyrirkomulag! – Nema ef vera vildi varðandi launamál. Þar hafa menn afsalað sér öllum áhrifum og umboði til launanefndar sveitarfélaga sem hefur ótakmarkað umboð og þarf ekki að gera neitt annað en að senda afrit af samningum til sveitarfélaganna í landinu. Sjálfstæð launapólitík einstakra sveitarfélaga sem liður í starfsmannastefnu er ekki á valdsviði hinna kjörnu fulltrúa?

Finnst það skrítið, enda ávallt talið að pólitík fælist bæði í að taka á „sætu” og „súru” málunum – Veit það ekki finnst einhvern vegin launanefnd sveitarfélag vera sérstakur umboðsmaður bæjarstjórna í súru málunum. Nútíma stjórnsýsla , mannauðsstefna felst hún í slíku afsali?

Nei segi ég , bæjarfélög og samsetning þeirra er ólík, sama á við um starfsmenn og samtök þeirra – að steypa öllum í eitt mót er eins að ætla sér koma öllum í eina skóstærð óháð hinni raunverulegu skóstærð viðkomandi – til þessara hluta þarf og verður að taka tillit. Ef launanefnd sveitarfélaga getur það ekki, eða vill ekki, þá þurfa viðkomandi bæjaryfirvöld að taka af skarið - Málið er ekkert flóknara en það.

föstudagur, 10. júní 2005

Af pæjum

Er í Vestmannaeyjum á Pæjumótinu í fótbolta. Var síðast hér í sama tilgangi fyrir tveimur árum og stóð í ströngu. Ekki varðandi boltann. Nei málið var að tillögur um skiplagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ voru birtar í Fjarðarpóstinum, sem greinilega hafði skúbbað. Félaginu var ekki kunnugt um hvaða breytingarnar voru í bígerð , hafði ekki verið með í ráðum né haft vitneskju um hve langt málið var komið enda fór svo á formaðurinn var í símanum alla helgina og mikil vinna fór í hönd næstu vikur.

Nú tveimur árum seinna er ég en á sömu slóðum í sama tilgangi en til þess að fyrirbyggja vesen í fjarveru minni þá komum við málum þannig fyrir að forseti bæjarstjórnar var gerður að yfirfararstjóra okkar FH-inga á mótinu. Skynsöm ráðagerð enda forsetinn frábær fararstjóri – skipulag og framkvæmd til sóma, allt afslappað og fín stemming.
Gengið á vellinum er svona upp og niður enda ekki alltaf á vísan að róa á þeim vettvangi

fimmtudagur, 2. júní 2005

Á launanefnd sveitarfélaga að skipa í sveitir?

Starfsmannafélag Hafnafjarðar er merkt félag. Það var eitt af fyrstu bæjarstarfsmannafélögum landsins, var stofnaðili að BSRB og eitt af þeim félögum sem hafði hvað mest frumkvæði þar um. Margir forystumenn félagsins hafa verði virkir í forystusveit BSRB og launþegahreyfingarinnar. Uppbygging félagsins hefur ávalt byggt á mikilli breidd og í gegnum árin þá hafa félagsmenn verið nánast allir þeir starfsmenn er vinna hjá Hafnarfjarðarbæ í það og það sinnið, nema almenn verkamannstöf sem voru innan Hlífar og eða Framtíðarinnar og tilheyrðu hinum s.k. almenna vinnumarkaði.

Þetta fyrirkomulag hefur alla tíð haldist enda eitt af grundvallarmarkmiðum með stofnun félagsins. Við sem höfum stýrt félaginu höfum haldið þessu í heiðri og ávallt haft að leiðarljósi hagsmuni allra okkar félaga óháð störfum eða menntun.

Þetta höfum við valið sjálf og svona viljum við hafa þetta og eftir þessu vinnum við. Hvað launnefnd sveitarfélaga finnst um þetta gef ég ekkert fyrir enda er það ekki í verkhring þeirra kumpána að skipa fólki í sveitir, það er okkar hlutverk. Hlutverk launanefndar er að koma á samningum og skylda þeirra er gagnvart félögunum eins og þau eru uppbyggð en ekki eins og þeir vilja að þau séu uppbyggð!

Í þessari afstöðu launanefndarinnar kristallast meðal annars sú alvarlega kjaradeila sem nú er uppi, sá samningur sem lá á borðinu hentar einungis hluta okkar félagsmanna og er því óásættanlegur. Með einfaldri bókun sem í raun kostar Hafnarfjarðarbæ ekki 10 eyring, annað en ákveðnar fyrirkomulagsbreytingar, hefði sennilega verið hægt að bjarga málum en því var alfarið hafnað? Málið ljóst, launanefnd sveitarfélaga, sérlegur umboðsaðili Hafnarfjarðarbæjar, vill ekki semja við nema hluta félagsmanna í STH og það þarf engin að segja mér það að fulltrúar launanefndar hafi ekki gert sér algera grein fyrir því að tilboðið væri þess eðlis.

Annar angi deilunnar er starfsmatið og samfelld harmasaga þess, bæði innleiðing kerfisins og ekki síst tenging matsins sem er úr öllu samhengi við raunveruleikann.
Hér er ekki verið að sakast við það afburðarfólk sem unnið hefur við matið, oft á tíðum algerlega undirmönnuð vinna og því unnið undir mikilli pressu við erfiðar aðstæður. Gagnrýnin snýst fyrst og fremst um hvernig farið er með kerfið af hálfu viðsemjenda okkar.

Það getur vel verið að ég taki starfsmatið sérstaklega til umfjöllunar á dagskinnunni á næstu dögum- sennilega ekki vanþörf á opinberri umræðum um kerfið?

fimmtudagur, 26. maí 2005

Þjóðarskúta siglir í strand

Kristján Ragnarsson var ákaflega farsæll hagsmunagæslumaður íslenskra útvegsmanna. Það skipti engum togum , ef allir fiskarnir í sjónum í kringum landið voru ekki á hraðferð inn í botnvörpur hans manna sem þinglýst eign , þá mætti hann í fjölmiðla og tárbunan stóð út úr báðum augunum beint upp í loftið. Þjóðfélagið færi algerlega á annan endann, kreppa hæfist,landið legðist í auðn og ýmis önnur óáran myndi dynja fólkinu.

Kalla þetta að vinna mál “á tárakirtlunum”. Skil reyndar ekki hvers vegna þessi pæling kemur upp í huga mér í miðri kjarasamningalotu hér í Karphúsinu?

Sennilega eru það þau miklu ótíðindi sem hér hafa farið um sali eins og eldur um sinu, sem þessu valda. Tíðindin um hina verulega bágu fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, sem ku vera að fara á hausinn umvörpum og því ekki nokkurt vit í að stefna fjármálum þeirra í frekari óefni en komið er. Ef fram fer sem horfir þá mun .... og svo framvegis!

Líklega best að allir peningarnir fari á einn stað rétt eins og fiskarnir, hugsar maður með sér. Vitandi það að oft veltir lítil þúfa stóru hlassi og ekki viljum við smælingjarnir sem nefndir erum bæjarstarfsmenn verða þess valdandi að allt fari á anna endann í þjóðfélaginu vegna ofurlaunakrafna okkar í kjarasamningum.
Þá er nú betra að þiggja bara það sem að manni er rétt og lána viðkomandi aðilum vasaklút – ekki satt?

þriðjudagur, 24. maí 2005

Vírus

Ég á í hinum mestu brösum með email þessa daganna því að í tölvu mína hljóp óværa mikil og hef ég því með engu móti getað svarað þeim fjölmörgum póstum sem til mín berast.

Um er að ræða póstföngin addigum@simnet.is og arni.gudmunds@simnet.is. Vonast ég til þess að maskínan komist í fyrra horf á næstu dögum. Þangað til er best að senda erindi til formanns STH á póstfangið sthafn@simnet.is

Veit ekki hvað er að þessu liði sem af einlægum ásetningi eyðilegur tölvur fólks með því að senda vírusa út og suður - sorglegt og sé sem er að verkefni uppeldisfræðinnar ( og sálfræðinnar) eru óþrjótandi a.m.k. meðan óvitar á öllum aldri hegða sér með þessum hætti.

miðvikudagur, 18. maí 2005

Opinberir starfsmenn i Danmorku

Eru þeir aðilar vinnumarkaðarins sem njóta mests trausts i Damnörku. Og fremstir meðal þeirra eru pedagogarnir sem starfa m.a. við félagsmiðstöðvar,leikskóla, tómstundaheimili og í skólunum.
Danir treysta hins vegar ekki, eða i besta falli, afar illa bílasölum og blaðamönnum. Ekki eru launin i nokkru samræmi við þetta hvorki i Danmörku né á Íslandi.

Þetta og margt annað höfum við verid ad ræða hér í Brussel á EPSU fundi( samtök evrópskra verkalýðsfélaga - bæjarstarfsmannadeildin )
Það hefur einnig komði í ljós að réttindi launafólks i þeim löndum sem nú eru að koma inn i Evrópusambandið eru afar slopp. Í Rumeníu er allt selt og einkavætt sem hugsast getur og ríflega það. Í Tyrklandi eru réttindi veigalítil og ekki i nokkru samræmi við Það sem áunnist hefur t.d. i Skandinaviu og i norður Evrópu. Fleirri dæmi mætti nefna en það bíður betri tima.

Sé sem er að ströglið og baráttan hjá íslenskri verkalýðshreyfingu i gegnum árin hefur svo sannarlega skila árangri. Þó svo ad maður vilji stundum gleyma því. Við megun svo sannarlega ekki sofna a verðinum.

miðvikudagur, 11. maí 2005

Vísað frá dómi

Máli verkalýðsfélagsins Hlífar vegna útboðs Hafnarfjarðabæjar á ræstingum var vísað frá Félagsdómi. Phyrosarsigur fyrir Hafnarfjarðarbæ myndi ég telja enda herkostnaður mun meiri en landvinningar í þessu máli. Liggur í augum uppi þar sem málið snertir fjölmargar fjölskyldur hér í bæ og lífsafkomu þeirra með einum eða öðrum hætti.

Finnst einhvern vegin að bæjarfélög hafi ríkari skyldur gagnvart starfsfólki sínu en praktíseraðar hafa verið í þessu máli. Fyrirtækið Sólar fær töluvert fyrir sinn snúð enda ekki í góðgerðarbransanum. Vinnuframlag ræstingarfólks (sem eru mun færri en voru) er nú 3 - 4 sinnum meira en var en kaupið í besta falli það sama ?
Veit það ekki - ræstingarfólk og bágborin kjör þess, er það eitthvað til að krukka í ?

miðvikudagur, 4. maí 2005

Fáir hveitibrauðsdagar !

Hver segir að lífið eigi að vera eins og dans á rósum? Veit það sem verkalýðsforingi að slíkt er víðs fjarri. Datt þetta í hug í kjölfar þess að nokkrir fyrrverandi félagsmenn STH hafa undanfarið borið sig aumlega við sinn fyrrum foringja.

Lofuð himnasæla sem virtist blasa við á næsta leyti við það eitt að skipta um félag, lætur eftir sér bíða. Sú eina sanna launanefnd sveitarfélaga það eina sem blasir við sem fyrrum og hefur í engum breytt í sínum ranni enda ekki við slíku að búast.

Einn vinur minn taldi sig og “sitt fólk” t.d. vera að fara í sérstakar einkaviðræður við Hafnarfjarðarbæ, viðræður sem aldrei urðu og viðkomandi félagi einfaldlega vísað í röðina hjá launanefnd sveitarfélaga til þess að ræða sín mál á landsvísu.
Annar hafði beinlínis lækkað í launum, þrátt fyrir hækkun grunnkaups, vegna yfirvinnusamninga sem gilda að sjálfsögðu eingöngu varðandi STH félaga.

Einhver veruleg álitamál virðist einnig vera uppi varðandi lífeyrissjóðsaðild enda svo að viðkomandi félag hafa enga aðra lífeyrissamninga en við LSR eða LSS sem hvorugur hefur s.k B deild sem er að öllu leyti verðmætari.?
Orlofsmöguleikar eru afar lélegir og endurmenntunarmál fjarri því að vera viðunandi.

Við sem erum í forsvari félaga og vinnum af ábyrgð getum ekki leyft okkur að búa til eitthvað tilboð eða yfirboð sem síðan reynist innstæðulaust þegar á hólminn er komið. Fyrir okkur , sem með þessu erum gerð að dugleysingjum, gildir bara það eitt að vinna áfram með markvissum hætti og treysta á samstöðu félagsmanna. Annað er skrum og ábyrgðarleysi.

Fyrir okkur eru það ekki nein ný sannindi að kjarabætur koma ekki af sjálfum sér og félagsaðild á ekki að byggjast eingöngu á því hvað “félagið” getur gert fyrir einstaklinga. Virkni félagsmanna og félagsleg samstaða eru þau gildi sem virka – félagið eru bara félagsmennirnir – Það fer engin langt ef viðkomandi nennir ekki að ganga – hvorki í gömlu skónum né öðrum notuðum skóm. Sjálfgangandi skór eru ekki til fremur en “stéttarfélag” sem færir “félagsmönnum” á silfurbakka allt það sem hugurinn girnist.

Verkalýðsbarátta er eins og gangan endalausa, það er ekki fyrir búið að klífa eina hæðina þegar að sú næsta blasir við. Verkefni eru óþrjótandi, það eru mörg ljón í veginum og ekki á vísan að róa hvað framvindu varðar. Á slíkri vegferð þurfa allir að leggjast á eitt og affarasælast að ganga einu liði fremur en mörgum smáum og dreifðum.

sunnudagur, 1. maí 2005

1. maí og blessað vatnið okkar

Okkar ágæti formaður BSRB Ögmundur Jónasson hélt ræðu dagsins hjá okkur Hafnfirðingum á 1. maí. Ögmundi mæltist afar vel sem endranær. Fín ábending um hin sönnu gildi og markmið samfélagsins. Sennilega ein besta og kjarnyrtasta ræða sem hér hefur verið flutt á 1. maí. Ánægjulegt að fá formann BSRB til okkar á þessum degi. Ræða Ögmundar sem er hin besta lesning er HÉR

Eitt af því sem Ögmundur ræddi um var vatnið og einkavæðing þess. Björn nokkur Ingi varaþingmaður Framsóknar setur málið í samhengi eins og þeim flokki er einum lagið og segir á heimasíðu sinni:

“Ögmundur Jónasson hefur einnig verið óþreytandi á þingi við að gagnrýna öll áform um breytingu á rekstrarformi vatnsveitna í landinu. Engu má breyta í þeim efnum, ekki einu sinni færa til nútímahorfs, því það stríðir að mati Ögmundar gegn almannahagsmunum. Undir þetta hafa svo félagar Ögmundar að sjálfsögðu tekið undir á þingi og í fjölmiðlum.

Og hvað gerðist svo í vikunni? Jú, mjög óvænt tók stjórn BSRB upp á því að ræða um málefna vatnsveitna á fundi sínum, enda augljós tenging fyrir verkalýðsfélög og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa ályktað um þessi mál.”


og seinna í sömu grein segir Björn:

“Það er naumast hvaða tengingar Vinstri grænir hafa inn í BSRB, sérstaklega stjórnina! Það getur ekki verið að Ögmundur, þingflokksformaður VG, sé að blanda sínum málum inn í störf sín sem formaður BSRB. Það getur bara ekki verið.
Á meðan launþegar hafa svona forystu, sem heldur sig við aðalatriðin og er ekki sí og æ að blanda sér í pólitísk deilumál, eru þeir í góðum málum...”



Birni til fróðleiks má benda að á heimasíðu Starfsmannafélags Hafnarfjarðar hefur verið um langa hríð tengill þar sem m.a má nálgast skýrslu um hina afar misheppnuð einkavæðingu Vatnsveitunnar í Grenoble. Ráðagerð sem kostað almenning stórfé. Þar er einnig bent á úttektir sem Háskólinn í Greenwich hefur gert á einkavæðingu víðsvegar í veröldinni.

Að BSRB sé að ganga einhver sérstakra erinda formannsins eða Vinstri grænna er auðvitað jafn mikil della og slagorð Framsóknarflokksins sem búið var til á auglýsingastofu hér um árið og hljóðaði: “Fólk í fyrirrúmi”

Einkavæðing og afleiðingar hennar snertir launafólki í þessu landi svo sannarlega og þessar kerfisbundu eignatilfærslur frá samfélaginu til útvalinna góðvina ríkistjórnarflokkanna sem Björn og hans félagar baksa við dag og nótt eru allra síst í þágu almennings.

Einkavæðing og hin neikvæðu áhrif hennar hafa því um langt skeið verið til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar bæði hérlendis og erlends. Á því hefur verið full þörf og hvað okkur BSRB félaga varðar þá höfum við verið svo heppin að eiga formann sem hefur tekið þessi mál upp og staðið að opinberri umræðu sem svo sannarlega hefur ekki verið vanþörf á.

Umræðan um einkavæðingu vatns er fjarri því ný, þó svo að varaþingmanninum komi hún í opna skjöldu. Undrum varaþingmannsins er sérkennileg og ekkert annað í stöðunni en það eitt að hvetja hann til þess að fylgjast betur með umræðunni.

laugardagur, 30. apríl 2005

Flott músík

Var í því ánægjulega hlutverki í gærkvöldi að vera dómari í Rokkhljómsveitakeppni Hafnarfjarðar og í keppni tölvutónlistarmanna sem fram fór í félagsmiðstöðinni Hrauninu.

16 hljómsveitir og 6 tölvutónlistarmenn á aldrinum 13 – 16 ára voru þátttakendur.
Í tölvutónlistinni sigraði Siggi “húfa” sem starfar undir nafninu Forsetinn. Frábær tónlistamaður sem á örugglega eftir að kveðja að í framtíðinni.
Stúlknabandið Gas station Hockers sigraði í hljómsveitarkeppninni. Gott og kraftmikið rokkband sem á framtíðina fyrir sér.

Í raun voru allir þátttakendurnir sigurvegarar og hinn stóri sigur var ekki síst hafnfirsk unglingamenning. Það er engin tilviljun að okkur hafnfirðingum gengur vel í Músiktilraunum. Við eigum fjölda efnilegra tónlistarmanna sem vonandi halda áfram sem lengst. Gott rock and roll spyr ekki um stað, stund né aldur.

Fínt kvöld og flott tónlist - þakka fyrir mig.

fimmtudagur, 28. apríl 2005

Hver á hvað ?

Datt Olof Palme í hug þegar að framsóknarþingmenn ganga nú fram fyrir skjöldu og opinbera eignir sínar. Í flestum ríkjum þykir það auðvitað ekkert nema sjálfsagt að almenningur viti um eignatengsl stjórnmálamanna við einstök fyrirtæki.

Palme og fjölskylda hans átti nokkurt hlutafé í stórverslun í miðborg Stokkhólms og samkvæmt upplýsingaskyldu þingmanna í Svíþjóð var það öllum ljóst.
Palme gekk reyndar skrefinu lengra því að í þau fjöldamörgu ár sem hann var forsætisráðherra þá fól hann starfsmannafélagi fyrirtækisins að fara með umboð þessara hlutabréfa og afsalaði sér með öllu áhrifum á þeim vettvangi. Uppskar sem vænta mátti trúverðugleika og ekki síst vinsældir.

Undarlegt að hér uppi á Íslandi séu menn að bisa við þetta ca 30 – 40 árum eftir framsýnum lýðræðisríkjum og slái sig til riddara.
Er sennilega ekki flókara mál en það að þetta hafi verið “ill nauðsyn” enda almenningur bæði undrandi og hneykslaður á því hvernig stjórnvöld hafa síðustu ár sólundað sameiginlegum eigum okkar til útvaldra fyrir spott prís, stundum kallað einkavinavæðing. Framsóknarflokkurinn með svona ”ég er ekki í liðinu” yfirlýsingu? Bíð spenntur eftir því hvernig aðrir flokkar taka á þessu og ekki síst hinn stjórnarflokkurinn.

fimmtudagur, 21. apríl 2005

Samningar, vígsla og sundkort

Samningar
Samningsaðilar hittust á þriðjudag á stuttum fundi þar sem rætt voru helstu atrið í komandi kjarasamningum . Sem vænta mátti var ekkert um formleg viðbrögð af hálfu launanefndar önnur en hefðbundin, en ákveðið var að hittast í næstu viku og hefja samningslotuna.

Vígsla
Það gerir það að verkum að fyrirhuguð vígsla hins glæsilega orlofshúss okkar STH félaga á Stykkishólmi er frestað um óákveðin tíma en stefnt að því að það verði við fyrst hentugleika.

Sundkort
Við minnum á hin afar ódýru sundkort sem félagmönnum STH stendur til boða. Það er tilvalið að efla kropp og anda í upphafi sumars. Er ekki bara ódýrt heldur líka meinhollt. Allar frekar upplýsingar fást á skrifstofu STH.

miðvikudagur, 20. apríl 2005

Heimasíða STH - biluð

Heimasíða STH er í ólagi þessa daganna. Verið er að kanna hvað veldur og vonast til að hún komist í lagi fljótlega.

sunnudagur, 17. apríl 2005

Betra en best

Brá mér í Hólminn til þess að kíkja á nýja bústaðinn okkar STH félaga. Betra en best datt mér í hug enda ekkert annað við hæfi. Stórglæsilegur bústaður á frábærum stað. Vona að flestir félagar sjái sér fært að mæta á vígsluhátíðina um mánaðarmótin. Bústaðurinn nánast alveg að verða tilbúin sem er ekki seinna vænna því hann fer í útleigu um miðjan maí. Veit að félagmenn eiga eftir að njóta dvalarinnar.

laugardagur, 9. apríl 2005

Frelsi gungunnar ?

Er sammála þeim hugmyndum sem koma fram í lagafrumvarpi um að tengja bæði farsímanúmer og IP adressum í tölvum nafni og kennitölu. Sem er fyllilega tímabært.
Er í raun verið að samræma ábyrgð og því eðlilegt að sama gildi á þessu sviði eins t.d. ritstjórnarleg ábyrgð á fjölmiðlum sem einnig gildir varðandi prentverk eins og bæklinga og dreifirit. Póstinum er t.d óheimilt að dreifa ritum eða bæklingum sem ekki eru sérstaklega merkt ábyrgðarmanni.

Frjálshyggjufélagið er alfarið á móti þessu. Ég gef ekkert fyrir rök þeirra í þessu máli enda hlýtur frelsinu að fylgja ábyrgð sem auðvitað á engan vegin við hjá þeim gungum sem í skjóli nafnleyndar stunda einelti og jafnvel eineltisherferðir, senda hótannir og jafnvel annað rugl og öllu verra. Flest allt athæfi sem varða við lög. Þetta eru athæfi sem viðkomandi myndu aldrei stunda sem ábyrgir einstaklingar í opnu samfélagi.

Réttur hvers er þá fyrir borð borinn? Er frelsi gungunnar til athafana af þessum toga það frelsi sem við sækjumst eftir? – Nei takk ómögulega segi ég – ábyrgir einstaklingar og opin umræða í lýðræðis þjóðfélagi er það eina sem skylt á við frelsi í þessum efnum. Ekki satt?

mánudagur, 4. apríl 2005

Taldi mig lesa gott gabb

All margir lesendur síðunnar hlupu apríl. Við Geir „milljónamæring” var m.a. haft samband frá fjölmiðlum. Geir er og væri manna líklegastur til að láta gott af sér leiða á þennan hátt og þess vegna margir sem trúðu skrökvinu. Bið lesendur forláts á spauginu og lofa því að plata ekki aftur nema...

Hélt hins vegar að ég hefði sjálfur hlaupið apríl, las nefnilega í Morgunblaðinu að Hafnarfjarðarbær hefði fengnið sérstaka viðurkenningu m.a. fyrir „velheppnaðar stjórnsýslubreytingar 2003”. Verðlaunaveitandinn ekki ómerkari aðili en Samband íslenskra sveitarfélaga. Fannst þetta flott gabb og mikið grín eins og Laddi segir.

Var ekki gabb, reyndist hins vegar (sem betur fer) vera bara hluti af herlegheitunum og bæjarfélaginu að sjálfsögðu óskað til hamingju með það sem virða ber og vel hefur verið gert og viðurkenning veitt fyrir. Meðal annars símenntunaráætlanir sem og hið nýja bókhaldseftirlitskerfi.

Hitt, eitt og sér að veita verðlaun fyrir stjórnsýslubreytingar 2003, sem voru og eru okkur öllum algerlega ógleymanlegar, er sama pönkið og að Starfsmannfélag Hafnarfjarðar myndi veita launanefnd sveitarfélaga sérstaka viðurkenningu fyrir „ríkan" skilning á högum láglaunafólks hjá sveitarfélögunum.

föstudagur, 1. apríl 2005

Vann rúma milljón

Mikil höfðingi er hann Geir vinur minn Bjarnason og samstarfsmaður. Drengurinn vann rúma miljón í Víkingalóttóinu og gaf strax helming þess til velferðarmála.
Veit ekki hvort það er kaupið hjá hinu opinbera sem er svo gott að menn eru aflögufærir eða hvort menn eru með stórt hjarta. Sennilega það síðarnefnda en umfram allt gott mál og til hamingju með framtakið.

þriðjudagur, 29. mars 2005

Af smokkum

Vorum sammála um það ég og þáverandi bæjarstjóri Guðmundur Árni Stefánsson að óhæft væri að selja ekki smokka í félagsmiðstöðinni. Árið var 1988 og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá var þetta nokkuð feimnismál.

Ungir menn áttu einn þann kost að fara í apótekið, sem var eini sölustaðurinn í þá daga, roðna og blána og versla oft á tíðum, þegar að upp var staðið, alkyns annan varning en blessaðar verjurnar, allt út úr tómum vandræðagangi. Var þetta því mörgum ungum manninum hin mesta sneypuför.

Ekki mátti búa við þetta ástand lengur, vorum við sammála um , þannig að ég geri mér ferð í hið virðulega Hafnarfjarðarapótek, sem þá var og hét. Spurði eldri dömu sem þarna afgreiddi umbúðalaust um verjur. Af hæversku réttir hún mér lítinn pakka eins og hér væri um leyniskjöl að ræða.

Var auðvitað ekki kátur með þessa afgreiðslu enda í opinberum erindagjörðum. Bið hana því að sýna mér fleiri tegundir sem og hún gerði, en skimar jafnframt í kringum sig. Velti fyrir mér í rólegheitum gæðum þessar 10 – 12 tegunda sem á boðstólum voru og spyr hana í framhaldinu um verð, gæði og hvað hún telji hagstæðustu kaupin. Spurningin kom henni í opna skjöldu enda sennilega aldrei verið spurð að þessu, bendir mér síðan á tiltekna tegund, sem hún kveður mest keypta. „Fæ þá 200 stykki af þessum“ segi ég eftir nokkra umhugsun og sé að konunni bregður við, hugsar sennilega hvað ég haldi að ég sé , Casanova eða eitthvað álíka fyrirbæri.

„Tekur þú beiðni frá bæjarsjóð “ spyr ég og sé þá að afgreiðslukonunni er allri lokið. Félagsmálstofnun að kaupa smokka fyrir einhvern kvennaflagarann, hugsar hún örugglega, lýkur samt afgreiðslunni af fagmennsku en með nokkurn roða í vöngum.

Blessaðir smokkarnir fóru síðan í sölu upp í gamla Æskó. Seldust ágætlega , flestir ef ekki allir sem þá keyptu nýttu þá sem vatnsblöðrur, enda ýmis ungmenni sem ekki voru klár að hinu viðtekna notagildi smokksins, sem auðvitað kom síðar. Hitt er annað mál að ástfangnir starfsmenn sáu sér sennilega leik á borði og versluð frekar hjá okkur en að fara í apótekið.

Hitt er svo allt annað mál að í félagsmiðstöðinni Vitanum var smokkasjálfsali löngu áður en það var almennt. Ágætur starfsmaður í félagsmiðstöðinni hafði sannfært fyrirtækið um að það yrði gríðarlega sala og fyrirtækið myndi græða verulega.

Salan var lítil en gestur nokkur í fermingaveislu sem þarna var haldin, en oft var húsið leigt undir slíkt þegar að allir aðrir salir voru uppteknir, sagði þetta í fyrsta skiptið sem hann hafi verið í fermingu þar sem jafnframt voru seldir smokkar.

sunnudagur, 20. mars 2005

Okkar menn unnu

Óska strákunum í hljómsveitinni Jakobínarína til hamingju með sigurinn í Músiktilraunum. Frábær árangur hjá ungum og efnilegum tónlistarmönnum úr Áslandinu.

Við hafnfirðingar eigum fullt af góðu tónlistarfólki, okkur vantar bara meira af æfingarhúsnæði. Menningarstarfsemi þarf sitt húsnæði alveg eins og blessaðar íþróttirnar.

Góður tónlistarskóli skilar ekki bara fólki í „Melabandið”, góður tónlistarskóli er fínn grunnur fyrir poppara. Þess njótum við svo sannarlega þessa daganna (og árin) hér í Hafnarfirði, enda fullt af góðum unglingaböndum í bænum. Jakobínarína fremstir meðal jafninga – Íslandsmeistarar í rokktónlist - húrra, húrra, húrra og húrra.

miðvikudagur, 16. mars 2005

Komust mun fleirri en vildu

Hélt gagnmerkan fyrirlestur í kvöld á okkar ágæta Byggðarsafni. Þekkti alla gestina sem voru , forstöðumaður í félagsmiðstöð, aðstoðarforstöðumaður í annarri félagsmiðstöð, ritstjóri , sagnfræðingur, bæjarfulltrúi og deildarstjóri í menntamaálráðuneytinu. Allt saman sóma fólk.

Minnugur þess að sjálfir Bítlarnir fengu ekki marga á tónleika hjá sér á Hamborgar árunum, heyrði reyndar að einhvern tímann hafi þeir leikið fyrir einn gest, þá flutti ég fyrirlesturinn.

Og viti menn, eftir rúmlega klukkustundar fyrirlestur um félagsmiðstöðvarnar í hinu sögulega ljósi þá fór ríflega annar eins tími í afar fjörugar og málefnalegar umræður meðal gesta. Er því á þeirri skoðun að magn gesta sé ekki endilega mælikvarði á góðan fund. Virkni og áhugi þeirra sem mæta er lykilatriði og yfir því var ekki hægt að kvarta í þessu tilfelli nema síður sé. Segi því bara - þakka þeim sem á hlýddu.

sunnudagur, 13. mars 2005

Fín árshátíð hjá starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar

Held ég? Það er nefnileg þannig að við sem stöndum í, og höfum staðið í undirbúningi ýmiskonar viðburða og hátíðarhalda til margar ára, vitum sem er að ekki er á vísan að róa hvað fólki finnst gott eða slæmt. Mér fannst skemmtikraftar, veislustjóri sem og hljómsveit standa sig með mikilli prýði. Guðrún Gunnarsdóttir alltaf góð, enda ein af okkar allra bestu söngkonum.

Það ytra þ.e. skemmtikraftar, matur og fleira í þeim dúr er eitt og á því eru eins margar skoðanir og þátttakendur eru. Annað eru atriði eins og tæknimál, tímasetningar á dagskráatriðum , uppröðun og aðbúnaður í húsi er annað og oft hlutir sem fólk tekur ekkert eftir og hefur enga skoðun á svo fremi að allt gangi þokkalega fyrir sig og sé snyrtilega gert.

Dettur í hug ýmislegt t.d. varðandi 17. júni hátíðarhöldin í gegnum árin. Eitt sinn vorum við, að okkar mati sem þetta skipulögðum með fremur kléna dagskrá, höfðum af þessu nokkra áhyggjur, höfðum lítil fjárráð og allt stemmdi í lélegan 17. jánda .

Dagurinn rennur upp og viti menn brakandi sólskin og sumarverður eins og það gerist best. Bæjarbúar fjölmenntu á hátíðina og allir himinlifandi og allir mjög ánægðir og einhverjir töldu hér vera á ferðinni þann besta 17. júní.

Velti því fyrir mér ef að þessi sami 17- jándi hefði farið fram í slæmu veðri? Hefðum sennilega fengið orð í eyra. Velti því fyrir mér í þessum efnum hvort mat á gæðum og hvernig stemming verður sé ekki eitthvað sem fyrst og fremst mótast innra með fólki og að dagskrá sem slík sé ekki endilega lykilatriði í þeim efnum þ.e.a.s. svo fremi að hún sé þokkaleg.

Var ekki var við annað en að fólk væri þokkalega hresst með gærkvöldið - Liggur kannski í ódýru miðaverði, afar ódýrum veitingum og hressu og skemmtilegu fólki - sem bæjarstarfsmenn í Hafnarfirði vissulega eru - málið er sennilega ekkert flóknari en það?

mánudagur, 7. mars 2005

20.000 gestir

Nokkur áfangi um helgina þar sem gestir síðunnar eru orðnir 20.000. Góður miðill og fínt form, þ.e.a.s.ef fólk skrifar undir nafni og standur með þeim hætti fyrir sínum skoðunum. Því miður eru nokkur brögð á því að svo sé ekki raunin hjá ýmsum þeim er nýta sér þennan miðil. Sem er auðvitað verulegur galli á þessari stóru veröld sem Netheimar eru orðnir. Netverjavegabréf hlýtur að vera það sem koma skal.

Hef sjálfur þá reglu að breyta aldrei neinu sem komið er inn á síðuna en þó með þeirri undantekningu að stafsetningar- og málfræðivillur eru leiðréttar, þ.e.a.s ef maður sér þær. Tjáningarfrelsið er aðalatriðið og sem slíkt haft í öndvegi, hef því ekki verið að láta hina kórréttu setningarfræði eða lög um íslenska stafsetningu trufla mig neitt sérstaklega.

Mun halda þessu áfram eins lengi og ég nenni og hef eitthvað að segja. Það er afar praktískt að eiga persónulegt málgagn. Get með þeim hætti fjallað um nánast hvað mál sem er og um verkalýðsmál út frá allt örðum forsendum en ég geri sem ritstjóri og ábyrgðamaður STH síðunnar.( Starfsmannafélags Hafnarfjarðar)

Fæ yfirleitt mjög fín viðbrögð frá lesendum, með nokkrum undantekningum þó. Þó er það merkilegt að það eru yfirleitt sömu greinarnar sem fá sterk viðbrögð og þá í báðar áttir. Veit þá sem er að þar eru mikil álita mál á ferðinni - hitamál sem auðvita er nauðsynlegt að fjalla um. Þakka lesendum, ábendingar, athugasemdir og hlý orð.

þriðjudagur, 1. mars 2005

Láglaunastefnu mótmælt á alþjóðlegum vettvangi


Hélt gagnmerka ræðu s.l. sunnudag í London. Staðurinn var Speakers Corner í Hyde Park þar sem málfrelsið er algert og þeim sem það vilja býðst að segja hug sinn og afstöðu í hverju því málefni sem viðkomandi þurfa þykir, en aðeins á sunndögum.

