fimmtudagur, 26. maí 2005

Þjóðarskúta siglir í strand

Kristján Ragnarsson var ákaflega farsæll hagsmunagæslumaður íslenskra útvegsmanna. Það skipti engum togum , ef allir fiskarnir í sjónum í kringum landið voru ekki á hraðferð inn í botnvörpur hans manna sem þinglýst eign , þá mætti hann í fjölmiðla og tárbunan stóð út úr báðum augunum beint upp í loftið. Þjóðfélagið færi algerlega á annan endann, kreppa hæfist,landið legðist í auðn og ýmis önnur óáran myndi dynja fólkinu.

Kalla þetta að vinna mál “á tárakirtlunum”. Skil reyndar ekki hvers vegna þessi pæling kemur upp í huga mér í miðri kjarasamningalotu hér í Karphúsinu?

Sennilega eru það þau miklu ótíðindi sem hér hafa farið um sali eins og eldur um sinu, sem þessu valda. Tíðindin um hina verulega bágu fjárhagsstöðu sveitarfélaganna, sem ku vera að fara á hausinn umvörpum og því ekki nokkurt vit í að stefna fjármálum þeirra í frekari óefni en komið er. Ef fram fer sem horfir þá mun .... og svo framvegis!

Líklega best að allir peningarnir fari á einn stað rétt eins og fiskarnir, hugsar maður með sér. Vitandi það að oft veltir lítil þúfa stóru hlassi og ekki viljum við smælingjarnir sem nefndir erum bæjarstarfsmenn verða þess valdandi að allt fari á anna endann í þjóðfélaginu vegna ofurlaunakrafna okkar í kjarasamningum.
Þá er nú betra að þiggja bara það sem að manni er rétt og lána viðkomandi aðilum vasaklút – ekki satt?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli