sunnudagur, 25. september 2011

Veit ekki hvort myndin er táknræn en ...

Myndir og eða myndataka segja oft mun meira en það sem sagt er í viðtölum. Þessi mynd er af hinum ágæta vef www.fotbolti.net - Óneitanlega afar ironiskt að sjá krosstákn í mynd vinstarmegin. Sérstaklega ef litið er til þeirrar erfiðu stöðu sem lið Grindavíkur er í nú fyrir lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu

laugardagur, 10. september 2011

Er verið að gera grín að bæjarbúum?

...spyr ritstjóri Fjarðarpóstsins um verulega takmarkað upplýsingagildi fundargerða nefnda og ráða hjá Hafnarfjarðarbæ. Að flestu leyti með réttu en í þessu tilfelli  sem hér er sýnt ( FP 8.sept 2011) er fundagerðin nákvæmlega eins staða málsins - tabula rasa. Staða þessa máls er samkvæmt þessu í besta falli blanko.

Eðlileg færsla og samræmi við stöðu málsins væri  að færa eftirfarandi til bókar:  "Unnið er áfram að verulegum niðurskurði í málefnum barna og unglinga, nú undir formerkjum skipulagsbreytinga. Reiknað er með, að með breyttum störfum, nýju starfsfólki á umtalsvert lægri launum og nýjum starfslýsingum sem að mestu leyti gera ekki ráð fyrir fagmenntun,  sparist um það bil 27% umfram þann verulega niðurskurð sem þegar hefur komið til  framkvæmda í málaflokknum. Fúskvæðing geirans gengur með ágætum."

Nei maður á ekki að grínast með svona há alvarlegt mál. Umræður hafa sennilega verið öllu alvarlegri á fundinum  m.a. í ljósi þess að málið er unnið í  verulegu ósætti við allt umhverfið.  Nánast engin (12 af 13) af fyrrverandi yfirmönnum sækja um stöður í "nýrri stjórnsýslu". Það er grafalvarleg staða og hverning ætla menn að mæta því gríðarlega raski þegar að uppsagnarfrestur fjölda reyndra og vel menntaðra lykilstarfsmanna rennur út  á næstu vikum? Af slíku hljóta allir ábyrgir aðilar að hafa verulega áhyggjur. Sjá nánari umfjöllun ( http://addigum.blogspot.com/2011/08/hvar-er-fagmennskan.html )

Hitt er svo verulegt umhugsunarefni til hvers menn eru eiginlega að skrifa fundargerðir ef ekkert kemur fram í þeim sem hönd er á festandi. Ef þetta snýst um launagreiðslur til hinna kjörnu fulltrúa fyrir fundasetur er þá ekki allt eins betra að viðkomandi stimpli sig inn eins og annað launfólk? Veit það ekki en tek undir með ritstjóra Fjarðarpóstsins um að í þessum efum er verulegt rými til framfara - Alvöru fundargerðir eru grundvallaratriði  í opinni og upplýstri stjórnsýslu.

fimmtudagur, 1. september 2011

Sá skrímslið ...greinilega

Veit það sem er að Lagarfljótsormurinn er bara lítill ormur ef litið er til frænda hans, eða réttar sagt frænku hans, Nessie, sem ku búa í hinu djúpa og mikilfenglega vatni Loch Ness í Skotlandi.

Sannreyndi það um daginn eins og meðfylgjandi ljósmynd sýnir greinilega. Ég er sem sagt einn af örfáum sem hef séð og náð skrímslinu á mynd. Fór fyrir nokkru mikin leiðangur  um þessar ægifögru slóðir sem Loch Ness og umhverfi þess er.

Ég geri mér grein fyrir því að ég eins og aðrir ljósmyndarar sem hafa náð myndum af skrímslinu mun sæta gagnrýni og jafnvel ávirðingum um að myndin sé fölsuð. Ég gef ekkert fyrir það, náði mynd af skrímslinu. Hvort það var skrímslið innra með okkur öllum eða hin fræga Nessie læt ég mér í léttu rúmi liggja. Manneskjan mætir sjálfri sér og sínum innsta kjarna andspænis fegurð náttúrunnar hvort sem það er við hið fagra vatn Loch Ness eða á bökkum Lagarfljóts fyrir austan. "Í mér blundar fól" sagði presturinn og útvarpsstjórinn Heimir Steinsson. Púkar, skrímsli og ormar blunda í okkur öllum hvort sem við náum því á "mynd" eða ekki.  Getur verið að svo sé í þessu tilfelli og ef svo er, er þá myndin spegill sálarinnar? Er okkur öllum ekki hollt að taka slíkar myndir af og til?