Lenti í smá aðstöðuleysi í upphafi , en þar sem að múslimi nokkur var í málhvíld þótt mér víð hæfi að hann af umburðarlyndi sínu léði mér kassa sinn um stundar sakir þannig að ég gæti hafði mig örlítið yfir viðstadda og breitt út minn göfuga boðskap. Sá síðskeggjaði vildi ekki fyrir nokkurn mun lána mér kassann sinn í nokkrar mínútur þar sem ég væri kristin maður? Fordómar spyrja ekki um stað og stund.

Umræðuefnið, mótmæli við hina grjóthörðu láglaunastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem kristallast í stefnu launanefndar sveitarfélaga. Stefnu þessari var harðlega mótmælt og varað við afleiðingum hennar með fjölmörgum dæmum og gildum rökum þar um. Skoraði ég á bæði launanefnd sveitarfélaga og Hafnarfjarðarbæ ( enda óljóst hver ræður ferð í stefnumótun) að láta af þessari stefnu hið fyrst og taka upp nútímalegri og jákvæðari viðhorf í þessum málum.

Ekki var ég var við annað en að fundamenn væru mér að öllu leyti sammála , allavega þeir sem íslensku skyldu, sem voru a.m.k. fimm manns. Aðrir gestir sýndu hug sinn í verk með því að staldra við og gefa ræðumanni gaum og sáu sem var að málefnið var mikilvægt og þrungið alvöru.

sunnudagur, 27. febrúar 2005

Félagsmiðstöðvar og London

Erum búin að vera síðustu daganna í London hópur frá ITH. Fórum víða og sáum bæði afar vel búnar félagmiðstöðvar og einnig aðrar sem voru nánast rekar af viljanum einum saman og af fólki sem hafði sterkar hugsjónir um velferð unglinga að leiðarljósi.

Sú merkasta er auðvitað Toynbee Hall sem er í raun elst allra félagsmiðstöðva heiminum og var stofnuð árið 1884 þegar að félagslegt óréttlæti í kjölfar iðnbyltingarinnar og ástand fátækrahverfanna með þeim hætti að mörgum sómakærum háskólamönnum og aðilum í efri stéttum hins breska samfélags ofbauð aðbúnaður lægri stétta samfélagsins. Samfélag þar sem kolanámuhesturinn var meira virði en börn í þrælaánauð kolunámanna. Úr þessu sprettur hugmyndafræði Hverfamiðstöðva sem voru í raun forverar félagsmiðstöðva fyrir ungt fólk

Starfsemin Toynbee Hall er enn í fullum gangi og nú eru málefni minnihluta hópa og innflytjenda í forgrunni og ljóst að þrátt fyrir 120 ára sögu þá er hlutverk miðstöðvarinnar ennþá í fullu gildi.

Frú Thatcher sem ríkti fyrir margt löngu setur því miður enn þann dag í mark sitt á velferðarkerfið breska sem engan vegin hefur jafnað sig á fantatökum hennar sem var gríðarlegur niðurskurður fjárframlaga til félagasamtaka og þeirra aðila sem vinna að velferðarmálum æskunnar.

Félagsmiðstöðvar og málefni hinnar ófélagsbundnu æsku lentu einfaldlega undir og öll statistk sýnir einfaldlega hve arfa vitlaust það var þar sem fjöldi vandamála síðustu ár og áratugi hefur aukist verulega, bæði eiturlyfjaneysla unglinga sem og glæpir. Unglingar margir hverjir eiga í fá hús að venda. Sérstakleg hefur þetta komið illa niður á þeim sem minna mega sín í samfélaginu og búa við hvað verstar aðstæður.

Félagsmiðstöðvar eru forvarnarstarf - og ekki alltaf hægt að reikna ágóðann með aðferðafræði háskólamenntaðara bókara - Einn unglingur sem fetar slæmu brautina í stað hinnar góðu og dyggðugu getur verið "gjaldfærður" í "nútíma" bókhaldskerfi hér og þar og hjá hinum ýmsu stofnunum samfélagsins, "kostnaður" getur hæglega orðið 10.000.000 kr.eða meira, allt eftir tilvikum?

Hvenær verður hinum raunverulega sparnaði hins fyrirbyggjandi starfs gaumur gefin - sem er ekki bara að fækka þeim einstaklingum sem ekki ná að fóta sig og þeim harmi sem það hefur í för með sér - er einnig spurning um að koma í veg fyrir gríðarleg útgjöld samfélagsins sem hljótast af þeirri ógæfu þegar að unglingur lendir á refilstigu - verður vonandi einhvern tímann metið út frá réttum forsendum og þá mun þeir sem þessu ráða sjá hve vel fé til velferðamála æskunnar nýtist í raun og veru.

föstudagur, 18. febrúar 2005

Héraðsdómur Reykjaness

Þannig hagar til að vinnustaður minn er gengt nýlegri byggingu Héraðsdóms Reykjaness við Linnetstíginn í Hafnarfirði. Tilkoma dómsins hefur breytt ýmsu, því að í stað frábærs útsýnis þá hefur annað sjónarspil tekið við.

Sem eru mannanna sorgir og gleði, allt eftir því hvernig lyktir mála hafa orðið í dómsmálum viðkomandi. Jakkafataklæddir menn staldra við fyrir utan dóminn og ræða málin í góðu tómi , aðrir er ögn háværari og einhvern tímann heyrði ég menn senda hvorum öðrum tóninn af nokkrum ákafa og hávaða.

Lögreglubílar, menn með hulin andlit og sjónvarpsmyndavélar verða hluti hverdagsins. Undirmálsmenn hírandi undir gafli á köldum vetrarmorgnum, staupandi sig áður en farið er í dómsal. Góðkunningjar lögreglunar niðurbrotnir í smók eftir dómsuppkvaðningu og á slíkum stundum oft í samtölum við ungan blaðamann DV sem virðist vaka yfir réttinum og því sem þar fer fram.

Þrátt fyrir skertan sjóndeildarhring vegna þessar byggingar Héraðsdóms þá er ég ekki nokkrum vafa um að hinn eiginlegi sjóndeildarhringur hafi víkkað til muna og sé nú að einhverju leyti mun víðari en áður var.

