þriðjudagur, 7. mars 2006

Formannafundur í Kríunesi

Formenn Samflotsfélaganna munu funda í Kríunesi 8 og 9 mars. Fundarefnið verður starfsmatið. Verður örugglega fjörugur fundur en að mörgu leiti er einsýnt hvert stefnir, starfsmatið hefur einfaldlega reynst illa og spila þar inn margir þættir. Menn vita ekki almennilega hvort kerfið er samræmt milli félaga eða hvort kerfið er keyrt út á einstaklinga , störf eða á einstök sveitarfélög? Starfslýsingum er einhliða breytt út og suður án tillits til þess hvort eða hvernig störfum var háttað áður en starfsmatið kom til. Öðruvísi tenging er á sama kerfi hjá borginni þar sem punktar eru mun verðmætari. Þýðir einfaldlega að sambærileg störf eru mun „verðminni “ hjá sveitarfélögunum. Innleiðing kerfisins tekist illa, seint og með endalausum þrætum. Í dag eru 1.193 dagar síðan kerfið átti að taka gildi fyrir alla starfsmenn bæjarfélaganna, ennþá skortir nokkuð á að svo sé! Kerfið hvað sem um það má segja hefur einfaldlega ekki staðið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar af hálfu starfsmanna sveitarfélaganna.

Það má vel vera að einhverja kosti sjái launanefnd sveitarfélaga í þessu, helst er það að mínu mati að flækjustig kerfisins er gríðarlega hátt og innleiðing þess með þeim hætti að eðlileg launþróun meðal bæjarstarfsmanna innan Samflots hefur ekki átt sér stað. Enda var málum svo komið að neðar varð ekki komist í þeim efnum. Grípa þurfti til sértækra aðgerða til þess að bjarga hluta af vitleysunni með sérstakri samþykkt á launaráðstefnu sveitarfélaganna.

Í stað þess að blása lífi í starfsmatskerfið t.d. með því að samræma tengingu þess og launasetningu við það sem gerist hjá borginni þá var það gert með uppbótargreiðslum sem fela í sér að yfirvinna tekur áfram mið af gamla taxtanum sem og margt annað s.s. lífeyrisgreiðslur í mörgum tilfellum, framlag í endurmenntunarsjóð, veikindaréttur o.s.frv. Bútasaumur í stað þess að leysa málið heildrænt.

Útkoman er handónýtt launakerfi og marklaust starfsmat. Niðurstöður sem fjarri því gagnast starfsfólki sveitarfélaganna. Hlýtur einnig að vera öllum alvöru sveitarfélögum verulegt umhugsunar- og áhyggjuefni. Sá sem þetta ritar mun ekki í leggja nokkra áherslu á viðgang þessa starfsmatskerfis. Tel reyndar að takmörkuð trú (ef nokkur) hins almenna félagsmanns á starfsmatskerfinu leiði einfaldlega til þess að í næstu kjarasamningum þá komi það einfaldlega ekki til greina sem launamyndunarkerfi og því verði einfaldlega sjálfhætt af þeim sökum

Engin ummæli:

Skrifa ummæli