miðvikudagur, 16. júlí 2003

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni

Með Eddumiða í annari og Visakortið í hinni
Ágætt þetta Eddumiðakerfi. Átti fína helgi á Laugarvatni í góðra vina hópi. Dvaldi í Menntaskólanum í ágætu herbergi. Fínt að öllu leyti nema baðherbergi fylgir ekki og ef maður kýs að taka herbergi af því tagi þá er kostnaður 4.000 kall aukalega per nótt!

Sem leiðir hugann að því hve rosalega dýrt er að ferðast innanlands. Á raunvirði er herbergi með baði því á um 12.000 krónur. Þar við bætist 2 x 850 krónur í morgunverð. Út i hinum stóra heimi fær maður afar gott herbergi fyrir þann prís og með mun fleiri stjörnum en heimavist Menntaskólans á Laugarvatni státar af. Hið íslenska verðlag er ekki beint vinsamlegt og með aukinni samkeppni í flugi til og frá landinu verður ódýrasti kosturinn fyrir íslendinga að fara erlendis í frí. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef sú verður raunin. Verklýðshreyfingin hefur með orlofshúsum sínum og hótelmiðum gert fjölda manns kleyft að ferðast innanlands sem annars ætti þess ekki kost. Verkalýðhreyfingin hefur því lagt sitt á vogarskálarnar, en hvað með aðra?

Betur má ef duga skal í þeim efnum því annars verður það eini raunhæfi kosturinn til að upplifa landið sitt fyrir vísitölu fjölskylduna að kaupa tollfrjálsan DVD disk um "Undur Vestfjarða" í Leifsstöð á leið til Kaupmannahafnar í fríið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli