laugardagur, 18. mars 2006

Heldur margur mig sig?

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður er þessa daganna í deilum við okkar helstu heilbrigðisvísindamenn um tengsl óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Sigurður er einnig mikil baráttumaður fyrir því að selja áfengi í matvöruverslunum sem og að leyfa auglýsingar á áfengi. Sigurður er því með mörg járni í eldinum og hefur í mörg horn að líta.

Ekki dettur mér í hug eina sekúndu, sem áhugamanni um viðskiptasiðferði og velferðarmál barna og ungmenna, að halda því fram að þingmaðurinn sé í þessari baráttu sinni í umboð sígrettu- og áfengisbransans. Ég held einfaldlega að þetta séu staðfastar skoðanir þingmannsins og spekulasjónir um annað séu út í hött.

Í þessu ljósi er auðvitað nokkuð sérkennilegt hvernig þingmaðurinn vinklar umræður um vatnalög og heldur því staðfastlega fram að Ögmundur Jónasson samstarfsmaður minn í stjórn BSRB nýti samtökin eins og deild í VG. Verð því að velta því fyrir mér hvort þingmaðurinn Sigurður sé ekki sammála mér um mitt mat á störfum hans sjálfs (þ.e. Sigurðar). Eru stjórnmálamenn rígbundnir á klafa hjá hagsmunaaðilum. Er frumvarp um afnám áfengisauglýsingabanns í boði bjórframleiðenda?

Í stjórn BSRB er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Margir af nánustu samstarfsmönnum Ögmundar Jónassonar eru flokksfélagar Sigurðar. Ögmundur Jónasson þiggur ekki laun hjá BSRB ólikt því sem t.d. fyrverandi þingmaður sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands gerði. Sem formaður BSRB hefur Ögmundur ávallt haft eitt markmið og það er að þjóna hagmunum allra sinna umbjóðenda. Í þeim efnum hefur hann verði kröftugur talsmaður auk þess sem hann hefur ávallt staðið vörð um velferð þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu.

Aðgangur að vatni eru mannréttindi en ekki söluvara . Öll hin alþjóðlega umræða lýtur að því og þeim skoðunum má finna stað í ýmsum alþjóðasamningum. Umræðan hér á landi þarf því að vera á hærra plani en því að gera lítið úr þverpólitískum samtökum eins og BSRB sem og formanni samtakanna með brigslyrðum af þeim toga er Sigurður Kári gerir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli