miðvikudagur, 31. ágúst 2005

Er á Spáni

Þessa daganna í lagþráðu fríi. Dvel í hinu glæsilega og vel staðsetta húsi STH á La Zenia svæðinu i útjaðri Torraveja. Hitinn þetta 30 - 35 gráður sem er í heitara lagi Er illa tengdur tölvuheimum og því lítið um innlegg á síðuna á næstunni. Kem hins vegar heim þann 7. september og tek þá til óspilltrar málanna.

miðvikudagur, 17. ágúst 2005

Kabarett - ekki spurning

Brá mér í Óperuna um daginn með fjölskyldunni og sá Kabarett. Frábær sýning hjá leikhópnum „Á senunni" þar sem valinn maður var í hverju rúmi. Frábærir tónlistarmenn og afburða leikarar. Flott leikstjórn og mun sterkari boðskapur en kom fram í samnefndri kvikmynd fyrir allmörgum árum.

Mæli sem sagt eindregið með þessari sýningu og hvet alla sem þetta lesa að láta þessa sýningu ekki fram hjá sér fara. Bíð spenntur eftir (vonandi) væntanlegum hljómdisk með tónlistinni sem ég mun fjárfesta í ekki seinna en strax.

miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Mjög spes !

Hugsaði ég með mér þegar 3- 4 snagar voru auðir sitt hvoru megin við Martin vin minn og skólafélaga i Gautaborg fyrir margt löngu. Dagurinn var mánudagur, íþróttafræðitími var að hefjast en eitthvað var stemmingin skrítin. Skýringin kom fljótlega í ljós, í gleðskap bekkjarfélaganna um helgina hafði Martin tilkynnt skólafélögunum að hann væri hommi.

Hafði misst af partýinu og því ekki inni í málum. Eitthvað hafði þetta farið skakkt í mannskapinn sem marka mátti af viðbrögðunum í búningsklefanum þennan mánudagsmorgun. Fljótlega var þó veröldin söm og allt féll í ljúfa löð. Martin sem endranær hinn hressasti og lífið gekk sinn vanagang.

Datt þetta svona í hug af tilefni „Hinsegin daga” í Reykjavík. Flott baráttuaðferð að gefa fólki kost á því að taka þátt í gleðinni með sér. Betur má ef duga skal en alltént þá er framvinda stöðug í réttindabaráttunni sem auðvitað er hið besta mál. Og sem betur fer þá hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Martin gaf yfirlýsinguna frægu árið 1982.

þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Stuðningur í verki ?

Þakka lesendum síðunnar, og öðrum þeim fjölmörgu sem sent hafa mér póst undanfarið, fyrir stuðning og hlý orð. Vissi svo sem að fólki leiðist þessi hroki og yfirgangur sem áfengisframleiðendur og salar sýna velferð barna og unglinga með því að þverbrjóta lög um áfengisauglýsingar kerfisbundið.

Veit nú sem er
að fólki þúsundum saman er misboðið því vitað er að auglýsingin ( sjá hér neðar á síðunni) sem fór af stað um daginn hefur farið mjög víða um þjóðfélagið. Fólk þúsundum saman hefur sýnt hug sinn í verki og sent vinum sínum þennan póst.

„Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem ota áfengi að börnunum manns ? “ er auðvita grundvallarspurning þegar að mál hafa fengið að þróast átölulaust út í þá vitleysu sem hér viðgengst. Þegar að svo er komið, og þegar að þar til bær yfirvöld eins og embætti ríkissaksóknara þjást af verkkvíða á háu stigi, þá hefur almenningur bara eina leið.

Leiðin er einföld og er sú að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem virða ekki lögbundin réttindi barna og unglinga. Með viðskiptum styrkir maður viðkomandi fyrirtæki til frekari landvinninga á því sviði og ekki trúi ég því að það sé vilji fólks? Samhengi hlutanna er ekki flóknari en þetta og það ættu afar, ömmur , pabbar, mömmur, frænkur, frændur og allir þeir sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti að hafa hugfast við hin ólíklegustu tækifæri - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.