Um dóma les maður í blöðum og þeir snerta mann misjafnlega. Hitt er öllu áhrifaríkar og sorglegra sem er að sjá hluta þess harmleiks sem átt hefur sér stað og leitt til dómsmálsins. Þolendur og gerendur, allt er þetta fólk af holdi og blóði

Með þúsund kall í annarri hendinni og Biblíuna í hinni hendinni að aflokinni afplánun á Litla Hraun eins og Lalli Jons birtist okkur í samnefndri heimildarmynd er auðvitað bara ávísun að annan hring í dómskerfinu.

Velti fyrir mér málefnum síbrotamanna sem flestir hverjir eiga við veruleg vandamál af andlegum toga að etja og nánast undantekningarlaust eru viðkomandi einnig langt gengir vímuefnaneytendur. Velti fyrir mér hvort dómskerfið sé hinn eiginlegi vettvangur eða hvort einhverjir aðrir kostir sé bæði samfélaginu og viðkomandi einstaklingum betri - Veit það ekki - efast samt sem áður oft um hvort „Betrunarvist" sé oft á tíðum í raun betrunarvist?

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

SUS bíó „Farenhype 9/11"

Fór í SUS ( Samband ungra Sjálfstæðismanna) bíó og hafði gaman af. Þakka SUS-urum boðið en þar á bæ eru menn óþreytandi við að breiða út boðskapinn. Og hvað svo sem manni kann að finnast um innihaldið þá verður ekki fram hjá því horft að formaður sambandsins Hafsteinn Þór Hauksson er dugmikil forystumaður sem lagt hefur á sig mikla vinnu í gegnum árin í þágu ungliðahreyfingarinnar og sem slíkur stuðlað að virkri þjóðfélagsumræðu á síðustu árum.

Myndin „Farenhype 9/11" var hins vegar nokkuð spes og er gerð sem andsvar við mynd Michaels Moore „Farenheit 9/11". Verð að segja eins og er að ef mynd Morre var áróðurskennd þá var þessi í æðri víddum hvað það varðar enda gerð skömmu fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Hvort Bush sneri bókinni á hvolfi í skólaheimsókninni eða ekki, eða hvort hann sat aðgerðarlaus í sjö eða fimm mínútur eftir að hann fékk fregnir um árásirnar á Tvíburaturnana, finnst mér ekkert grundvallaratriði. Að allir séu í olíusukkinu, líka demókratar og fl í þeim dúr, og að ættingjar Bin Laden hafi ekki verið fluttir frá USA fyrr en tveimur dögum eftir árasina en ekki strax á eftir og að Michael Morre sé sérstaklega vafasamur pappír, hefur enga þýðingu hvað varðar grundvallaratriði málsins.

Og þrátt fyrir trix eins undirliggjandi hjartsláttarhljóð og ýmsa dramatíska hljóðeffekta , king size skammti af þjóðernishyggju, ofur ánægju með Bush og hans algerlega óbrigðulu störf þá nær myndin aldrei neinu flugi. Myndin er klauflega unnin og afar ósannfærandi og langt yfir strikinu tímunum saman. „Rebúblikanar á bömmer" væri sennilega réttnefni.

Umræður voru nokkrar eftir myndina en sem því miður tókust ekki sem skyldi enda einokaðar af einhverjum „besserwisser" sem sagði að ekki væri hægt að ræða við vinstri sinnað fólk um stjórnmál sökum gáfna? og það skyldi ekki frelsið?? Vakti nokkur andmæli og umræður sem höfðu fyrst og fremst skemmtanagildi. Varð af hin mesta skemmtun en lítið um konkret umræður um myndina.

„Poppið var gott" sagið í frægri kvikmyndagangrýni eitt sinn. Tek heilshugar undir þau orð.

mánudagur, 7. febrúar 2005

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti?

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti? Myndi einhver segja en öðru nær segi ég. Fer víða starfa minna vegna, en þó ekki alla leið til Ástralíu eins og ágæta lesendur gæti verið farið að gruna þegar að hér er komið sögu.

Var hins vegar í Kaupmannahöfn sem stjórnarmaður í verkefnastjórn UiN í þeim ánægjulegu erindagjörðum að gera upp og fara yfir framkvæmd hins afar velheppnaða unglingamenningamóts Ung i Norden sem haldið var í Hurrup á Jótlandi s.l. sumar.

Brá mér eitt kvöldið á ástralskan veitingastað í miðborginni. Bragðaði þar hina áströlsku flóru, krókódíl, kengúru, emu sem er fugl af ætt strúta og flís af nautakjöti. Allt saman mikið góðgæti og ekki spurning um að ef þetta er hinn "ástralski þorramatur" þá er það verulegt ánægjuefni að blóta þann þorrann.

miðvikudagur, 2. febrúar 2005

Er mjög ánægður með Víðistaðaskóla

Flott skólasamfélag og þrátt fyrir mikið rask vegna byggingaframkvæmda í vetur þá gengur skólastarfið með ágætum, sem er auðvita með ólíkindum, en gengur samt sem áður vegna þess að skólasamfélagið leggst á eitt til að svo megi verða, með ómældri fyrirhöfn. Félagsmiðstöðin Hraunið býr við góðan kost og blómlegt félagslíf auðgar andann og bætir mannlífið hjá unglingunum.

Er alveg sérstaklega ánægður með kennara dóttur minnar hana Eddu Jónasardóttur. Edda er einstakur mannvinur og KENNARI með stórum staf sem nýtur mikillar virðingar sinna nemenda, er þeim fyrirmynd og læriföður og sýnir okkur með störfum sínum hve gríðarlega mikilvægt kennarastarfið er.

Góður kennari verður aldrei metin til fjár og þetta smáræði sem bæjarfélögin eru reiðubúin til að greiða kennurum í laun er ekki í nokkru samræmi við mikilvægi þeirra starfa sem þar fara fram..Sorgleg skammsýni og skussamennska því gott og farsælt skólastarf er undirstöðuatrið allrar framþróunar samfélagsins, þar á auðvitað ekki að spara? “Sparnaður” í þeim ranni er í raun sóun.