miðvikudagur, 4. maí 2005

Fáir hveitibrauðsdagar !

Hver segir að lífið eigi að vera eins og dans á rósum? Veit það sem verkalýðsforingi að slíkt er víðs fjarri. Datt þetta í hug í kjölfar þess að nokkrir fyrrverandi félagsmenn STH hafa undanfarið borið sig aumlega við sinn fyrrum foringja.

Lofuð himnasæla sem virtist blasa við á næsta leyti við það eitt að skipta um félag, lætur eftir sér bíða. Sú eina sanna launanefnd sveitarfélaga það eina sem blasir við sem fyrrum og hefur í engum breytt í sínum ranni enda ekki við slíku að búast.

Einn vinur minn taldi sig og “sitt fólk” t.d. vera að fara í sérstakar einkaviðræður við Hafnarfjarðarbæ, viðræður sem aldrei urðu og viðkomandi félagi einfaldlega vísað í röðina hjá launanefnd sveitarfélaga til þess að ræða sín mál á landsvísu.
Annar hafði beinlínis lækkað í launum, þrátt fyrir hækkun grunnkaups, vegna yfirvinnusamninga sem gilda að sjálfsögðu eingöngu varðandi STH félaga.

Einhver veruleg álitamál virðist einnig vera uppi varðandi lífeyrissjóðsaðild enda svo að viðkomandi félag hafa enga aðra lífeyrissamninga en við LSR eða LSS sem hvorugur hefur s.k B deild sem er að öllu leyti verðmætari.?
Orlofsmöguleikar eru afar lélegir og endurmenntunarmál fjarri því að vera viðunandi.

Við sem erum í forsvari félaga og vinnum af ábyrgð getum ekki leyft okkur að búa til eitthvað tilboð eða yfirboð sem síðan reynist innstæðulaust þegar á hólminn er komið. Fyrir okkur , sem með þessu erum gerð að dugleysingjum, gildir bara það eitt að vinna áfram með markvissum hætti og treysta á samstöðu félagsmanna. Annað er skrum og ábyrgðarleysi.

Fyrir okkur eru það ekki nein ný sannindi að kjarabætur koma ekki af sjálfum sér og félagsaðild á ekki að byggjast eingöngu á því hvað “félagið” getur gert fyrir einstaklinga. Virkni félagsmanna og félagsleg samstaða eru þau gildi sem virka – félagið eru bara félagsmennirnir – Það fer engin langt ef viðkomandi nennir ekki að ganga – hvorki í gömlu skónum né öðrum notuðum skóm. Sjálfgangandi skór eru ekki til fremur en “stéttarfélag” sem færir “félagsmönnum” á silfurbakka allt það sem hugurinn girnist.

Verkalýðsbarátta er eins og gangan endalausa, það er ekki fyrir búið að klífa eina hæðina þegar að sú næsta blasir við. Verkefni eru óþrjótandi, það eru mörg ljón í veginum og ekki á vísan að róa hvað framvindu varðar. Á slíkri vegferð þurfa allir að leggjast á eitt og affarasælast að ganga einu liði fremur en mörgum smáum og dreifðum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli