mánudagur, 25. ágúst 2003

Jú það er rétt lögfræðiþjónusta kostar sitt

Jú það er rétt
lögfræðiþjónusta kostar sitt og því miður hefur það reynst okkur hjá STH nauðsynlegt að eiga öllu meiri samskipti við lögfræðinga en við hefðum kosið síðustu árin. Málið er einfalt, að vernda hagsmuni félagsmanna kostar sitt og þá sérstaklega þegar að reynt hefur verið lengi og með öllum ráðum að ná sáttum án árangurs.

Á umliðnum árum
hefur lögfræðingur STH fyrir hönd viðkomandi félagsmanna og á kostnað félagsins gert fjölmarga starfslokasamninga. Ekki man ég lengur hve margir starfslokasamningar fóru í gegnum lögfræðing STH þegar að stjórnsýslubreytingar voru gerðar í tíð fyrrverandi meirihluta. S.l ár kom félagið að tveimur starfslokasamningum þegar að yfirmanni fræðslusviðs og yfirmanni fjármálasviðs var sagt upp störfum og í ár hefur einn slíkur samningur verið gerður. Í þeirri hrinu sem nú stendur yfir hefur undirritaður verið í nokkuð þéttum samskiptum við lögfræðing félagsins aðallega sem formaður STH vegna málefna einstakra starfsmanna en einnig sem prívatpersónan og embættismaðurinn Árni Guðmundsson. Nokkrir aðrir starfsmenn hafa einnig ráðfært sig milliliðalaust við lögfræðing félagsins.

Allt kostar þetta
og því miður þá hlýtur þessi aukni kostnaður að vera til marks um samskipti sem ekki geta talist með besta móti. Akureyrarbær sem tapað hefur hverju dómsmálinu á fætur öðrum varðandi réttindi og kjör starfsmanna situr uppi með þann stimpil að ekki sé allt með felldu í starfsmannamálum, viðhorf til starfsfólksins eru augljóslega afar neikvæð.

Þetta rann allt upp fyrir mér
í dag er tveimur háttsettum hafnfirskum embættismönnum þótti tilhlýðilegt að ræða við mig af fyrra bragði hið s.k. fæðingarorlofsmál. Í því máli hefur verið teygt og togað um fleiri missera skeið og bæjaryfirvöldum fyrir löngu fullljóst hvert stefndi í þessum efnum .
Starfsmannafélag er ekki bara sumarbústaðir og hótelmiðar. Starfsmannafélag er afl sem stendur vörð um réttindi sinna félagsmanna og ef það kostar peninga þá verður bara að hafa það. STH stefnir hins vegar ekki málum fyrir dómstóla af gamni sínu . Aðgerðir af slíku tagi er teknar að vel ígrunduðu máli af stjórn félagsins í samráði við "bestu manna yfirsýn" á hverjum tíma og þegar að allar aðrar leiðir hafa verið reyndar í þaula. Þetta er einfaldlega hlutverk félagsins.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli